Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 11:04:25 (3401)


[11:04]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur verið tekist á um tvær meginstefnur í alþjóðlegum viðskiptum. Önnur stefnan hefur falið það í sér að skipta heiminum upp í viðskiptablokkir sem hver um sig reyndi að tryggja sína sérhagsmuni og einangra sig frá hinum hluta heimsins. Hin stefnan hefur boðað að mikilvægt væri að tengja veröldina alla í eitt alþjóðlegt viðskiptakerfi þar sem allar þjóðir heims væru hluti af því kerfi.
    Við fulltrúar Alþb. á Alþingi höfum á undanförnum árum verið talsmenn hinnar síðari stefnu, að mikilvægt sé að Ísland og veröldin öll sé tengd í alþjóðlegt viðskiptakerfi þar sem allar þjóðir heims séu þátttakendur á jafnréttisgrundvelli og skipting veraldarinnar í ríkar þjóðir og fátækar sé ekki lögð til grundvallar og hörð eiginhagsmunahyggja viðskiptabandalaga fái ekki að vera ráðandi afl.
    Það er nokkuð sérkennilegt á þeim mánuðum sem eru í aðdraganda þess að Íslendingar staðfesti GATT-sáttmálann þá hefur hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson gerst talsmaður hinnar fyrri stefnu, að Ísland hverfi frá því að leggja fyrst og fremst áherslu á að vera þátttakandi í víðtæku alþjóðlegu viðskiptakerfi og Ísland skipi sér innan einnar af hinum einangrunarsinnuðu viðskiptablokkum, Evrópusambandinu. Þeir sem þekkja vel aðdragandann að nótum GATT-samkomulagsins fylgdust auðvitað mjög vel með því hvernig Evrópusambandið hélt viðræðunum um GATT í gíslingu. Sérhagsmunahyggja Evrópusambandsins kom lengst af í veg fyrir það að samkomulag gæti náðst í GATT-málunum. Það var í raun og veru aðeins á elleftu stundu sem það tókst með samstilltu átaki fjölmargra þjóða í veröldinni að brjóta á bak aftur sérhagsmunahyggju Evrópusambandsins innan GATT-viðræðnanna. Það samkomulag sem við erum að staðfesta er fyrst og fremst ánægjulegur vitnisburður um það hvernig þjóðum heims frá Asíu, Suður-Ameríku, Afríku og skynsamari þjóðum í Evrópu og í álfu Ameríkulanda tókst að ýta einangrunar- og sérhagsmunahyggju Evrópusambandsins svo mjög til hliðar að samkomulag náðist.
    Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að Ísland gerist stofnaðili að GATT, ekki aðeins vegna efnis málsins sjálfs heldur líka vegna þess að sú aðild gerir að engu þá kenningu sem hæstv. utanrrh. hefur flutt hvað eftir annað, bæði á þingi og utan þings á undanförnum mánuðum, að Ísland sé að einangrast í alþjóðlegu og efnahagslegu tilliti. Hæstv. utanrrh. hefur flutt þann boðskap að ef Ísland gerist ekki aðili að Evrópusambandinu þá muni það einangrast efnahagslega. Staðfesting GATT-samkomulagsins er skýrasta afsönnun þessarar kenningar hæstv. utanrrh.
    Auðvitað er það þannig með víðtæka, alþjóðlega samninga eins og GATT-samninginn að margt orkar tvímælis sem í honum er. Það hlýtur að vera eðli máls samkvæmt þegar þjóðir heims ná fjölþættu samkomulagi um margvísleg mál að bæði einstaklingar, samtök og þjóðir geta litið ýmislegt í þeim texta mismunandi augum. Ég er sammála því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson að það hefði verið æskilegt að í GATT-samningnum væri ríkari áhersla á umhverfismál og verndun lífríkis jarðarinnar. Ég er hins vegar sannfærður um það að straumur tímans og aukinn styrkur þeirra sjónarmiða á alþjóðlegum vettvangi muni á næstu árum jafnt og þétt styrkja þá hagsmunagæslu sem felst í nauðsynlegri verndun umhverfisins. Ég tel að alþjóðlegir samningar um þau efni sem tekist hafa á undanförnum árum og síðan síaukin viðleitni, bæði almannasamtaka og þjóða, að tryggja þau mál muni gera það að verkum að þótt ýmislegt skorti í texta GATT-samkomulagsins um þau mál þá muni innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og í þeim viðræðum sem munu fara fram á vettvangi hennar þau sjónarmið sífellt vega þyngra.
    Vandi okkar Vesturlandabúa hins vegar þegar við höldum því fram að umhverfissjónarmiðanna sé ekki nægilega gætt innan samninga af því tagi sem við erum að fjalla um þá stöndum við í þeim sporum að ef hinar fjölmennu þjóðir Asíulanda, Afríkulanda og Suður-Ameríkulanda, sem er yfirgnæfandi meiri hluti mannkyns, temja sér svipaða lifnaðarhætti og ná svipuðu lífskjarastigi og felst í daglegu lífi okkar Vesturlandabúa þá væri það einhver mesta ógnunin við lífríki jarðarinnar og gæslu þeirra hagsmuna í framtíðinni. Það er þversögn sem við Vesturlandabúar ræðum því miður ógjarnan þegar við erum að setja fram á alþjóðlegum vettvangi kröfur um aukna umhverfisvernd. Kannski er það brýnasta verkefnið í alþjóðlegri umræðu á næstu missirum að takast á við þennan vanda. Annars vegar sanngjarna, nauðsynlega og mikilvæga kröfu mikils meiri hluta heims um bætt lífskjör í daglegu lífi þjóða og einstaklinga og hins vegar nauðsyn þess að mannkynið allt taki höndum saman um að vernda það lífríki sem okkur hefur verið fært.
    Hér er ekki tími til þess að ræða það mál nánar en það er hins vegar mikilvægt að á Alþingi Íslendinga geri menn sér grein fyrir því að eigi að tryggja verndun lífríkis jarðarinnar á næstu áratugum þá er ég sannfærður um það að tvennt er nauðsynlegt. Annars vegar veruleg skerðing á sjálfsforræði þjóðanna í alþjóðlegu samstarfi. Viss skerðing á sjálfsákvörðunarrétti þjóða sem hingað til hefur verið talinn óhjákvæmilegur og mikilvægur til þess að alþjóðleg samtök geti sett þeim þjóðum sem eru að eyða lífríkinu þannig stólinn fyrir dyrnar að þær geti ekki haldið áfram sinni viðleitni. Skýrasta dæmið til að útskýra þetta í hnotskurn er spurningin um regnskógana í Brasilíu. Á að viðurkenna rétt Brasilíu til þess að fara með þau mál samkvæmt eigin sjálfsákvörðunarrétti eða á mannkynið allt að krefjast íhlutunar um þá meðferð á grundvelli þess sem stundum hefur verið sagt að regnskógarnir séu stór hluti af lungum jarðarinnar og án þeirra væri lítil von til þess að jafnvel við hér á Íslandi og börn okkar gætum lifað góðu lífi?
    Hitt atriðið felst síðan í ákveðinni sjálfsafneitun þess hluta mannkyns sem nú býr við best lífskjör varðandi þróun þeirra á komandi tíð.
    Það er ekki tími til þess hér milli jóla og nýárs að fara ítarlegri orðum um þessa þætti en ég vildi þó minnast á þá vegna þess að þeir eru mikilvægur hluti af þeirri alþjóðlegu umræðu sem hlýtur að fara fram og fer nú þegar fram á þessu sviði og GATT-samkomulagið er hluti af þeirri umræðu og mikilvægur vettvangur á næstu árum fyrir þróun hennar. Þótt hér á landi hafi athyglinni einkum verið beint að þeim þáttum GATT-samkomulagsins sem snertir landbúnað þá er það auðvitað þannig að í þessu samkomulagi er að finna mjög veigamikla þætti á öðrum sviðum. Ég tel það mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að geta gerst þátttakendur og eiga þann þátttökurétt sem í samkomulaginu felst varðandi þessa málaflokka.
    Virðulegi forseti. Í sjálfu sér væri hægt að nema hér staðar í minni ræðu og láta það duga að lýsa þessum almennu sjónarmiðum sem ég hef gert ef ekki væri fyrir þá staðreynd að embætti utanrrh. gegnir hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson. Ég hafði ekki ætlað mér það, hæstv. ráðherra, að fara í þá umræðu að greina frá því í þingsalnum hvernig hæstv. ráðherra var settur algjörlega til hliðar og hvernig það ráðuneyti sem hann stýrir var vegna afstöðu hans og þeirrar stefnu og vinnubragða sem hann hefur fylgt sett til hliðar í afgreiðslu málsins. En það er hins vegar óhjákvæmilegt vegna ummæla hæstv. utanrrh. í gær og vegna viðtals hans við Morgunblaðið í dag að láta staðreyndir þess máls koma fram í þingsalnum.
    Það er nefnilega þannig, hæstv. utanrrh., menn geta sagt af sér með ýmsum hætti. Menn geta sagt af sér með því að formlega biðjast lausnar og gefa út um það opinbera tilkynningu. Menn geta sagt af sér með þeim hætti að aðrir biðjist lausnar fyrir þá og það getur gerst bæði de jure og de facto. Það sem gerðist í meðferð GATT-málsins á Alþingi var að de facto var beðist lausnar fyrir hæstv. utanrrh. Það er ástæðan fyrir því óheflaða orðbragði og þeim skætingi sem hæstv. utanrrh. lét frá sér fara um verk utanrmn. í Ríkisútvarpinu í gær. Þau ummæli hæstv. utanrrh. um verk utanrmn. og þá tillögu sem meiri hluti nefndarinnar leggur hér fram voru auðvitað svo gjörsamlega úr takt við það sem er við hæfi af hálfu virðulegs ráðherra að þeir sem að málinu koma hljóta að leita skýringa og spyrja hvers vegna.
    Í um það bil hálft ár var starfandi á vegum stjórnarflokkanna embættismannanefnd fimm ráðuneyta sem hafði það verkefni að ganga frá lagaundirbúningi og efnisþáttum þess sem nauðsynlegt væri að hrinda í framkvæmd á Íslandi í formi lagabreytinga og stjórnvaldsákvarðana til þess að tryggja framkvæmd GATT-samningsins annars vegar á þann veg að samningurinn væri virtur og hins vegar að gætt væri þeirra hagsmuna íslensks atvinnulífs sem við viljum gæta. Flokkur hæstv. utanrrh. átti tvo fulltrúa í þessari embættismannanefnd, fulltrúa viðskrn. og fulltrúa utanrrn. Því var lýst yfir af hálfu utanrmn. þegar þetta mál kom til meðferðar að nefndin mundi bíða eftir þeirri niðurstöðu sem fengist úr þessari nefnd áður en GATT-samningurinn yrði tekinn til afgreiðslu. Það var þess vegna alveg ljóst að sá ráðherra sem bar ábyrgð á samningnum á þingi og lagði hann fram, hæstv. utanrrh., hann hafði þá frumskyldu --- ég endurtek það --- að tryggja að embættismannanefndin lyki verki sínu í tæka tíð og með þeim hætti að það dygði til þess að tryggja framgöngu málsins á Alþingi.
    Ég ætla hér að taka þá líkingu máli mínu til skýringar að það er almennt viðurkennt á Alþingi að ætli fjmrh. sér að tryggja framgang fjárlaga og lánsfjárlaga verður hann að sjá til þess að niðurstaða fáist í ákveðnum málum og beina embættismönnum sínum til verka á þann veg að sú niðurstaða sé þinginu ljós. Þess vegna afgreiðir þingið fjárlög og lánsfjárlög vegna þess að þó kannski sé deilt um einstök stefnumál hjá hæstv. fjmrh. þá viðurkennir þó þingið það að hann hafi skilað þannig embættislega verki sínu að hægt sé að afgreiða fjárlögin og lánsfjárlögin. Það hefur núv. fjmrh. gert þó við deilum um margt í verkum hans. Þess vegna hefur þingið nú þegar samþykkt fjárlög og lánsfjárlög og embættismenn ráðuneytisins tekið virkan þátt í þeim störfum.
    Það kom hins vegar ljós þegar utanrmn. á fyrsta degi þings eftir jólahald fékk að líta þann texta sem embættismannanefndin hafði skilað af sér að sá texti var ekki nothæfur, hann dugði ekki sem grundvöllur afgreiðslu GATT-samkomulagsins á Alþingi. Ekki vegna þess að formaður nefndarinnar, ráðuneytisstjórinn í forsrn., hefði ekki sinnt störfum sínum vel heldur einfaldlega vegna þess að fulltrúar Alþfl. og sérstaklega utanrrh. í nefndinni höfðu haft þannig afstöðu í starfi nefndarinnar að hæstv. utanrrh. hafði brugðist þeirri embættisskyldu sinni að tryggja það að efnislegur frágangur þessara mála væri á þann veg að þingið gæti afgreitt málið. Það var nokkuð ljóst á fyrsta hálftímanum í utanrmn. að málin voru komin í óefni. Ekki vegna afstöðu þingsins, hæstv. utanrrh., ekki vegna þess sem hæstv. utanrrh. segir í viðtali við Morgunblaðið í dag, svo ég vitni orðrétt: ,, . . .   að öfgakenndustu fulltrúar eiginhagsmuna og verndarstefnu í landbúnaði hótuðu því að taka þetta mál í gíslingu bæði innan raða samstarfsflokksins og stjórnarandstöðunnar.``
    Hæstv. utanrrh. Þetta er fullkomið rugl. Þetta er vísvitandi tilraun til að blekkja þjóðina eða þá svo óheyrileg sjálfsblekking að hæstv. utanrrh. lifir í einhverri sérkennilegri veröld og er auðvitað merkilegt að samstarfsflokkurinn skuli fá þessa kveðju frá hæstv. utanrrh. á afgreiðsludegi GATT og væri fróðlegt að

spyrja: Hverjir eru ,,öfgakenndustu fulltrúar eiginhagsmuna og verndarstefnu í landbúnaði innan raða samstarfsflokksins``?
    Nei, hæstv. utanrrh. Málið er ekki svona vaxið. Málið stóð einfaldlega þannig í gærmorgun að það embættislega verk sem hæstv. utanrrh. er búinn að bera ábyrgð á mánuðum saman hafði ekki verið unnið vegna þess að hæstv. utanrrh. hafði látið fulltrúa sína starfa þannig að því verki að þegar kom að afgreiðslu málsins var ekkert í hendi sem dugði þinginu til að byggja afgreiðsluna á. Það var þá sem nefndarmenn í utanrmn. undir forustu formanns utanrmn. sem tilheyrir samstarfsflokknum, hæstv. utanrrh., hófu umræður um það að smíða í utanrmn. efnislegan texta sem dygði til þess að þingið gæti afgreitt málið fyrir áramót.
    Og vegna þess að einn af hirðmönnum utanrrh. er sá eini sem hlær í salnum, hvort sem hann er að gera það til þess að halda einhverju áliti hjá formanni Alþfl. eða af eigin hvötum, ég ætla að láta það liggja á milli hluta, þá er rétt að upplýsa það einnig að í þeirri vinnu var enginn af embættislegum fulltrúum hæstv. utanrrh. Þvert á móti komu aðstoðarmaður utanrrh., og er óhjákvæmilegt að segja þá sögu alveg eins og hún var, Þröstur Ólafsson, og fulltrúi utanrrh. í embættismannanefndinni hlaupandi með írafári ofan úr utanrrn. og voru að þvælast um gangana í Þórshamri til þess að reyna að kynna sér hvað var að gerast og reyna að grípa þar inn í en var aldrei hleypt inn á fundinn. Málið var afgreitt í utanrmn. án þess að embættislegur fulltrúi utanrrn. í nefndinni né heldur aðstoðarmaður utanrrh. kæmu nokkuð að því verki. En aftur á móti voru ráðuneytisstjórinn í forsrn. og aðstoðarmaður landbrh. virkir embættislegir samverkamenn utanrmn. í vinnunni. Það var þannig, hæstv. utanrrh., að til þess að geta afgreitt þetta mál varð ekki aðeins að taka það úr pólitískum höndum hæstv. utanrrh. heldur varð líka að taka það úr embættislegum höndum utanrrn. Og það var sá hópur þingmanna undir forustu formanns utanrmn. og þeir embættismenn sem ráðuneytisstjórinn í forsrn. fór fyrir sem gerðu það kleift að Íslendingar yrðu stofnaðilar að GATT-samkomulaginu.
    Þetta heitir, hæstv. utanrrh., að biðjast de facto lausnar fyrir hæstv. utanrrh. Auðvitað hefðum við í utanrmn. ekki verið að rekja þetta í þingsölum og sýnt hæstv. utanrrh. þá tillitssemi að geyma þetta hjá okkur sjálfum en hrokafull og lítilsvirðandi ummæli hæstv. utanrrh. í Ríkisútvarpinu í gær í garð utanrmn. og þeirrar vinnu sem þar var unnin gera það óhjákvæmilegt að sýna fram á og segja frá í reynd hvernig þessir hlutir gerðust. Að pólitískur aðstoðarmaður utanrrh. og embættislegur fulltrúi utanrrh. í nefndinni höfðu þann sess í þessari vinnu að þvælast bara frammi á gangi. Og hæstv. utanrrh. sem þó á seturétt á fundum utanrmn. og er rétt að rifja það upp að hæstv. utanrrh. sem er eini ráðherrann sem á reglubundinn seturétt á fundi þingnefndar var hvergi nærri. Enginn af þeim mönnum sem þennan texta smíðuðu nema kannski þingmaður Alþfl., ég skal ekkert um það segja, hirti einu sinni um það að hafa samband við hæstv. utanrrh. um þann texta vegna þess að öllum var ljóst hvernig málið stóð.
    Það er mjög merkileg staðreynd um stöðu hæstv. utanrrh. að þessi mikilvægi samningur sé afgreiddur á Alþingi og af utanrmn. með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Þess vegna er það auðvitað ótrúlegt að hæstv. utanrrh. skuli yfir höfuð leyfa sér að lýsa því yfir sem hann gerði í Ríkisútvarpinu í gær og bæta svo við í Morgunblaðinu sem birt er í dag.
    GATT-samkomulagið er þess vegna afgreitt hér á Alþingi, hæstv. utanrrh., þrátt fyrir hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, og vegna þess að yfirgnæfandi meiri hluti þingsins tók málið í sínar eigin hendur. Það sýnir best úr hvílíkum takti hæstv. utanrrh. er við meiri hluta þingsins að það tók þann þingmannahóp sem að þessu verki vann aðeins eina og hálfa klukkustund að ganga frá því, smíða textann og ganga frá því. Og þó að Kvennalistinn hafi ákveðið að skila séráliti þá ber að þakka þátttöku fulltrúa Kvennalistans í þeirri vinnu því fulltrúi Kvennalistans, hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson, var fullur þátttakandi í þeirri vinnu með okkur hinum. En þeir sem ekki voru þátttakendur voru embættislegir fulltrúar utanrrh. og utanrrh. sjálfur sem þó á seturétt á fundum nefndarinnar.
    Þess vegna er óhjákvæmilegt, hæstv. utanrrh., að segja frá því í þingsalnum að allt þetta stærilæti í yfirlýsingum við Ríkisútvarpið og allt þetta stærilæti í yfirlýsingum við Morgunblaðið er bara vitnisburður um stöðu manns sem hefur tapað, hefur ekki bara tapað efnislega heldur hefur tapað svo stöðu sinni sem utanrrh. að þingið getur ekki afgreitt mikilvægustu alþjóðasamninga sem eru til afgreiðslu á þessu þingi nema ýta hæstv. utanrrh. algerlega til hliðar og biðjast de facto lausnar fyrir hann í verki. Þess vegna er það ekki þannig, hæstv. utanrrh., að brtt. utanrmn. sé eitthvað sem párað er á blað, eða hvaða háðsyrði það voru sem hæstv. utanrrh. notaði um texta utanrmn. og formlega brtt. Sá texti mun lifa sem vitnisburður um það hvernig hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, var orðinn fullkomlega marklaus, áhrifalaus, valdalaus og merkingarlaus á síðustu mánuðum á valdaferli sínum.
    Ég sagði það áðan að það væri embættisskylda sérhvers ráðherra að vinna þannig með þinginu í þeim málum sem hann leggur fram að þinginu takist að afgreiða þau. Ég tók dæmi af því áðan hvernig hæstv. fjmrh. hefur þá skyldu með embættismönnum fjmrn. að vinna þannig að ákvörðunum í tengslum við fjárlög og lánsfjárlög að hægt sé að afgreiða þau. Hvað mundu menn segja um stöðu þess fjmrh. ef hann væri kominn þannig að þingið hefði orðið að ýta til hliðar öllum embættismönnum fjmrn. sem kæmu að lánsfjárlögum og fjárlögum til að geta afgreitt þau tvö mikilvægustu frv. og fjmrh. hefði hvergi fengið að koma nærri jafnvel sem samráðsaðili þingnefndarinnar varðandi afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga? Auðvitað hefði allt þingið og þjóðin áttað sig á því fjmrh. sem væri þannig kominn væri búinn að glata öllu

því sem er pólitísk forsenda þess að ráðherra geti gegnt embætti sínu, þ.e. því trausti og þeim trúnaði sem er hluti af daglegri vinnu ráðherra í þinginu.
    Því að ráðherraembætti er ekki bara tign, hæstv. ráðherra, eða ferðalög eða sæti á fínum fundum. Ráðherraembætti er dagleg vinna, m.a. með samstarfsmönnum í ríkisstjórn og hins vegar með þinginu. Það er alveg ljóst að í þeirri daglegri vinnu undanfarið hálft ár sem utanrrh. átti aðild að varðandi embættisnefndina sem átti að undirbúa þetta mál skilaði hann engu verki. Og það var líka ljóst að í þeirri daglegu vinnu sem var forsenda þess að þingið gæti afgreitt GATT-sáttmálann var utanrrh. ekki aðeins enginn þátttakandi heldur beinlínis þannig staddur að það var ekki fyrr en honum og hans fulltrúum var ýtt til hliðar að hægt var að afgreiða málið.
    Það var nokkuð um það rætt í nefndinni að yfirlýsingar aðstoðarmanns utanrrh. 23. des. sl. við Stöð 2 um það hvernig ætti að tengja staðfestingu GATT-samkomulagsins kjarasamningum sem þarf að gera á næstu vikum fælu í sér svo óraunhæfar og satt að segja botnlausar yfirlýsingar út frá efni máls að ef þær yrðu marktækar pólitískt þá væru þær í reynd yfirlýsingar sem gætu komið í veg fyrir að samningurinn væri staðfestur á þann hátt sem eðlilegt væri, bæði samkvæmt hans inntaki, aðdraganda og upphafi. Sumir í nefndinni töldu, og það var nú til þess að þessar yfirlýsingar fengu kannski frekar léttvægan sess, að hér væri á ferðinni hefðbundin framkoma aðstoðarmanns utanrrh. sem ekki væri endilega pólitísk stefna ráðuneytisins.
    En hvað gerist í morgun? Í morgun birtir Morgunblaðið nákvæmlega hliðstæða yfirlýsingu hæstv. utanrrh. sjálfs þar sem hann er að lýsa því yfir: ,,Hann benti á að kjarasamningar væru lausir og menn stæðu frammi fyrir því hvort fara ætti kauphækkunarleið upp á 10--15% eða hvort það væri skynsamlegra að varðveita stöðugleikann og tryggja kjarabætur með því að stuðla að lækkuðu verði á lífsnauðsynjum.
    ,,Verkalýðshreyfingin hefur væntanlega eitthvað að segja um það þegar hún sest nú að samningaborði hvernig þessi tollvernd verður stillt í upphafi því ef hún vill að umbjóðendur sínir fái að njóta kaupmáttaraukningar í formi lækkaðs verðs þá er lykilákvörðunin sú sem fram undan er hversu hátt tollverndin verður stillt. Það er ekkert launungarmál að öfgakenndustu talsmenn sérhagsmunanna vilja fara með allt upp í topp þannig að njótendur njóti einskis í upphafi af GATT-samningunum.````
    Það eru væntanlega þessir sömu öfgakenndustu talsmenn sérhagsmuna í samstarfsflokknum sem hæstv. ráðherra var að vitna til fyrr í þessu Morgunblaðsviðtali.
    Tæki þingið mark á orðum hæstv. utanrrh. þá er það þannig að þetta viðtal við hann í Morgunblaðinu í dag er auðvitað vísasti vegurinn til að spilla fyrir því að þingið afgreiði þennan samning fyrir áramót. Hæstv. utanrrh. er þess vegna enn að brjótast um og reyna að spilla fyrir að þingið afgreiði þennan sáttmála. Þegar utanrmn. er búin að taka málið í sínar hendur og bjarga því sem bjargað verður undir forustu formanns utanrmn. þá heldur utanrrh. áfram að reyna að koma í veg fyrir það að GATT-samningurinn verði afgreiddur með því að tengja við hann mál sem ekki er hægt að tengja við hann efnislega vegna þess að það vita allir að tímasetningin er með þeim hætti, aðdragandi samningsins er með þeim hætti, fyrsta ár gildistökunnar með þeim hætti að það er efnislega útilokað, hvað sem menn vilja, að tengja 10--15% lækkun matvælaverðs í landinu á upphafsmánuðum nýs kjarasamnings við gildistöku GATT-samkomulagsins. Efnislega er þessi yfirlýsing bara rugl, svo notað sé rétt orð um það, og er annaðhvort sett fram á þeim grundvelli eða hæstv. utanrrh. veit bara ekki hvað hann er að tala um og hefur ekki einu sinni gripsvit á því hvers eðlis GATT-samkomulagið er og hvernig aðdragandi og upphafstími þess verður í reynd. Eða þá að hæstv. utanrrh. notar embætti sitt til þess að blekkja vísvitandi fólkið í landinu og gera því vísvitandi erfiðara fyrir að ná kjarasamningum í upphafi ársins með því að búa til einhverjar væntingar um að hægt sé að lækka matvælaverð um 10--15% á fyrstu mánuðum næsta árs bara með því að menn stilli einhverjar skrúfur í GATT-samkomulaginu.
    Það er auðvitað, hæstv. forseti, mjög leitt að þurfa að vera að nota tímann milli jóla og nýárs þegar þingið á að vera að afgreiða önnur mál til þess að fara ofan í saumana á þessum yfirlýsingum hæstv. utanrrh. og rekja annars vegar það sem rétt er og satt hvað snertir atburðarásina á Alþingi og hins vegar raunverulegt inntak samningsins í ljósi yfirlýsingar fyrsta aðstoðarmanns ráðherra og nú ráðherrans sjálfs um samstillingu kjarasamninga og gildistöku GATT-samkomulagsins. Það er eins og hæstv. utanrrh. vilji beinlínis vera spellvirki gagnvart næstu kjarasamningum því ef það er eitthvað sem mundi setja næstu kjarasamninga gersamlega í óleysanlega stöðu væri það að verkalýðshreyfingin tæki upp þessa kröfu hæstv. utanrrh. og heimtaði það að á grundvelli GATT-samkomulagsins yrði í janúar og febrúar verðlag á lífsnauðsynjum í landinu lækkað um 10--15%.
    Virðulegi forseti. Ég hef talið það alveg óhjákvæmilegt, því miður, að verja nokkrum tíma til þess að rekja staðreyndirnar í meðferð þingsins á þessu máli og fjalla nokkuð um hlut hæstv. utanrrh. og hans embættislegu fulltrúa í málinu. Þótt ég beri fulla virðingu fyrir þeim einstaklingum sem embættismönnum þá hafa það einfaldlega orðið þeirra illu örlög að þurfa að vera fulltrúar hæstv. utanrrh. í þessari atburðarás.
    Að lokum vil ég svo geta þess að fyrir um það bil tveimur mánuðum var sagt frá því í utanrmn. af ráðuneytisstjóra utanrrn. að tekin hefði verið ákvörðun um það af Íslands hálfu að styðja framboð Salinas, fyrrv. forseta Mexíkó, í framkvæmdastjórastöðu hinnar alþjóðlegu stofnunar sem setja á upp á grundvelli GATT. Þessi yfirlýsing var sett fram í utanrmn. og kom þar í formi tilkynningar og ég veit það að

formaður utanrmn. er reiðubúinn að staðfesta það hér. Mér þætti fróðlegt að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann getur ekki einnig staðfest það að sú afstaða hafi verið kunngerð, annaðhvort í samtölum hans og hæstv. utanrrh. eða þá á vettvangi ríkisstjórnar, svo að það liggi ljóst fyrir að bæði gagnvart utanrmn. og ríkisstjórn hafi það verið tilkynnt sem ákvörðun Íslands að styðja framboð Salinas. Ég nefni þetta hér vegna þess að mér er kunnugt um það að á alþjóðalegum vettvangi hefur þessi ákvörðun ekki verið birt þeim aðilum sem þar eiga hlut að máli og vegna þess að ráðuneytisstjórinn í utanrrn. lýsti fyrir skömmu síðan þeirri persónulegu skoðun sinni að það ætti að styðja einhvern annan frambjóðanda.
    Það væri til að kóróna hringlandahátt og vitleysu hæstv. utanrrh. í þessu máli ef það ætti líka að fara að hringla með þetta þrátt fyrir það að formlega hafi verið tilkynnt hvern íslenska ríkið mundi styðja. Halda menn að val á mönnum í stjórnendastöður þessarar nýju alþjóðlegu stofnunar sé bara eins og prófkjörin í Alþfl., að það sé hægt að breyta um afstöðu hvern menn vilja styðja eftir því hvernig kaupin gerast á prófkjaraeyrinni? Auðvitað ekki. Það væri auðvitað til þess að gera að engu sjálfsvirðingu Íslands við gildistöku þessa samnings ef allt í einu ætti að gera marklausar þær yfirlýsingar sem hér hafa verið birtar bæði í utanrmn. og væntanlega einnig gagnvart hæstv. forsrh. eða ríkisstjórn varðandi þann frambjóðanda sem Íslandi ber að styðja. Ég tel reyndar að sú ákvörðun sem okkur var tilkynnt, að styðja fyrrv. forseta Mexíkó til þessa embættis, mundi þjóna mjög vel hagsmunum Íslands á hinu nýja og öfluga markaðssvæði sem kennt er við NAFTA og nær nú kannski til fleiri ríkja Suður-Ameríku með væntanlegri þátttöku Chile í því samkomulagi. Markaðurinn í Bandaríkjum Norður-Ameríku og væntanlega einnig í þeim ríkjum sem tengjast þeim markaði hefur sl. 50 ár verið grundvallarmarkaður fyrir okkur Íslendinga. Það er skynsamlegra fyrir okkur að eignast þá stóru plúsa, og ég veit að þeir eru mjög stórir, sem Ísland mundi hljóta við það að verða meðal þeirra Evrópuríkja sem styddu framboð forseta Mexíkó í stað þess að styðja þann Ítala sem boðinn er fram á móti honum. Ég held að hagsmunir okkar innan Evrópu séu nægilega tryggðir með samskiptum okkar við önnur Evrópuríki og þeir hvíli í sjálfu sér ekkert á því hvort Ísland greiði atkvæði með þessum Ítala eða ekki heldur þjóni það beinlínis efnahagslegum hagsmunum Íslendinga að standa við þá ákvörðun sem tilkynnt var í utanrmn. fyrir tveimur mánuðum síðan.
    Virðulegi forseti. Ég vonast til að okkur takist að afgreiða þetta mál fyrir áramót. Við höfum mörg á Alþingi gert okkar sem hægt er til þess að það geti orðið kleift, en það er aðeins maður sem gæti komið í veg fyrir það. Og það er hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson.