Útflutningur hrossa

71. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 21:51:48 (3394)


[21:51]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Mér heyrðist á báðum hv. þingbræðrum sem töluðu á eftir mér í umræðunni að þeir féllust á það að það mætti finna svona vissa ágalla á frv. og það er í rauninni það sem ég í góðvild af minni hálfu er að benda á. Mér finnst ekki alveg nógu hnitmiðuð framsetning á vissum atriðum og annað álitaefni hvort að eigi að lögbjóða. Ég ætla ekki að fara að stæla við hv. 1. þm. Norðurl. v. í sambandi við þekkingu á hestum eða kunnáttu í þeim efnum. En hitt get ég sagt hv. þm. að ég hef marga dagana og mörg dægrin og árin unnið með hesta í æsku og notað hesta og hestaverkfæri og þekki þá kannski meira þannig en ekki sem þá úrvalsgripi sem þetta frv. fjallar mest um, kynbótahross og annað af þeim toga. Ég hef enga sérþekkingu eða reynslu af meðferð slíkra gripa. Það skal viðurkennt.
    En það eru nokkur atriði einnig í skýringum með frv. sem bæta takmarkað úr. Ég vil bara nefna hér sem dæmi í sambandi við 1. gr. þar sem er verið að fjalla um útflutning. Það fyndist mér eiginlega betur ósagt gagnvart þeim sem eiga að vera væntanlegir kaupendur þessara útfluttu hesta. Þar segir t.d., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Oft má fá gott verð fyrir fullorðin kynbótahross í útflutningi þó verðgildi og kynbótagildi þeirra sé takmarkað hérlendis.``
    Það má vel vera að þeir sem vel til þekkja lesi eitthvað út úr þessu annað en það að það væri hægt að pranga inn á útlendinga gripum sem hefðu næsta lítið gildi hér heima fyrir og lítið gildi í sjálfu sér. Þetta er ekki beinlínis svona skynsamleg markaðsfærsla ef menn eru að hugsa um það.
    Síðan er í skýringum við 2. gr. að finna ábendingar á þessu ferli varðandi útflutning þar sem á að skilgreina útflutningshafnir og setja reglugerðir þar að lútandi. Þessu er skipt í fjögur ferli. Það er skoðun á flutningsfari og aðstöðu fyrir hestinn og útlitsskoðun við flutningsfar og svo segir í þriðja lagi: lítils háttar heilbrigðisskoðun framkvæmd þar sem aðstaða er góð. Alveg sérstaklega tekið fram að það þurfi að vera góð aðstaða fyrir þessa lítils háttar heilbrigðisskoðun. Og fleira svona er þessu marki brennt í framsetningu og rökstuðningi fyrir málinu sem ég á satt að segja dálítið erfitt með að sjá samhengi og skilja samhengi í. En ég vil alls ekki verða til að bregða fæti fyrir þetta gagnmerka mál sem tekið er upp hér á Alþingi milli jóla og nýárs og ekki seinna vænna að fela Búnaðarfélagi Íslands ákveðið hlutverk, samkvæmt 4. gr. frv., að úthluta vottorðum og öðru þess háttar og ekki ætla ég að hafa á móti því að það fáist við það á meðan það er og þeir sem kannski við taka.
    Þessum athugasemdum vildi ég, virðulegi forseti, koma á framfæri, en ég vil ekki leggjast gegn málinu, mun sitja hjá við afgreiðslu þess.