Brunatryggingar

73. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 01:20:55 (3492)


[01:20]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að segja frá því að á milli 2. og 3. umr. kom hv. heilbr.- og trn. tvisvar sinnum saman til þess að fara aftur yfir þetta mál í ljósi þeirra umræðna og athugasemda er fram komu við 2. umr. málsins.
    Niðurstaðan af þessum tveimur fundum kemur fram í frhnál. í frv. til laga um breytingar á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, frá heilbr.- og trn., sem dreift hefur verið hér á hv. Alþingi.
    Ég vil vekja sérstaka athygli hv. þm. á þessu nál. vegna þess að þar er tekið á ýmsum þeim efnisatriðum er hér voru til umræðu og þau betur skýrð en gert hafði verið áður.
    Ég vil sérstaklega taka fram að á seinni fund nefndarinnar komu eftirtaldir gestir, en það er ekki frá því sagt í nál. sjálfu og tel ég rétt að það komi fram: Dögg Pálsdóttir, skrifstofustjóri heilbr.- og trmrn., Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri í Vátryggingaeftirlitinu, Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri Sambands ísl. tryggingafélaga og Ingvar Sveinbjörnsson, lögfræðingur hjá Vátryggingafélagi Íslands.
    Ég held að á þessu stigi málsins sé ekki meira um þetta að segja en að það tókst bærileg samstaða um þessa afgreiðslu málsins í hv. heilbr.- og trn. Undir nál. skrifa allir hv. nefndarmenn heilbr.- og trn., en Finnur Ingólfsson, Margrét Frímannsdóttir, Ingibjörg Pálmadóttir og Guðrún J. Halldórsdóttir skrifa undir með fyrirvara sem lýtur fyrst og fremst að tilurð málsins en að mér skilst ekki að efnislegu innihaldi þess og þeirri niðurstöðu sem það hefur fengið eftir umfjöllun hv. nefndar.