Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 12:53:06 (3409)


[12:53]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt í framhaldinu að spyrja hv. þm. að því hvort það sé hans skoðun, og af því að ég veit að hann hefur kynnt sér þessi mál til hlítar, að við getum haldið því sem við höfum í dag innan GATT en hafnað þátttöku í Úrúgvæ-lotunni og því sem henni fylgir. Þetta finnst mér vera grundvallaratriði og verður að koma fram því að eins og ég horfi framan í málið, þá sé ég ekki að við höfum þennan kost. Við höfum ekki annan kost ef við ætlum að taka þátt í samstarfinu innan GATT eins og ég sé málið. (Gripið fram í.) En við getum látið rödd okkar heyrast og við getum beitt okkar afli til þess að móta þessa þróun í framtíðinni.
    Virðulegi forseti. Ég hlýt einnig að vekja athygli á því að hv. þm. svaraði ekki fyrri spurningunni sem ég bar fram varðandi umhverfismálin, hvernig hv. þm. sæi að við gætum leitað lausnar þeirra mála á heimilinu jörð án þess að allir heimilismenn bindist samtökum og þar af leiðandi verði að setja yfirþjóðlegar reglur sem menn verði þá að hlýða. Því að mér fannst þungamiðja í ágætri ræðu þingmannsins sú að það sem væri hvað verst í þessu væri þetta yfirþjóðlega vald í viðskiptamálum. (Gripið fram í.)
    Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég vil eiginlega benda á það að ég er að veita andsvar við ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar en ekki hv. þm. Kristínar Einarsdóttur sem grípur stöðugt fram í. (Gripið fram í.) Ég verð eiginlega að fá svar við þessu. Getum við náð lausnum í umhverfismálunum án alþjóðlegra samninga sem þá hlýtur að fylgja yfirþjóðlegt vald til þess að fylgja þeim eftir?