Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 34 . mál.


34. Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun laga um ráðherraábyrgð.

Flm.: Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til að endurskoða lög nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.


Greinargerð.


    Hér er flutt einföld tillaga um að Alþingi kjósi fimm manna nefnd til að endurskoða lögin um ráðherraábyrgð. Ekki er gerð tillaga um sérstaka forskrift fyrir nefndina. Hins vegar gerir flutningsmaður ráð fyrir að nefndin fari yfir þær umræður sem fram hafa farið um málið á Alþingi, bæði nú á seinni árum og áður, auk þess sem hafa verður til hliðsjónar lögin um ráðherraábyrgð í Danmörku og framkvæmd þeirra. Okkar lög tóku á margan hátt mið af dönsku lögunum en eftir samþykkt gildandi laga um ráðherraábyrgð, 1963, var dönsku lögunum síðan breytt.
    Til að auðvelda umræðuna birtist með tillögunni sem fylgiskjal þýðing á dönsku lögunum um ráðherraábyrgð. Við samningu greinargerðarinnar hefur flutningsmaður haft til hliðsjónar greinina „Ábyrgð ráðherra — í ljósi Tamílamálsins“ eftir lic. jur. Jens Peter Christensen, lektor við Lagastofnun Háskólans í Árósum. Þar er ítarlega fjallað um ráðherraábyrgð fyrr og nú í ljósi nýjasta málsins af þessu tagi í Danmörku. Umfjöllun um Tamílamálið varpar einnig ljósi á stöðu mála á Íslandi í þessum efnum. Í framsöguræðu fyrir tillögunni verður einnig gerð grein fyrir fyrirkomulagi sömu mála í grannlöndum okkar.

Frumvarp Páls Péturssonar.


    Páll Pétursson hefur á undanförnum þingum flutt tillögur um breytingar á lögum um ráðherraábyrgð. Í breytingartillögu hans felst að kveðið verði sérstaklega á um ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi ef hann fer með villandi upplýsingar gagnvart Alþingi eða leynir Alþingi mikilvægum upplýsingum. Í greinargerð með frumvarpi Páls vitnar hann til dönsku laganna um ráðherraábyrgð. Um frumvarp þetta hafa orðið talsverðar umræður á tveimur þingum. Í umræðum um málið hefur Björn Bjarnason lagt áherslu á að Alþingi sjálft hljóti að úrskurða um ábyrgð ráðherra hverju sinni; það geti ekki verið verkefni annarra aðila. Í lögunum um landsdóm er það einnig grundvallaratriðið að Alþingi sjálft ákveði málshöfðun gegn ráðherra.
    Í umræðunum um frumvarp Páls Péturssonar greindi flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu frá umræðunum um frumvarpið sem varð að gildandi lögum um ráðherraábyrgð. Alfreð Gíslason læknir, sem þá sat á Alþingi, taldi óþarfa eða gagnslaust að setja sérstök lög um ráðherraábyrgð. Þeir ættu eins og aðrir að standa ábyrgir gerða sinna frammi fyrir ákvæðum hegningarlaga, auk þess sem þeir ættu landsdóm yfir höfði sér. Engu að síður varð það niðurstaðan að setja lög um ráðherraábyrgð þótt margir tækju í raun undir sjónarmið Alfreðs Gíslasonar læknis. Sjónarmið hans byggðust auðvitað á þeim veruleika að ríkisstjórnir slá alltaf skjaldborg um ráðherra og meiri hluti Alþingis, sem ber ábyrgð á ríkisstjórn, ver einstaka ráðherra vantrausti fram í rauðan dauðann.

Mál Guðmundar Árna Stefánssonar.


    Í umræðum um mál Guðmundar Árna Stefánssonar félagsmálaráðherra að undanförnu hafa menn bent á að ráðherrann sé í raun varinn af meiri hluta Alþingis. Margir hafa þá ályktað sem svo að þar með séu ákvæðin um vantraust eða landsdóm gagnslaus. Það er ekki rétt. Þau geta komið að notum þótt þau hafi aldrei verið notuð.
    Það var Ólafur Jóhannesson, þá prófessor, seinna forsætisráðherra, sem samdi fyrir ríkisstjórnina undir forustu Bjarna Benediktssonar drög að frumvarpi um ráðherraábyrgð sem seinna varð að lögum. Þeir töldu báðir vafamál hvort rétt væri að setja svona lög, en niðurstaða þeirra varð engu að síður sú þar sem kveðið er á um það í stjórnarskránni. Verður ekki annað séð af umræðum um málið en að þeir hafi í raun báðir talið lögin óþörf eða gagnslítil af því að hið endanlega úrskurðarvald er alltaf í höndum Alþingis.

Það er vandi að finna leið.


    Vandinn er sá að finna leið sem er í senn ábyrg og getur um leið þjónað markmiðum lýðræðis og réttarríkis. Er hægt að finna leið sem tryggir að ráðherrar verði látnir sæta ábyrgð án þess að meiri hluti Alþingis hlutist alltaf til um málið og stöðvi í raun meðferð þess? Í umræðum um lögin um ráðherraábyrgð í fyrra kom fram að í EFTA-ríkjunum öllum er slík leið til. Þar er gert ráð fyrir sérstökum nefndum, rannsóknarnefndum eða skoðunarnefndum, til að fara yfir einstök mál. Þessar nefndir skila svo áliti og um afleiðingarnar af störfum þeirra er tvennt til. Annað er það að viðkomandi ráðherra segi af sér af því að honum er ekki sætt vegna þrýstings frá almenningsáliti. Hitt er líka til að niðurstaða nefndar sé lögð fyrir viðkomandi þing til samþykktar eða synjunar. Fer þá oftast svo að sá meiri hluti þings, sem ver ríkisstjórn vantrausti, kýs einnig að verja ráðherrann vantrausti. Engu að síður er mikilvægt að þessi leið sérstakra skoðunarnefnda sé til því að hún skapar farveg sem er á forsendum viðkomandi þings en byggist ekki á því hvað t.d. flokkur viðkomandi ráðherra óskar eftir að gert verði eða ráðherrann sjálfur óskar eftir að gert verði.
    Af þeim ástæðum, sem hér hafa komið fram, er tillaga þessi flutt, en nánari grein verður gerð fyrir henni í framsöguræðu. Efni tillögunnar er í raun einfalt og áreitnislaust. Þar er gert ráð fyrir að Alþingi kjósi nefnd til að fjalla um málið í ljósi fenginnar reynslu um liðlega þrjátíu ára skeið. Í tillögunni er nefndinni ekki sett nein forskrift, en með því móti má ætla að sátt geti fengist um tillöguna. Þá væri eðlilegt að endurskoða í framhaldi af henni lögin um ráðherraábyrgð.

Úrræðin nú.


    Flutningsmaður telur augljóst að rík þörf sé fyrir sérstaka skoðun þeirra mála sem ráðherra kann að vera sakaður um umfram það sem kveðið er á um í dag.
    Úrræðin eru þrenns konar. Í fyrsta lagi getur ráðherrann auðvitað sagt af sér eftir mikinn þrýsting frá almenningsáliti. Um það eru mörg dæmi í grannlöndum okkar. Ætla má að þau dæmi hafi orðið til vegna þess að viðkomandi ráðherrar hafa setið í minnihlutastjórnum. Meiri hluti þingsins hefur því ekki verið tilbúinn til að verja ráðherrana þó að hann hafi verið tilbúinn til að verja ríkisstjórnina í heild vantrausti. Þess vegna telur flutningsmaður að afsagnir ráðherranna í grannlöndum okkar eigi fremur rætur að rekja þess að þar hafa minnihlutastjórnir verið við lýði en til þess að þar sé siðferðið þroskaðra en hér á landi. Í annan stað er sá möguleiki til að ráðherra sé dæmdur í landsdómi, en til þess þarf málshöfðun sem Alþingi samþykkir. Sú málshöfðun jafngildir þá í raun vantrausti á ráðherrann, en þarf þó ekki endilega alltaf að þýða það sama. Í þriðja lagi er svo sá kostur til að ráðherrann sé borinn vantrausti á Alþingi. Það hefur aldrei gerst á Íslandi en er engu að síður framkvæmanlegt.

Of oft kallað á Ríkisendurskoðun.


    Hér á landi hafa menn í seinni tíð gripið til þess æ ofan í æ að kalla til Ríkisendurskoðun. Það er óeðlilegt hversu oft er gripið til þess ráðs, en ástæðan er vafalaust sú að skortur er á öðru betra. Greinilegt er að setja verður reglur um það hverjir geti skilyrðislaust ætlast til þess af Ríkisendurskoðun að hún skoði fjárhagsmálefni eða stjórnsýslu ráðuneyta. En er hugsanlegt að tengja þessi vandamál saman þegar lögin um ráðherraábyrgð verða endurskoðuð, þannig að jafnframt verði hugað að því hvernig yfirstjórn Ríkisendurskoðunar verður komið fyrir og um leið hvernig háttað verður í framtíðinni kosningu á yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga sem nú eru kjörnir samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ekki má þó skilja þessi orð svo að sú nefnd, sem fjallaði um ráðherraábyrgð, ætti að einskorða starf sitt við fjárhagsmálefni, en hér hafa þó nokkrir aðilar verið nefndir til sögunnar sem í dag hafa óljóst en engu að síður allmikilvægt hlutverk.



Fylgiskjal I.


Dönsku lögin um ráðherraábyrgð.


(Lög 1964-04-15 nr. 117.)



1. gr.

    Lögin gilda um ábyrgð ráðherra á embættisfærslu sinni.

2. gr.

    Ákvæði almennra hegningarlaga taka einnig til starfa ráðherra.

3. gr.

    Ákvæðum almennra hegningarlaga um hlutdeild í lögbroti taka til ráðherra fyrir athafnir undirmanns hans þegar:
    honum hefur verið kunnugt um þær og ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir þær,
    brotið er nauðsynlegur eða eðlilegur þáttur framkvæmdar á ákvörðun sem ráðherrann ber ábyrgð á,
    hann hefur stuðlað að brotinu með því að sinna ekki eðlilegu eftirliti eða setja skýr fyrirmæli.

4. gr.


    Ábyrgð á embættisathöfn, sem atbeina konungs þarf til, hvílir bæði á þeim ráðherra sem hefur áritað með konungi og þeim ráðherrum sem hafa stuðlað að þeirri athöfn.

5. gr.

    Ráðherra skal sæta refsingu ef hann af ásetningi eða af vítaverðu gáleysi vanrækir þær skyldur sem á honum hvíla samkvæmt stjórnarskrá, almennum lögum eða embættisstöðu hans.
    Ákvæði 1. mgr. eiga við ef ráðherra veitir þinginu rangar eða villandi upplýsingar eða leynir mikilvægum upplýsingum við meðferð máls á þingi.

6. gr.

    Brot á ákvæðum 5. gr. varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Ef brotið er framið af gáleysi varðar það sekt eða varðhaldi.
    Við ákvörðun fjársektar skal taka mið af ákvæðum almennra hegningarlaga um dagsektir.

7. gr.

    Ákvæði 6. gr. gilda því aðeins að önnur lög tiltaki ekki þyngri refsingu.
    Ákvæði 155.–157. gr. almennra hegningarlaga gilda ekki um ráðherra.

8. gr.

    Ábyrgð ráðherra fyrnist samkvæmt ákvæðum 93.–95. gr. almennra hegningarlaga. Fyrningarfrestur er þó aldrei skemmri en fimm ár.

9. gr.

    Um skaðabótaábyrgð vegna embættisfærslu ráðherra gilda almennar reglur um skaðabætur vegna tjóns sem opinberir embættismenn valda í störfum sínum í þjónustu ríkisins.



Fylgiskjal II.


Könnun á hlutverki rannsóknarnefnda löggjafarþinga


í tólf aðildarríkjum Evrópubandalagsins.


(Þýtt úr ensku.)




A.  INNGANGUR
    Skýrsla þessi er niðurstaða könnunar á hlutverki rannsóknarnefnda löggjafarþinga í þjóðþingum hinna tólf aðildarríkja Evrópubandalagsins.
    Könnunin byggðist í upphafi á svörum rannsóknardeilda þjóðþinga aðildarríkjanna við spurningalista sem útbúinn var af Evrópuþinginu (PE 201.734). Við þessar upplýsingar var fyrst bætt með því að kanna þingsköp viðkomandi ríkja eða viðeigandi fræðirit um stjórnskipunarrétt. Viðbótarupplýsingar fengust með vitnaleiðslum sem nefnd Evrópuþingsins um málefni stofnana skipulagði 16. september 1992.
    Í fyrsta hluta skýrslunnar eru svörin, sem bárust frá þjóðþingunum, greind og hlutverki rannsóknarnefndar í hverju aðildarríkjanna lýst út frá lagagrundvelli, skipun, starfstíma, samsetningu, valdsviði og takmörkunum, völdum, árangri og stöðu mála í reynd. Í öðrum hluta eru borin saman og metin hlutverk rannsóknarnefndanna í aðildarríkjunum.
    Könnuninni er ætlað að taka til Evrópubandalagsins í heild og koma til viðbótar drögum að ályktun um rannsóknarnefndir (PE 200.794) frá nefnd Evrópuþingsins um málefni stofnana.


B.  RANNSÓKNARNEFNDIR ÞJÓÐÞINGA Í EINSTÖKUM AÐILDARRÍKJUM
I.  Sambandslýðveldið Þýskaland.

1.  Lagagrundvöllur.
    44. gr. stjórnskipunarlaga Sambandslýðveldisins Þýskalands veitir lagagrundvöll fyrir skipun rannsóknarnefnda í þýska þjóðþinginu (Bundestag). Þó eru engin sérstök ákvæði um rannsóknarnefndir í þingsköpum þýska þjóðþingsins. Hvað skipun og störf slíkra nefnda áhærir er framkvæmdin sú í þýska þjóðþinginu að setja rannsóknarnefndum sérstakar starfsreglur í formi hinna svokölluðu „IPA-reglna frá 1969“ (þingskjal þýska þjóðþingsins V/4209) sem eiga rætur að rekja til frumvarps til laga um rannsóknarnefndir sem aldrei varð að lögum. Gagnstætt því sem gerist um einstök ríki (Länder) eru nú engin alríkislög í gildi um lagalega stöðu rannsóknarnefnda. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa ný frumvörp hins vegar verið lögð fram á þýska þjóðþinginu (þingskjöl þýska þjóðþingsins 12/418, 12/1436).
    Efri deild þýska þingsins (Bundesrat) gegnir ekki hefðbundnu þinglegu eftirlitshlutverki þar sem hún er í raun ekki önnur deild í skilningi tveggja þingdeilda kerfisins. Sem stjórnskipunaraðili Sambandsríkisins, skipuð fulltrúum ríkjanna (Länder), hefur hún einungis rétt til að skipa sérfræðinganefndir til ráðgjafar (52. gr. stjórnskipunarlaganna).

2.  Skipun.
    Ef fram kemur ósk frá að minnsta kosti fjórðungi þingmanna er þýska þjóðþinginu skylt að skipa rannsóknarnefnd (minnihlutarannsókn). Þingið losnar einungis undan þessari kvöð ef beiðnin brýtur í bága við stjórnarskrána. Beiðninni um að skipa nefnd verður einnig að fylgja fullnægjandi skilgreining á því hvað skuli rannsaka. Við rannsóknarefnið, sem þannig er skilgreint af minni hlutanum, má ekki bæta öðrum umfjöllunarefnum sem meiri hlutinn leggur til. Ef um er að ræða óhæfilega skerðingu á rétti minni hlutans er unnt að leita verndar Alríkisstjórnskipunardómstó lsins samkvæmt þeim réttarfarsreglum um lausn deilumála er varða alríkisaðila skv. 1. lið 1. mgr. 93. gr. stjórnskipunarlaganna.
    Ef fram kemur ósk að minnsta kosti 5% þingmanna er þinginu einnig heimilt að ákveða, með meiri hluta atkvæða, að skipa rannsóknarnefnd (meirihlutarannsókn).

3.  Starfstími.
    Rannsóknarnefnd hættir störfum þegar hún er lögð niður. Þegar um minnihlutarannsókn er að ræða getur þýska þjóðþingið lagt rannsóknarnefndina niður ef meira en þrír fjórðu hlutar þingmanna eru því fylgjandi. Ef um meirihlutarannsókn er að ræða er unnt að leggja nefndina niður með einföldum meiri hluta atkvæða. Að auki lýkur starfstíma rannsóknarnefndar þegar lokaskýrsla hennar er rædd á allsherjarfundi þýska þjóðþingsins eða við lok yfirstandandi kjörtímabils þingsins.

4.  Samsetning.
    44. gr. stjórnskipunarlaga kveður ekki á um lágmarksfjölda nefndarmanna. Hins vegar verða allir stjórnmálaflokkar að eiga að minnsta kosti einn fulltrúa í nefndinni í samræmi við hlutfallslegan styrk sinn á þinginu. Að auki verða allir nefndarmenn að eiga sæti á þinginu. Nefndin kýs sér formann og varaformann með vísan til þingstyrks stjórnmálaflokka; bæði ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan verða að eiga þar fulltrúa. Þau frumvörp, sem hingað til hafa verið lögð fram um rannsóknarnefndir, kveða á um sjö nefndarmenn og sjö varamenn.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Rannsóknarnefndum er heimilt að rannsaka mál er varða almenningshagsmuni. Þetta víðtæka valdsvið nær yfir það eftirlitshlutverk sem þinginu er einkum falið, svo sem rannsókn á hugsanlegum brotum sem framkvæmdarvaldið ber ábyrgð á. Nefndunum ber skylda til að komast að staðreyndum málsins til upplýsingar fyrir þýska þjóðþingið. Rétturinn til rannsóknar takmarkast við málefni sem falla innan stjórnskipulegs valds þingsins. Málefni, sem eru á ábyrgð ríkjanna (Länder), svo og dómsniðurstöður og hrein einkamál, er ekki unnt að rannsaka. Ekki er heldur unnt að rannsaka málefni sem varða beint sjálfstæði framkvæmdarvaldsins né störf ríkisvaldsins á hverjum tíma. Þing ríkjanna (Länder) hafa samkvæmt stjórnarskrá sinni rétt til að rannsaka sjálf málefni sem falla innan valdsviðs ríkjanna.
    Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. stjórnskipunarlaga eru dómstólar ekki skuldbundnir til þess að fallast á mat nefndar á staðreyndum þannig að frá fræðilegu sjónarmiði er ekkert því til fyrirstöðu að málsmeðferð geti farið fram samhliða á báðum stöðum. Í reynd bíða þó dómstólar jafnan eftir niðurstöðum af starfi nefndarinnar.

6.  Völd.
    Í þeim tilgangi að varpa ljósi á staðreyndir hefur rannsóknarnefnd sömu völd og sakadómur. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. grundvallarlaganna eiga ákvæði um meðferð sakamála við með lögjöfnun um öflun sönnunargagna við opinberar vitnaleiðslur. Þetta þýðir að vitnum og sérfræðingum ber að mæta fyrir rannsóknarnefndina. Ef þörf krefur er unnt að neyða þá til þess. Þó verður fyrst að afla dómsúrskurðar áður en unnt er að gefa út stefnu, leggja hald á skjöl eða framkvæma leit. Unnt er að krefjast þess að ríkisstjórnarmeðlimir mæti í eigin persónu fyrir rannsóknarnefndina. Alríkisstjórnin er í grundvallaratriðum skuldbundin til þess að veita upplýsingar um það málefni sem til rannsóknar er. Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. stjórnskipunarlaganna eru dómstólar og stjórnsýsluaðilar skuldbundnir til að veita lagalega og stjórnsýslulega aðstoð. Í þessu felst að svara spurningum og veita upplýsingar, leggja fram skjöl, heimila aðgang að skrám og veita aðstoð. Synjun er einungis möguleg ef afhending skjala hefði í för með sér verulega skerðingu á hagsmunum Sambandsríkisins eða einkalífi einstaklings og þar með á grundvallarmannréttindum hans. Dómstólar geta úrskurðað í slíkum málum.

7.  Málalok.
    Í samræmi við þá skyldu sína að gefa skýrslu leggur rannsóknarnefnd fram niðurstöður rannsóknar sinnar í lokaskýrslu til allsherjarfundar þýska þjóðþingsins (Bundestag). Henni er heimilt að leggja pólitískt mat á staðreyndir og koma með tillögur. Einnig er skylt að gera grein fyrir skoðunum minni hluta nefndarmanna. Þingið tekur lokaskýrsluna til umfjöllunar og lýkur rannsókninni með formlegri ákvörðun.
    Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. stjórnskipunarlaganna er ekki unnt að fjalla um lokaskýrslur nefndanna fyrir dómstólum þar sem þær eru einungis pólitísk niðurstaða umræðna.

8.  Framkvæmdin.
    Sem stjórntæki er rannsóknarnefnd þingsins einkum notuð af stjórnarandstöðunni til að vekja athygli á misgjörðum. Hin víðtæka vernd, sem réttindi minni hlutans njóta, hvetur til þessa. Þetta skýrir einnig hinn mikla fjölda rannsóknarnefnda á þýska þjóðþinginu (28).

II.  Belgía.
1.  Lagagrundvöllur.
    40. gr. belgísku stjórnarskrárinnar veitir bæði fulltrúadeildinni og öldungadeildinni rétt til rannsóknar. Nánari framkvæmdarákvæði, sem gilda um rannsóknarnefndir þingsins, eru í lögum frá 3. maí 1880. Þessi lög eru enn í gildi en nú stendur yfir endurskoðun á þeim og ný drög hafa verið lögð fyrir báðar þingdeildir. Þær upplýsingar, sem fram koma hér fyrir aftan, eiga við um lögin frá 3. maí 1880 sem nú eru í gildi.
    Þó að báðar þingdeildir eigi samkvæmt ofangreindum ákvæðum rétt á að skipa sjálfstæðar rannsóknarnefndir er ekkert ákvæði í lögum um skipun sameiginlegrar rannsóknarnefndar beggja þingdeilda.

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefnd er skipuð að beiðni meiri hluta þingmanna fulltrúadeildarinnar eða öldungadeildarinnar.

3.  Starfstími.
    Starfstíma rannsóknarnefndar lýkur þegar starfi hennar er lokið eða þegar hún er lögð niður af þingdeildinni sem fyrirskipaði rannsóknina. Starfi nefndarinnar lýkur einnig við lok kjörtímabils þingsins.

4.  Samsetning.
    Að því er varðar samsetningu rannsóknarnefnda vísar 3. gr. laganna frá 3. maí 1880 til þingskapa fulltrúadeildarinnar og öldungadeildarinnar. Í þingsköpum öldungadeildarinnar eru engin sérstök ákvæði um fjölda nefndarmanna. Í reynd eru nefndarmenn í rannsóknarnefndum þó venjulega 11. Þetta er nákvæmlega helmingur þess fjölda nefndarmanna sem sæti á í venjulegri þingnefnd.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Valdsvið rannsóknarnefnda er í grundvallaratriðum mjög víðtækt. Engar lagalegar takmarkanir eru á rétti nefndar til rannsóknar sem þýðir í grundvallaratriðum að hún getur rannsakað allar athafnir framkvæmdarvaldsins. Þetta er afleiðing hinnar stuttorðu skilgreiningar á réttinum til rannsóknar í belgísku stjórnarskránni. Samkvæmt Conseil d'État er rétturinn til rannsóknar þó háður tveimur takmörkunum. Í fyrsta lagi má ekki raska grundvallarreglunni um skiptingu valdsins með því að fela rannsóknarnefnd verk eða ábyrgð sem í raun heyrir undir önnur opinber stjórnvöld eða dómstóla. Störf nefndarinnar mega því ekki fela í sér leynt valdaframsal. Rannsóknir nefndarinnar mega heldur ekki taka á sig form dómstólameðferðar. Ákvörðun deildarinnar sem skipar rannsóknarnefndina takmarkar einnig umfang valdsviðs hennar. Ekki er heimilt að afla upplýsinga um málefni sem koma því efni, sem til rannsóknar er, ekki við.

6.  Völd.
    Samkvæmt 4. gr. laganna frá 3. maí 1880 hafa nefndirnar og formenn þeirra sömu völd og rannsóknardómari í sakamálum. Þeir geta stefnt vitnum og sérfræðingum, sem skyldugir eru til að mæta fyrir nefndinni og eiga yfir höfði sér refsingu samkvæmt hegningarlögum sé framburður þeirra rangur. Rannsóknarnefndir geta enn fremur yfirheyrt vitni og látið þau sverja eið að framburði sínum. Að auki eiga þær rétt á að rannsaka öll skrifleg gögn. Dómstólarnir hafa hins vegar einir rétt til þess að beita þvingunarráðstöfunum sem fela í sér frelsissviptingu til að framfylgja þessu valdi og dómarar geta þannig einir fyrirskipað að gripið sé til slíkra aðgerða. Nefndin getur falið yfirdómurum sérstök rannsóknarverkefni.
    Ráðherrar eru reglulega beðnir um að heimila opinberum starfsmönnum sínum að gefa yfirlýsingar hjá rannsóknarnefndum til að aðstoða þær við rannsóknir þeirra. Dómstólar verða að aðstoða nefndirnar með því að veita upplýsingar, jafnvel um mál sem þar eru til umfjöllunar á þeim tíma. Það verður hins vegar að tryggja að slíkt skaði ekki dómsrannsóknina eða hafi áhrif á réttindi málsaðila samkvæmt réttarfarslögum. Einnig getur þingdeildin takmarkað völd nefndar við skipun hennar.

7.  Málalok.
    Rannsóknarnefndin semur lokaskýrslu þar sem fram koma niðurstöður nefndarinnar og mat. Það er síðan undir þinginu komið að grípa til nauðsynlegra lagalegra eða pólitískra aðgerða. Lokaskýrsluna má einnig senda til dómstóla svo að rannsaka megi niðurstöðurnar og taka ákvörðun um hugsanlega málshöfðun.

8.  Framkvæmdin.
    Í framkvæmd er sjaldgæft að belgíska þingið skipi rannsóknarnefnd. Þetta stafar vafalaust af því að einungis eru heimilaðar meirihlutarannsóknir. Ríkisstjórnarmeirihlutanum á þinginu er gjarnt að líta á rannsóknarnefndir sem „fjandsamlega aðgerð“ gagnvart framkvæmdarvaldinu.

III.  Lúxemborg.
1.  Lagagrundvöllur.
    Fulltrúadeild þjóðþings Lúxemborgar er veittur réttur til rannsóknar skv. 64. gr. stjórnarskrárinnar. Um samsetningu og starfsemi rannsóknarnefnda er nánar kveðið á í 167.–179. gr. þingskapa þingdeildarinnar sem eiga rætur að rekja til sérstakra laga frá 18. apríl 1911.

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefndir þingsins eru skipaðar af fulltrúadeildinni eða af forseta deildarinnar að beiðni hennar.
3.  Starfstími.
    Starfstíma nefndarinnar lýkur þegar störfum hennar er lokið eða þegar fulltrúadeildin leggur hana niður. Rannsókn lýkur einnig við lok kjörtímabils þingsins nema þingdeildin ákveði annað.

4.  Samsetning.
    169. gr. þingskapanna kveður á um að um aðild að rannsóknarnefndunum fari eftir almennum ákvæðum þingskapa fulltrúadeildarinnar. Samkvæmt 16. gr. verða nefndarmenn að vera að minnsta kosti fimm en mega ekki vera fleiri en þrettán og þar skulu eiga sæti fulltrúar stjórnmálaflokkanna í samræmi við þingstyrk.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Valdsvið rannsóknarnefnda er í grundvallaratriðum ótakmarkað að því tilskildu að grundvallarreglan um skiptingu valdsins sé virt. Sér í lagi geta einungis dómstólar kveðið á um (refsi)ábyrgð. Rannsóknir rannsóknarnefnda þingsins teljast algjörlega óháðar dómstólameðferð. Að formi til líkjast þær ekki rannsókn mála fyrir dómstólum en eru hins vegar pólitískt mat á þeim staðreyndum sem til rannsóknar eru. Af þessari ástæðu geta þessar tvenns konar rannsóknir farið fram annaðhvort samhliða eða hvor á eftir annarri.

6.  Völd.
    Samkvæmt 170. gr. þingskapa fulltrúadeildarinnar hafa rannsóknarnefndir sömu völd og rannsóknardómari í sakamálum. Þennan víðtæka rétt til rannsóknar getur fulltrúadeildin hins vegar takmarkað þegar nefndin er skipuð. Almennt má ekki framselja valdið til annarra. Þar sem valdið til rannsóknar er ótakmarkað geta rannsóknarnefndir kvatt til og yfirheyrt vitni til að hjálpa til við að varpa ljósi á staðreyndir og, ef við á, látið þau sverja eið að framburði sínum. Þetta nær einnig til embættismanna ríkisins og stjórnsýsluaðila sem venjulega verða að fá sérstakt leyfi til þess að bera vitni. Þó má ekki láta þá sverja eið að framburði sínum ef þeir eru sakaðir um refsivert athæfi eða eru starfandi hjá stjórnvaldi sem sakað er um refsivert athæfi. Stjórnvöld eru almennt skuldbundin til að veita aðstoð.
    Ef rannsóknarnefndir vilja gera leit eða leggja til að lagt verði hald á skjöl eða bréf verður að skírskota til sérstakra laga. Við beitingu valda sinna geta rannsóknarnefndir lagt á sömu viðurlög og rannsóknardómarar. Refsa má fyrir rangan framburð og hvatningu til vitna eða sérfræðinga um að fremja meinsæri með fangelsisvist eða sekt (175. gr. þingskapa deildarinnar). Saksókn er á hendi ríkissaksóknara.
    Að auki er rannsóknin tvíhliða ferli. Allir einstaklingar, sem rannsóknin beinist að, eiga heimtingu á að leita til dómstóla. Þeir eiga einnig rétt á að setja af stað eigin rannsókn. Rannsóknarnefndin ákveður hvort slíkar rannsóknir skuli leyfðar.

7.  Málalok.
    Rannsóknarnefndin semur lokaskýrslu þar sem niðurstöður hennar og mat koma fram. Þessi lokaskýrsla hefur engin áhrif að lögum en pólitísk áhrif hennar geta verið töluverð ef í henni felst gagnrýni á vanrækslu af hálfu framkvæmdarvaldsins. Sá pólitíski þrýstingur, sem af því leiðir, knýr framkvæmdarvaldið venjulega til þess að gera úrbætur.

IV.  Frakkland.
1.  Lagagrundvöllur.
    Grundvöllinn fyrir skipan rannsóknarnefnda þingsins samkvæmt frönskum lögum er ekki að finna í stjórnarskránni sjálfri heldur í 6. gr. tilskipunar frá 17. nóvember 1958 um starfsaðferðir þingfunda. Henni hefur verið breytt með lögum frá 19. júlí 1977 og 20. júlí 1991 (nr. 91–698), svo og 140.–144. gr. þingskapa þjóðþingsins.
    Ekkert ákvæði er um sameiginlegar rannsóknarnefndir þjóðþingsins og öldungadeildarinnar. Hins vegar getur hvor þingdeild um sig skipað eigin sjálfstæða rannsóknarnefnd til að rannsaka sama málefnið. Þetta hefur þegar gerst þrisvar sinnum í reynd. Í slíkum tilvikum framkvæma rannsóknarnefndirnar rannsóknir sínar samhliða og hvor um sig gefur skýrslu til þeirrar þingdeildar sem hana skipaði.

2.  Skipun.
    Í báðum þingdeildum eru rannsóknarnefndir skipaðar með þingsályktun sem samþykkt er með meiri hluta atkvæða.

3.  Starfstími.
    Starfstíma rannsóknarnefndar lýkur með framlagningu lokaskýrslu hennar og eigi síðar en sex mánuðum eftir að ályktunin um að skipa nefndina var samþykkt. Hámarksstarfstími hennar er þannig sex mánuðir. Lögin kveða einnig á um að nefndin skuli almennt hætta störfum þegar dómsrannsókn hefst.

4.  Samsetning.
    Ákvæðin um rannsóknarnefndir tilgreina ekki lágmarksfjölda nefndarmanna en takmarka hins vegar fjölda nefndarmanna við 13. Í raun er þó höfuðatriðið að tryggja að allir stjórnmálaflokkar eða hópar eigi að minnsta kosti einn fulltrúa í nefndinni í hlutfalli við þingstyrk sinn í deildinni.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Báðar þingdeildirnar geta skipað rannsóknarnefndir til að rannsaka vissar staðreyndir eða til að hafa eftirlit með opinberri þjónustu eða ríkisfyrirtækjum. Í framkvæmd er því gerður greinarmunur á tveimur tegundum nefnda: Rannsóknarnefndum og eftirlitsnefndum. Hinar fyrrnefndu rannsaka svið sem athygli almennings beinist venjulega mjög að (t.d. fjármögnun stjórnmálaflokka) en hinar síðarnefndu hafa eftirlit með opinberum aðilum sem stunda starfsemi í vissum greinum, ýmist á efnhagssviðinu, félagsmálasviðinu eða menningarsviðinu (orkumál, atvinnumál, bifreiðaiðnaður o.s.frv.).
    Samkvæmt lögunum geta rannsóknarnefndir þingsins ekki rannsakað mál sem krefjast atbeina dómstóla eða mál sem þegar eru til umfjöllunar hjá dómstólum. Ströng túlkun á fyrstu undanþágunni mundi þó hindra störf rannsóknarnefnda þar sem hún næði einnig til rannsókna sem fram færu áður en dómstólameðferð hefst. Af þessari ástæðu var ákveðið árið 1971 að skipun rannsóknarnefndar skyldi ekki sjálfkrafa útilokuð þótt yfirvofandi væri málshöfðun, heldur skyldu rannsóknir nefndarinnar takmarkaðar í slíkum tilvikum. Afleiðingin er sú að þjóðþingið hefur alloft skipað rannsóknarnefndir jafnvel þó að dómstólameðferð hafi verið hafin. Þetta hefur þingið þó ekki gert fyrr en staðreyndirnar, sem málareksturinn byggðist á, hafa verið rannsakaðar að fullu af dómstólunum. Valdsvið nefndanna tók þá ekki lengur til þessa sviðs rannsóknarinnar. Sú skoðun er tiltölulega nýleg að það sé til hagsbóta fyrir dómstólameðferð að rannsóknarnefndir rannsaki staðreyndirnar samtímis.
    Ekki er hægt að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka sama mál og fyrri rannsóknarnefnd fyrr en að 12 mánuðum liðnum frá lokum fyrri rannsóknarinnar.

6.  Völd.
    Rannsóknarnefndir hafa rétt til að kalla fyrir og yfirheyra hvern sem er ef vitnisburður hans er talinn skipta máli fyrir tilgang rannsóknarinnar og láta hann sverja eið að framburði sínum. Þetta gildir einnig um opinbera starfsmenn, jafnvel þó að þeir verði, formsins vegna, að fá leyfi til þess að bera vitni. Sömuleiðis getur nefnd beðið um að fá að sjá öll opinber skjöl. Stjórnvöld eru skuldbundin til þess að veita alla aðstoð sem þau geta. Þau verða að veita aðgang að öllum skrám sem beðið er um, að því tilskildu að þær séu ekki sérstaklega auðkenndar sem trúnaðarmál vegna öryggis ríkisins, varna þess eða utanríkismála eða falli undir grundvallarregluna um skiptingu valdsins. Í öllum öðrum tilvikum getur framsögumaður nefndarinnar ekki einungis beðið um skrár heldur einnig framkvæmt sjálfstæðar rannsóknir á vettvangi.
    Nefndinni er einnig heimilt að nota þvingunarráðstafanir við beitingu valds síns. Vitni, sem vanrækt hefur að mæta fyrir nefndinni, má færa fyrir hana. Neitun um að mæta, bera vitni eða sverja eið, líkt og neitun um að láta gögn af hendi, leiðir til viðurlaga samkæmt hegningarlögum (fangelsisvist frá sex mánuðum allt að tveimur árum; sektir á bilinu frá 3.000 frönkum upp í 50.000 franka). Ef vitni ber ljúgvitni getur það átt yfir höfði sér opinbera ákæru. Að beiði formanns nefndarinnar er mál höfðað á hendur öllum þeim sem brotlegir gerast. Rannsóknarnefndin getur einnig beðið endurskoðunardómstólinn um að rannsaka stjórnun opinberra þjónustufyrirtækja sem undir hann heyra.

7.  Málalok.
    Rannsóknarnefndin semur lokaskýrslu þar sem fram koma niðurstöður hennar og mat. Vegna grundvallarreglunnar um skiptingu valdsins tekur nefndin sjálf ekki ákvarðanir um það til hvaða ráðstafana skuli gripið á grundvelli niðurstaðna rannsóknarinnar. Lokaskýrslur rannsóknarnefnda eru birtar opinberlega nema viðkomandi þingdeild ákveði annað með sérstakri atkvæðagreiðslu. Sá pólitíski þrýstingur, sem þær stofnanir, sem völd hafa til að grípa til aðgerða, verða fyrir, er venjulega slíkur að þær eru reiðubúnar til að bregðast við.

8.  Framkvæmdin.
    Í Frakklandi hefur oft verið gripið til þess að skipa rannsóknarnefnd.

V.  Holland.
1.  Lagagrundvöllur.
    Rétturinn til rannsóknar kemur fram í 70 gr. hollensku stjórnarskrárinnar (Grondwet). Lögin um rannsóknir þingsins (Wet op de Parlamentaire Enquete — WPE) frá 5. ágúst 1950 voru samin á grundvelli þessarar greinar og þeim hefur síðan verið breytt 7. september 1977 og 1. júlí 1991. Frekari framkvæmdaákvæði er að finna í 137.–150. gr. þingskapa fyrstu málstofu og 147.–157. gr. þingskapa annarrar málstofu.
    Í Hollandi getur hvor málstofa um sig, sjálfstætt eða báðar málstofurnar sameiginlega, beitt réttinum sem þingið hefur til rannsóknar. Rannsóknina er ýmist hægt að fela fastanefnd innan þingsins eða sérstaklega skipaðri rannsóknarnefnd.

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefnd er skipuð ef um það berst skrifleg beiðni frá einni hinna starfandi nefnda eða einum eða fleiri þingmönnum. Beiðnina verður að rökstyðja. Í henni skal enn fremur tilgreina efni rannsóknarinnar og nöfn vitna og sérfræðinga sem kalla skal fyrir, ef unnt er. Beiðnin um að skipa rannsóknarnefnd er háð undangenginni athugun nefndar sem hefur það hlutverk að athuga slíkar beiðnir. Rannsóknarnefndin er í raun skipuð með ákvörðun þingdeildarinnar. Ákvörðunin og nöfn þeirra þingmanna, sem þátt taka í rannsókninni, eru birt í þingtíðindum.

3.  Starfstími.
    Starfstími rannsóknarnefndar er tilgreindur í ákvörðuninni um að skipa nefndina. Þingdeildin, sem nefndina skipar, getur ákveðið að framlengja starfstíma hennar.

4.  Samsetning.
    1. gr. WPE veitir hvorri þingdeild heimild til að ákveða fjölda nefndarmanna og varamanna þeirra. Æskilegur fjöldi er venjulega tilgreindur í upprunalegu beiðninni og samþykktur.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Í ofangreindum lagagrundvelli fyrir rétti þingsins til rannsóknar eru engin ákvæði þar sem valdsvið nefndanna er skilgreint nánar eða afmarkað. Valdsviðið er því víðtækt og er ekki í grundvallaratriðum takmarkað við þau málefni sem heyra undir þingdeildina. Umfang rannsóknarinnar er einkum skilgreint í ákvörðuninni um að nefndin skuli skipuð.
    Í hollenskri lögspeki leikur þó vafi á því hvort rannsóknarnefnd geti fjallað um atvik sem löngu eru liðin, athæfi sem refsing liggur við eða málefni sem einungis hafa sögulegt gildi. Sú skoðun er almennt ríkjandi að einungis skuli grípa til réttarins til rannsóknar þegar aðrar leiðir hafa brugðist. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. í WPE ákveður þingdeildin sjálf, sem nefndina skipar, efni rannsóknarinnar.

6.  Völd.
    Rannsóknarnefndir í Hollandi hafa víðtæk völd. Þær geta yfirheyrt alla hollenska ríkisborgara og íbúa í Hollandi. Formaðurinn og aðrir nefndarmenn, sem til þess eru tilnefndir, hafa rétt til að yfirheyra vitni, hlýða á álit sérfræðinga og færa þá fyrir nefndina ef nauðsyn krefur. Einnig er hægt að yfirheyra vitni og láta þau vinna eið að framburði sínum. Einstaklingar, sem vanrækja að mæta, geta sætt sektum eða varðhaldi. Rangur framburður er háður saksókn samkvæmt hegningarlögum. Nefnd hefur óskoraða heimild til að sjá, afrita eða fá með öðrum hætti aðgang að öllum skjölum sem nauðsynleg eru til þess að hún geti lokið rannsókn sinni. Einungis er gerð undantekning frá þessum almennt ótakmarkaða rétti til upplýsinga þegar vernda þarf þjóðarhagsmuni eða iðnaðar-eða viðskiptaleyndarmál.
    Samkvæmt 3. gr. WPE eru allir opinberir starfsmenn skuldbundnir til þess að aðstoða við rannsókn rannsóknarnefndar með því að bera vitni. Þetta á jafnt við um ráðherra og aðstoðarmenn þeirra. Opinberir starfsmenn eiga einnig rétt á að neita að bera vitni til þess að vernda þjóðarhagsmuni eða iðnaðarleyndarmál. Í slíkum tilvikum getur viðkomandi ráðherra þurft að færa fram nánari rök til réttlætingar (20. gr. WPE). Ráðherrar eru skuldbundnir til þess að veita upplýsingar sem nefndin biður um skriflega að því tilskildu að það stríði ekki gegn þjóðarhagsmunum.

7.  Málalok.
    Sé slíks óskað semur rannsóknarnefndin lokaskýrslu sem lögð er fyrir þingdeildina. Niðurstöður nefndarinnar eru birtar opinberlega og þeim fylgir því töluverður pólitískur þrýstingur. Þær hafa því veruleg áhrif á síðara pólitískt starf og löggjafarstarf þingdeildarinnar. Skjölin, sem tengjast rannsókninni, má einnig birta opinberlega nema nefndin ákveði annað.

VI.  Stóra-Bretland.
1.  Lagagrundvöllur.
    Þar eð Stóra-Bretland hefur ekki ritaða stjórnarskrá er ákvæði um skipun rannsóknarnefnda einungis að finna í starfsreglum þingsins (þingsköpum). Þessar nefndir eru hins vegar hugsaðar sem ráðgafaraðilar þingsins sem rannsaka staðreyndir fyrir pólítíska stefnumörkun eða til undirbúnings aðgerðum af hálfu þingsins. Málstofurnar báðar (neðri málstofan, House of Commons, og lávarðadeildin, House of Lords) geta skipað slíkar ráðgjafanefndir sameiginlega en slíkt er mjög óvenjulegt. Hin almenna regla er að þær séu skipaðar sjálfstætt.
    Þessar þingnefndir gegna ekki (lengur) því hlutverki að hafa eftirlit með ríkisstjórninni eða framkvæmdarvaldinu með rannsókn alvarlegra brota. Frá árinu 1921 hafa rannsóknardómar, skipaðir lögfræðingum og óháðir þinginu, annast rannsókn slíkra mála í Bretlandi. Þingnefndirnar hafa verið sviptar rétti til að rannsaka málefni sem varða verulega almenningshagsmuni til þess að tryggja að rannsóknirnar fari fram óháð pólítískum áhrifum stjórnmálaflokka.
    Greinargerðin hér á eftir á þannig aðeins við um þingnefndir sem skipaðar eru til ráðgjafar og skipulagningar.

2.  Skipun.
    Hvor málstofa um sig skipar rannsóknarnefndir í samræmi við hefðbundnar starfsreglur um skipun þingnefnda. Samkomulag verður að vera á milli fulltrúa helstu stjórnmálaflokkanna um að æskilegt sé að skipa rannsóknarnefnd. Um er að ræða bæði fastar rannsóknarnefndir og sérstakar rannsóknarnefndir. Hinar fyrrnefndu hafa venjulega með höndum stöðuga ráðgjöf og fjalla um pólítísk umræðuefni sem á döfinni eru á hverjum tíma en sérstöku rannsóknarnefndirnar eru skipaðar til að rannsaka sérstök svið stefnumörkunar.

3.  Starfstími.
    Engar reglur eru í gildi um starfstíma nefndar. Starfstíminn er því ákveðinn með ákvörðun þeirrar málstofu sem nefndina skipar.

4.  Samsetning.
    Ekkert ákvæði er um lágmarksfjölda nefndarmanna. Venjulega er ákvörðunarbær meiri hluti í nefndum lávarðadeildarinnar þrír nefndarmenn nema kveðið sé á um annað.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Rannsóknir nefndar geta í grundvallaratriðum tekið til allra efna. Yfirgrip þeirra verður einungis skilgreint og takmarkað í ákvörðun þingsins um að skipa nefndina. Skilmálum þessarar ákvörðunar má hins vegar breyta eða gera víðtækari. Engar reglur eru heldur til um að nefnd megi ekki rannsaka mál sem eru til umfjöllunar hjá dómstólum. Samt sem áður er í þingsköpum neðri málstofu breska þingsins (House of Commons) tilgreint að pólítískt mat nefndar megi ekki hafa áhrif á mál sem bíða umfjöllunar dómstóla.

6.  Völd.
    Rannsóknarnefndir geta yfirheyrt vitni og beðið um að fá að sjá skjöl. Ríkisstofnanir verða einnig að aðstoða við rannsóknina með því að leggja til upplýsingar og skjöl. Til þess að beita þessu valdi þarf nefndin hins vegar sérstök fyrirmæli frá málstofu. Einnig þurfa að koma til sérstök fyrirmæli ef nefndin vill skipa undirnefnd eða framselja völd til slíkrar nefndar. Önnur völd nefndarinnar eru ákveðin þegar hún er skipuð.

7.  Málalok.
    Rannsóknarnefnd semur skýrslu þar sem gerð er grein fyrir skoðun meiri hluta nefndarmanna. Í lávarðadeildinni inniheldur lokaskýrslan engin sérálit. Rannsókninni lýkur þegar lokaskýrslan er lögð fyrir málstofuna. Málstofan er ekki skuldbundin til þess að taka niðurstöður nefndarinnar til umfjöllunar.

VII.  Írland.
1.  Lagagrundvöllur.
    Í stjórnarskránni eru engin ákvæði um skipun rannsóknarnefnda en um þær er kveðið á í þingsköpum Dáil Eireann (fulltrúadeildarinnar, reglur 69–75) og Seanad Eireann (öldungadeildarinnar, reglur 58–67).
    Báðar deildir þingsins geta skipað rannsóknarnefndir, annaðhvort sameiginlega eða sjálfstætt. Þegar um sameiginlega nefnd er að ræða skipar hvor þingdeild um sig sína eigin nefnd og nefndirnar eru síðan sameinaðar. Kjörnefnd skipar nefndarmenn.

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefnd er skipuð á grundvelli ályktunar sem þingdeildin samþykkir með einföldum meiri hluta. þetta eru sérstakar nefndir sem skipaðar eru einungis ef og þegar þörf krefur.

3.  Starfstími.
    Starfstíminn er tilgreindur í ályktuninni þegar nefndin er skipuð. Þingdeildin getur sett rannsóknarnefndinni ákveðinn frest til að skila þinginu skýrslu.

4.  Samsetning.
    Fjöldi nefndarmanna er ákveðinn í ályktuninni um skipun nefndarinnar, en ekki er kveðið á um neinn lágmarksfjölda. Sérstök kjörnefnd hefur með höndum raunverulega skipun nefndarmanna. Samsetning nefndarinnar verður að endurspegla hlutfallslegan styrk stjórnmálaflokkanna eða hópanna sem fulltrúa eiga á þinginu. Nefndarmenn kjósa sér formann.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Rannsóknarnefndir geta í grundvallaratriðum rannsakað öll frumvörp og öll málefni sem almenning varða. Samt sem áður er það efni, sem í raun skal rannsaka, afmarkað með þingsályktuninni um nefndarskipunina. Nefndin getur ekki farið út fyrir hin tilgreindu mörk rannsóknarinnar.
    Á grundvelli samkomulags (úrskurðar forsetans, Dáil Eireann) er rannsóknarnefndinni ekki heimilt að rannsaka málefni sem eru til umfjöllunar fyrir dómstólum eða hjá einhverri evrópskri stofnun á þeim tíma til þess að skaða ekki málalok þar. Undantekningar hafa þó verið gerðar um málefni er varða almenningshagsmuni.

6.  Völd.
    Völd rannsóknarnefnda eru einnig ákveðin í ályktununum um að skipa þær. Nefndirnar geta venjulega stefnt vitnum og yfirheyrt þau, kallað fyrir sérfræðinga og beðið um að fá að sjá öll skrifleg gögn. Nefndinni er hins vegar ekki heimilt að beita þvingunum í þessu skyni. Hæstiréttur Írlands taldi 4. mgr. 3. gr. laga fulltrúadeildarinnar (Dáil Eireann Act 1970) um nefnd um endurskoðun ríkisreikninga, þar sem rannsóknarnefndum var heimilað að nota refsiviðurlög við beitingu valds síns, stríða gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

7.  Málalok.
    Lokaskýrslan, þar sem fram koma niðurstöður nefndarinnar og mat, er lögð fyrir þingdeildina sem skipaði nefndina (fyrir báðar þingdeildir þegar um sameiginlegar nefndir er að ræða). Þingdeildinni ber engin skylda til þess að fjalla um niðurstöður rannsóknar nefndarinnar. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram er heimilt að birta hana opinberlega.

VIII.  Ítalía.
1.  Lagagrundvöllur.
    82. gr. ítölsku stjórnarskrárinnar kveður á um skipun rannsóknarnefnda. Nánari málsmeðferðarreglur eru síðan settar fram í 140.–142. gr. þingskapa fulltrúadeildarinnar og 162.–163. gr. þingskapa öldungadeildarinnar. Á heildina litið er fátt um sérstakar skriflegar reglur um starfsemi og málsmeðferð rannsóknarnefnda þingsins. Hvor þingdeildin um sig getur skipað rannsóknarnefndir en einnig geta báðar þingdeildir skipað rannsóknarnefndir sameiginlega.

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefndir eru skipaðar með ákvörðun þingdeildarinnar.

3.  Starfstími.
    Starfstími nefndarinnar er ákveðinn af forseta deildarinnar sem hana skipar. Þingdeildin getur hins vegar framlengt hann að beiðni rannsóknarnefndarinnar.

4.  Samsetning.
    Um samsetningu og aðild að rannsóknarnefndum fer eftir sömu reglum og settar hafa verið um yfirferð lagafrumvarpa. Samsetningu nefndarinnar verður í fyrsta lagi að vera svo háttað að tryggt sé að allir stjórnmálaflokkar og hópar á þinginu eigi þar fulltrúa í hlutfalli við þingstyrk sinn. Hver hópur verður að eiga að minnsta kosti einn fulltrúa í rannsóknarnefndinni og af þessu ræðst (lágmarks)fjöldi nefndarmanna. Afleiðingin er sú að í sameiginlegum rannsóknarnefndum beggja deilda á tíunda kjörtímabilinu voru nefndarmenn t.d. 41.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Samkvæmt viðeigandi lagaákvæðum getur rannsóknarnefnd rannsakað öll málefni er varða almenningshagsmuni. Í lögum eru ekki settar neinar takmarkanir á starfssviðið.

6.  Völd.
    Við framkvæmd rannsóknarinnar hafa rannsóknarnefndir sömu völd og dómstólar og eru háðar sömu takmörkunum og þeir. Þeim er heimilaður aðgangur að skjölum, sem nauðsynleg eru fyrir rannsókn þeirra, að svo miklu leyti sem þau eru ekki auðkennd sem leyndarmál. Stjórnvöld og dómstólar eru skuldbundin til að aðstoða og opinberum starfsmönnum er skylt að mæta fyrir nefndinni og bera vitni. Samkvæmt þingskapareglunum getur nefndin ekki kosið sér eigin formann nema þingdeildin hafi framselt henni það vald. Nefndin getur framkvæmt rannsóknir sínar utan þingstaðarins eftir að hafa fyrst tilkynnt forseta viðkomandi þingdeildar um það.

7.  Málalok.
    Nefnd lýkur rannsókn sinni með nokkrum ályktunum sem birtar eru í Stjórnartíðindum lýðveldisins.

IX.  Spánn.
1.  Lagagrundvöllur.
    Í 76. gr. spænsku stjórnarskrárinnar frá 1978 er kveðið á um skipun rannsóknarnefnda þingsins. Frekari framkvæmdaákvæði um málsmeðferð eru í 51.–53. gr. þingskapa fulltrúadeildarinnar frá 1982 og í 50., 59. og 60. gr. þingskapa öldungadeildarinnar frá 1982. Þar er tilgreint að þingdeildirnar geti hvor um sig skipað sjálfstæðar rannsóknarnefndir eða framkvæmt rannsóknir með sameiginlegri rannsóknarnefnd.

2.  Skipun.
    Í öldungadeildinni er rannsóknarnefnd skipuð með ákvörðun deildarinnar að beiðni ríkisstjórnarinnar eða 25 öldungadeildarþingmanna sem ekki eru allir úr sama þingflokki. Í fulltrúadeildinni er ákvörðun um að skipa rannsóknarnefnd tekin að beiðni ríkisstjórnarinnar, stjórnarnefndar, tveggja stjórnmálaflokka eða eins fimmta hluta þingmanna. Sameiginleg rannsóknarnefnd er skipuð af báðum deildum þingsins.

3.  Starfstími.
    Rannsóknarnefndir ákveða sjálfar starfstíma sinn. Þær eru þó jafnan lagðar niður er yfirstandandi kjörtímabili þingsins lýkur.

4.  Samsetning.
    Nefndarmenn í rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar eru að minnsta kosti 25, og þar eiga allir stjórnmálaflokkar fulltrúa í hlutfalli við styrk þeirra í öldungadeildinni. Í fulltrúadeildinni er ekkert ákvæði um lágmarksfjölda nefndarmanna, þannig að fjöldi þeirra er ákveðinn af þingdeildinni þegar ákveðið er að skipa nefndina. Tillit verður að taka til þingstyrks stjórnmálaflokkanna í fulltrúadeildinni. Þegar um sameiginlegar nefndir er að ræða verður skipan nefndarmanna að vera hlutfallsleg að tvennu leyti. Báðar þingdeildirnar verða að eiga nægilegan og sanngjarnan fjölda fulltrúa í nefndinni og sama gildir um hvern þeirra stjórnmálaflokka sem þar eiga fulltrúa.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, 59. gr. þingskapa öldungadeildarinnar og 52. gr. þingskapa fulltrúadeildarinnar er rannsóknarnefndum heimilt að rannsaka öll málefni er varða almenningshagsmuni. Að þessu ákvæði undanskildu eru engar skriflegar takmarkanir á því hvað sé heimilt að rannsaka.
    Nefndum er í grundvallaratriðum einnig heimilt að rannsaka málefni sem eru til umfjöllunar hjá dómstólum eða sem dómstóll hefur þegar kveðið upp úrskurð um. Ástæða þessa er sú að rannsóknarnefndir gegna einungis pólitísku eftirlitshlutverki en dómstólar hafa hins vegar dómsvald með höndum. Valdi er þannig skipt á milli tveggja þátta ríkisvaldsins sem gerir rannsóknarnefndir óháðar úrlausnum dómstóla. Hins vegar eru niðurstöður rannsóknarnefndar ekki bindandi fyrir dómstóla og hafa ekki áhrif á úrlausnir þeirra. Þessar tvær stofnanir starfa óháð hvor annarri í þágu réttrar beitingar laganna.

6.  Völd.
    Rannsóknarnefndir starfa á grundvelli starfsáætlunar sem gerð er fyrir fram. Þar er sett fram hvernig málsmeðferð skuli hagað og áætlunin er lögð fyrir forseta þeirrar þingdeildar sem nefndina skipar. Einnig er nefndinni skylt að veita þingdeildinni reglulega upplýsingar um störf sín.
    Við rannsóknina geta nefndir stefnt og yfirheyrt alla einstaklinga eða lögaðila. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. og 4. mgr. 2. gr. laganna um framkvæmd ákvæða stjórnarskrárinnar (Ley orgánica de comparecencia ante las comisiones de investigacíon 5/84 frá 24. maí) verða allir spænskir ríkisborgarar eða útlendingar búsettir á Spáni að mæta í eigin persónu fyrir rannsóknarnefnd þingsins sé þeim stefnt. Þetta tekur sömuleiðis til allra opinberra starfsmanna þegar yfirmaður þeirra hefur fengið afrit af stefnunni.
    Vanræksla á því að hlíta þeirri lagaskyldu að mæta fyrir nefnd er talin alvarlegt athæfi skv. 1. mgr. 4. gr. „Ley orgánica“ og eru viðurlög í samræmi við það. Samkvæmt 109. gr. stjórnarskrárinnar, 67. gr. þingskapa öldungadeildarinnar og 1. mgr. 44. gr. þingskapa fulltrúadeildarinnar geta rannsóknarnefndir farið þess á leit við forseta þeirrar þingdeildar sem nefndina skipaði að fá frá stjórnvöldum allar upplýsingar eða skjöl sem henni eru nauðsynleg til að ljúka rannsókninni. Rannsóknarnefnd öldungadeildarinnar þarf samþykki eins þriðja hluta nefndarmanna áður en hún getur beðið um skjöl frá stjórnvöldum. Þingnefnd fulltrúadeildarinnar getur hins vegar beðið um skjöl undir öllum kringumstæðum. Stjórnvöld verða að leggja fram rökstuðning innan 30 daga ef þau neita að láta skjöl af hendi við forseta fulltrúadeildarinnar.

7.  Málalok.
    Rannsóknarnefnd semur skýrslu þar sem fram koma niðurstöður hennar og sendir hana til þeirrar þingdeildar sem nefndina skipaði. Um skýrsluna er fjallað á allsherjarfundi þingdeildarinnar. Ef niðurstöðurnar hljóta samþykki eru þær birtar í þingtíðindum. Þær eru einnig sendar fjármálaráðuneytinu til frekari meðferðar.

X.  Portúgal.
1.  Lagagrundvöllur.
    Í 181. gr. portúgölsku stjórnarskrárinnar (eins og henni var breytt árið 1989) er kveðið á um skipun rannsóknarnefnda þingsins. Frekari framkvæmdaákvæði er að finna í lögum N-43/77 og 253.–261. gr. þingskapa þingsins. Tvö ný frumvörp voru einnig lögð fram (N-5/VI og 53/VI) á þingtímabilinu 1991–92.

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefnd er skipuð með ályktun þingins. Ályktunartillöguna geta lagt fram nokkrir óháðir þingmenn, stjórnmálaflokkur eða einn fimmti hluti opinbers fjölda þingmanna. Í síðastnefnda tilvikinu þýðir þetta að 30 þingmenn verða að styðja tillöguna. Forsætisráðherra getur einnig skipað nefnd að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Að lokum eiga hinar sérstöku fastanefndir þingsins eða hinar tímabundnu þingnefndir rétt á að leggja til að skipuð verði rannsóknarnefnd.

3.  Starfstími.
    Starfstími rannsóknarnefndar er ákveðin af þinginu þegar hún er skipuð. Í grundvallaratriðum á hann ekki að vera lengri en sex mánuðir en þingið getur framlengt hann.

4.  Samsetning.
    Við skipun nefndar skal reynt að tryggja að í nefndinni eigi sæti fulltrúar hinna ýmsu stjórnmálaflokka sem sæti eiga á löggjafarsamkomunni.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Rannsóknarnefndir geta rannsakað öll mál er varða almenningshagsmuni að svo miklu leyti sem þau heyra undir vald og ábyrgð þingsins. Þetta tekur til rannsóknar á lögum og athöfnum ríkisvaldsins og stjórnsýsluaðila. Nefndirnar eru að sjálfsögðu skuldbundnar í störfum sínum til að virða stjórnarskrána og gildandi lög. Rannsóknarnefnd getur ekki rannsakað málefni sem ekki falla undir valdsvið þingins.

6.  Völd.
    Rannsóknarnefndir í Portúgal hafa sömu völd og dómstólar við framkvæmd rannsókna sinna. Þær geta stefnt og yfirheyrt hvern þann sem aðstoðað getur við rannsóknina. Mætingarskylda fyrir rannsóknarnefnd nær í grundvallaratriðum til embættismanna ríkisins og annarra opinberra starfsmanna en þeir kunna að vera undanþegnir henni vegna ástæðna er varða ríkis- eða öryggismál. Samvinna við stjórnsýsluaðila og dómsvöld er með sama hætti og upplýsingaskipti milli dómstólanna og stjórnvalda.

7.  Málalok.
    Niðurstöðurnar, sem rannsóknarnefndir taka saman, eru lagðar fyrir löggjafarsamkomuna, annaðhvort í einu lagi eða hver um sig. Einnig er heimild til þess að niðurstöðunum fylgi tillaga að þingsályktun. Lokaskýrsla rannsóknarnefndarinnar er síðan birt í þingtíðindum. Vert er að vekja á því athygli að yfirlýsingar, sem gefnar eru fyrir nefndinni, eru trúnaðarmál og ekki má birta þær opinberlega án leyfis vitnisins.

XI.  Grikkland.
1.  Lagagrundvöllur.
    Réttur gríska þingsins til rannsóknar er skráður í 2. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Þessu til viðbótar koma 144.–148. gr. þingskapanna.

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefndir eru skipaðar með ákvörðun þingsins. Venjulega er krafist hreins meiri hluta atkvæða viðstaddra þingmanna. Ákvörðunarbær meiri hluti í þessu tilviki er tveir fimmtu hlutar þingmanna. Þó er krafist hreins meiri hluta allra þingmanna til þess að skipa rannsóknarnefndir ef rannsaka á utanríkismál eða málefni er varða varnir ríkisins. Tillaga um að þingið ákveði að skipa rannsóknarnefnd verður að hljóta stuðning eins fimmta hluta heildarfjölda þingmanna. Tillaga um skipun nefndar verður í öllum tilvikum að vera rökstudd að fullu.

3.  Starfstími.
    Starfstími rannsóknarnefndar er ákveðinn af þinginu um leið og nefndin er skipuð. Þó er hægt að framlengja hann með sérstakri ákvörðun allsherjarfundar þingsins. Hvað sem öðru líður verður störfum rannsóknarnefndar að vera lokið áður en kjörtímabili þingsins lýkur.

4.  Samsetning.
    Samsetning nefndarinnar verður að taka mið af þingstyrk hinna ýmsu stjórnmálasamtaka á þinginu.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Nefndirnar geta rannsakað sérstök málefni er varða almenningshagsmuni. Engar lagalegar takmarkanir eru settar á störf þeirra. Sérstakar rannsóknarnefndir má einnig skipa til að hafa eftirlit með og rannsaka hvaða opinbera stofnun eða fyrirtæki sem er.

6.  Völd.
    Rannsóknarnefnd hefur sömu völd og sakadómur. Formaður nefndarinnar tekur að sér skyldur rannsóknardómara að því er varðar efnið sem til rannsóknar er. Á meðan á rannsókninni stendur er hægt að fela einum eða fleiri nefndarmönnum eða dómurum að vinna að sérstökum skýrt afmörkuðum verkefnum.
    Meðal þess valds, sem nefndin hefur, er réttur til að kveðja til einstaklinga eða lögaðila samkvæmt allsherjarrétti eða einkarétti til að mæta fyrir nefndinni. Dómstólar geta stefnt vitnum til að mæta. Nefnd getur yfirheyrt vitni, fengið álit sérfræðinga og framkvæmt rannsóknir á vettvangi.
    Vanræksla af hálfu vitna að uppfylla skuldbindingar sínar er refsiverð samkvæmt hegningarlögum. Nefndirnar eiga enn fremur rétt á að biðja um öll skjöl frá ríkisvaldinu eða frá lögaðilum samkvæmt allsherjarrétti eða einkarétti. Undantekning er einungis gerð varðandi skjöl ef birting þeirra gæti skaðað hagsmuni eða öryggi ríkisins. Allar ráðstafanir, sem rannsóknarnefnd grípur til, verða að vera nauðsynlegar til þess að ná markmiðum hennar.

7.  Málalok.
    Niðurstöður nefndarinnar eru lagðar fram á allsherjarfundi þingsins og að tillögu eins fimmta hluta þingmanna eru þær teknar á dagkrá.

XIII.  Danmörk.
1.  Lagagrundvöllur.
    51. gr. dönsku stjórnarskrárinnar (Grundloven) veitir þinginu rétt til þess að skipa rannsóknarnefndir. Frekari framkvæmdaákvæði eru í 7. og 8. gr. þingskapa danska þjóðþingsins (Folketinget).

2.  Skipun.
    Rannsóknarnefnd er skipuð að beiðni eins eða fleiri þingmanna með meirihlutaákvörðun danska þjóðþingsins.

3.  Starfstími.
    Starfstíma nefndar lýkur annaðhvort þegar rannsóknum hennar er lokið eða þegar yfirstandandi kjörtímabili þingsins lýkur og fer það eftir ákvörðun danska þjóðþingsins við skipun nefndarinnar.

4.  Samsetning.
    Í rannsóknarnefndum danska þjóðþingsins eru að meginstefnu til 17 nefndarmenn og verður við skipun þeirra að tryggja að stjórnmálaflokkar eða hópar á þinginu eigi þar sæti í hlutfalli við þingstyrk sinn. Þetta á að tryggja að hinar mismunandi stjórnmálaskoðanir eigi sér fulltrúa í nefndinni.

5.  Valdsvið og takmarkanir.
    Rannsóknarefni eru venjulega almennt mikilvæg málefni. Þegar mikilvægt málefni er rannsóknarvert tekur danska þjóðþingið eitt ákvörðun um það. Slík tilvik fela oft í sér rannsókn og umræður um vanrækslu og yfirsjónir af hálfu stjórnvalda. Sú staðreynd að slík vanræksla kunni einnig að leiða til saksóknar samkvæmt lögum kemur ekki í veg fyrir rannsókn. Rannsóknarnefndir geta einnig rannsakað einstök afmörkuð mál eða hrein tæknileg atriði.
    Almennt séð er starfi rannsóknarnefnda ekki ætlað að koma í staðinn fyrir rannsóknir af hálfu viðeigandi stjórnvalda heldur öllu fremur að koma sem gagnrýnin viðbót við þær. Valdsvið rannsóknarnefndanna er þar af leiðandi víðtækt. Ekkert svið er undanþegið rannsókn. Innihald og yfirgrip starfa nefndarinnar takmarkast einungis af ákvörðun danska þjóðþingsins þegar nefndin er skipuð. Með ákvörðuninni er nefndinni settur rammi og innan hans er nefndinni gert að vinna að rannsókn sinni.

6.  Völd.
    Við framkvæmd rannsóknar eiga nefndirnar rétt á að beina spurningum skriflega eða munnlega til einstaklinga eða opinberra stofnana með það fyrir augum að afla upplýsinga. Ráðuneytum og öðrum stjórnvöldum ríkisins er skylt að aðstoða nefndina við störf hennar með því að láta í té upplýsingar. Einnig kann að vera nauðsynlegt að yfirheyra ráðherra beint (ef við á fyrir nefndinni). Rannsóknarnefndir geta skipulagt vitnaleiðslur og stefnt þangað vitnum og sérfræðingum sem að meginstefnu til eru einnig skuldbundin til að bera vitni.
    Lögin veita nefndunum hins vegar ekkert vald til að beita þvingunarúrræðum. Að þessu leyti eru þær háðar íhlutun og aðstoð dómstólanna. Íhlutun dómstólanna er þó í reynd undantekning og sjaldan er gripið til slíkra aðgerða.

7.  Málalok.
    Skýrslu rannsóknarnefndar notar danska þjóðþingið sem grundvöll að umræðum á þinginu og til frekari aðgerða.


C.  SAMANBURÐUR OG MAT
    Samburður á ákvæðum í aðildarríkjunum hlýtur að hefjast með frumtúlkun á hlutverki rannsóknarnefnda þjóðþinga. Svo virðist sem þeim séu í meginatriðum falin tvö mismunandi hlutverk.
    Annars vegar getur rannsóknarnefnd verið notuð til þess að ryðja brautina fyrir tillögur að löggjöf með vitnaleiðslum og almennri upplýsingasöfnun og hins vegar getur rannsóknarnefnd verið notuð til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og upplýsa um lögbrot eða tilhneigingar í þá átt með því að rannsaka athafnir ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda. Einungis hið síðarnefnda hlutverk, sem felur í sér rannsókn á lögbrotum, samsvarar því hlutverki sem rannsóknarnefndum er ætlað að gegna sem tæki fyrir þingið til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þannig er einungis unnt að flokka nefndir, sem rannsaka ólögmætt athæfi, sem rannsóknarnefndir í raunverulegum stjórnskipunarlegum skilningi. Vegna þessa beindist spurningalisti Evrópuþingsins einkum að rannsóknum á lögbrotum.
    Þegar svörin frá aðildarríkjunum eru skoðuð kemur í ljós að einungis í 11 aðildarríkjum er rannsóknarnefndum veitt þetta eftirlitsvald. Í Bretlandi einu hefur það verkefni að rannsaka lögbrot hjá hinu opinbera verið falið stofnunum óháðum þinginu frá árinu 1921. Ætlunin með því er að tryggja að rannsóknirnar verði ekki fyrir pólitískum áhrifum frá stjórnmálaflokkum. Rannsóknardómarnir, sem fara með eftirlitsvaldið, eru skipaðir lögfræðingum. Hin aðildarríkin nota stjórnskipunarreglur um samsetningu nefndanna og viðurkenningu á réttindum minni hlutans til að tryggja sjálfstæði rannsóknarnefnda þjóðþinganna. Bretland fer þannig sínar eigin leiðir, óháð þinginu, við rannsóknir á ólögmætu athæfi opinberra aðila.
    Þegar lagt er mat á afstöðu Breta hér á eftir verður að hafa hugfasta þá staðreynd að starfsemi rannsóknarnefndanna í Bretlandi er takmörkuð við undirbúning lagafrumvarpa.

I.  Lagagrundvöllur.
    Samanburður á lagagrundvelli fyrir starfi rannsóknarnefnda þjóðþinga leiðir í ljós að réttur til rannsóknar er varðveittur í stjórnarskrám níu af tólf aðildarríkjum. Þetta sýnir mikilvægi þessara nefnda sem stjórnunartækja fyrir þingin. Í stjórnarskrám flestra aðildarríkjanna er ekki gert meira en að veita þennan rannsóknarrétt en í nokkrum þeirra (t.d. á Ítalíu, Spáni og í Þýskalandi) eru ítarlegri upplýsingar um hvaða form þessi réttur til rannsóknar eigi að taka. Almennt eru þó reglurnar um málsmeðferð og völd nefndanna skráðar í sérstökum lögum eða í þingsköpum viðkomandi þingdeilda.
    Það er sérstakt fyrir Þýskaland að 44. gr. þýskra grundvallarlaga kveður á um grunnreglurnar en þess utan eru engin önnur framkvæmdaákvæði sett svo bindandi séu. Á grundvelli viðtekinnar venju samkvæmt lögum er þess í stað notast við hinar svokölluðu „IPA-reglur“. Það stendur þó til að bæta úr þessu með setningu lagagrundvallar.
    Um rétt þjóðþingsins til rannsókna í Frakklandi er kveðið á í tilskipun en um beitingu réttarins fer eftir sérstökum lögum og þingsköpum. Einungis í Bretlandi og Írlandi eru þingsköp þingdeildanna eini lagagrundvöllurinn fyrir rannsóknum.

II.  Skipun.
    Í öllum aðildarríkjunum eru rannsóknarnefndir þjóðþinganna skipaðar með ákvörðun meiri hluta annarrar eða beggja þingdeilda. Þetta er aðferðin við það sem nefnt er meirihlutarannsókn. Á undan ákvörðun þingsins verður að koma rökstudd beiðni um skipun rannsóknarnefndar. Fjöldi þingmanna, sem þarf til að leggja fram beiðni, er breytilegur frá einu aðildarríki til annars. Í sumum tilvikum (í Danmörku og Hollandi) getur einn þingmaður lagt fram beiðni en í flestum aðildarríkjanna er krafist nánar tilgreinds lágmarksfjölda. Á Spáni getur beiðni einnig komið frá ríkisstjórninni, tveimur stjórnmálaflokkum eða stjórnarnefndinni og í Portúgal frá ríkisstjórninni, einum stjórnmálaflokki eða þingnefnd sem þegar er starfandi.
    Þýskaland er eina ríkið í Evrópubandalaginu sem hefur ákvæði um minnihlutarannsókn sem heimilar einum fjórða hluta þingmanna þýska þjóðþingsins að fá skipaða rannsóknarnefnd jafnvel þótt meiri hlutinn hafi greitt atkvæði gegn því. Réttur þjóðþingsins til rannsóknar verður þannig ákveðinn réttur minni hlutans sem á að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar á þingi. Hugsunin að baki þessu er sú, að ríkjandi þingmeirihluti sjái sér almennt ekki hag í því að flett sé ofan af ríkisstjórn „hans“ og því sé líklegt að hann hafi efasemdir um eða setji sig á móti skipun rannsóknarnefndar til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það er athyglisvert að það er einmitt þessi röksemd sem hin aðildarríkin færa fram sem útskýringu á því hve fáar rannsóknarnefndir hafa verið skipaðar. Sé þetta rétt mundi það styrkja töluvert hlutverk rannsóknarnefnda sem skilvirkrar aðferðar til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu ef möguleikinn á minnihlutarannsóknum yrði látinn ná til Evrópubandalagsins í heild. Þörfin á því að koma á minnihlutarannsókn á Evrópuþinginu er ekki eins knýjandi vegna þess að þar er ekki sama togstreitan á milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

III.  Starfstími.
    Í öllum aðildarríkjunum hætta rannsóknarnefndir störfum þegar þær hafa lokið rannsóknum sínum og samið lokaskýrslu sína. Raunverulegur starfstími rannsóknarnefndar er ákveðinn þegar þingið skipar nefndina. Rannsóknarnefndin er þannig bundin sem undirstofnun þingsins af þeim tímamörkum sem viðkomandi þing setur. Venjulega getur þingið þó framlengt þennan frest. Þingdeildin, sem nefndina skipar, hefur einnig rétt til að leggja nefndina niður áður en fyrirskipaður starfstími nefndarinnar er liðinn. Það er einungis í Frakklandi sem starfsemi nefndarinnar verður, hvað sem öðru líður, að ljúka að minnsta kosti sex mánuðum eftir skipun hennar eða um leið og dómsrannsókn hefst. Annað atriði, sem er sérstakt fyrir Frakkland, er að ekki er unnt að endurskipa rannsóknarnefnd til að rannsaka efni fyrr en 12 mánuðir hafa liðið frá því að hún lauk fyrri rannsókn sinni á sama efni. Þar eru þannig strangari (tíma)takmarkanir á starfsemi nefnda.
    Í sex af aðildarríkjunum tólf (Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg, Spáni, Grikklandi og Danmörku) setja lok yfirstandandi kjörtímabils þingsins rannsóknum rannsóknarnefndar einnig tímamörk. Störfum nefndarinnar lýkur sjálfkrafa við lok kjörtímabilsins með þeirri afleiðingu að hið nýkjörna þing verður að ákveða að skipa nýja nefnd í byrjun næsta kjörtímabils ef halda á rannsóknum áfram. Þetta er einnig afleiðing þeirrar staðreyndar að rannsóknarnefnd er einungis undirstofnun þingsins og því er hún alltaf háð umboði hins (ný)kjörna þings.

IV.  Samsetning.
    Í flestum aðildarríkjanna eru engin skilyrði um fastan fjölda nefndarmanna í rannsóknarnefndum. Venjulega er lögð áhersla á að tryggja að allir stjórnmálaflokkar eða stjórnmálahópar eigi fulltrúa í nefndinni (að minnsta kosti einn) í hlutfalli við þingstyrk. Þessu er ætlað að tryggja að allir stjórnmálaflokkar eigi rétt til þátttöku í yfirstandandi rannsóknum. Sem undirstofnun þingsins endurspeglar nefndin þannig samsetningu þingsins í smækkaðri mynd. Kröfurnar um hlutfallslega þátttöku einstakra þingflokka leiða þannig sjálfkrafa af sér lágmarksfjölda nefndarmanna.
    Í öllum aðildarríkjunum er greinilega reynt að halda fjölda nefndarmanna í lágmarki. Einungis með þessum hætti er nefndinni kleift að sinna rannsóknum sínum, sem oft eru víðtækar, á skilvirkan og fljótlegan hátt án þess að verða föst í seinvirku innra ákvörðunartökuferli eða annarri málsmeðferð. Einungis á Írlandi eru nefndarmenn sjálfir skipaðir af sérstakri kjörnefnd.

V.  Valdsvið og takmarkanir.
    Rannsóknarnefndir þjóðþinga í öllum aðildarríkjunum hafa mjög víðtækt starfssvið. Þær eiga rétt á að rannsaka „málefni eða atriði er varða almenningshagsmuni“ eða „málefni sem skipta almennt miklu máli“. Eins og er mundi þetta orðalag heimila rannsóknarnefndum að stunda rannsóknir á nærri öllum sviðum. Af þessari ástæðu beita sum aðildarríkin (Þýskaland, Lúxemborg, Belgía og Portúgal) skýlaust grundvallarreglunni um skiptingu valdsins til að takmarka starfsemi þeirra.
    Rannsóknarnefnd getur því ekki rannsakað málefni sem ekki heyra undir stjórnskipulega ábyrgð þingsins. Þessu er ætlað að tryggja að starfsemi rannsóknarnefndar þingsins leiði ekki til valdframsals sem lög gera ekki ráð fyrir og raski þannig skiptingu ríkisvaldsins. Rannsóknarnefndum í Þýskalandi er einnig bannað að rannsaka yfirstandandi athafnir ríkisstjórnarinnar. Í öllum aðildarríkjunum er inntak og yfirgrip rannsóknar ákveðið í ákvörðun þingsins um að skipa nefndina. Allar rannsóknir verða að fara fram innan þessa skipulagsramma.
    Munur er á því frá einu aðildarríki til annars hvort yfirstandandi eða yfirvofandi málssókn girði fyrir rannsókn þingnefndar eða valdi því að henni ljúki sjálfkrafa. Mikill meiri hluti aðildarríkjanna telur þessar tvær málsmeðferðir algjörlega óháðar hvor annarri. Ástæða þessa er sú að nefndir leggja hreint pólitískt mat á þau málefni sem til rannsóknar eru en dómstólameðferð varðar hins vegar einungis mat á grundvelli laga. Samkvæmt grundvallarreglunni um skiptingu valdsins er þannig um að ræða tvö algjörlega aðgreind ábyrgðarsvið. Afleiðingin er sú að rannsóknarnefndir og dómstólar eru ekki bundin af niðurstöðum hvorra annarra. Þessi trygging fyrir sjálfstæði útilokar einnig möguleikann á því að annað matið geti haft áhrif á hitt.
    Í Frakklandi er rannsóknarnefndum hins vegar bannað með lögum að rannsaka málefni þar sem atbeina dómstóla er krafist eða sem þegar eru til umfjöllunar hjá dómstólum. Um leið og dómstólarannsókn hefst verður nefndin að hætta störfum. Í reyndinni hefur þó verið slakað á þessum ströngu ákvæðum í Frakklandi til þess að koma í veg fyrir að starfsemi nefnda lamist. Eins og útskýrt var hér að ofan eru viss tilvik þar sem þessar tvenns konar meðferðir geta haldið áfram samhliða, og aðstæður verða þannig svipaðri því sem gerist í hinum aðildarríkjunum. Slökun á þeirri grundvallarreglu að ekki megi skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka málefni, sem heyra undir dómstóla, er einnig greinileg á Írlandi. Hér er reglan um ósamrýmanleika brotin í framkvæmd með því að samþykkja undantekningartilvik.

VI.  Völd.
    Í nærri öllum aðildarríkjunum eru völd rannsóknarnefnda hin sömu og völd rannsóknardómara í sakamáli. Í sumum tilvikum er ákvæðum, sem gilda um rannsókn sakamála, beitt með lögjöfnun. Rannsóknarnefndum er í öllum löndum Evrópubandalagsins heimilað að stefna vitnum og yfirheyra þau og hlýða á sérfræðinga. Í Frakklandi og Benelúx-löndunum er beinlínis kveðið á um yfirheyrslu eiðsvarinna vitna. Ríkisstarfsmenn og opinberir starfsmenn eru einnig að meginstefnu til skyldugir til að mæta fyrir nefndum og bera vitni.
    Vegna hins almenna skilyrðis um samvinnu stjórnvalda er yfirmönnum opinberra starfsmanna, sem kvaddir eru til að mæta fyrir nefnd, yfirleitt skylt að veita þeim leyfi til að bera vitni. Undanþága frá þessari vitnaskyldu er einungis möguleg ef um ríkis- eða iðnaðarleyndarmál er að ræða. Rangur framburður fyrir rannsóknarnefnd er almennt tilefni til saksóknar af hálfu dómstóla. Að auki hafa rannsóknarnefndir í nærri [öllum] aðildarríkjunum rétt til að leggja hald á skjöl eða krefjast aðgangs að skrám sem komið gætu að notum við rannsókn þeirra. Neitun er hér einnig einungis möguleg ef um leyndarmál er að ræða.
    Í flestum aðildarríkjanna er það enn á ábyrgð dómstólanna að framfylgja því valdi sem nefndunum er veitt. Nefnd getur þannig farið fram á að vitnum sé stefnt, hald sé lagt á skjöl eða húsleit framkvæmd en slíkt er þó háð samþykki dómara. Í sumum tilfellum hafa nefndirnar þó heimild til þess að beita þvingunum til þess að fást við vitni sem vanrækja að mæta eða neita að bera vitni (sbr. Lúxemborg og Holland). Einungis í Frakklandi er rannsóknarnefndum heimilað að stefna vitnum eða framkvæma rannsókn á vettvangi á eigin ábyrgð.
    Á heildina litið virðast dómstólarnir í flestum aðildarríkjanna eiga einir rétt á íhlutun sem varðar grundvallarmannréttindi borgaranna. Rannsóknarnefndir eru þannig háðar samvinnu við dómstólana sem þýðir að þörfina fyrir þvingunarráðstafanir verður að rökstyðja að fullu. Það hefur svo í för með sér aukna vernd á réttindum viðkomandi einstaklinga.

VII.  Málalok.
    Rannsóknarnefndir í öllum aðildarríkjunum ljúka rannsókn sinni með framlagningu lokaskýrslu. Þessi skýrsla hefur að geyma niðurstöður nefndarinnar og mat hennar á þessum niðurstöðum í tengslum við rannsóknarefnið. Í Þýskalandi koma einnig í lokaskýrslunni fram skoðanir þeirra nefndarmanna sem ekki styðja skoðun meiri hlutans. Nefndin getur í lokaskýrslu sinni einnig gert sérstakar tillögur um aðgerðir til úrbóta eða tillögu til þingsályktunar. Um lokaskýrsluna er síðan fjallað á allsherjarfundi þingdeildarinnar. Það er síðan undir allsherjarfundinum komið hvort ákveðið verður að grípa til þeirra aðgerða sem tillaga er gerð um í lokaskýrslunni.
    Þótt lokaskýrsla rannsóknarnefndar hafi þannig engin lagaleg áhrif hefur hún töluverð pólitísk áhrif. Þetta er vegna þess að lokaskýrslurnar eru venjulega birtar opinberlega og pólitíski þrýstingurinn sem af því leiðir neyðir þingið til þess að grípa til sérstakra ráðstafana. Tilhögunin í Hollandi gengur skrefi lengra og leyfir að meginstefnu til birtingu allra skjala sem rannsóknina varða. Í Portúgal er þó sérstakur gaumur gefinn að skilyrðum um trúnað. Það er vegna pólitískra áhrifa þeirra sem rannsóknarnefndum hefur verið komið á sem skilvirkum þinglegum stjórntækjum. Í Belgíu er enn fremur sá möguleiki fyrir hendi að senda lokaskýrslu nefndarinnar beint til dómstólanna þannig að unnt verði að höfða mál. Þegar öllu er á botninn hvolft tryggir þessi tegund málsmeðferðar að yfirleitt er gripið til ráðstafana á grundvelli niðurstaðna nefndarinnar.

VIII.  Niðurstöður.
    Þó að smáatriði varðandi málsmeðferð kunni að vera breytileg er það verkefni rannsóknarnefnda þjóðþinga í öllum aðildarríkjunum, að Bretlandi undanskildu, að framkvæma allar rannsóknir sem fylgja eftirliti með starfsemi ríkisvaldsins eða framkvæmdarvaldsins.
    Skilvirk beiting eftirlitsvalds rannsóknarnefnda í Evrópubandalaginu er þó takmörkuð vegna ónógrar viðurkenningar á réttindum minni hluta. Möguleikinn á minnihlutarannsókn er einungis fyrir hendi í Þýskalandi. Víðtækari viðurkenning á réttindum minni hluta mundi auðvelda að koma í veg fyrir að stjórnmálaflokkar, sem meiri hluta hafa í ríkisstjórn, standi í vegi fyrir rannsókn, jafnvel þótt það yrði einnig til þess að auka áhrif rannsóknarnefnda í pólitísku áróðursskyni. Aukin viðurkenning á réttindum minni hluta í aðildarríkjum Evrópubandalagsins mundi því auðvelda skilvirkari aðgerðir gegn slæmri stjórnun.
Neðanmálsgrein: 1
    Í textanum stendur „remit“ sem venjulega hefur merkinguna „það að (endur)senda mál til (óæðri) dómstóls“. Á samhenginu verður ekki annað séð en að átt sé við valdsvið eða umboð. — Þýð.
Neðanmálsgrein: 2
    Orðið „all“ virðist hafa fallið brott í frumtexta. — Þýð.