Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 74 . mál.


91. Nefndarálit



um frv. til lánsfjáraukalaga fyrir árið 1994.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Ljóst er að ófremdarástand hefur skapast á undanförnum vikum þar sem heimildir til útgáfu húsbréfa eru uppurnar og biðraðir hafa myndast og fjöldi fólks hefur lent í vandræðum af þeim sökum. Minni hluti styður því að veitt verði þegar í stað lagaheimild til útgáfu nýs húsbréfaflokks. Hins vegar er ljóst að mikill vandi er að hlaðast upp í húsbréfakerfinu og á hinum innlenda fjármagnsmarkaði. Vanskil hafa stóraukist í húsbréfakerfinu, útboð húsnæðisbréfa hafa verið árangurslaus, vextir eru hækkandi og Seðlabankinn er kominn í þrot með kaup á húsbréfum, ríkisskuldabréfum og ríkisvíxlum. Samanlögð nettóeign Seðlabankans á slíkum pappírum er nú um 25 milljarðar kr. og hefur bankinn haldið að sér höndum um skeið hvað varðar frekari kaup.
    Við þessar aðstæður er auðvitað enn fráleitara en ella að félagsmálaráðherra skuli í andstöðu við stjórn Húsnæðisstofnunar ákveða að hækka ábyrgðargjald og þar með vexti á húsbréfum.
    Í fyrri grein frumvarpsins er óskað eftir viðbótarlántökuheimild fyrir ríkissjóð upp á 1.250 millj. kr. sökum mun meiri hallarekstrar.
    Minni hluti minnir í því sambandi á gagnrýni sína á forsendur fjárlaga sl. vetur en þá þegar var á það bent að ýmsar forsendur fjárlaga og lánsfjárlaga stæðust ekki. Ýmis áform um sparnað eru að engu orðin og er af þeim sökum þegar ljóst að forsendur fjárlaga yfirstandandi árs eru brostnar og fer því þó fjarri að öll kurl séu komin til grafar.
    Minni hluti vísar allri ábyrgð á stöðu ríkisfjármála frá sér og á ríkisstjórnina og mun sitja hjá í atkvæðagreiðslu um þá grein.
    Minni hluti tekur enga ábyrgð á stöðu þessara mála eins og þau hafa þróast í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar og vísar í því sambandi til fyrri rökstuðnings, m.a. í nefndaráliti minni hluta við frumvarp til lánsfjárlaga fyrir árið 1994.

Alþingi, 17. okt. 1994.



Steingrímur J. Sigfússon,

Kristín Ástgeirsdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


frsm.



Finnur Ingólfsson.