Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 12:55:27 (3410)


[12:55]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa svarað þessu atriði sem hér er gengið eftir. Ér er ekki andstæðingur þess að ganga til skuldbindandi samkomulags á alþjóðavísu sem horfir augljóslega til heilla og forðar mönnum frá þeim árekstri sem fram undan er að óbreyttri stefnu í sambandi við þennan grundvallarþátt, umhverfismálin. Slíku munu auðvitað fylgja takmarkanir á svigrúmi einstakra þjóða til athafna og umsvifa en það er langt á milli þess að keyra þetta spor án minnsta tillits til umhverfisins og þess að bindast samningum þar sem tekið er tillit til slíkra grundvallarhagsmuna.
    Varðandi spurninguna um að geta haldið einhverju af þeim ávinningum sem fyrir liggja til þessa þá hef ég skilið málið þannig eins og það liggur fyrir að hagsbætur sem ekki er sagt upp, þ.e. úr gamla samkomulaginu, geti haldist gagnvart þeim ríkjum sem viðurkenna það en gagnvart þeim sem segja því upp falli það úr gildi. Það er því á óvissan að róa í þeim efnum og veit enginn hvað upp kemur í sambandi við það. En ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að ég hef ekki sagt hvernig ég ræð atkvæði mínu í þessu efni og það geri ég þegar til atkvæðagreiðslu kemur.