Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

74. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 01:45:09 (3500)

[01:45]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja tíma hv. þingmanna á þessum tíma sólarhrings en af stakri vinsemd við hæstv. ríkisstjórn hef ég leyft mér að leggja fram brtt. við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem eiga við II. kafla breytingartillagna hv. efh.- og viðskn. Tillagan felst einfaldlega í því að það fari ekki á milli mála að þær húsaleigubætur, sem hér er talað um, séu húsaleigubætur skv. lögum nr. 100/1994, þ.e. húsaleigubætur sveitarfélaganna. Nú er um mikið jafnréttismál að ræða milli byggðarlaga vegna þess að eins og menn vita eru húsaleigubætur heimildarákvæði þannig að ekki greiða öll sveitarfélög húsaleigubætur. Ef þær húsaleigubætur eiga að teljast tekjur en aftur á móti uppbót Tryggingastofnunar sem er oft greidd vegna erfiðrar húsaleigu yrði ekki talin meðal tekna er fólkinu í landinu þar með stórlega mismunað.
    Svo það fari ekki á milli mála að menn skilji hvað ég er að tala um vil ég aðeins endurtaka það sem ég sagði í dag vegna þess að það var næstum því engin manneskja í salnum, en í örstuttu máli er þetta þannig að skerðist tekjutrygging vegna húsaleigubóta þá skerðist einnig heimilisuppbót og nú krónu fyrir krónu í stað þess að skerðast eins og tekjutrygging áður og þá fellur auðvitað einnig niður sérstök heimilisuppbót. En uppbót á lífeyri hefur sem sagt verið greidd af ýmsum öðrum ástæðum en vegna húsaleigu, einnig vegna lyfjakostnaðar og erfiðleika á allan hátt við að komast af. Þegar uppbótin fer að skerðast vegna húsaleigubóta frá sveitarfélagi fer fólk að missa afnotagjald af útvarpi og sjónvarpi o.s.frv. Ég get ekki láð hv. þm. þó að þeim finnist þetta ekki skemmtileg lesning svo að ég er að hugsa um að treysta því að þeir treysti mér og lesi þá þær tvær ræður mínar, sem ég hef flutt af þessu tilefni. Ég vil aðeins leggja áherslu á það, hæstv. forseti, að ég held að ef þetta næði fram að ganga eins og það liggur fyrir núna mundi mörgum lífeyrisþegum bregða illilega í brún sem færu að fá húsaleigubætur. Ég held að það hafi gerst í dag sem maður er ekki allt of vanur að heiðvirðir hv. þm. fallist á rök þó þau séu ekki skemmtileg og í þessu tilviki hef ég von um það að menn sjái að sér og samþykki tillöguna og ég held að það megi treysta því að það verði til bóta. Annars held ég að hæstv. ríkisstjórn gæti lent í vondum málum rétt fyrir kosningar.