Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 22:04:47 (3467)

[22:04]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Í ræðu minni í gær í umræðum um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 gerði ég að umræðuefni það sem snýr að brtt. hv. efh.- og viðskn. og þá sérstaklega 2. lið sem er um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Ég fór allítarlega yfir það í gær að ég óttaðist mjög að hér væri unnið á allábyrgðarlausan hátt og síðan hefur mér gefist tækifæri til að fara nánar ofan í þetta frv. Það hefur auðvitað staðfest það sem ég hélt að með húsaleigubótum getur vel svo farið að í mörgum tilvikum skaðist lífeyrisþegar við að taka húsaleigubætur. Hér er um það að ræða að þegar verið er að hrófla við flóknum lagabálki eins og lög um almannatryggingar eru og setja þau í samspil við bætur frá sveitarfélögum þá sjást menn ekki fyrir. Það sem blasir við er og ég ætlast kannski ekki til að fólk eigi gott með að setja sig inn í það sem ég segi nú, en ég vona að það sé það skýrt að það skiljist, en það liggur fyrir að fái lífeyrisþegi húsaleigubætur frá sveitarfélaginu svo að mánaðartekjur lífeyrisþegans fara yfir 57 þús. kr. á mánuði þá er hann kominn í skatt og greiðir 42% af þessum tekjum í skatt. Séu einhverjar aðrar tekjur en tryggingabætur yfir upphæðinni 18 þús. kr. á mánuði, t.d. styrkur frá sveitarfélaginu eða húsaleigubætur, þá skerðast tekjur hans um 45% af þessum umframtekjum. Þá fær lífeyrisþegi ekki lengur afnotagjald af síma greitt en til þess þarf hann að hafa óskerta tekjutryggingu en nú hefur tekjutryggingin skerst. Þar til upplýsingar skal bent á að orðið tekjutrygging kemur tæplega fyrir í þessum texta heldur er þetta kallað uppbót sem er reyndar gamalt orð yfir tekjutryggingu. Það er mjög villandi og eðlilegt að fólk misfari sig á þessum tveimur orðum. Til þess að koma í veg fyrir að lífeyrisþegar skerðist í tekjum við að taka húsaleigubætur þá verður að bæta inn í c-lið 2. brtt. efh.- og viðskn. orðunum ,,frá sveitarfélagi`` þannig að greinin orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,    Ef aðrar tekjur ellilífeyrisþega en lífeyrir almannatrygginga, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og húsaleigubætur frá sveitarfélagi . . . `` því ef það stendur ekki þá koma þær inn eins og aðrar tekjur og skerða þar með svo að um munar það sem lífeyrisþeginn hefur á mánuði sér til framfærslu.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, skerðist tekjutrygging eða það sem hér er kallað uppbót vegna húsaleigubóta. Þá skerðist fleira. Þá skerðist heimilisuppbót einnig og nú krónu fyrir krónu í stað þess að áður skertist hún á sama hátt og tekjutrygging. Og þá fellur að sjálfsögðu sérstök heimilisuppbót líka niður. Uppbót á lífeyri sem greidd hefur verið hafi lífeyrisþegi nær engar aðrar tekjur haft en tryggingabætur, m.a. vegna húsaleigu, lyfjakostnaðar o.fl., ef þetta fellur einnig niður, þá missir lífeyrisþeginn ókeypis afnot af útvarpi og sjónvarpi. Í nefndaráliti hv. efh.- og viðskn. segir neðst á fyrstu blaðsíðu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í sambandi við þessar breytingar vill meiri hlutinn taka sérstaklega fram að ekki er ætlunin að skerða rétt þeirra bótaþega sem eiga rétt á niðurfellingu á afnotagjaldi útvarps og sjónvarps, sbr. 2. mgr. 24. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985 (18. gr. rgl. nr. 35/1986, sbr. rgl. 478/1986). Nauðsynlegt verður að endurskoða framkvæmd þessara mála í kjölfar þess að farið verður að greiða húsaleigubætur í stað uppbótar á lífeyri til þeirra er greiða háa húsaleigu.``
    Hvað þýðir þetta? Það þýðir að þeir sem hafa fengið uppbót hjá Tryggingastofnun ríkisins, og nú eru menn að tala um uppbót sem er sérstakur bótaflokkur en ekki tekjutryggingu, þá hlýtur það að vera ætlunin að fara í hvert þeirra milli 2 og 3 þús. mála sem liggja hjá Tryggingastofnun ríkisins og tína út þá sem hafa haft uppbót vegna húsaleigu, en menn hafa síðan fengið og áreiðanlega miklu fleiri uppbót vegna mikils lyfjakostnaðar og annars slíks. Þá stendur til að vegna húsaleigubóta falli uppbót þeirra sem fengu uppbótina vegna húsaleigu niður og þar með er fallinn rétturinn til ókeypis útvarps- og sjónvarpsafnota.
    Það liggur í eðli máls að einhver skoðun nefndarinnar í nefndaráliti hefur enga þýðingu. Ríkisútvarpið greiðir ekki niður útvarp og sjónvarp nema samkvæmt útvarpslögum og þau kveða svo á að þeir sem njóta uppbótar á lífeyri þurfi ekki að greiða afnotagjald af útvarpi og sjónvarpi. Það liggur því alveg fyrir að til þess að þetta hafi einhverja þýðingu verður að breyta útvarpslögunum. Það segir enginn Ríkisútvarpinu að fara að greiða þetta eftir allt öðrum reglum en lög kveða á um svo að það liggur alveg á borðinu að þessar þúsundir missa réttinn til útvarps og sjónvarps.
    Virðulegi forseti. Ég veit að þetta er ósköp leiðinleg lesning og sennilega óskiljanleg öllu venjulegu fólki þó að þetta sé harla skýrt þannig séð en þetta segir okkur náttúrlega ekkert annað en það að það verður í brtt. --- hér kemur formaður hv. efh.- og viðskn. og má greinilega ekki vera að því að hlýða á mál mitt og það þykir mér afar miður vegna þess að ég held að hann sé maðurinn sem þarf að hlýða á það. Ég vil nú spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé einhver leið að einhver úr efh.- og viðskn. hlusti á mál mitt af því að ég vil taka fram að ég hef farið yfir þetta í dag aftur með starfsfólki Tryggingastofnunar þannig að það er enginn vafi á því að það sem ég er að segja er rétt. Þess vegna er alveg nauðsynlegt áður en kvöldið er úti að nefndin verði búin að skoða þetta mál.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess að formaður efh.- og viðskn. verði hér í salnum.)
    Annars hefur auðvitað mál mitt enga þýðingu. Mér leiðist heldur að vera að tala einungis til þess að það verði skráð í þingtíðindi. Ég held að hér sé um mikilvægt mál að ræða sem varðar þúsundir lífeyrisþega og ég er alveg sannfærð um að enginn á hinu háa Alþingi er á þeirri skoðun að það beri að stórskerða kjör ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Ég er alveg sannfærð um það að samþykki menn frv. eins og það liggur fyrir þá eru þeir að gera það án þess að ætla það. Þess vegna vil ég endilega að þessi leiðrétting komist á framfæri. Það er hægt að bjarga þessu með því að færa inn í frv. þegar talað er um húsaleigu, ,,húsaleigu frá sveitarfélagi``. Þar með er tryggt að það skerði ekki tryggingabætur. Menn hafa afgreitt þetta þannig, þessar athugaemdir mínar að í 2. brtt. lið a og b, segir:
    ,,Til tekna í þessu sambandi teljast ekki bætur almannatrygginga, tekjur úr lífeyrissjóðum, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða húsaleigubætur.`` En það verður að standa húsaleigubætur frá sveitarfélagi því að húsaleigubætur frá Tryggingastofnun, það er alveg ljóst að þær skerða ekki greiðslur, en um leið og það er orðin greiðsla frá sveitarfélagi, þá skerðir það tryggingabætur og reytir af lífeyrisþegum öll þau réttindi og hlunnindi sem þeir hafa. Það er þetta sem ég hef reynt að segja án þess að það sýnist vera mikill áhugi á því að hlýða á það mál mitt. Ég veit ekki hvað gera skal. Ég bað hér í gær um að hæstv. heilbr.- og trmrh. yrði viðstaddur og hann var það. Ég beindi þessum spurningum til hans í gær og hann virtist ekki vera fær um að svara því. Þannig stendur málið. En ég get alveg fullvissað hv. alþingismenn um að verði þetta samþykkt svona er ég ansi hrædd um að þegar greiðslur koma til lífeyrisþega í næsta mánuði bregði mönnum heldur betur í brún þannig að þetta nær ekki nokkurri einustu átt.
    Og rétt að lokum, ég er orðin úrkula vonar um að nokkur nenni að hlýða á þetta mál mitt, en nái þetta fram að ganga svona þá liggur það hreinlega fyrir að taki lífeyrisþegi, sem ekki hefur annað en tryggingabætur til að lifa af, húsaleigubætur og þær eru frá sveitarfélaginu þá fer hann að borga 42% skatt af tekjum sínum sem hann gerir ekki annars og bætist við, hafi maðurinn einhverjar smáupphæðir, segjum t.d. einhverjar litlar tekjur eins og margir öryrkjar reyna að vinna sér inn, einhverjar krónur, nái þetta 18 þúsund kr. á mánuði þannig að tekjurnar yrðu 68 þús. á mánuði, og við vitum öll hvað er hægt að gera mikið við það nú til dags, þá er maðurinn farinn að skerðast um 45% af þeim tekjum og þar með er hann farinn að borga stóran hluta af þessu til baka. Og ég vil nú biðja hæstv. forseta úr því að enginn úr nefndinni getur lagt það á sig að vera hér --- nú sé ég að hér er staddur hv. 6. þm. Norðurl. e. og ég vænti þess að hann skilji um hvað ég er að tala. Ég vil taka það fram að ég kallaði til mín í dag deildarstjóra upplýsingadeildar í Tryggingastofnun ríkisins. Það vill nú svo til að ég var forveri hennar í starfi og ég hygg að við eigum það sameiginlegt að vita nokkuð um tryggingalöggjöfina, allt þetta staðfesti hún í dag og síðdegis í dag var síðan hringt í mig frá ríkissjónvarpinu. Fréttamenn þar höfðu sest niður og reiknað út dæmi, ég hygg að þær fréttir gætu komið núna kl. 11 í kvöld, og komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu, að það gæti verið til stórskaða fyrir lífeyrisþega að taka húsaleigubætur frá sveitarfélaginu. Þá hljótum við að spyrja: Til hvers er þá þessi leikur gerður? Það er ekki svo auðvelt, virðulegi forseti, eins og ég sagði áðan að fara inn í jafnflókið kerfi og almannatryggingalöggjöfin er án þess að gerþekkja það og síst af öllu þegar á svo að fara að slá því saman við aðstoð frá sveitarfélagi sem er allt annar hlutur og lýtur allt öðrum reglum. Af því að ég held að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi ekki verið hérna við upphaf ræðu minnar þá sýnist mér, og ég hef borið það undir fólk sem er mér enn betur að sér um þetta sem er sú manneskja sem annast upplýsingar til bótaþega hjá Tryggingastofnun ríkisins, að þessum vandræðum mætti bjarga með því að bæta við í brtt. hv. efh.- og viðskn. þar sem stendur: ,,félagslega aðstoð eða húsaleigubætur``, það þurfi að standa ,,frá sveitarfélagi`` því að þá á málið í raun og veru að vera í lagi. Hið sama gildir í lið c. Þetta þarf að vera í 2. brtt. lið a, b og c. Þá sýnist mér að þetta eigi að vera í lagi. Og það getur varla verið ofverk nefndarinnar að bjarga þessu áður en nóttin er úti þannig að þetta verði ekki samþykkt svona eins og það liggur fyrir.
    Ég bar fram spurningar í gær og ég vil upplýsa það að ég hef fengið svör við þeim, að vísu ekki hjá þeim sem ég spurði sem var hæstv. heilbrrh. Ég spurði hvað teldist til tekna þar sem segir: Ekki aðrar tekjur en og spurði um meðlag vegna þess að það má segja að það séu ekki tryggingabætur og það mun ekki koma fram sem tekjur. Það er alveg ljóst og ég hef þess vegna ekki áhyggjur af því lengur. En þetta hef ég reynt að útskýra, hæstv. forseti, og vænti þess að hv. nefnd leggi það á sig og ég er fús til þess að hitta nefndina og halda þá ræðu mína enn á ný. Annað get ég ekki um þetta sagt.