Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 16:33:56 (3430)


[16:33]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst, vegna lokaorða hæstv. ráðherra, segja að það er mjög athyglisvert og hraustlega mælt af honum að fagna þessari niðurstöðu vegna þess að það liggur alveg í augum uppi að Alþfl. hefur verið beygður í þessu máli. Og það er ekki nóg með það að menn slái því föstu í þessari ályktun sem hér er verið að ræða að landbrn. eigi að fara með innflutning á landbúnaðarafurðum heldur er líka beinlínis tekið fram í ályktuninni að landbrn. eigi að fara með það stjórnkerfi sem skapað verði í framhaldi af þeirri ályktun sem menn eru hér að tala um. Þannig að hér er það auðvitað alveg ljóst að Alþfl. og afstaða hans í þessu máli hefur gjörsamlega verið rekinn til baka. Naglinn er kafrekinn í spýtuna og síðan er hann rekinn enn þá dýpra með sýl á eftir og ofan á honum er fallhamar. Þannig að í rauninni stendur ekkert eftir. Alþfl. hefur svo að segja verið beygður gjörsamlega í málinu.
    En það breytir ekki því að hitt var kostulegt líka sem hæstv. ráðherra sagði þegar hann fjallaði um afstöðu okkar sumra hér sem lýst höfðum stuðningi við þennan samning. Í þeim hópi er ég. Og ástæðan er ósköp einfaldlega sú, eins og við höfum oft áður tekið fram úr þessum ræðustól, að við höfnum hólfastefnunni í efnahagsmálum heimsins og teljum skynsamlegra að reyna að ná heildarsamningum, m.a. af því tagi sem hér er um að ræða, til þess að auðveldara verði í framhaldinu af því að koma böndum á kapítalismann, m.a. með nýjum alþjóðlegum umhverfissamningum af margvíslegu tagi.
    Þetta eru auðvitað hlutir sem hæstv. utanrrh. þarf að gera sér ljóst að eru meginástæðurnar fyrir þeim áherslum sem við höfum haft í þessu efni um leið og við gagnrýnum, eins og ég gerði við 1. umr.

málsins, ofuráhersluna á samkeppnisþjóðfélagið og hagvaxtarþjóðfélagið, eins og reyndar kemur fram í grg. með þeirri tillögu sem við erum hér að ræða um sérstaklega. Þar eru mjög gagnrýniverðir punktar, en í það heila tekið er það skynsamlegt, að mínu mati, að lenda málinu að sinni eins og lagt er til af utanrmn.