Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 16:52:16 (3433)


[16:52]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. forsrh. er verkstjóri þessarar ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. ber höfuðábyrgð á þessari rkisstjórn. Það sem henni tekst vel til ber að telja hæstv. forsrh. til tekna, það sem henni mistekst ber forsrh. með einum eða öðrum hætti einhverja sök á, að vísu kannski mismikla eftir því hvar veikleikarnir eru.
    Það er alveg satt hjá hæstv. utanrrh. að hann bar ekki stjórnskipulega ábyrgð á þessum vinnuhóp. Það gerði að sjálfsögðu hæstv. forsrh. sem átti formanninn í þessum vinnuhóp. Hitt er svo aftur deginum

ljósara að þegar maður lítur á það sem þessi vinnuhópur er búinn að gera, þá yfirlýsingu sem samstarfsnefnd fimm ráðuneyta um markmið lagabreytinga vegna fullgildingar samnings um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar og prentuð er á þingskjalinu sem fskj. III, þá hefur þessi vinnuhópur ekkert komist áfram. Hann er nánast engu búinn að skila. Þetta er óskaplega þunnt plagg sem hann leggur fram. Það er ekkert með það gerandi og þess vegna vildi utanrmn. ekki taka þá vinnu gilda og fór heldur í það að breyta tillögunni.
    Hvers vegna hefur þessi vinnuhópur sem skipaður er fimm ágætum einstaklingum, mjög hæfum og dugandi mönnum og flugskýrum, a.m.k. sumum þeirra, ekki skilað meiru? Það er vegna þess að Alþfl. var með puttana í spilinu og kom í veg fyrir það að sómasamleg niðurstaða fengist og þess vegna varð ekkert úr verki.