Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 00:05:06 (3478)


[00:05]
     Steingrímur J. Sigfússon (frh.) :
    Hæstv. forseti. Það mun svo vera að ég hafi verið í miðri ræðu um þetta mál fyrir nokkru síðan þegar hlé var gert á fundi og ég varð góðfúslega við beiðni um að fresta máli mínu. En síðan hefur nokkurt vatn til sjávar runnið og ber það m.a. til að hæstv. fjmrh. hefur flutt brtt. og mælt fyrir þeim og ég vil byrja á því að fagna þeim tillögum og því samkomulagi sem þær vísa til og tvímælalaust munu þær breytingar greiða fyrir framgangi málsins hér á þingi svo að ekki sé meira sagt.
    Þær fela í sér tvennt sem hvort tveggja er til mikilla bóta varðandi afgreiðslu málsins. Það er í fyrra lagi að fallið er frá því vanhugsaða ráði að leggja niður embætti héraðslækna í Reykjavík og í Norðurl. e. og hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að þau embætti verði tekin með sama sniði á næsta ári og verið hefur og hann muni sjá til þess að til þess verði veitt fjármunum þannig að rekstur embættanna geti orðið með eðlilegum hætti á næsta ári. Þar með gefst tóm til að skoða starfsemi þeirra og endurmeta þau mál og ég fagna því.
    Í öðru lagi, og er það ekki síður mikilvægt, flutti hæstv. fjmrh. brtt. varðandi ákvæði um skerðingu á framkvæmdafé flugmálaáætlunar sem hljóðar upp á að heimildir til að ráðstafa fé flugmálaáætlunar, þ.e. af hinum mörkuðu tekjustofnum, til annarra hluta en framkvæmda eru takmarkaðar og bundnar við tiltekin verkefni, nánar tiltekið að kosta snjómokstur og viðhald flugvalla og tækja. Þar með er það ekki lengur svo eins og upphafleg ákvæði frv. voru að um sé að ræða flata skerðingu á tekjum flugmálaáætlunar óskilgreint í rekstur Flugmálastjórnar. Með slíku fyrirkomulagi væri auðvitað opið fyrir það að hækka slíka skerðingu út í það óendanlega næstum að segja þar sem ljóst er að rekstur Flugmálastjórnar með kostnað upp á hundruð millj. kr. gæti ef svo ber undir þurrkað að mestu leyti hina mörkuðu tekjustofna.
    Þar til viðbótar lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að ekki yrði gengið lengra gagnvart þessari skerðingu á næsta ári en allt að 40 millj. kr. þannig að það er í öllu falli ljóst að þetta bætir stöðu flugmálaáætlunar, þ.e. framkvæmdanna, um a.m.k. 30 millj. kr. á næsta ári og sannarlega munar um það þó að auðvitað hefði ekki veitt af þessum framkvæmdalið óskertum.
    Þannig var nú, hæstv. forseti, að ég var einmitt í miðri ræðu um flugmálaáætlun og hafði viðað að mér nokkrum litteratúr eins og sjá má hér um það mál og hafði hugsað mér að gera nokkuð rækilega grein fyrir stöðu flugmálaáætlunar, fara yfir hina upphaflegu flugmálaáætlun og hvernig mál hefðu fram þróast á þessu 6--7 ára tímabili sem síðan væri liðið. En ég held að ég geti ekki annað í krafti þess samkomulags sem felst í brtt. fjmrh. og er til að liðka fyrir framgangi málsins en að leggja þann litteratúr að mestu leyti til hliðar svo ágætur sem hann annars er og fróðlegur og látið að mestu leyti niður falla flutning á þessum síðari helmingi ræðu minnar sem átti aðallega að vera um stöðu og framkvæmd flugmálaáætlunar. Nú geri ég náttúrlega ráð fyrir því að þessi seinni helmingur ræðunnar verði ýmsum harmdauði, þ.e. menn gráti þá ræðu sem hér var aldrei flutt. En það verður þá að hafa það og vísast til tímans sem við höfum til að ljúka hér afgreiðslu mála og þess vilja að greiða fyrir því að þingstörfum megi ljúka á þessari nóttu.
    Sem sagt, hæstv. forseti. Ég fagna þessari niðurstöðu og tel þetta vera til bóta og lýsa vissum vilja til þess að menn mætist hér á miðri leið varðandi a.m.k. einhver af þeim ágreiningsefnum sem hér hafa verið uppi við afgreiðslu mála á undanförnum sólarhringum og það ber að virða slíkt og með vísan til þess fell ég að öðru leyti frá orðinu.