Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 20:45:00 (3457)

[20:45]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en með þessu frv. hefur ríkisstjórnin gefið þá yfirlýsingu að í því felist aðgerðir til kjarajöfnunar. Hér áðan töluðu hv. 11. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. og gagnrýndu ýmis ákvæði frv. þannig að ég get stytt mál mitt, en frv. var gagnrýnt við 1. umr. fyrir margra hluta sakir.
    Þegar þetta frv. var til 1. umr. var m.a. gagnrýnt að í því fælist lítil kjarajöfnun til láglaunahópanna í þjóðfélaginu og við meðferð málsins í efh.- og viðskn. hygg ég að flest það hafi verið staðfest sem ég og fleiri héldum fram í því efni við 1. umr. málsins. Það virðist sama hvar borið er niður í ákvæðum frv. Skattahagræðið sem í frv. felst skilar sér einkum til tekjuhæstu hópanna.
    Það sem mikið hefur verið gagnrýnt í þessu frv. og mikið var rætt í efh.- og viðskn. var sú aðferð sem hér er sett fram við það að afnema tvísköttun á lífeyri. Þessi aðferð hefur m.a. verið gagnrýnd af ASÍ og reyndar fleiri aðilum sem komu til fundar við nefndina. Þannig hefur ASÍ sett fram þá skoðun sína og stutt það rökum að sú aðgerð að 15% af útgreiddum lífeyri sé skattfrjáls skili sér best til hærra launuðu hópanna og reyndar mest til þeirra sem hæstan lífeyri hafa. Þannig segir í greinargerð ASÍ, með leyfi forseta:
    ,,Almennt er það þannig að í þeim sjóðum sem njóta ábyrgðar launagreiðenda er vægi framlags launafólks allnokkru minna en gildir í almennu lífeyrissjóðunum. Vægi framlags launafólks í greiðslum úr lífeyrissjóðunum er frá 17,4% á almenna markaðnum í um 4% í lífeyrissjóði ráðherra og tæplega 7% í lífeyrissjóði alþingismanna. Því mun þessi útfærsla á afnámi tvísköttunar færa þeim sem þegar búa að mun betri lífeyriskjörum en þorri almennings njóta þess til viðbótar að fá þennan skattaafslátt.``
    Síðan er sýnt fram á það í töflu hvernig þetta getur komið út fyrir lífeyrisþega, annars vegar þeirra

sem taka lífeyri úr SAL-sjóðunum, hins vegar þeirra sem taka lífeyri úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og síðan er til samanburðar Lífeyrissjóður ráðherra og alþingismanna. Þeir sem minnst fá út úr þessu skattahagræði sem hér er sett fram eru þeir sem taka lífeyri sinn úr SAL-sjóðunum en meðallífeyrir þeirra á ári er samkvæmt útreikningum ASÍ um 145 þús. og fá þeir út úr þessu skattahagræði 22 þús. Meðallífeyrir á ári úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er samkvæmt útreikningum ASÍ 544 þús. og frádrátturinn og skattahagræðið sem opinberir starfsmenn fá eru 82 þús. Síðan taka þeir samanburð af Lífeyrissjóði ráðherra og alþingismanna þar sem kemur mun meira skattahagræði út úr því. Auðvitað er hægt að taka fleiri til samanburðar en alþingismenn og ráðherra eins og bankastjóra og forstjóra opinberra stofnana sem koma mun betur út úr þessu skattahagræði en venjulegir launþegar sem taka lífeyri sinn hjá SAL-sjóðunum.
    Síðan hefur því verið haldið fram, sem ég held að sé með fullkomnum rökum, að með þessari leið sé farin ódýrasta leiðin í þessu efni en það er fyrst og fremst verið að ávísa á framtíðina og hafa útreikningar sýnt að með hverju árinu sem líður fram til ársins 2010 mun þessi skattaafsláttur aukast mjög verulega. Og það hefur reyndar verið sýnt fram á það og mjög glögglega fyrr í dag af hv. 4. þm. Norðurl. e. að það hefði verið mun skynsamlegra að skattahagræðið kæmi á inngreiðslurnar eða iðgjaldahlutann og það hefði verið gert í áföngum. Þó að það hefði verið dýrara fyrsta kastið þá jafnar það sig út í framtíðinni. Ég held því að með þessari leið sé í fyrsta lagi verið að ávísa verulega á framtíðina og í annan stað kemur þetta mjög ójafnt niður á hinum ýmsu lífeyrisþegum.
    Síðan er annar þáttur þessa máls. Með þessari leið er miðað við, eins og fram hefur komið, að þetta skattahagræði geti fólk ekki nýtt sér fyrr en við 70 ára aldurinn og það er vitað að margir taka lífeyri fyrr, eins og hér hefur verið bent á, bæði sjómenn og eins er hægt að taka lífeyri við 67 ára aldurinn. Og svo það sem mér þykir nú verst í þessu, að örorkulífeyrisþegar, sem hafa greitt sín iðgjöld eins og aðrir inn í sjóðina, fá ekkert skattahagræði samkvæmt þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar. Ég verð að segja það að mér finnst það mjög dapurlegt að ríkisstjórnin, sem kallar þessar aðgerðir kjarajöfnunaraðgerðir, skuli skilja eftir örorkulífeyrisþegana, sem þiggja lífeyri úr lífeyrissjóðum, þegar hún setur fram sínar aðgerðir til þess að afnema tvísköttun. Hér er um nokkuð stóran hóp að ræða, sem margir hverjir búa við mjög erfiðar aðstæður, þannig að það hefði verið fullkomlega réttlætanlegt að þessi hópur hefði einnig fallið þarna undir vegna þess að það má segja að hann hafi búið við tvísköttun eins og sá hópur sem er verið að veita þarna ákveðið skattahagræði.
    Virðulegi forseti, ég hef því leyft mér að flytja breytingu á þskj. 511, þar sem ég legg til að örorkulífeyrisþegar sem eiga réttindi í þeim lífeyrissjóðum sem um ræðir í 1. málsl. skuli einnig njóta sama skattahagræðis við útgreiðslu. Ég hef reynt að skoða hvað hér væri um háa fjárhæð að ræða. Ríkisstjórnin hefur áætlað að um 200 millj. muni það skattahagræði kosta sem hún leggur til með þessari leið, en miðað við það að taka örorkulífeyrisþegana inn líka þá hygg ég að það muni kosta um 75 millj. til viðbótar. Vissulega eru það peningar, virðulegi forseti, en þegar til þess er litið að ríkisstjórnin er að þynna út hátekjuskattinn þannig að ríkissjóður verður af 100 millj. á næsta ári, miðað við það sem ríkissjóður hafði á þessu ári í hátekjuskatt, þá sýnist manni að ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við sömu fjárhæð varðandi hátekjuskattinn á næsta ári þá hefði verið vel inni til fyrir því að afnema líka tvísköttun varðandi örorkulífeyrisþegana.
    Ég get því tekið undir margt af því sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. í þessu máli, að menn eiga eftir að lenda í erfiðleikum með þessa aðferð sem hér er lögð til og hefði kannski þurft lengri tíma til þess að skoða þetta mál þannig að þetta hefði ekki komið út með þeim hætti sem manni sýnist þessi leið koma út, þ.e. að mismuna mjög verulega og þeir fái út úr þessari aðgerð sem mest hafa fyrir, auk þess sem örorkulífeyrisþegar eru algerlega skildir eftir í þessari útfærslu ríkisstjórnarinnar.
    Sama gildir varðandi það sem ríkisstjórnin kýs að nefna ekknaskatt. Þar er verið að aflétta sköttum af stóreignafólki og hefur verið sýnt fram á það í þessari umræðu, í umfjöllun í nefndinni, í greinargerð ASÍ, að í flestum tilvikum er hér um stóreignafólk að ræða með miklar eignir. Ég hef sýnt fram á það og fengið um það útreikninga frá fjmrn. að stór hluti þess fólks sem greiðir þennan stóreignaskatt, sem ég vil kalla svo, sem nú á að létta af því, er með yfir 8 millj. kr. í tekjur og yfir 20 millj. kr. í nettóeign, skuldlausri eign. Og ef ríkisstjórnin telur sig hafa efni á því að létta sköttum af nokkur hundruð fjölskyldum, sem eru með 6, 7, 8, 9 og 10 millj. í tekjur og 15 og 20 millj. skuldlausar eignir, þá skilur maður ekki þá aðferð ríkisstjórnarinnar og það sem hún kallar kjarajöfnun, að veita þetta fjármagn ekki frekar til þess að bæta stöðu lífeyrisþega eða þá t.d. að hækka barnabótaaukann. Þannig að þetta er allt á sömu bókina lært hjá ríkisstjórninni, að hvert ákvæðið á fætur öðru í þessu frv. tryggir betur hag þeirra sem betur höfðu það fyrir.
    Reyndar er það svo, virðulegi forseti, að ASÍ hefur í sinni greinargerð að verulegu leyti tekið undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á frv. og vil ég vitna til þess, með leyfi forseta. En í greinargerð ASÍ segir:
    ,,Þannig hafa þessar tillögur engin áhrif á afkomu þeirra sem eru allra tekjulægstir og eignaminnstir. Hækkun persónuafsláttar um 500 kr. bætir ekki afkomu þeirra sem eru undir skattleysismörkum. Hins vegar lækkar skattbyrðin með hækkandi tekjum og meiri eignum. Þannig fá einstaklingar með 250 þús. kr. tekjur á mánuði um 1.750 kr. lækkun á sköttum á mánuði og ef þeir eiga 15 millj. kr. skuldlausa eign yrði skattalækkunin tæplega 4.900 á mánuði. Gagnvart hjónum með 500 þús. kr. tekjur á mánuði eru þessar

fjárhæðir tvöfaldar eða frá 3.500 til tæplega 9.800 kr. á mánuði.``
    Sem sagt, þeir sem eru með 500 þús. kr. tekjur fá í þessu skattahagræði eða skattatillögum ríkisstjórnarinnar um 9.800 kr. á mánuði meðan aðrir fá ekki nema 500 kr. eða 1.700 kr. eins og hér er sagt og þeir sem eru undir skattleysismörkum fá ekki neitt.
    ASÍ segir hér: ,,Mælt sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, þ.e. eftir skatt, vegur þessi skattalækkun 3% á mánuði gagnvart 0% hjá þeim tekjulægstu. Því má segja að skattalækkunin nái sérstaklega til stóreignafólks með verulegar tekjur og það er ekki með nokkru móti hægt að tengja það hugtakinu ,,kjarajöfnun``.``
    Síðan hefur ASÍ sett fram töflur þar sem fram kemur mjög skýrt að einstaklingur t.d. með 100 þús. kr. fær hér 500 kr. í lækkun á skattbyrði. Einstaklingur með 250 þús. kr. fær 4.875 kr. í lækkun á skattbyrði. Hjón með venjulegar eignir með 500 þús. í tekjur fá 3.502 kr. í lækkun á skattbyrði og hjón með 30 millj. kr. hreina eign og 500 þús. kr. í tekjur fá auðvitað mest samkvæmt þessum tillögum ríkisstjórnarinnar eða tæpar 10 þús. kr.
    Virðulegi forseti. Varðandi ekknaskattinn vil ég segja að það hefur verið sýnt fram á að þetta sé stóreignaskattur. Ég vil líka vísa til þess að það eru ákvæði í 66. gr. skattalaga sem heimila ívilnanir, af því að hér hefur verið nefnt að þetta sé ekknaskattur, þ.e. lækkun á eignarskatti, ef gjaldþol skerðist verulega vegna fráfalls maka. Þetta er í 80. gr. skattalaga, að það er heimild til þess að lækka eignarskatt verulega ef gjaldþol skerðist verulega vegna fráfalls maka. En það eru fáir sem virðast vita um þetta ákvæði vegna þess að það voru einungis sex einstaklingar á landinu öllu sem leituðu eftir að fá niðurfellingu eða lækkun á sínum gjöldum vegna þessa ákvæðis. Ég tel að það ætti þá að kynna þetta ákvæði betur ef svo er að einhverjir einstaklingar koma illa út úr þessu varðandi það sem ríkisstjórnin kallar ekknaskatt.
    Ég nefni enn fremur að það er ákvæði í skattalögum sem heimilar það að við fráfall maka skattleggist eftirlifandi maki eins og um hjón væri að ræða í fimm ár og með þeirri tillögu sem hér hefur verið lögð fram af hv. 5. þm. Vestf. og hv. 9. þm. Reykv., þar sem fimm árin eru felld brott, þá er náttúrlega augljóst að það eru engar forsendur til þess að kalla þetta ekknaskatt.
    Nokkur orð um hækkun skattfrelsismarka. Það er ljóst að hér hefur verið beitt nokkurri reiknileikfimi varðandi það mál og einungis er um að ræða 500 kr. hækkun á persónuafslætti fram yfir venjulegar verðlagsbreytingar. Ég hef sagt það, virðuleg forseti, að ef í þetta fara 1.500--1.600 millj. kr. þá hefði verið skynsamlegra að nýta þetta fjármagn með öðrum hætti. Ég held og hreyfði því reyndar í efh.- og viðskn. og spurði fulltrúa launþega að því, t.d. fulltrúa ASÍ, hvort það væri ekki tímabært að skoða það að persónuafsláttur yrði stighækkandi þannig að sama krónutöluhækkunin rynni ekki upp eftir öllum launastiganum þannig að maðurinn með 60--70 þús. kr. fengi það sama í persónuafslátt og sá sem væri með 500 þús. eða 1 millj. Ég heyrði ekki betur á fulltrúum ASÍ heldur en að þeir teldu þetta athyglisverða hugmynd sem þyrfti að skoða og í ljósi þess að við höfum þá staðreynd fyrir framan okkur að það að hækka skattleysismörkin úr 57 þús. í 71 þús. kr. kostar um 12 milljarða kr. þá hljóta menn að staðnæmast við það hvort ekki sé tímabært að skoða það að persónuafslátturinn sé tekjutengdur.
    Ég sýndi fram á það, virðulegi forseti, við 1. umr. málsins og hef látið Þjóðhagsstofnun reikna það út að ef sú fjárhæð sem fer núna til hækkunar á persónuafslættinum hefði verið nýtt eingöngu til hópa undir 150 þús. kr. þá hefði breyting á tekjuskatti og útsvari þessa hóps eða lækkun á tekjuskatti og útsvari orðið 22,4% í staðinn fyrir 11,7%, ef þessari fjárhæð hefði alfarið verið varið til tekjulægstu hópanna. En þessa hugmynd virðist ekki fá ( Landbrh.: Hvað er það í krónum talið þessi 22%?) Þetta er í krónum talið, hæstv. landbrh., þá erum við að tala um að skattleysismörkin samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar hefðu farið í 59 þús. kr., en með þessari tillögu hefðu þau einungis gengið til fólks með tekjur undir 152 þús. að þá hefði þetta verið um 62 þús. kr. þannig að við erum ekki að tala um háar fjárhæðir. Við erum að tala um þó 3 þús. kr. hækkun á skattleysismörkunum, 3 þús. kr. hærra heldur en er í tillögum ríkisstjórnarinnar. Og það sem ég er að reyna að sýna fram á, hæstv. landbrh., að ef við erum með takmarkaða fjármuni er þá einhver skynsemi í því að láta þessa hækkun á skattleysismörkunum, þessar 500 kr., fara upp allan launastigann til fólks með 500 þús., 700 þús. og 1 millj. í tekjur í stað þess að nýta alla fjárhæðina til tekjulægstu hópanna. Og ég held satt að segja að það komi að því að menn fari að hugleiða þessa leið. Allir tala fyrir því að það þurfi að hækka hér skattleysismörkin. Menn vita hvað þetta kostar marga milljarða ef þetta á að fara upp allan launastigann þannig að menn hljóta að fara að staðnæmast við að skoða slíka leið sem ég hef hér talað fyrir.
    Það hefur verið rætt hér nokkuð um fjármagnstekjuskattinn og það er alveg ljóst að það sem ég hélt nú satt að segja að ríkisstjórnin mundi láta verða sitt verk á síðasta ári kjörtímabilsins, að koma hér á fjármagnstekjuskatti, ætlar ekki að verða raunin. Það virðist vera svo að það sé sett af stað enn ein nefndin, önnur eða þriðja nefndin, til þess að skoða fjármagnstekjuskatt og alveg ljóst að Alþfl. sem lagði mikla áherslu á fjármagnstekjuskattinn og ályktaði um það á flokksþingi í sumar að þessi skattur skyldi koma á sl. haust, það gengur ekki eftir og Alþfl. virðist þurfa að sætta sig við það að málið verði áfram látið liggja í nefnd. Ég held að sú tillaga að breikka eignarskattsstofninn þannig að peningalegar eignir falli líka undir eignarskattsstofninn geti skilað verulegum fjármunum. Um er að ræða kannski 2,2 milljarða. Þar er um að ræða ákveðið fríeignarmark og ef menn vilja hækka það fríeignarmark þá yrði eitthvað heldur minna til ráðstöfunar, en þetta er leið sem auðvelt hefði verið að koma á um áramótin ef vilji hefði verið fyrir hendi.

    Ég er lítið hrifin af þeirri leið sem verkalýðshreyfingin hefur talað fyrir sem er þessi 10% nafnvaxtaskattur þar sem ekkert frítekjumark er, tel að hann muni einungis leggjast á venjulegan sparnað fólks en tel að þessi leið hefði verið vel fær og þá hefði verið fjármagn til ráðstöfunar til raunverulegrar kjarajöfnunar.
    Ég tel líka að það hefði þurft að skoða það að ónýttur skattaafsláttur barna væri millifæranlegur. Einstæðir foreldrar sérstaklega sem ekki geta nýtt sér skattahagræðið sem er hjá hjónum um millifæranlegan persónuafslátt geta ekki notið þess að nýta ónýttan persónuafslátt barna og tel ég það mikið réttlætismál sem sé rétt að skoða. Og af því að ég nefni hér fjármagnstekjuskattinn þá finnst manni mjög skrýtið þegar verið er að afnema stóreignaskattinn að það sé gert áður en fjármagnstekjuskattur verður lagður á.
    Virðulegi forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. Ég hef lýst þeirri brtt. sem ég flyt varðandi örorkulífeyrisþegana. Ég held að hér sé um að ræða 75 millj. kr. eftir því sem ég hef komist næst. Ég veit að stjórnarandstaðan hefur lagt mikla áherslu á það og reynt að þrýsta því fram að fá stjórnarliða til að fallast á þá brtt. en ég tel að hér sé um mikið sanngirnismál að ræða sem hefði átt að falla með þessari aðferð sem ríkisstjórnin leggur hér til. Ég legg til einnig í brtt. á þskj. 511 eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Ríkissjóður skal greiða bætur til þeirra námsmanna er eiga rétt á eftirágreiddum námslánum hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Bæturnar skulu nema sem svarar 80% af lántökukostnaði sem þeir hafa þurft að greiða vegna lána hjá bönkum eða sparisjóðum fram að útborgunardegi námslánsins. Lán, sem myndar bótarétt samkvæmt þessari grein, getur aldrei numið hærri fjárhæð en viðkomandi námsmaður á rétt á samkvæmt reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna hverju sinni. Lækkun á tekjuskattsstofni framfærenda skv. 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. skerðir ekki rétt námsmanns samkvæmt þessari grein.``
    Ég held að það sé alveg ljóst að þessar eftirágreiðslur hafa verulega þyngt greiðslubyrði hjá námsmönnum og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið í því efni þá getur þessi vaxtabyrði orðið á bilinu 20--50 þús. kr. Þegar þessari breytingu var komið á á sínum tíma voru um hana deildar meiningar milli stjórnarflokkanna. Þetta var mjög tekið fyrir í Alþfl. á sínum tíma, m.a. á flokksþingi þar sem niðurstaðan varð að eftirágreiðslurnar yrðu skoðaðar sérstaklega og hvernig mætti létta greiðslubyrði hjá námsmönnum vegna þess, en ég hef ekki orðið vör við að út úr því hafi komið neitt. En námsmenn þurfa að sæta því að vegna lána sem þeir þurfa að taka vegna þessa fyrirkomulags þá þurfa þeir að bera yfirdráttarvexti á tékkareikningi sem getur orðið mjög mikið ef lánin eru há.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara frekar yfir þetta mál. Ég fór mjög ítarlega yfir þessa þætti frv. við 1. umr. og lýk því máli mínu.