Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 14:30:46 (3423)


[14:30]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta var nú heldur rýrt. Sannleikurinn er sá að í Sovétríkjunum sálugu var því ekki haldið sérstaklega á lofti að þau væru fyrirmyndarríki í umhverfismálum. Sannleikurinn er sá að þau tóku ekki þátt í neinni alþjóðlegri viðleitni til að leysa þann vanda. Þau mættu ekki á Stokkhólmsráðstefnuna 1972, þau sátu heima ásamt öðrum ríkjum í Austur-Evrópu og voru ekki þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi. Þetta blasti við. Það getur vel verið að einhverjar ræður hafi verið haldnar heima fyrir en þetta var öllum ljóst sem fylgdust með þessum málum. Ég kynntist þessu á meðan ég var þar austan tjalds og sannarlega var það ekki til fyrirmyndar hvernig á þeim málum var haldið og máttu allir sjá sem fóru þar um. Hitt er annað mál að þegar málin eru gerð upp og litið yfir kemur margt í leitirnar eins og hlýtur að vera þar sem um er að ræða lokað kerfi þar sem gagnrýnin rödd almennings fékk ekki að njóta sín. Því er alveg ljóst að þarna varð stórfelldur ófarnaður.
    Hitt er svo annað mál að markaðsbúskapur sem byggir á því módeli, sem hér er verið að keyra fram, leysir ekki vandann, síður en svo. Það sem er að gerast núna jafnhliða því sem tilraunir eru uppi um til þess að hreinsa upp í Austur-Evrópu, sem mun kosta mikið, er jafnframt viðleitni í þá átt að komast yfir náttúruauðlindir Austur-Evrópu, m.a. með þeim orkusáttmála sem viðskrh. Alþfl. var að undirrita núna. Megininntak hans var að komast yfir náttúruauðlindir og olíuauðlindir, sem sagt orkuauðlindir Austur-Evrópu, til að herða á hagvextinum með þeim umhverfisáhrifum sem það hefur. Það sem skiptir máli í þessu sambandi það er sú raunverulega mengun sem verður og með aukinni framleiðslu eykst hún óhjákvæmilega samhliða aukinni orkunotkun sem því fylgir. Ég tók dæmið af Kína, því mikla flaggskipi sem margir eru að hampa hér, m.a. þingmenn Sjálfstfl., þar sem tekur steininn úr og mun nú muna um þegar þeir fara að reyna að knýja fram sitt kerfi eftir vestrænni fyrirmynd.