Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 19:05:22 (3451)


[19:05]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka eiginlega fyrir hreinskilnina. Ég get alveg staðfest það að hv. þm. lýsti ýmsum efasemdum um þetta og það gerðu fleiri í efh.- og viðskn. án þess að rétt sé að orðtaka menn þar hingað, þá held ég að við séum ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli þó við segjum það að maður hafði þá tilfinningu að menn hefðu ekki djúpa sannfæringu fyrir því að þetta væri skynsamleg aðgerð. En málin eru einfaldlega í þeirri stöðu að ríkisstjórnin spilar þessu út og lofar þessu og bindur hendur manna, a.m.k. margra. Ég skil það því svo að stjórnarliðar hafandi þó ekki mikla sannfæringu fyrir því að þetta sé skynsamlegt telji sig bundna og eiga ekki annan kost nema einstöku menn sem af einhverjum kjarki og myndarskap rífa sig lausa. Ég segi alveg eins og er að ég hef haft þessa sömu tilfinningu og öll athugun á málinu gerir það að verkum að maður sannfærist um það. Ég er alveg viss um það að hvaða þingmaður sem er sem tæki eins og tvo daga í að kynna sér þessi mál og fara yfir gögn, ræða við forsvarsmenn lífeyrissjóða, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda og ræða við fagmenn á þessu sviði, þá sem þekkja til þessara mála, sannfærist á þeim tveimur dögum um það að þetta sé röng aðferð.
    Varðandi það að við flytjum ekki brtt. þá sagði ég reyndar í minni ræðu að ég hefði glímt við það að útfæra brtt. en það er bæði flókin tæknileg vinna og erfið, má segja, pólitísk ákvörðun að ákveða það að spila slíku út og þess vegna hef ég kynnt þær hugmyndir hér munnlega en ekki flutt þær sem brtt. Okkar meginósk er sú að málinu verði frestað og allir sameinist um það að gera pólitískt samkomulag um að fresta afgreiðslu málsins um sinn.