Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 21:10:00 (3458)


[21:10]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Eins og ég skildi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þá vill hún nokkuð breyta fyrirkomulagi um skattleysismörkin. Ég skildi hv. þm. svo að í þessum breytingum fælist nokkur þynging á sköttum á fólki sem er á tekjubilinu 150--160 þús. kr. en á hinn bóginn liggur ekki fyrir brtt. frá hv. þm. í þessa veru. Ég sé að hv. þm. hefur lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt. Þar er heldur ekki minnst á þetta en gengið út frá því að fyrirkomulag persónuafsláttar verði með allt öðrum hætti en hv. þm. var að lýsa hér. Mig langar því til að spyrja hv. þm. hvort hann ætli að flytja brtt. í anda sinnar ræðu svo að þingmenn geti áttað sig á því hvað hann er að fara.