Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 10:43:46 (3399)


[10:43]
     Frsm. minni hluta utanrmn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta utanrmn. sem er að finna á þskj. 525. Svo sem fram hefur komið í ræðu frsm. meiri hluta utanrmn. náðist víðtækt samkomulag milli allra flokka, bæði innan utanrmn. og einnig landbn. varðandi það að þetta mál skyldi ná fram að ganga og komast úr nefndum og í umræðu á Alþingi. Þrátt fyrir að ég standi að minnihlutaáliti tel ég að ég hafi átt þátt í þessu samkomulagi og ber eins og aðrir nefndarmenn fulla ábyrgð á því og mælti með því innan þingflokks míns. Um það er ekki ágreiningur.
    Álit minni hluta utanrmn. er komið til af öðru og það er vegna þess sem fram kom í fyrri umr. um þetta mál að það eru ákveðnar efnislegar athugasemdir við samninginn sem við kvennalistakonur höfum fram að færa en það merkir ekki það að við viljum ekki sjá hann ná hér fram á Alþingi.
    Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar, sem leysir GATT-samninginn af hólmi, er margþættur. Í honum er að finna mörg atriði til hagsbóta fyrir þær þjóðir sem munu eiga aðild að honum, t.d.

ný ákvæði um hugverk, en á hinn bóginn vantar í hann þær áherslur í umhverfismálum sem Kvennalistinn telur nauðsynlegar við gerð svo mikilvægs alþjóðlegs viðskiptasamnings. Stofnanaþáttur samningsins hefur enn fremur vakið spurningar um hvort verið sé að færa yfirþjóðlegri stofnun meira vald en æskilegt er.
    Almennt má segja að viðskiptasjónarmið hafi ráðið mestu fram til þessa um gerð alþjóðasamninga og er það kannski ekki óeðlilegt þar sem hér hefur fyrst og fremst verið um að ræða fríverslunarsamninga annars vegar og svo hins vegar aukna viðskiptasamvinnu, bæði á alþjóðlegum vettvangi og þar hefur GATT auðvitað staðið upp úr og enn fremur innan Evrópu. En því er ekki að neita að sú áhersla hefur farið vaxandi í umræðunni að einnig verði að bera fyrir brjósti umhverfissjónarmið og það má segja að í þessari umræðu sem verið hefur um þann samning sem leysir nú GATT-samninginn af hólmi þá hafi þessar raddir heyrst af vaxandi styrk. En því miður höfum við ekki séð það að þessu sinni að þær hafi getað sett mark sitt á þann samning sem við höfum hér í höndum. Hins vegar vil ég búast við því og gera ráð fyrir því að þessi sjónarmið muni koma fram með vaxandi þunga á næstu árum. Það er vaxandi áhersla á öll þessi mál innan alþjóðlegs samstarfs og ég held að það sé mun heillavænlegra fyrir framtíð allrar samvinnu á jörðinni að þessi sjónarmið verði tekin sérstaklega fyrir og tengd þeim viðskiptasamningum sem við sjáum.
    Varðandi það að færa yfirþjóðlegum stofnunum það vald sem nú er e.t.v. að gerast þá verð ég að viðurkenna að mér þótti ekki mjög gott að heyra yfirlýsingar hæstv. utanrrh. þar sem hann vísar beinlínis til þess að það sé hægt að beita slíku valdi. Ég er hins vegar á því að við höfum með því samkomulagi sem hér hefur náðst séð við slíku og höfum í hendi okkar það að geta beitt gildandi íslenskum lögum. Og ég vil vísa til þess brots úr bréfi frá framkvæmdastjóra GATT, sem birtist í nál. meiri hluta utanrmn., þar sem talað er um að lagasetning sé ekki tæknilega nauðsynleg áður en til fullgildingar kemur og að sjálfsögðu þýðir það að við höfum svigrúm, þó það sé kannski ekki stórt, til þess að ganga frá þessum lögum. En vissulega hefði verið mun æskilegra að þessi texti hefði séð dagsins ljós áður en við gengum frá þessum málum.
    Minni hluti utanrmn. er sammála þeirri niðurstöðu, sem samstarfsnefnd fimm ráðuneyta hefur komist að, að forræði þess hluta samningsins, sem varðar landbúnaðarmál, verði í höndum landbrh.
    Þetta er kannski forsendan fyrir því samkomulagi sem náðist og aðalatriðið sem varðar þær deilur sem hér hafa verið og ég tel að nú sé verið að leiða til lykta með þessari afdráttarlausu yfirlýsingu sem kemur fram í nál. og þeirri brtt. sem fylgir þessari tillögu nú.
    Þrátt fyrir að stuttur tími hafi gefist til umfjöllunar um samninginn á yfirstandandi þingi vill fulltrúi Kvennalistans í utanrmn. greiða fyrir því að samningurinn verði fullgildur fyrir áramót, ekki síst í ljósi þess að um það hefur náðst víðtæk samstaða allra flokka. Kostir og gallar samningsins vega nokkuð jafnt að mati fulltrúa Kvennalistans og mun minni hlutinn því sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Undir þetta ritar sú sem hér stendur, en ég hef einungis því við að bæta á þessu stigi málsins að vissulega hefði ég kosið að við hefðum svigrúm til meiri efnislegrar umræðu um þetta stóra mál vegna þess að hér eru vissulega ýmis atriði sem þarf að gæta að. En eins og þetta samkomulag og sú atburðarás sem varð í gær þá vil ég gera það sem í mínu valdi stendur til að greiða fyrir þessu máli og virða þetta samkomulag og þá samstöðu sem varðar a.m.k. eitt mikilvægt mál, en það eru afdrif íslensks landbúnaðar í þeim breytingum sem óhjákvæmilega hljóta að verða og eru eðlilegar í því viðskiptaumhverfi sem við lifum og hrærumst í. Síðan er það seinni tíma músík að fara ofan í fleiri atriði og þá í samstarfi við alþjóðlega aðila og gæta þess að meira verði hugað að umhverfissjónarmiðum og það er ekki síst mikilvægt varðandi landbúnað og einnig það að þess sé gætt að við förum ekki að færa það vald sem á að vera hjá þjóðríkjum yfir til yfirþjóðlegra stofnana og nota þær sem óeðlilegar svipur gegn því ákvörðunarvaldi sem er innan hvers þjóðríkis fyrir sig.
    Ég trúi því og treysti að við höfum gert það með þessari afgreiðslu málsins og mun því ekki hafa þessi orð fleiri að svo stöddu. En ef umræðan gefur tilefni til þá er ég að sjálfsögðu fús að svara þeim spurningum sem upp kunna að koma.