Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 18:09:51 (3449)


[18:09]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að mæla fyrir brtt. sem útbýtt hefur verið á fundinum sem birtar eru á þskj. 539 en það mun að vísu standa svo á að enn eigi eftir að veita afbrigði fyrir því að þær komi hér fyrir og í trausti þess að svo verði gert síðar á fundinum áður en til atkvæðagreiðslu kemur leyfi ég mér að vísa í það þskj., sem útbýtt hefur verið, en ekki tekið á dagskrá. Fyrst mun ég fara nokkrum orðum um efni þessa skattafrv. almennt að svo miklu leyti sem ég get ekki vísað í. Mér nægir ekki að vísa í ágæta framsöguræðu frsm. minni hluta hér áðan og nál. á þskj. 541.
    Eins og hv. þingmönnum er kunnugt tengist þetta skattafrv. að nokkru leyti yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var á frægum laugardagsfundi snemma í desembermánuði ef ég man rétt og kynnt fjölmiðlum nokkrum mínútum áður en aðalfréttatímar að kvöldi áttu að hefjast þannig að ekki gafst mikill tími til að fara gagnrýnum augum yfir þau skjöl enda voru fyrstu viðbrögð manna þau að þarna væru á ferðinni tímamótaaðgerðir hæstv. ríkisstjórnar í skattamálum og til lífskjarajöfnunar í þjóðfélaginu. En smátt og smátt kom veruleikinn í ljós og í raun og veru er það svo að annað eins blekkingarskjal hefur ekki í langan tíma verið sent fram í dagsljósið á ísaköldu landi og er þá langt til jafnað því að ýmsu eru menn nú vanir. Staðreyndin er sú að eftir stendur harla fátt í skjalinu sem sætir einhverjum tíðindum. Mestan part voru á ferðinni gömul loforð, flest óefnd eða verið var að margselja saman hlutinn og að hinu leytinu til voru ráðstafanir í skattamálum sem sumar hverjar ganga bókstaflega sagt í þveröfuga átt við það yfirlýsta markmið tillagnanna að jafna lífskjörin í landinu. Þetta hefur auðvitað verið rækilega afhjúpað í umræðum og úti í þjóðfélaginu á síðustu vikum í umsögnum aðila vinnumarkaðarins og sérstaklega Alþýðusambandsins og BSRB er rækilega sýnt að á ferðinni eru fyrst og fremst tilfærslur í skattakerfinu sem koma til góða tekjuháu stóreignafólki. Varla verður fundið út meira öfugmæli en það að í því felist sérstök lífskjarajöfnun á Íslandi í dag að létta sköttum af fólki með tekjur yfir 200 þús. kr. einstaklingar og 400 þús. kr. hjónum eða fólki sem á yfir 10 millj. kr. skuldlausar eignir. Ég veit ekki hvar í ósköpunum menn eru staddir ef þeir ætla að koma því heim og saman að það sé liður í tekjujöfnun á Íslandi í dag. Ég segi bara að þeir menn sem þannig tala bera ekki mikið skynbragð á veruleikann eins og hann er um þessi jól og þessi áramót hjá þjóðinni sem samkvæmt skoðanakönnunum stendur þannig að fimmtungur telur sig ekki hafa efni á jólahaldi, telur sig ekki hafa efni á því að gera betur við sig í mat og drykk og klæðum eða hvað það nú er sem fylgir því standi.
    Nei, hæstv. forseti. Þetta var auðvitað harla nöturlegt og ég endurtek að það er eiginlega langt síðan maður hefur staðið frammi fyrir svona ósvífni, svona grimmri ósvífni eins og birtist í í blekkingartilraun ríkisstjórnarinnar með laugardagssamþykktinni frægu fyrr í mánuðunum. --- Kemur nú hæstv. forsrh. skeiðandi inn í salinn og veri hann velkominn. Vona ég að hæstv. forsrh. sitji hér og fylgist með umræðum og standi fyrir máli sínu.
    Um frv. sjálft, hæstv. forseti, sem að hluta til ber út í dagsljósið ákvarðanir laugardagsfundarins en að öðru leyti eru óskyldar aðgerðir í skattamálum er það að segja að ég hlýt að gera að nokkru umtalsefni fyrst hina svokölluðu tillögu um afnám tvísköttunar. Enn er það á ferðinni að menn gefa hlutunum ekki rétt nöfn. Ég verð að segja alveg eins og er að eftir að hafa velt því máli fyrir mér og skoðað það þann tíma sem maður hefur haft frá því að frv. kom fram eða yfirlýsingin var gefin þeim mun meira er mér brugðið, hæstv. forseti, yfir því sem þar er að gerast. Satt best að segja tel ég að þetta sé afar stórt mál þannig að fólk hafi kannski ekki almennt áttað sig á því hversu gífurlega afdrifarík ákvörðun gæti verið á ferðinni ef hún verður stefnumarkandi og fordæmisgefandi fyrir það sem fram undan er í þessum efnum og í öðru lagi eftir því hversu geysilega vanhugsuð það er að ætla sér að afgreiða skattfrelsi lífeyristekna að því marki sem þær eru það með þessum hætti. Ég hef orðið mjög sterka sannfæringu fyrir því, hæstv. forseti, að menn séu að stefna inn á alranga braut og það sem ég óttast er auðvitað að verði þessi 15% skattfrelsi lífeyristeknanna tekin upp nú, sem er vinsæl aðgerð hjá fjöldamörgum í þjóðfélaginu, þeim sem þiggja lífeyri í dag og á komandi árum, þá sitji menn uppi með það og engin ríkisstjórn, enginn meiri hluti á Alþingi á komandi árum treysta sér til að breyta því. En hvað þýðir það? Það þýðir væntanlega að hinu leytinu að menn sitja uppi með skatt á inngreiðslur í lífeyrissjóðakerfið um aldur og ævi, að sá frádráttur af tekjum manna sem gengur til að mynda lífeyrisréttindin í uppsöfnunarkerfi eins og hér er verður skattlagður. Það er vont, það er hættulegt, það grefur undan framtíð þessa kerfis. Það felur ekki í sér hvata til þess að fólk leggi fyrir af launum sínum til að mynda bærileg lífeyrisréttindi á síðari hluta ævinnar. Staðreyndin er náttúrlega sú sem má sjálfsagt ekki nefna, það er sjálfsagt leyndarmálið sem ekki má tala um, að það er sáralítil tvísköttun á ferðinni enn þann dag í dag í lífeyriskerfinu. Eftir því sem hægt er næst að komast hefst hún í rauninni ekki fyrr en upp úr 1988 þegar staðgreiðsla er tekin upp og þó þannig að samkvæmt því sem sagt var 1988 var persónufrádráttur miðaður við það að hann fæli í sér viðmiðun eða öllu heldur skattfrelsi inngreiðslna í lífeyrissjóð. Fram til 1988 voru iðgjöld í lífeyrissjóð ekki skattlögð eða voru frádráttarbær í eftirágreidduskattkerfi þess tíma. Hins vegar er það viðurkennt að skattfrelsismörk hafa síðan lækkað, ekki staðið í því sem þau voru 1988 og með því má í raun og veru segja að til sögunnar komi ákveðin tvísköttun, að 4% inngreiðslur launamanna sjálfra í lífeyrissjóði eru skattskyldar tekjur. Og hver er þá tvísköttun í dag hjá manni sem til að mynda greiddi í lífeyrissjóð á árunum 1988--1992 og hóf svo töku lífeyris á árinu 1993 eða 1994? Jú, hún eru þessi 4--5 ár í mesta lagi af kannski 30--40 árum, 25--30 árum a.m.k., sem viðkomandi hafði greitt í lífeyrissjóð, einhver örlítil prósenta af öllum þeim tíma sem lífeyrisréttindin hafa myndast á.
    Að hinu leytinu til er það auðvitað þannig að allir þeir sem fá nú lífeyri, án tillits til þess að hve miklu leyti eða hvort yfir höfuð þeir hafa nokkurn tíma á ferlinum orðið fyrir tvísköttun, fá þessi 15%. Þannig að þessi aðgerð, hvað sem um hana má segja að öðru leyti og í raun og veru ágæt, sem hún er gagnvart því að hún bætir stöðu þessa hóps vissulega, þá er hún ekki nema að mjög litlu leyti í reynd afnám eiginlegrar tvísköttunar. Þetta eiga menn bara að segja eins og er. Vilji menn hins vegar bæta stöðu lífeyrisþega, aldraðs fólks, þá eru margar leiðir til þess og eðlilegast væri að minnka skerðingu grunnlífeyris eða gera þetta í gegnum almannatryggingakerfið eða með öðrum slíkum ráðstöfunum. En að dulbúa þessa aðgerð með þessum hætti er að mínu mati ómálefnalegt og næstum að segja auðvirðilegt. Mér liggur við að segja það. Og það versta við málið er það, sem kom ágætlega fram hjá frsm. minni hluta, að þessi aðgerð felur ekki í sér það skattfrelsi inngreiðslna í lífeyrissjóði sem er baráttumál allra þeirra sem í raunveruleikanum hafa verið að krefjast þess að ekki yrði um neina tvísköttun að ræða. Hún felur þar af leiðandi ekki í sér þá stuðningsaðgerð við lífeyrissjóðakerfið í landinu sem það væri og hún ber í sér ýmiss konar óréttlæti sem mun fylgja henni um aldur og ævi í þessari aðferð, til að mynda það að þeir sem fá aukin lífeyrisréttindi vegna meiri greiðslna atvinnurekenda heldur en þeirra 6% sem reiknireglan er miðuð við, fá í raun og veru ekki afnám tvísköttunar á lífeyri, þeir fá tvöfaldan skattafrádrátt. Var það það sem menn ætluðu að gera?
    Við skulum hugsa okkur dæmi um mann sem semur við sinn vinnuveitanda um að borga í sínu nafni inn í lífeyrissjóð ekki bara 6% heldur 10 eða 12%. Fyrirtækið dregur þau útgjöld frá skatti. Fyrirtækið dregur þau útgjöld frá sem rekstrargjöld áður en það borgar skatta. Þar með bera þær inngreiðslur ekki skatt, þær eru skattfrjálsar. Síðan kemur að því einhverjum árum seinna eða áratugum að viðkomandi maður fær útgreiddan lífeyri og hann er þá sem þessum inngreiðslum nemur meiri en hann hefði verið ef einungis hefðu verið greidd 6%. Hvað gerist þá? 15% reglan tekur til lífeyrisins hlutfallslega. Niðurstaðan: Tvöfalt skattfrelsi, ef hægt er að komast svo að orði. Var það þetta sem menn ætluðust til? Nei, auðvitað ekki. Þar með er þessi aðgerð ekki einungis þannig að hún er hlutfallsleg og felur í sér fleiri krónur til þeirra sem hæstan hafa lífeyrinn, fá mest útborgað. Hún er meira en það, eins og sýna má fram á með þessu dæmi.
    Það má nefna það sem atriði líka í þessu sambandi að auðvitað gerist það í uppsöfnunarkerfi lífeyrisréttinda sem bundið er við einstaklinga, að einhver hluti þeirra sem lífeyrisgreiðslurnar inna af hendi nýtur aldrei útgreiðslnanna, til að mynda af þeirri einföldu ástæðu að viðkomandi andast áður en hann kemst á lífeyristökualdur. (Gripið fram í.) Það er synd, segir hv. ræðumaður og virðist ekki hafa mikla samúð með þessum tilvikum. En hvað gerist ef menn velja þessa aðferð, að maður sem greiðir í lífeyrissjóð í 35 ár, einhleypur maður, hann andast svo rétt áður en hann hefur töku lífeyris. Hann greiðir inn og borgar fulla skatta af inngreiðslunum, myndar lífeyrisréttindi í lífeyrissjóði sem aðrir fá því að aðrir njóta þess að sjóðurinn stendur sem þessu nemur betur og hljóta svo útgreiðslurnar og fá 15% skattfrelsi af þeim. Er það til að auka réttlætið í kerfinu, að þeir sem lenda í þeirri stöðu að borga inn í þetta kerfi en njóta aldrei neins úr því, þeir báru fulla skatta af inngreiðslunum en aðrir fá skattfrelsi af útgreiðslunum? Þannig virkar þetta kerfi.
    Og fleiri og fleiri dæmi af þessu tagi má taka. Það segir mér bara: Að lokum er niðurstaðan sú, það er tóm della í uppsöfnunarkerfi að ganga frá þessu máli öðruvísi en þannig að það sé á inngreiðsluhliðinni vegna þess að hitt kemur áratugum seinna. Og hver veit hverjir njóta þess og hvaða aðstæður verða þá við lýði. Auðvitað á að ganga frá þessu máli þannig að inngreiðslurnar séu skattfrjálsar. Það er lágmark að gera það þannig. Vilji menn hins vegar bæta svo stöðu aldraðra á líðandi stundu eða á hvaða tíma sem er þá gera menn það með öðrum hætti en þessum.
    Ég er, hæstv. forseti, orðinn svo algerlega sannfærður um það að þarna eru menn að lenda úti á rangri braut, að ég get ekki annað en látið þá ósk mína í ljós að menn nái með einhverjum hætti að afstýra því slysi sem ég held að hér sé að verða. Ég teldi hyggilegast úr því sem komið er að allir flokkar sameinuðust um það að fresta afgreiðslu þessa máls, tækju sér tíma í að skoða það fyrstu mánuði næsta árs að reyna að gera þetta með einhverjum öðru hætti. Sú aðferð sem ég held að sé þar langvænlegust og ég hef reyndar prufað undanfarna daga að útfæra það hvernig væri hægt að ganga frá þessu á hina hliðina, væri að innleiða skattfrelsi inngreiðslna í lífeyrissjóði í áföngum þannig að menn tækju til að mynda 1% launamannsins í 1. áfanga og 1,5% sjálfstætt starfandi atvinnurekenda vegna eigin inngreiðslna, síðan tækju menn 2% og 3, 4 og þannig innleiddu menn þetta í áföngum á nokkrum árum. Létu kannski hvert prósent standa í tvö ár eða svo. Þannig ætti á 6--8 ára tímabili innleiða fullt skattfrelsi inngreiðslna. Á móti mætti hugsa sér að hafa einhvern frádrátt við lýði um nokkurt árabil vegna þess hóps sem sannanlega varð fyrir tvísköttun á árabilinu 1988--1994. Reyndar væri besta leiðin í því máli að gera það einfaldlega upp við hvern og einn, taka lífeyrisiðgjöld viðkomandi launamanna á árabilinu 1988--1994, samkvæmt skattframtölum, og gera það upp hve mikinn skatt viðkomandi greiddi af þessum inngreiðslum en fékk ekki frádreginn og ganga frá því sem skattafrádrætti sem viðkomandi ætti geymdan og mætti nota á næstu árum. Flóknara er það nú í raun og veru ekki að gera þennan tvísköttunarþátt málsins upp og annað eins hafa menn nú gert. Með öðrum orðum, viðkomandi einstaklingar ættu geymdan tiltekinn frádrátt vegna inngreiðslna í lífeyrissjóð á árabilinu 1988--1994.
    Ef menn telja þetta of flókið þá má auðvitað hugsa sér að nota þessa 15% aðferð eða lífeyristeknaaðferð þannig að einhver tiltekinn frádráttur væri við lýði um nokkurt árabil og þrepaðist út á móti skattfrelsi iðgjaldanna.
    Ónefnt er í þessu sambandi það ranglæti sem vissulega er sláandi í þessu efni og Vinnuveitendasambandið gerir að miklu máli í sinni umsögn, að sjálfstætt starfandi atvinnurekendur skuli ekki fá að draga þau 6% sem þeir greiða sjálfra sín vegna í lífeyrissjóð frá sem venjulegan rekstrarkostnað. það er auðvitað argasta óréttlæti og úr því að aðrir verða ekki til þess hér þá skal ég gjarnan taka upp hanskann fyrir þessa aðila í atvinnulífinu. Þetta er auðvitað alveg fáránlegt, að mönnum skuli vera mismunað með þessum hætti vegna þess að þeir eru einyrkjar eða sjálfstætt starfandi í atvinnulífinu þá fái þeir ekki sambærilega skattalega meðhöndlun og aðrir í þjóðfélaginu gagnvart svona persónubundnum réttindum eins og lífeyrisréttindin eru. Þetta er algerlega út í hött. En Sjálfstfl. er ekki að leggja til hér að taka á þessu máli, aldeilis ekki.
    Varðandi þetta atriði er svo eitt enn og það er að þó að þessi aðferð, að gefa mönnum 15% frádrátt á lífeyristekjur frá sköttum, sé ódýr núna í augnablikinu og kosti ríkissjóð minna og væntanlega valin vegna þess, þá hlýtur hún auðvitað á tiltölulega skömmum tíma, með því að lífeyrissjóðakerfið kemst í jafnvægi, inngreiðslur og útgreiðslur, að verða jafndýr hinni. Hún er bara miklu verri og gallaðri aðferð. Menn geta auðvitað keypt sér tíma með þessu og þetta er ódýrara um nokkurt árabil, en það er lágkúrulegt að láta það eitt ráða niðurstöðunni. Það er lágkúrulegt.
    Hæstv. forseti. Það getur vel verið að það sé hreinlega eins og að reyna að bera sólina út í skjóðu að tala um þetta hér og það nenni enginn að hlusta á þetta. Alla vega nenna hæstv. ráðherrar ekki að vera hér viðstaddir. Og þetta sé þannig vaxið að hæstv. ríkisstjórn af áróðurspólitískum ástæðum hendir þessu út á einum laugardegi og kemst svo ekki frá því máli, búin að lofa öllum lífeyrisþegum í landinu þessari jólagjöf eða nýársgjöf, 15% skattfrelsi á öllum lífeyri, og það er auðvitað vel til vinsælda fallið. Og það er kannski stórhættulegt af manni sem ætlar í framboð að standa hér og tala með þeim hætti sem ég geri um þetta mál, en mér er alveg sama. Sannfæring mín er sú að menn séu gera hérna afdrifarík mistök og þá segi ég það þó að að hljómi ekki endilega eins og músik í allra eyrum. Ég er alveg viss um að ef menn festast á þessu spori og sitja svo fastir þar, vegna þess að þegar einu sinni er búið að veita þessi skattfríði á útgreiddan lífeyri þá verður erfitt að taka það af. Það verður öflugur hópur úti í þjóðfélaginu sem mun mótmæla hástöfum hvenær sem ætti að reyna að gera það, eðlilega (Gripið fram í.) --- og verður ekki hægt. Og þá sitja menn uppi með það að hafa valið þarna vitlausa leið, vitlausa aðferð, af áróðurspólitískum hentistefnuástæðum á einum laugardagseftirmiðdegi og það er dapurlegt þegar svona stórt mál á í hlut.
    Ég er líka hræddur um þetta, hæstv. forseti, vegna þess að ég held að þetta mál muni verða mönnum fótakefli þegar að því kemur, sem fyrr eða síðar verður að takast á við, að endurskipuleggja og stokka upp lífeyrissjóðakerfið í landinu, samræma lífeyrisréttindin, fækka og stækka lífeyrissjóðina. Við vitum öll að það kerfi gengur í raun ekki eins og það er uppbyggt í dag. Þar verður að taka á málum og það hyldýpismisræmi sem er í lífeyrisréttindum stenst ekki, a.m.k. vil ég ekki sjá það til frambúðar, þá mun þetta verða mönnum fjötur um fót. Það að hafa ekki valið þá leið að styrkja kerfið með skattfrelsi inngreiðslnanna mun þvælast fyrir mönnum, það mun verða til bölvunar, því að á hinn bóginn væri það mjög góð aðgerð til þess að treysta stöðu lífeyrissjóðakerfisins í landinu, að veita þessi skattfríðindi á inngreiðslurnar og hvetja með því fólk til þess að leggja til hliðar og spara í lífeyrissjóðakerfinu og þess vegna mætti að mínu mati hafa þessar frádráttarheimildir rýmri heldur en ströngustu lög gera ráð fyrir. Það væri hægt að hugsa sér að launamennirnir sjálfir mættu leggja inn 6% skattfrjáls en ekki bara 4 og fyrirtækin mættu bæta við 2--4% við sinn starfsmann áður en það hætti að vera skattfrjálst, sem út af fyrir sig er reyndar ekki takmarkað í dag en kæmi til greina að setja þak á.
    Hæstv. forseti. Þetta vil ég segja um þetta atriði þó að það sé þegar búið að gera það hér að nokkru umtalsefni. En það er nú tvímælalaust þannig að þetta mál er hér langstærst, svona ,,prinsipielt``, af því sem hér er á ferðinni og ég endurtek það, ég skora á menn að hugleiða hvort ekki sé unnt að skapa hér samstöðu um það með aðilum vinnumarkaðarins og fleirum að fresta afgreiðslu þessa máls a.m.k. um 1--2 mánuði. Þing kemur aftur saman í janúar og situr fram í lok febrúar þannig að það er út af fyrir sig nógur tími til að ganga frá þessum breytingum þá ef menn velja það að lokum að hafa þetta svona, en menn fengju þá a.m.k. andrúm til þess að fara yfir þetta. Ég er sannfærður um að aðilar vinnumarkaðarins og a.m.k. stjórnarandstaðan, eru tilbúin til að ganga inn á samkomulag um að gera þetta svona því að það er svo mikið í húfi hér. Og mér finnst þetta mál og þessi aðferð alls ekki hafa fengið þá athygli eða umræðu, hvorki hér, auðvitað tímans vegna, og þaðan af síður úti í þjóðfélaginu, sem eðlilegt væri þegar svona stórmál er að fara hér í gegn.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, ætla ég að nefna upp úr efni frv. ákvæði um vaxtabætur í 7. gr. Ég hef reyndar áður gert það að umtalsefni og varað við því að menn eru þar að gera breytingu sem þeir vita ekki almennilega hvað felur í sér. Það er ljóst að á ferðinni er einhver skerðing vaxtabóta til tiltekins hóps, þeirra sem þiggur vaxtabætur og það gerist í gegnum það að það er snúið þarna við ákveðinni röð. Í stað þess að takmarka vaxtabótastofninn í upphafi og draga vaxtatekjur síðan frá á eftir þá eru vaxtatekjurnar dregnar frá fyrst, sem þýðir það að vaxtabótastofninn lækkar í tilvikum þeirra sem hafa einhverjar vaxtatekjur. Þetta er líka að mínu mati óeðlilegur uppgjörsmáti, að draga ekki fyrst vaxtatekjurnar frá og ákveða svo hver sé vaxtabótastofninn. Það er að vísu sagt að það séu ekki nema innan við 10% af þeim sem þiggja vaxtabætur sem hafi vaxtatekjur á móti, en eftir stendur að það er þá verið að skerða sérstaklega hag þessa hóps í vaxtabótakerfinu og er nú nóg komið af því hvernig búið er að þjarma að þeim hópi.
    Í þriðja lagi nefndi ég til að það gleymist ekki, að samkvæmt frv. á að fella niður lokamálslið 83. gr. tekjuskattslaganna, þ.e. ákvæðið um álag á stóreignir fólks með tekjur yfir vissum mörkum. Ég tel þetta alveg sérstakt örlæti og sérstaka rausn við hóp sem að mínu mati er síður en svo lakast settur í íslensku þjóðfélagi í dag. Fyrir það fyrsta er nú fólk sem á yfir 10 millj. kr. nettóeign, hreina eign þegar allir frádrættir eru komnir til sögunnar (Gripið fram í.) ekki illa statt, hv. þm., borið saman við ýmsa aðra (Gripið fram í.) þegar það er haft í huga að höfuðstóll fjölmargra íslenskra heimila er öfugur. Menn eiga minna en ekki neitt, hv. þm. ( IBA: Þetta er samt margsköttun ...) Þetta er engin margsköttun, hv. þm. Þetta er náttúrlega mikill misskilningur og draugur sem maður þarf að glíma við í allri þessari umræðu. Fólk kallar allt margsköttun af því að það hafi einhvern tíma borgað tekjuskatt af launum sínum í fyrndinni. En auðvitað er þetta ekki margsköttun vegna þess að það er ekki verið að skattleggja aftur sama stofninn í sjálfu sér ( Gripið fram í: Ár eftir ár.) auk þess sem hér er á ferðinni að það er eingöngu fólk sem hefur tilteknar tekjur sem greiðir þennan skatt.
    Mér er ómögulegt að skilja að á sama tíma og menn leggja á óbreyttan almennan eignarskatt af fullu miskunnarleysi, án nokkurrar tekjuviðmiðunar, alveg niður í núll tekjur, þá eiga menn að borga almenna eignarskattinn, hann er ótekjutengdur, ekkjur, munaðarlausir og allir slíkir. ( IBA: Það er nú óréttlætið.) Það er ekki kallað ekkjuskattur eða óréttlæti af Sjálfstfl. En þetta álag á stóreignir hátekjufólksins, það ætlar allt vitlaust að verða þegar það er lagt á. Og ég tel í öllu falli, ef menn meina eitthvað með því að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp eða öllu heldur að skattlagning eigna og fjármagnstekna verði nú loksins samræmd á næsta ári eða þar næsta, að fella þetta þá niður áður er alveg fráleitt. Lágmark væri að láta þetta standa þangað til niðurstaða er fengin í það mál.
    Þarna hafa menn efni á því að missa út 120 millj., en það er eins og eigi að draga, ég veit ekki hvað, undan nöglum hæstv. fjmrh. þegar aðrir málaflokkar eiga í hlut. Ég gæti þar nefnt aftur lífeyrinn. Við höfum verið að reyna að fá því framgengt að örorkulífeyrir fengi a.m.k. sömu meðferð og almennur lífeyrir hér í þessari 15% reglu ríkisstjórnarinnar. Við höfum átt um það fundi með hæstv. fjmrh., en það er eins og það eigi bara að slíta sálina úr hæstv. ráðherra að nefna það. En það er hægt að fíra út 120 millj. til þessa stóreignahóps í þjóðfélaginu. Þetta er mjög sérkennilegt satt best að segja.
    Ég gleymdi nú eiginlega að nefna það, hæstv. forseti, í sambandi við þessa tvísköttunardellu, að þessi 15% regla er miðuð við 70 ára aldursmörk sem er náttúrlega alveg merkileg hugmyndafræði, að menn skuli ekki fá þessa skattalegu meðferð fyrr en þeir hafa náð 70 ára aldri. Það þýðir til að mynda að sjómenn sem hafa af sérstökum ástæðum og eðlilegum og rökstuddum rétt til þess að hefja töku lífeyris fyrr en aðrar stéttir vegna þess að það er þannig með sjómannsstarfið og er viðurkennt, að það er erfitt og áhættusamt og hentar kannski ekki vel mönnum sem komnir eru hátt á sjötugsaldur. En þetta þýðir það að sjómenn fá í raun og veru lakari skattalega meðferð á sínar lífeyristekjur í heild en aðrar stéttir því að þeir ná aldrei sömu skattfríðindum út úr þessu vegna þess að þeir hefja töku lífeyris fyrr og lífeyrisrétturinn lækkar sem því nemur, því miður að mestu leyti vegna þess að menn heyktust á því að styrkja Lífeyrissjóð sjómanna þannig að hann gæti borgað þennan mismun án þess að skerða lífeyrisréttinn. Það er núna að gerast. Lífeyrisréttur sjómannastéttarinnar í heild er að skerðast vegna þess að þeir hafa þennan rétt til að hefja töku lífeyris fyrr og þar með ná þeir aldrei sömu skattalegu meðferð út úr sínum lífeyrismálum og aðrir stéttir í landinu því það er alveg ljóst að einhver hluti sjómanna nýtir sér þennan rétt, að hefja töku lífeyris fyrr. Þetta er óréttlæti, þetta er mismunun og er auðvitað alveg fráleitt og sýnir enn einu sinni hvað þessi regla er vitlaus.
    Þá vil ég, hæstv. forseti, enn fremur nefna þessa útþynningu á hátekjuskattinum sem hér er á ferðinni. Það þóttu óneitanlega þó nokkur tíðindi þegar hæstv. ríkisstjórn kynnti þá ákvörðun sína í haust að halda við þau áform að fella hátekjuskattinn niður um þessi áramót og koma þannig með alveg sérstaka jólagjöf handa fólki með yfir 200 þús. kr. tekjur á mánuði, einstaklinga og 400 þús. kr. hjón. Þennan óverulega ræfil af hátekjuskatti sem hér hefur þó verið lagður á í ein tvö ár. Þetta vakti náttúrlega furðu og undrun alls staðar í þjóðfélaginu og var harðlega gagnrýnt hér á þingi og í þjóðfélaginu og niðurstaðan er sú, að vísu, að ríkisstjórnin heykist á þessu, dregur jólagjöfina til baka til hátekjufólksins, en þó ekki alveg, nei. Skatturinn er þynntur út um einn fjórða og hundrað milljónum sleppt í gegnum það að hækka skattfrelsismörk --- ekki lágtekjufólksins, ekki þessara ræfla sem hafa byrjað að borga tekjuskatt við 57 þús. kr. á mánuði, nei, þeirra sem höfðu álag á tekjur yfir 400 þús. kr. fjölskyldutekjum á mánuði. Þar þarf að hækka skattfrelsismörkin í 450 þús. Þetta er nú réttlætið. ( Gripið fram í: Þetta er jafnaðarstefna.) Þetta er jafnaðarstefna Jafnaðarmannaflokks Íslands hf., þess sem eftir er af honum. Þetta er auðvitað alveg kostulegt, hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Það er sendiherra flokksins, já. ( Gripið fram í: Sendiherra sérhagsmunanna.) Hæstv. forseti, auðvitað er það mjög sérkennilegt að úr því að menn á annað borð tóku upp þrepaskiptingu í tekjuskattinum að hún skyldi ekki vera betur úr garði gerð og látin skila meiri tekjum í ríkissjóð. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að að mörgu leyti væri heppilegt að leggja á tveggja þrepa hátekjuskatt þar sem lægra þrepið væri e.t.v. lægri prósenta, 3% eða svo, og gæti byrjað við eitthvað lægri tekjumörk en nú er og hærra þrepið síðan talsvert hærra. Þessa þrepun í tekjuskattinum ætti að stilla inn á tekjutengingu bótaliða í tryggingakerfinu þannig að sú óhæfa gerðist ekki í tekjuskattskerfinu sem gerist í dag að menn lækka í skatti þegar þeir komast upp úr 200 þús. kr. tekjum á mánuði. Ég hef hvergi í heiminum heyrt um skattstiga sem er þannig að hann verður öfugur á ákveðnu bili eftir að tekjur manna hækka upp fyrir rúmlega 200 þús. kr. á mánuði eða svo.
    En staðreyndin er sú að langhæsti skatturinn, hæstur í prósentum, hvílir á því fólki sem er með laun á bilinu 110--115 þús. og upp í rúmlega 200 þús. á mánuði, fjölskyldutekjur, því á tekjubili skerðist barnabótaaukinn út, skerðast vaxtabæturnar út, koma til sögunnar tekjutengdar afborganir námslána og fleiri þættir spila þar inn í. Síðan þegar þessar skerðingar eru búnar og þessir bótaliðir horfnir við svona

rúmlega 200 þús. kr. fjölskyldutekjur á mánuði þá snarlækka menn í skatti upp í alveg 450 þús. Það er helst að sýna þetta myndrænt, hæstv. forseti, því að þetta er svo ótrúlegt og lygilegt í orðum að það trúir því varla nokkur maður.
    En staðreyndin er sú að tekjuskattsstiginn er svona. Þessu hefði verið hægt að breyta og væri hægt að breyta, annars vegar með því að endurskoða þessa tekjutengingu og gera hana öðruvísi úr garði þannig að þessi óhæfilega jaðarskattsprósenta á þessu tekjubili væri ekki fyrir hendi. Það sem ég teldi auðvitað lágmark að væri gert er að setja þak á skerðingarákvæði þannig að þau gætu þá aldrei valdið þyngri skattbyrði eða hærri jaðarskattsprósentu en til að mynda 55% þannig að það flettist út og aldrei meira en eitthvað af því tagi væri tekið. Það væri mjög einföld aðgerð sem væri í sjálfu sér auðvelt að útfæra. En hin leiðin er vissulega líka fær og hún er sú að vera með t.d. tveggja þrepa hátekjuskatt sem spilaði á móti tekjutengingu bótaliðanna þannig að menn lækkuðu þó aldrei í skatti með hækkandi tekjum. Það er auðvitað alger óhæfa og svívirða að svo öfugur skattur að skuli vera fyrir hendi í skattkerfinu.
    Að lokum um efni frv., hæstv. forseti, vil ég nefna ákvæðið um flýtifyrningar sem var eitt af loforðum ríkisstjórnarinnar til atvinnurekenda í tengslum við eitthvert möndl á sl. vori. Þar er enn eitt dæmið á ferðinni um lítt hugsaða breytingu sem lítill tími hefur unnist til að skoða og ég harma það vegna þess að hugmyndir komu fram í efh.- og viðskn. um að gera þessa reglu öðruvísi úr garði og miklu skynsamlegar að mínu mati. Í staðinn fyrir að taka upp tímabundna flýtifyrningu vegna nýrra fjárfestinga væru fyrningaprósenturnar, mörkin færð til í báða enda þannig að fyrirtækin gætu hvort sem heldur er fyrnt hraðar ef þau væru að borga tekjuskatt og stæðu í fjárfestingum en þau gætu líka fyrnt hægar ef þannig stæði á hjá þeim að þau væru að ráðast í einhverjar fjárfestingar en greiddu ekki skatt vegna uppsafnaðs taps eða af öðrum ástæðum. Þá væri þeim á hinn bóginn líka heimilt að geyma sér fyrningarnar, að afskrifa eignirnar þannig hægar og færa þá fyrningarmörkin annars vegar upp í kannski 15--20%, hins vegar niður í svo sem 5%. Ég held að þetta væri skynsamleg regla og kæmi eðlilegar út en svona tímabundin aðgerð svo ekki sé talað um þann fáránleika að þessu var lofað á síðasta vori og á nú að koma til framkvæmda e.t.v. --- ja, eigum við að segja að þetta verði samþykkt á morgun, hæstv. forseti. Þá verður eftir einn virkur dagur af árinu til þess að ráðast í fjárfestingar til að nýta sér þessar fyrningarheimildir á árinu 1994. Ég er ekki viss um að það yrðu allt gáfulegar fjárfestingar sem menn réðust þá í. Það er ekki mjög skynsamlegt að ýta undir að svoleiðis vitleysisfár grípi um sig. Ég hef a.m.k. skilið það svo að afleiðingin af því að dregist hefur svona úr hömlu að staðfesta eða ganga frá þessu loforði verði þessi.
    Hæstv. forseti. Ég flyt á þskj. 539 nokkrar brtt. og fylgir þeim lítils háttar greinargerð sökum þess að minni hluti efh.- og viðskn. skilaði sameiginlegu nefndaráliti og þess vegna var ekki við hæfi að rökstyðja einstakar breytingartillögur eintakra nefndarmanna í því nefndaráliti. Ég valdi því þann kost að láta lítils háttar greinargerð fylgja breytingartillögunum þeim til útskýringar. Þessar breytingartillögur eru fluttar í samræmi við þá skattastefnu og þá áherslu á lífskjarajöfnun sem Alþb. hefur gert að einu helsta baráttumáli sínu á undanförnum árum. Tekjujafnandi aðgerðir í skattkerfinu leika auðvitað stórt hlutverk í öllum slíkum tillögum og með þessu leggjum við áherslu á okkar stefnu á þessu sviði, tekjujöfnun samhliða tekjuöflun til ríkissjóðs til að styrkja undirstöðu velferðarkerfisins og efla atvinnulíf. Einnig vil ég leyfa mér að vísa í breytingartillögur sem ég flutti af svipuðu tilefni á síðasta þingi við það frv. ríkisstjórnarinnar um skattamál sem þá var til meðferðar en þá flutti ég ítarlegar brtt. fyrir hönd Alþb. við skattafrv. ríkisstjórnarinnar jafnframt því sem Alþb. studdi að sjálfsögðu lækkun matarskattsins eins og við höfum jafnan gert. Þær tillögur hafa orðið talsvert umræðuefni úti í þjóðfélaginu og skattaumræðan á síðasta þingi var nokkuð hörð og nægir þar að minna á þá sérstöku uppákomu að Framsfl. sneri við blaðinu og tók upp þá stefnu að leggjast gegn lækkun matarskattsins og vilja fara þar aðrar leiðir í þeim efnum. Ríkisendurskoðun hefur síðan metið allar tillögurnar og gefið tillögum Alþb. þá einkunn að í þeim felist langmest tekjujöfnun og lífskjarajöfnun og held ég að það sé óumdeilt að þær áherslur sem við höfum lagt með hátekjuskatti, stóreignaskatti og hækkaðri tekjuskattsprósentu fyrirtækja sem væru færðar yfir í vaxtabætur, hækkun skattfrelsismarka og fleiri slíkar aðgerðir fólu í sér langróttækustu kjarajöfnunina af öllum tillögum sem voru fluttar á síðasta þingi. Þessar breytingartillögur eru fluttar í þeim sama anda og eru efnislega að hluta til samhljóða.
    Af því að ég veit að breytingartillögutextinn er mikil latína fyrir óinnvígða nema menn hafi við höndina lög og reglugerðir og allt dót um þetta efni leyfi ég mér að gera grein fyrir þeim hér tölusett á mæltu máli í greinargerðinni.
    Í 1. tölul. brtt. er lögð til hækkun skattleysismarka í 60 þús. kr. á mánuði nú um áramótin. Þetta er liður í stefnu alþýðubandalagsmanna um að hækka skattleysismörkin í áföngum. Það er auðvitað algerlega óhæfilegt hvernig þau hafa verið skert á undanförnum árum og þetta væri fyrsti áfangi á vegferð í þeim efnum. Það er að vísu vel þekkt staðreynd að það er dýrt að hreyfa til skattfrelsismörkin. Hverjar þúsund kr. í hækkuðum skattleysismörkum á mánuði kosta nálægt 780 millj. kr. þannig að þetta hreyfir auðvitað stórum tölum í fjárlögunum. Sú aðgerð að hækka þetta í 60 þús. kr. um áramót, og síðan mundi það fylgja verðlagi og hækka samkvæmt lánskjaravísitölu mánuðina desember--júní hinn 1. júlí nk., kostaði ríkissjóð um 1.200 millj. kr. á ári umfram það sem fjárlög gera ráð fyrir. Fjárlögin gera ráð fyrir því að skattleysismörkin verði 58.425 kr. nú um áramótin og hækki síðan í tæpar 59.300 kr. 1. júlí nk.
    Í öðru lagi gera tillögurnar ráð fyrir því að breytt verði ákvæðum laga um vaxtabætur þannig að

horfið verði frá þeirri 400 millj. kr. skerðingu sem varð á vaxtabótunum í ráðherratíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og kom til framkvæmda nú á árinu. Eins og óþarft er að minna á kom til framkvæmda skerðing á vaxtabótum sem jafngildir um 400 millj. kr. útgjöldum eða öllu heldur tekjum til ríkissjóðs á þessu ári. Brtt. er einfaldlega þannig úr garði gerð að hún færir til baka ákvæði vaxtabóta í þar til gerðum kafla tekjuskattslaganna þannig að þessari 400 millj. kr. skerðingu er skilað. Þetta er ekki síst gert vegna þess að framangreind skerðing vaxtabótanna kom auðvitað algerlega aftan að því fólki sem var með húsnæðisskuldbindingar á bakinu og var þvert á gefin loforð um að vaxtabætur yrðu ekki skertar. Þetta er þeim mun alvarlegra sem stór hluti þessa fólks batt sér skuldbindingar samkvæmt húsbréfakerfinu og gekk í gegnum greiðslumat o.s.frv. sem byggði á tilteknum forsendum. Þess vegna er það að okkar mati alveg sérstakt réttlætismál að skerðingin sem slík gangi til baka og kostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga ætti að liggja nálægt þessum sömu 400 millj. kr. og voru skertar á sínum tíma.
    Þetta leysir ekki nema brot af þeim vanda sem við er að glíma í húsnæðismálum og miklu víðtækari björgunaraðgerðir þarf til eigi að afstýra því hruni í húsnæðismálum sem yfirvofandi er og það höfum við alþýðubandalagsmenn ályktað um og útfært í okkar stefnu um lífskjörin og vanda heimilanna.
    Í þriðja lagi leggjum við til að tekjuskattur fyrirtækja verði á næsta ári vegna tekna liðins árs 39% en ekki 33%. Það ótrúlega hefur verið gert að á tveimur árum hefur tekjuskattsprósentan af hagnaði fyrirtækja lækkað úr 45% í 33%. Þetta hefur verið gert til viðbótar því að aðstöðugjald upp á 4 þúsund millj. kr. var létt af fyrirtækjunum á einu bretti.
    ( Forseti (GHelg): Forseti vill upplýsa hv. þingmenn að ætlunin er að gefa nú hlé kl. 7 til kl. 8.30 og forseti vill því spyrja hv. þm. hvort hugsanlegt sé að hann geti lokið ræðu sinni fyrir þann tíma.)
    Það er hugsanlegt ef ég mætti fara kannski nokkrar mínútur fram yfir 7, hæstv. forseti, ef á þyrfti að halda og ég ætlaði mér að gera það.
    ( Forseti (GHelg): Já, forseti vill þá biðja hv. þm. að halda áfram ræðu sinni.)
    Ég er alveg á lokasprettinum eins og það heitir á máli hlaupara, hæstv. forseti.
    Þetta leggjum við til og við teljum í raun og veru ærna ástæðu til. Má þá líka benda á að það er ætlunin samkvæmt þessu frv. að auka frádráttarheimildir fyrirtækjanna frá tekjuskatti, þ.e. með upptöku svonefndra flýtifyrninga. Þess þá heldur er enn síður ástæða til að vorkenna fyrirtækjunum að borga sambærilega skattprósentu og launamaðurinn verður að gera af öllum sínum tekjum yfir skattfrelsismörkum. Þetta gæfi umtalsverðar tekjur í ríkissjóð þar sem hagnaður fyrirtækja hefur aukist enda hefur verið létt af þeim sköttum í stórum stíl eða áætlaðar 700--800 millj. kr.
    Að lokum, hæstv. forseti, er svo lagt til í brtt. á þskj. 539 að hátekjuskatturinn leggist á sömu tekjumörk og áður var, þ.e. 200 þús. hjá einstaklingum og 400 þús. hjá hjónum en þau mörk verði ekki hækkuð eins og meiri hlutinn gerir ráð fyrir og verði 8% í staðinn fyrir 5% þannig að að muni aðeins meira um hátekjuskattinn og það sé í raun og veru hægt að segja að um eiginlegan hátekjuskatt sé að ræða. Sú breyting gæfi um 650 millj. kr. í hátekjuskatt, þ.e. um 350 millj. kr. í viðbót við það sem fjárlagafrv. og tillögur meiri hluta gera ráð fyrir. Niðurstaðan af breytingartillögunum er því að útgjöld og tekjur ríkissjóðs eru samkvæmt þeim í þokkalegu jafnvægi. Að vísu kostar þetta nokkru meira en tekjuöfluninni nemur en á hitt ber að líta að síðan mundi ýmis óbeinn ávinningur af þessu skila sér í ríkissjóð eins og jafnan er þegar svona breytingar eru í gangi og þess vegna yrði ekki mikið á mununum þegar upp yrði staðið að okkar mati. Með þessu viljum við alþýðubandalagsmenn undirstrika áherslur okkar í þessum efnum og þá tekjujöfnun og þá tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem við höfum í skattastefnu okkar viljað beita okkur fyrir. Það er auðvitað alveg ljóst að það þarf að gera hvort tveggja, jafna lífskjörin með tekjujafnandi tilfærslum í skattkerfinu og afla ríkissjóði tekna til þess að treysta grundvöll velferðarkerfisins á Íslandi. Velferðarkerfið verður ekki rekið nema fyrir tekjur nema menn sýni það ábyrgðarleysi að taka rekstur þess að láni í útlöndum eins og núv. ríkisstjórn gerir og við höfum þess vegna í tillögum okkar reynt að sýna ábyrgð og leggja til tekjuöflun á móti þeim tilfærslum sem við erum að leggja til. Félagar mínir, hv. þm. í Alþb., hv. þingmenn Svavar Gestsson og Kristinn H. Gunnarsson, leggja til aðrar breytingar sem lúta að lagfæringum m.a. á högum námsmanna og einstaklinga sem misst hafa maka sinn gagnvart skattlagningu eignarskatts. Þar eru á ferðinni lagfæringar á atriðum sem ekki kosta mikil útgjöld og breyta þess vegna ekki miklu í þessu heildardæmi skattatillagna okkar alþýðubandalagsmanna.
    Hæstv. forseti. Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta enda hafði ég lofað að ljúka máli mínu um sjöleytið. Ég held að þegar upp er staðið verði ekki sagt annað en þessi ríkisstjórn hafi á kjörtímabilinu ástundað hið argasta óréttlæti í skattamálum. Það hefur dregið í sundur í lífskjörum vegna skattastefnu stjórnarinnar. Hún hefur hyglað stóreigna- og hátekjufólki og gróðafyrirtækjum en lækkað skattfrelsismörk og aukið skattpíningu á almennum launamönnum í staðinn. Það er ömurleg stefna og ekki hægt að hafa um hana önnur orð en það. Hún er hins vegar í fullu samræmi við þá frjálshyggju, íhalds- og afturhaldsstefnu sem þessi ríkisstjórn gerði í upphafi að siglingaljósi sínu í anda úreltra frjálshyggjukenninga sem sem betur fer er alls staðar búið að kasta fyrir róða nema hér uppi á Íslandi, en það verður vonandi gert innan fárra mánaða í kosningunum 8. apríl nk.