Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

72. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 00:10:28 (3479)


[00:10]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er á mörgum stöðum borið niður í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og margt sem ástæða væri til að gera að umtalsefni og jafnvel alvarlegar athugasemdir við en ég vil afmarka mig við fáein atriði og vísa að öðru leyti til málatilbúnaðar stjórnarandstöðunnar í þessu máli fram til þessa.
    Ég vil í fyrsta lagi minna á að sum af þeim ákvæðum sem hér eru í frv. eru ekki einvörðungu bundin við árið 1995 eins og heiti frv. gefur skýrt til kynna en frv. heitir Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995. Forseti kvað í gær upp úrskurð hvað varðaði þau mál sem mætti blanda saman í einu frv. og væru óskyld að efni. Sá úrskurður grundvallaðist á þeim skilningi að efnisafmörkun frv. yrði að ráðast af tilgangi þess sem kæmi fram fyrst og fremst í heiti frv. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að í frv. sem hér er til umræðu hafa menn gengið lengra en úrskurður forseta gefur til kynna að rétt væri. Menn hafa í sumum greinum frv. lagt til skerðingar sem eiga að verða varanlegar og standa um aldur og ævi þar til þeim verður breytt. Það er ekki það sem frv. heitir og annaðhvort verða stjórnarliðar að gera að mínu viti að breyta heiti frv. eða taka út úr frv. þau ákvæði þess sem ekki eru bundin við árið 1995 einvörðungu.
    Mér finnst það ekki vera stjórnarliðum til sóma að hræra saman breytingartillögum með þessum hætti án þess að gera þá sérstaklega grein fyrir því og auðvitað ættu þeir að hafa þær tillögur sem ætlað er að standa til lengri tíma í sérstöku frv. sem gæti þá verið frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum til lengri tíma. Mér finnst að stjórnarliðar hafi borið þetta mál þannig fram að þeir séu vísvitandi að reyna að plata þingmenn, láta þess ekki getið að hér sé um að ræða breytingar sem eiga að standa í lengri tíma. Ég hef ekki orðið var við það þó að ég hafi hlýtt hér grannt á umræður að þetta hafi verið sérstaklega tekið fram eða þess getið í framsögu fyrir málinu að sumar tillagnanna væru ekki afmarkaðar við 1995 einvörðungu og mér finnst það miður og flm. ekki til sóma að tala ekki skýrt í þessu efni og á engan hátt í samræmi við heiti málsins.
    Það vil ég nefna sérstaklega breytingarnar á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum sem er að finna í 8. og 9. gr. frv. en það er greinilegt á því sem menn hafa náð fram í umræðum um það atriði að stjórnarliðið er með breytingar til lengri tíma, ekki bara fyrir árið 1995. Og það á líka við um fleiri greinar eins og ég hafði gert athugasemdir um í gær í upphafi umræðna þá og tel óþarft að endurtaka nú.
    Ég vil aðeins staldra við breytingarnar á lögunum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því að tillögur stjórnarliða eins og þær eru nú eftir fram komnar brtt. fjmrh. eru þannig að það er engin afmörkun á því hversu hátt hlutfall af mörkuðum tekjustofnum má renna til viðhalds eða annars reksturs heldur er það algerlega opið. Það kemur hvergi fram í frv. að það eigi að afmarkast við 70 millj. kr. af mörkuðum tekjustofnum eða 40 millj. kr. Það kemur hvergi fram í brtt. að afmörkun eigi að vera á nokkurn hátt þarna á milli árið 1995 og reyndar síðari ár. Með þessu eru þingmenn að opna það alveg upp á gátt að hægt sé að flytja fé úr framkvæmdaáætlun yfir í rekstur eða með öðrum orðum að lækka framlag ríkissjóðs til flugmála og nota fé sem annars á að fara til framkvæmda í að borga þann rekstur sem við höfum í dag gert ráð fyrir með flugmálaáætlun að ríkissjóður legði til. Með þessu eru stjórnarliðar að setja nýsetta flugmálaáætlun algerlega í uppnám. Flugmálaáætlun sem gildir fyrir árin 1994--1997. Þeir hafa upplýst það að áform þeirra fyrir næsta ár séu að skerða framkvæmdir um 40 millj. kr. og ég vil spyrja flutningsmennina sem ættu þá fyrst og fremst að vera hæstv. fjmrh. og væntanlega hæstv. samgrh. og vænti að ráðherrann svari þeim spurningum sem til hans er beint: Hvaða framkvæmdir samkvæmt flugmálaáætlun á að skera niður á næsta ári upp á samtals 40 millj. kr.? Hæstv. viðskrh. sem hér kom í gættina mætti svara því líka: Á t.d. að skera niður framkvæmdir á Patreksfirði á næsta ári, sem eiga að kosta nákvæmlega 40 millj. kr., að setja bundið slitlag á flugvöllinn þar? Eru það áform ríkisstjórnarinnar að bera enn niður á nauðsynlegum framkvæmdum í samgöngumálum á landsbyggðinni og skera þar niður? Þegar menn gera tillögu um það að taka fé sem búið er með samþykkt Alþingis að ráðstafa til framkvæmda og minnka það, þá verða menn líka að segja hvað það er sem menn ætla að skera niður --- og kemur nú hæstv. samgrh. og spyr ég hann: Hvaða framkvæmdir á næsta ári, sem eru hér í flugmálaáætlun, á að skera niður upp á samtals 40 millj. samkvæmt upplýsingum frá hæstv. fjmrh.? Og ég spyr líka: Hver eru áform ríkisstjórnarinnar fyrir síðari ár, fyrir árin 1996 og 1997, tvö seinni ár flugmálaáætlunarinnar? Hverjar eru áætlanir ríkisstjórnarinnar fyrir þau tvö ár? Hvað á að skera mikið niður af fjármagni til framkvæmda fyrir þau ár? 40 millj., 70 millj. eða hvaða tölu? Og hvaða framkvæmdir eru það sem eiga að fara undir niðurskurðarhnífinn á þeim tveimur árum? Ríkisstjórnin hlýtur að hafa einhverjar áætlanir um að breyta þeirri fjögurra ára flugmálaáætlun fyrst hún leggur það til að fá heimild til þess að skera niður framkvæmdafé í flugmálum á þessum tíma. Hún verður þá að segja hvað það er mikið sem hún ætlar að skera niður og hvaða framkvæmdir það eru sem eiga að detta út af borðinu.
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst ömurlegt til þess að vita að hæstv. ríkisstjórn sem er svo vel haldin af efnahagsbatanum að hún getur leyft sér að fella niður skatta af fólki sem hefur háar tekjur og á miklar eignir en þegar kemur að framkvæmdum hvort sem það er í vegamálum eða flugmálum þá á að skera niður samkvæmt þessu frv. sem hér er til umræðu. Þá á að skera niður peningana til flugmálaáætlunar og það á að skerða markaða tekjustofna Vegagerðarinnar um 275 millj. kr. og láta það renna í ríkissjóð samkvæmt grein í þessu frv. sem er nr. 26. Hvers konar framkoma er þetta hjá hæstv. ríkisstjórn gagnvart íbúum á landsbyggðinni sem hafa bundið miklar vonir við það að ríkisstjórnir á hverjum tíma hefðu á því ríkan skilning að menn þyrftu að standa við þær áætlanir sem samkomulag hefur náðst um áður milli flokka og þingmanna að ætti að ráðast í á næstu árum? En þá kemur þessi ógæfusama ríkisstjórn og hleypur frá því samkomulagi sem þingmenn hennar hafa staðið að hér áður með því að afgreiða vegáætlun og flugmálaáætlun.
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það duga að fjalla um þetta mál þó að það væri ástæða til að endurtaka sumt af því sem komið hefur fram í umræðunni og hnykkja á því frekar. Ríkisstjórnin þyldi það nú vel að fá einn lestur til viðbótar við þá sem komnir eru til að minna sig á hvernig frammistaðan er í þessum málum en ég læt þetta duga enda er þetta mál eitt og sér afar stórt og mikils um vert að þingmönnum takist að snúa ríkisstjórnina niður í þessum niðurskurðaráformum hvað varðar verklegar framkvæmdir á landsbyggðinni.