Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:22:21 (3418)


[14:22]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýddi á málflutning hv. 9. þm. Reykn. Ég hef sagt í ræðu minni að ég geti fallist á að ekki hafi verið tekið á umhverfisþættinum. Ég er hins vegar honum efnislega ósammála um að það geti verið gild rök til þess að hafna að taka jákvæða afstöðu til þessa máls sem hér er til umfjöllunar.
    Annað atriði sem hann rétt drap á hér en ég kom lítið að í ræðu minni var það hvort þessi samningur sem slíkur og þeir áfangar sem við höfum náð innan GATT skapi eitthvert sérstakt gósenland fyrir stórfyrirtæki eins og hér hefur komið fram bæði hjá hv. síðasta ræðumanni og einnig frá fleiri ræðumönnum. Þetta leyfi ég mér að draga mjög í efa. Ég held að það sé hægt að færa mjög sterk rök fyrir því að það séu einmitt þvert á móti smærri fyrirtækin sem hafa blómstrað einmitt í krafti þeirra áfanga sem náðst hafa í gegnum GATT. Það eru ekki stórfyrirtækin sem eiga sinn varnaraðila í GATT. Þvert á móti hefur sýnt sig að það eru smærri og meðalstór fyrirtæki sem hafa tekið að blómstra undir þeim áföngum sem við höfum náð í gegnum GATT.