Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 23:55:13 (3473)

[23:55]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að það hefur komið fram að hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að skerðingin á fé Framkvæmdasjóðs fatlaðra miðast við fjárlagatöluna en ekki þá tölu sem endanleg kann að vera í reikningum sjóðsins þegar erfðafjárskatturinn hefur verið gerður upp. Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna ársins 1994 þar sem fjárlagatalan segir eitt en niðurstaða erfðafjárskattsins er sú að hann hvorki meira né minna en 50 millj. kr. hærri en um er að ræða í fjárlögum þess árs og gert er ráð fyrir í fjárlögum þess árs. Þess vegna ber að líta svo á að á þessu ári sé þessi 50 millj. kr. tala frí við við þessa skerðingu af því að hún miðast eingöngu við fjárlagatöluna og þannig hefur Framkvæmdasjóður fatlaðra alla þessa fjármuni. Það er mjög mikilvægt að það liggi hér fyrir frá hæstv. fjmrh. eða ég skil hann á þennan veg.
    Í annan stað þakka ég honum fyrir þau svör sem fram komu hjá honum að öðru leyti. Ég vil aðeins segja að það er náttúrlega ljóst að það er mjög illa farið með Þjóðarbókhlöðuna á árinu 1995 í fjárveitingum til rekstrar og ríkissjóður leggur sáralítið til hennar á næsta ári umfram það sem á þessu ári er veitt til Landsbókasafnsins og Háskólabókasafnsins. Það sem fer til Þjóðarbókhlöðunnar umfram það tvennt: Það eru annars vegar peningar af þessum sérstaka eignarskatti og hins vegar peningar af hinum fjársvelta Háskóla Íslands þannig að í raun og veru eru svör fjmrh. í þeim efnum að mínu mati fullkominn kattarþvottur.