Frestun á fundum Alþingis

75. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 02:04:01 (3508)


[02:04]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Hér er einhver misskilningur á ferð vegna þess að þetta mál hefur verið rætt eða svipað mál hér áður við svipaðar aðstæður, þá hafði þessi misskilningur komið upp að það hefði verið gerð einhver breyting á þeirri skipan með hvaða hætti þingfundum er frestað. Af því tilefni lét ég fara sérstaklega yfir það lögfræðilega. Það er enginn annar háttur á og enginn annar háttur til þannig að hér er enginn sérstakur kostur valinn. Þetta er eini kosturinn sem er fyrir hendi. Þetta var rannsakað sérstaklega og ég lét þá greinargerð berast til forsætisnefndar þingsins og ég hélt að þessi misskilningur væri úr sögunni. Það hefur því ekkert breyst hvað þetta varðar. Það er engin önnur leið til til að fresta fundum af þessu tagi um svo langa hríð.
    Þessi misskilningur kom upp fyrir tveimur árum og það kom mér reyndar á óvart að sá misskilningur skyldi koma upp. Þetta var athugað alveg sérstaklega, bæði af lögfræðingum ráðuneytisins og háskólans og það hefur ekkert það breyst sem gerði það að verkum að hér væri einhver önnur aðferð til.
    Vegna hins að hér er talað um 25. jan. en ekki 23. jan. er það ekki valdboð frá mér heldur tók ég skilaboð frá formönnum þingflokka. Þeir mæltu með því að þetta yrði með þessum hætti og ég gerði ekki athugasemd við það fyrir mitt leyti að þessu yrði bætt við. Hugmyndin er því ekki runnin frá mér að bæta þessum tveimur dögum við þó að það komi í minn hlut að flytja það hér. Ég bind vonir við það að deila sjúkraliða og ríkisvaldsins sé að leysast. Það er of fljótt að fullyrða um það en ég þykist mega vona það á þessari stundu þannig að við getum öll fagnað því að ef svo fer að þessi erfiða deila leysist fyrir áramót.
    Varðandi bráðabirgðalagavaldið að öðru leyti er það vald markerað í stjórnarskránni og ekki hægt af minni hálfu eða annarra að gefa yfirlýsingar um að það vald sé takmarkað. Á hinn bóginn eru engar ráðagerðir uppi af minni hálfu eða ríkisstjórnar til að nota það vald um á því tímabili sem nú fer í hönd.