Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:02:59 (3416)


[14:02]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu mikilvægt mál, þ.e. till. til þál. um fullgildingu á samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar. Það eru ýmsar hliðar á þessu máli. Ég ætla í máli mínu að minnast einkum og sér í lagi á mikilvægi samningsins fyrir Ísland öðrum þræði en einnig á þau tök sem tekin hafa verið á landbúnaðarþætti GATT-samkomulagsins frá Úrúgvæ af hv. utanrmn. Alþingis og landbn. þingsins.
    Mikilvægi þessa samnings fyrir Ísland er í raun og veru mjög augljóst. Allir áfangar í GATT-samstarfinu hafa verið Íslandi mikilvægir, þessi ekki síst. Tryggingarnar sem felast í þessum samningi og reglurnar um viðskipti sem boða í raun og veru vaxandi frelsi í alþjóðaviðskiptum eru þjóð sem lifir í bókstaflegri merkingu þess orðs á alþjóðlegum viðskiptum afar brýnar.
    GATT-samkomulagið eða þau þrep sem menn hafa náð í samningum innan GATT hafa sífellt tryggt betur og betur stöðu smáríkja í alþjóðaviðskiptum með þeim hætti sem þessi smáríki hefðu ekki getað tryggt sér öðruvísi. Samningar af þessu tagi eru því sérlega mikilvægir fyrir smáríki og samstarf á sviði

alþjóðaviðskipta er ekki síst þeim í hag.
    Að því er varðar þá nýjung í þessu þrepi samninganna að þeir ná nú til landbúnaðarvara þá mun sú ákvörðun til lengri tíma litið verða til þess að draga úr styrkjakerfi í landbúnaði og verndarstefnu en slík stefna hefur um langt skeið dregið verulega úr því að markaðskerfi skapaðist í alþjóðlegum viðskiptum með landbúnaðarvörur. Þetta mun hafa víðtæk áhrif en að sama skapi mun það leiða til þess að um alllangt aðlögunartímabil verður að ræða þar sem þjóðir heimsins munu leitast við að tryggja hagsmuni síns landbúnaðar á meðan þessi umskipti í anda GATT-samkomulagsins verða.
    Ef svo fer sem horfir, þá mun þetta leiða til þess að almennt verður viðurkennt að landbúnaðarafurðir ganga þjóða í millum í viðskiptum á undirverði. Það hefur skapast það viðhorf, einkum og sér í lagi í hinum iðnvæddu ríkjum, vestrænum ríkjum, sem hafa haft efni á því að greiða niður landbúnaðarvörur, að neytendum hefur í raun og veru verið komið upp á það að líta þannig á landbúnaðarvörur að þær eigi að vera ódýrar, mun ódýrari en sem nemur framleiðslukostnaði. Ef GATT-samkomulagið að því er varðar landbúnaðarafurðirnar og viðskiptin með landbúnaðarvörur nær tilgangi sínum, þá mun það leiða til þess að landbúnaðarafurðirnar, matvælin, munu fá nýjan sess í neyslumunstrinu, munu fá viðurkenningu í neyslumunstrinu sem framleiðsluvara sem kostar meira í framleiðslu en menn hafa almennt verið fúsir til þess að viðurkenna hingað til.
    Með þessari breytingu, ef hún næst fram með eðlilegum hætti, mun þetta breyta verulega stöðu þeirra ríkja sem eru þannig sett að landbúnaðarframleiðsla skiptir miklu fyrir hagkerfi þeirra. Þar á meðal eru t.d. allmörg ríki þriðja heimsins sem hafa liðið stórkostlega fyrir millifærslu og styrkjakerfi í landbúnaði, fyrir lágt verð í landbúnaði sem hefur verið haldið uppi með styrkjakerfi og millifærslum. Þetta mun einnig bæta stöðu þeirra sem hafa verið að draga úr styrkjum við landbúnaðinn og þar eru Íslendingar framarlega í flokki.
    Þegar til lengri tíma er litið mun þessi samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og árangurinn sem náðist í Úrúgvæ-lotunni leiða til þess að það verða heilbrigðari heimsviðskipti með landbúnaðarvörur og það mun leiða til hærra verðs á landbúnaðarvörum en hinn falski búvörumarkaður, sem hefur t.d. þrifist í Evrópu, hefur verið reiðubúinn til að viðurkenna.
    Á sama hátt er mjög mikilsvert að hér á Alþingi hefur orðið breið samstaða um það að tryggja hagsmuni íslensks landbúnaðar á því tímabili sem það tekur að breyta alþjóðlegum viðskiptum með landbúnaðarvörur í anda GATT-samkomulagsins. Þetta breiða samkomulag mun tryggja það að hagsmunum íslensks landbúnaðar verður ekki fórnað vegna meintra stundarhagsmuna neytenda. Langtímahagsmunir neytenda standa hins vegar augljóslega til þess að landbúnaðurinn fái eðlileg vaxtarskilyrði og eðlilega verðmyndun á sínum framleiðsluvörum.
    Það er ástæða til þess að leggja áherslu á það að þetta breiða samkomulag endurspeglar skilning þingmanna á því hversu mikilvæg matvælaframleiðslan og landbúnaðarframleiðslan er fyrir Íslendinga, hversu mikilvæg þessi framleiðsla er fyrir atvinnulíf, en ekki aðeins fyrir atvinnulíf heldur fyrir menningu Íslendinga í heild. Við erum öðrum þjóðum fremur matvælaframleiðsluþjóð og menning okkar, ekki einungis verkmenning okkar heldur menning okkar í heild dregur mjög dám af þessu hlutverki okkar, hlutverki matvælaþjóðarinnar og þetta hlutverk stendur djúpum rótum í þjóðfélaginu.
    Þessi þáttur í atvinnulífi okkar og menningu hefur ekki aðeins afgerandi þýðingu fyrir mjög stórar greinar atvinnulífsins eins og t.d. matvælaiðnaðurinn, heldur hefur þetta líka verulega þýðingu fyrir aðrar atvinnugreinar og sérstaklega fyrir framtíðarþróun greina eins og t.d. ferðamennsku. Þar sem ferðamennska hefur náð mestum hagnaði, þar sem arðsemi er mest í ferðamennsku, þar er hún samofin matvælaframleiðslu og þeirri menningu sem þrífst í kringum matvælaframleiðsluna. Þetta er kannski eitt af því sem við Íslendingar eigum eftir að þróa, það er að tengja betur saman hagsmuni matvælaframleiðslunnar á Íslandi og ferðamennskunnar. Það samkomulag sem hefur náðst í sambandi við þetta mál, endurspeglar fullan skilning á mikilvægi landbúnaðarframleiðslunnar og matvælaframleiðslunnar í heild og það er mjög jákvætt.
    Hér hafa orðið verulegar umræður um það hvort í GATT-samkomulaginu séu fólgnar sérstakar hættur varðandi umhverfismál. Ég verð að segja eins og er að mér finnst að þær umræður hafi farið inn á nokkrar villigötur. Er viðskiptafrelsið sem slíkt og umhverfissjónarmið ósættanleg fyrirbæri? Er hægt að halda því fram í ljósi einhverrar sögulegrar reynslu að áætlanabúskapur og skipulagning hafi leitt það í ljós að þar sé umhverfismálum betur komið heldur en þar sem viðskiptafrelsi ríkir? Ég held að það sé mjög hæpið að halda slíku fram. Sennilega er það óvíða sem hugmyndafræði skipulagshyggju og áætlanabúskapar hefur gengið eins langt eins og í Sovétríkjunum fyrrverandi eða eins og í Austur-Þýskalandi sem þá var. Á fáum landsvæðum í heiminum hafa mistök í umhverfismálum orðið eins átakanleg og einmitt þar. Ég hygg að kannski hafi þessi mistök komið einna berast í ljós á því svæði í fyrrverandi Austur-Þýskalandi umhverfis Leipzig og fleiri góðar borgir þar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var við nám og naut aðstöðu til þess að öðlast skilning á heiminum og umhverfismálum alveg sérstaklega.
    Eins og stendur nú þá eru þessi öfl sem kenna sig við viðskiptafrelsi þó að þau feti ekki alltaf þá slóð alveg þráðbeina, þá eru það þessi öfl sem kenna sig við viðskiptafrelsi og markaðshyggju í Þýskalandi og í Vestur-Evrópu almennt, að gera það sem þau geta til þess að hreinsa upp eftir áætlanabúskapinn í Austur-Evrópu og er nú ærinn starfi þar fyrir hendi.

    Ég get ekki fallist á það að viðskiptafrelsi í sjálfu sér og umhverfissjónarmið séu ósættanleg. Þó að ég sé sammála þeim sjónarmiðum sem hafa komið hér fram að það séu allmiklar eyður í þetta viðskiptafræðisamkomulag um umhverfismálin. Það er hárrétt. Það eru eyður þar og hefði ég gjarnan viljað sjá tekið betur á þeim málum. En að fara að leggja saman tvo og tvo og segja sem svo að viðskiptafrelsi gangi beinlínis á hagsmuni umhverfismála er afar hæpin hugmyndafræði. Við þurfum að sjálfsögðu að vinna í þágu umhverfismála og viðskiptafrelsis í senn og þessi sjónarmið eru sættanleg.
    Ég vil taka það fram alveg sérstaklega að eitt af því sem háir umhverfismálum í fyrrverandi Sovétríkjunum, þ.e. Rússlandi, er skortur á hagvexti. Það er sóun á náttúruauðlindum. Það er léleg nýting á raforku. Það er léleg nýting á hráefnum, auðlindum Rússlands. Bætt tækni, bætt nýting, betri nýting orkunnar og minni sóun auðlinda er einmitt það sem hin vestrænu ríki eru nú að reyna að hjálpa Rússlandi til þess að ná tökum á til að ná meiri hagvexti og minni sóun á náttúruauðlindum. Ég held að þessi kenning að hagvöxturinn gangi beinlínis gegn markmiðum umhverfisverndarinnar sé orðin tímaskekkja. Þetta var útbreidd kenning en við nánari skoðun þá stenst hún ekki og það er ekki hægt að ímynda sér að við náum verulegum árangri í umhverfismálum nema við byggjum á hagvexti en auðvitað þarf grundvöllur hagvaxtarins að vera heilbrigður. Um það hygg ég að við hv. þm. Hjörleifur Guttormsson getum verið sammála. Við getum ekki náð tökum á umhverfismálum með því að hafna hagvaxtarþættinum. Það gengur ekki upp. Ég hefði því viljað mælast til þess að í þessum umræðum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar um GATT-samkomulagið og þá áfanga sem við höfum náð á þeirri braut þá færu menn ekki inn á þær brautir að telja að viðskiptafrelsi og umhverfissjónarmið séu ósættanleg markmið.
    Það er einnig rétt að geta þess hér að þær hömlur, sem hafa verið á viðskipti með landbúnaðarafurðir, hafa ekki virkað í þágu umhverfisverndar. Þær hafa m.a. leitt til þess að þjóðir sem eru landbúnaðarþjóðir í eðli sínu en hafa ekki fengið eðlilegt markaðsverð fyrir sínar afurðir hafa sótt í ýmsar auðlindir eins og t.d. skóga. Þetta hefur gerst í stórum stíl í Asíu, í Suður-Ameríku og Afríku þar sem auðlindum af þessu tagi hefur verið eytt, m.a. vegna þess að landbúnaðarafurðir hlutu þar ekki eðlilega markaðssetningu vegna niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum.
    Það má ekki skilja orð mín svo að ef og þegar almennur markaður verður orðinn fyrir landbúnaðarvörur með eðlilegri hætti heldur en verið hefur vegna viðskiptahamla þá munu ekki skapast nein umhverfisverndarmál vegna þess. Það má ekki skilja orð mín þannig. Því fer víðs fjarri. Það munu skapast sérstök umhverfisvandamál vegna þess að viðskipti með landbúnaðarafurðir verða frjálsari. Það er rétt. En það mun einnig létta af ýmsum þeim þrýstingi sem hefur verið á því að menn gengju virkilega á verðmætar auðlindir náttúrunnar eins og t.d. skóga heimsins til þess að bjarga sér út úr þeim efnahagsógöngum sem höft á landbúnaðarviðskiptin hafa skapað. En þetta er flókin mynd. Ég tek undir það sem menn hafa sagt hér, það hefði verið ákjósanlegt að taka á þessum umhverfismálum að svo miklu leyti sem það er hægt í samningum af þessu tagi en að þeir áfangar sem náðst hafa innan GATT séu með þeim hætti að þeir gangi þvert á sjónarmið umhverfisverndar það get ég ekki fallist á. Ég hygg að menn þurfi að taka þessi mál allt öðrum tökum ef þeir vilja sjá einhvern árangur á þessum báðum sviðum, þ.e. viðskiptasviðinu annars vegar og umhverfissviðinu hins vegar.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.