Mat á sláturafurðum

73. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 01:12:57 (3487)


[01:12]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Efni þessa frv. er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða skipulagsbreytingu á greiðslum fyrir eftirlit dýralækna þannig að það verður framvegis greitt af ríkinu. Hv. formaður landbn. hefur gert grein fyrir ástæðum þess og er þetta frv. að því leyti mjög brýnt. Hins vegar er svo tekjuöflun sem gert er ráð fyrir að ríkið fái til þess að standa straum af þessum kostnaði.
    Ég hef áður gert athugasemd við þá upphæð þegar hún kom inn í fjárlög og ég hlýt að láta í ljós vonbrigði mín yfir því hversu há þessi tala er. Það liggur að vísu ekki nákvæmlega fyrir hversu mikið þetta gjald muni vera að meðaltali, en þessi tala er helmingi hærri a.m.k. en sá kostnaður er í sumum sláturhúsum sem slátra stórum hluta af framleiðslunni.
    Ég hlýt að láta í ljós vonbrigði mín yfir þeim hugsunarhætti að þarna skuli bara setja gjaldið nógu hátt til þess að það sé alveg tryggt að fá nú nægar tekjur. Sérstaklega vil ég vekja athygli á orðum hv. formanns landbn. í umræðunum í dag um GATT-málið, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að við Íslendingar stæðum mjög höllum fæti með greiðslur hins svonefnda ,,græna geira`` og verr en flestar þjóðir í kringum okkur.
    Hér er um að ræða þjónustu sem er heimil, að sjálfsögðu og er beinlínis skylt að greiða úr ríkissjóði og engin skylda að það sé aflað skatta frá landbúnaðinum í því skyni og allra síst að það sé gengið svo langt að þarna sé heimild fyrir allt að því helmingi hærri upphæð en þörf er á.
    Ég vildi því beina því til hæstv. landbrh., þar sem hér er aðeins um heimild að ræða, hámarksheimild, að hann gefi þá yfirlýsingu að þessu gjaldi verði í upphafi ekki beitt að fullu. Að öðrum kosti tel ég mig knúinn til þess að flytja brtt. við þetta ákvæði.