Ferill 277. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 277 . mál.


334. Frumvarp til laga



um listmenntun á háskólastigi.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Menntamálaráðherra er heimilt að gera samning við lögaðila, félög eða stofnanir um að annast menntun á háskólastigi í listum sem fari fram á vegum sjálfstæðrar stofnunar, að fullnægðum þeim kröfum sem gerðar eru af hálfu menntamálaráðuneytisins til slíkrar menntunar.
    Listmenntun á háskólastigi skal miðuð við að nemendur öðlist þekkingu og leikni til sjálfstæðrar listsköpunar og listtúlkunar. Sá aðili sem með samningi skv. 1. mgr. veitir menntun í listum á háskólastigi ákveður inntökuskilyrði nemenda, enda svari inntökuskilyrði og námskröfur jafnan til þess sem tíðkast í viðurkenndum listaháskólum erlendis.
    

2. gr.


    Í samningi skv. 1. mgr. 1. gr. þessara laga skal m.a. kveðið á um á hvaða sviðum skuli veita háskólamenntun í listum, námskröfur og námsframboð. Enn fremur skal í samningnum kveða á um hvernig framlögum úr ríkissjóði skuli háttað. Fjárframlög skulu háð fjárveitingu í fjárlögum. Samningur um listmenntun á háskólastigi skal í fyrsta sinni gerður til fimm ára.
    Fyrir lok fyrsta samningstímabilsins skulu óháðir sérfræðingar fengnir til að gera úttekt á starfsemi viðkomandi stofnunar í heild og skal skýrsla um niðurstöður úttektarinnar lögð fyrir Alþingi.
    

3. gr.


    Nú gerir menntamálaráðherra samning um listmenntun á háskólastigi með heimild í 1. gr. þessara laga og frestast þá framkvæmd laga um Leiklistarskóla Íslands, nr. 190/1978, og laga um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nr. 38/1965, meðan á samningstíma stendur, enda verði í samningnum ákvæði um áframhald náms og námslok nemenda er þegar hafa innritast í þessa skóla.
    

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilgangur þessa frumvarps er annars vegar að heimila með lögformlegum hætti að á Íslandi fari fram kennsla í listgreinum á háskólastigi og hins vegar að heimila menntamálaráðherra að gera samning við lögaðila, félög eða stofnanir um að annast þessa menntun, að fullnægðum þeim kröfum er gerðar eru af hálfu menntamálaráðuneytisins til slíkrar menntunar.
    Þörf fyrir lagalega heimild til að hefja kennslu í listgreinum á háskólastigi hér á landi er fyrir löngu orðin brýn og lagasetning nauðsynleg vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í listmenntun undanfarin ár. Nú þegar eru inntökuskilyrði og námskröfur æðra listnáms á Íslandi sambærilegar því sem gerist um annað háskólanám í landinu og við æðri menntastofnanir í fjölmörgum löndum sem Íslendingar hafa náin samskipti við og er nám á efstu stigum frá íslenskum listaskólum viðurkennt þar að fullu sem háskólanám. Ör þróun listaskólanna undanfarin ár, samfara síendurteknum áætlunum um breytta stöðu menntunarinnar, hefur skapað margvísleg vandamál við rekstur þeirra sem erfitt er að leysa á grundvelli gildandi laga.
    Á undanförnum árum hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að heimila kennslu í listgreinum á háskólastigi en þær hafa allar misheppnast. Árið 1984 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um Myndlistaháskóla Íslands en það varð ekki útrætt. Árið 1988 skilaði nefnd drögum að frumvarpi um myndlistaháskóla en það var ekki lagt fram. Nefnd, sem skipuð var árið 1987, skilaði tillögum að frumvarpi til laga um Leiklistarháskóla Íslands en frumvarp var ekki lagt fram. Frumvarp til laga um Tónlistarháskóla Íslands var lagt fram á Alþingi 1988 en varð ekki útrætt. Nefnd, sem skipuð var árið 1988, var falið að undirbúa frumvarp til laga um Listaháskóla Íslands með hliðsjón af tillögum sem lágu fyrir um listnám á háskólastigi og getið er hér að framan. Nefndin var skipuð þremur fyrrverandi menntamálaráðherrum og samdi hún frumvarp sem fól í sér sameiningu þriggja listaskóla í einn listaháskóla. Nefndin skilaði til menntamálaráðuneytisins drögum að frumvarpi sem prentað var sem handrit og sent ýmsum aðilum til umsagnar. Að umsögnum fengnum voru tillögur nefndarinnar endurskoðaðar í ráðuneytinu og í endurskoðaðri mynd sendar þingmönnum til kynningar. Þessi drög að frumvarpi fengu góðar viðtökur en aðalfarartálmi fyrir framgangi málsins á þingi var fyrirsjáanlegur umtalsverður útgjaldaauki fyrir ríkissjóð.
    Í apríl 1991 var skipuð nefnd til að undirbúa framkvæmd listgreina- og listfræðakennslu á háskólastigi. Skilaði nefndin ítarlegri skýrslu í janúar 1992 sem m.a. fól í sér skilgreiningu á háskólamenntun í listum; lýsingu á núverandi námsframboði í listgreinum; mat á listnámi og tillögur um að stofnaður yrði sérstakur listaháskóli sem yrði sjálfstæð kennslu- og rannsóknastofnun (college) innan vébanda Háskóla Íslands, með sérstakri stjórn og eigin rektor. Skýrsla þessi var send Háskóla Íslands til umsagnar og af hálfu háskólaráðs var tillögu nefndarinnar um tengsl Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands hafnað.
    Meginástæða þess að enn hefur ekki verið sett löggjöf um listmenntun á háskólastigi hér á landi, svo sem lengi hefur verið stefnt að, er sú að fyrirsjáanlega hefði slík breyting haft í för með sér umtalsverðan útgjaldaauka fyrir ríkissjóð.
    Í nóvember 1992 skipaði menntamálaráðherra nefnd til að gera tillögur um skipulag og rekstrarform stofnunar er veitti æðri menntun í listum. Var henni m.a. falið að kanna kosti þess og galla að mynduð yrði sjálfseignarstofnun til að annast menntun í listum á háskólastigi. Nefndin var þannig skipuð: Björn Bjarnason alþingismaður, formaður, Bjarni Daníelsson skólastjóri, Margrét Theódórsdóttir skólastjóri, Jón Nordal tónskáld, Gunnar Eyjólfsson leikari og Snævar Guðmundsson viðskiptafræðingur. Með nefndinni starfaði Þórunn J. Hafstein deildarstjóri. Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins með skýrslu í maí 1993. Í niðurstöðum nefndarinnar segir m.a.:
    „Nefndin fjallaði um kosti og galla þess að fella listmenntun á háskólastigi í eina stofnun og var sammála um að sá kostur sé fýsilegur. Vegur þar þungt það mat nefndarmanna að sameining íslensks listnáms í einni æðri menntastofnun efli menningu og listsköpun og auðveldi að nýjar námsbrautir komi til sögunnar. Þá má ætla að ná megi umtalsverðri hagræðingu í rekstri með sameiningu skólanna. Loks mundi það vafalaust styrkja stöðu listmenntunar gagnvart sambærilegum menntastofnunum erlendis að hér starfaði ein stofnun á háskólastigi á þessu sviði. Nefndin telur sérstaklega mikilvægt að það sé haft í huga að fyrirsjáanlegt er að alþjóðasamvinna á sviði mennta og rannsókna muni aukast verulega í náinni framtíð og því er nauðsynlegt að hér á landi sé stofnun sem veiti menntun í listum á háskólastigi og geti nýtt sér þau tækifæri til samstarfs er bjóðast á erlendum vettvangi.
    Í ljósi upplýsinga sem nefndin aflaði sér um þróun listmenntunar í nágrannalöndunum, einkum í Danmörku, Svíþjóð og Hollandi, svo og þeirri reynslu sem fengist hefur við Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann á Bifröst, kannaði nefndin kosti þess að æðri menntastofnun á sviði listmennta verði rekin sem sjálfseignarstofnun. Er nefndin einhuga um að slíkt rekstrarform henti til þess að ná eftirtöldum markmiðum:
—    að veita aukið sjálfstæði í kennslu, stjórnun og rekstri,
—    að auka gæði, hagkvæmni og skilvirkni í rekstri stofnunarinnar,
—    að í rekstri stofnunarinnar fari saman ábyrgð og ákvörðunarvald stjórnenda,
—    að stofnunin hafi frjálsar hendur við þróun listmenntunar og nýtingu hinna bestu starfskrafta á því sviði,
—    að stofnunin fái svigrúm til þess að halda eftir eigin tekjum, styrkjum og óráðstöfuðum fjárveitingum til uppbyggingar, hagræðingar og þróunar á eigin starfsemi,
—    að hvetja til virkrar þátttöku einstaklinga og fyrirtækja í starfsemi stofnunarinnar.
    Aukið sjálfstæði menntastofnunar af þessu tagi kallar á að eftirlit sé haft með því að hún uppfylli ýtrustu gæðakröfur. Mikilvægt er því að skólanum verði settur gæðastaðall sem nýtur viðurkenningar á alþjóðlegum vettvangi varðandi vinnubrögð og kennslu. Jafnframt er æskilegt að gerðar séu reglubundnar athuganir sem gefi upplýsingar um almennt viðhorf til námsframboðs og kennslugæða.
    Tillögur nefndarinnar fela það í sér að gerður verði samningur milli sjálfseignarstofnunarinnar Listaháskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um þær kröfur sem stofnunin verði að uppfylla. Slíkur samningur sé gerður til tiltekins tíma og því háður endurskoðun. Þetta veitir stofnuninni aðhald. Jafnframt verði það áskilið að Listaháskólinn standi ráðuneytinu skil á upplýsingum varðandi námsframvindu og aðra þá þætti sem eru lýsandi fyrir faglegan og rekstrarlegan árangur skólans.
    Í samningi Listaháskólans og menntamálaráðuneytisins skal jafnframt kveðið á um útgjöld ríkissjóðs. Meginreglan er sú að námið sé skilgreint í einingum og ríkissjóður greiði einungis fyrir þá námsáfanga sem lokið er.“ . . .   „Nefndin gerir ráð fyrir að skólagjöld verði aldrei hærri en nemur 10% af árlegri greiðslu fyrir hvert námsár.“
    Enn fremur segir í skýrslu nefndarinnar:
    „Með því að skilgreina nám á vegum Listaháskólans í einingum má veita fjölbreyttari menntun auk þess sem betri samanburðargrundvöllur næst milli skóla innan lands og utan. Með þessum hætti getur skólinn betur sinnt þörfum framhaldsskólastigsins fyrir einstök námskeið ef þörf krefur. Fullnægi nemendur á framhaldsskólastigi listrænum kröfum skólans telur nefndin æskilegt að hann geti komið til móts við þá, enda sé um það samið við viðkomandi skóla, m.a. um greiðslu kostnaðar.
    Nefndin telur nauðsynlegt að gerður sé sérstakur samningur við borgarstjórn Reykjavíkur um fjárhagslega hlutdeild hennar í rekstri skólans þar sem tekið verði mið af framlagi borgarstjórnar til listmenntunar um þessar mundir. Í fullvissu þess að samningar takist um hlutdeild borgarstjórnar Reykjavíkur gerir nefndin ráð fyrir því í tillögu að skipulagsskrá Listaháskóla Íslands að borgarstjórn eigi einn fulltrúa af fimm í stjórn skólans, ásamt einum frá menntamálaráðuneyti og þremur sem kjörnir verða af félagi um Listaháskóla Íslands.“
    Frumvarp það sem hér er lagt fram byggir í meginatriðum á tillögum nefndarinnar frá maí 1993. Tillögurnar voru kynntar þegar skýrslan kom út og í febrúar 1994 gekkst Bandalag íslenskra listamanna fyrir mjög fjölmennri ráðstefnu um listaháskólamálið. Í framhaldi af ráðstefnunni hafa drög að skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnun um listaháskóla verið endurskoðuð í menntamálaráðuneytinu í samvinnu við stjórn Bandalags íslenskra listamanna og bætt við þau athugasemdum til frekari glöggvunar. Drög þessi eru birt í fskj. II.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er almennt ákvæði um heimild til menntamálaráðherra að gera samning við lögaðila, félög eða stofnanir um að annast menntun á háskólastigi í listum sem fram fari á vegum sjálfstæðrar stofnunar. Tilefni lagasetningar er fyrirhuguð stofnun Listaháskóla Íslands sem sjálfseignarstofnunar og við það miðað að sá skóli annist þessa menntun. Ákvæðið getur hins vegar átt við í öðrum tilfellum, t.d. kemur til greina að fela öðrum listaskólum með samningi ákveðin verkefni á þessu sviði, einum eða í samstarfi við Listaháskóla Íslands.
    Listmenntun á háskólastigi skal skilgreina samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum og gæðakröfum sem menntamálaráðuneytið staðfestir. Í skýrslu, sem menntamálaráðuneytið gaf út í janúar 1991 um háskólamenntun í listum, er leitast við að skilgreina þessa menntun með hliðsjón af erlendum viðmiðunum, sbr. athugasemdir við 2. gr. skipulagsskrár fyrir Listaháskóla Íslands í fskj. II með frumvarpi þessu. Nokkuð ljóst er hvaða hefðir gilda í Evrópu um stöðu háskólamenntunar í listgreinum og hvaða kröfur eru gerðar varðandi inntöku og nám. Ört vaxandi samstarf íslenskra listaskóla við listaskóla á Norðurlöndum og í Evrópu hefur þegar leitt til stöðugs samanburðar og raunar samkeppni um gæði menntunarinnar. Telja verður eðlilegt að fram fari stöðugt eftirlit með framkvæmd og árangri menntunar í Listaháskóla Íslands. Verði þar stuðst við aðferðir sem þróaðar hafa verið í Evrópu til gæðaeftirlits á háskólastigi.

Um 2. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um að við gerð samninga milli menntamálaráðuneytis og Listaháskóla Íslands eða annarra lögaðila verði kveðið á um fjölda nemenda í hverri listgrein og kostnað við menntun þeirra miðað við skilgreindar námskröfur. Kostnaður verði miðaður við skilgreint verksvið stofnunar sem annast háskólamenntun í listum. Væntanlega verður námi í hverri listgrein skipt í skilgreinda áfanga sem verða lagðir til grundvallar við kostnaðarútreikninga og samið um kostnað áfanga hvers nemanda í hverri listgrein. Samningur, sem þannig er gerður, getur stuðlað að faglegu og fjárhagslegu sjálfstæði einstakra deilda Listaháskólans. Gerð samninga af þessu tagi er ekki nýlunda í íslenska menntakerfinu. Vísa má til reynslu af samningum ráðuneytis við Verslunarskóla Íslands og Samvinnuháskólann á Bifröst.
    Með ákvæði um gerð fyrsta samnings til fimm ára er undirstrikað að hér sé um tilraunastarf að ræða. Vart mun full reynsla af þessu rekstrarformi nást fyrr en að 4–5 árum liðnum. Í lok samningstímans verður árangur metinn með aðstoð óháðra (erlendra) sérfræðinga og niðurstaðan lögð fyrir Alþingi. Verði niðurstaða úttektar jákvæð virðist eðlilegt að fella endanlega úr gildi lög nr. 190/1978, um Leiklistarskóla Íslands, og lög nr. 38/1965, um Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
    

Um 3. gr.


    Verði heimild í 1. gr. nýtt mun Listaháskóli Íslands taka að sér samkvæmt samningi menntun þeirra nemenda er við upphaf samningstímabilsins stunda nám í Leiklistarskóla Íslands, í sérdeildum Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í ákveðnum deildum Tónlistarskólans í Reykjavík. Samkvæmt þessu ákvæði frestast framkvæmd laga um LÍ og MHÍ þannig að hægt verður að veita því fjármagni sem annars yrði varið til reksturs nefndra skóla til greiðslu á umsömdum kostnaði við rekstur Listaháskóla Íslands.



Fylgiskjal I.

    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um listmenntun á háskólastigi.


    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veita menntamálaráðherra heimild til að gera samning um menntun á háskólastigi í listum. Tilefni lagasetningarinnar er fyrirhuguð stofnun Listaháskóla Íslands sem sjálfseignarstofnunar og við það miðað að sá skóli annist þessa menntun. Ákvæðið getur hins vegar átt við í öðrum tilfellum, t.d. kemur til greina að fela öðrum listaskólum með samningi ákveðin verkefni á þessu sviði, einum eða í samstarfi við Listaháskóla Íslands.
    Samþykkt frumvarpsins felur ekki í sér neinar kostnaðarskuldbindingar fyrir ríkissjóð. Löggjafinn mun fjalla um málið á ný áður en til þess kemur. Í 2. gr. frumvarpsins er m.a. kveðið á um að fjárframlög úr ríkissjóði skulu háð fjárveitingu í fjárlögum. Fyrr getur samningur um að veita menntun á háskólastigi í listum ekki tekið gildi. Kostnað ríkissjóðs er ekki unnt að meta fyrr en uppkast að slíkum samningi liggur fyrir. Þó skal vakin athygli á nokkrum atriðum sem hafa munu áhrif á kostnaðinn.
    Í fyrsta lagi ættu fjármunir ríkissjóðs að nýtast betur þegar gerður er sérstakur þjónustusamningur milli stjórnvalda og rekstraraðila, en þar sem reksturinn byggir einvörðungu á lögum og reglugerðum. Ríkið hefur til þessa ekki gert sérstakan samning hvorki við opinbera aðila né aðra um að annast tiltekna menntun á háskólastigi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að samningur sé gerður til tiltekins tíma, í fyrsta sinn til fimm ára, og því háður endurskoðun. Meginreglan verði sú að námið sé skilgreint í einingum og ríkissjóður greiði einungis fyrir þá námsáfanga sem lokið er. Jafnframt verði í samningnum í senn getið um nemendafjölda, kostnað vegna námsáfanga á nemanda og heildargreiðslur úr ríkissjóði ár hvert miðaða við nemendafjölda. Í þessu sambandi er vakin athygli á nýútkomnum bæklingi fjármálaráðuneytis um nýskipan í ríkisrekstri. Bæklingurinn fjallar um samningsstjórnun sem felst m.a. í því að gerður er formlegur þjónustusamningur á milli stofnunar og ráðuneytis þar sem kveðið er á um hvaða „þjónustu“ stofnunin skuldbindur sig til að „selja“ og hvað stjórnvöld skuldbinda sig til að „kaupa“.
    Í öðru lagi ætti einhver hagræðing að nást með því að fela einum aðila að annast tiltekna menntun í stað þriggja eins og nú er. Á móti kemur að með því að færa kennsluna á háskólastig er líklegt að kostnaður á nemanda aukist.
    Aðrir þættir hafa veruleg áhrif á endanlegan kostnað ríkisins en eru óljósir nú. Í því sambandi má nefna fjölda nemenda, hlutdeild Reykjavíkurborgar í rekstrarkostnaði og möguleika skólans til að afla sértekna með öðrum hætti en beinum skólagjöldum.



Fylgiskjal II.


Drög að skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands.


    Drög að skipulagsskrá fyrir Listaháskóla Íslands voru upphaflega samin af listaháskólanefnd er skilaði tillögum sínum í maí 1993. Þessi drög hafa síðan verið endurskoðuð í samráði við fulltrúa úr stjórn Bandalags íslenskra listamanna og samdar við þau athugasemdir til glöggvunar.
    

1. gr.

    Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
    

2. gr.

    Listaháskóli Íslands er miðstöð æðri mennta á sviði tónlistar, myndlistar, leiklistar og annarra listgreina sem uppfylla kröfur sem gerðar eru til kennslu og rannsókna á háskólastigi. Heimilt er að fella aðrar greinar undir skólann sem falla að skipulagi hans og starfsumhverfi. Markmið hans er að vinna að eflingu listmennta með þjóðinni.
    

3. gr.

    Stjórn skólans er skipuð 5 mönnum til tveggja ára í senn og skal enginn þeirra hafa framfæri sitt af starfi við skólann. Menntamálaráðherra og borgarstjórn Reykjavíkur tilnefna einn mann hvor í stjórnina en þrír skulu kjörnir á aðalfundi félags um Listaháskóla Íslands sem stofnað er fyrir forgöngu Bandalags íslenskra listamanna. Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi. Starfsár stjórnar hefst 1. maí.
    

4. gr.

    Stjórn Listaháskóla Íslands stendur vörð um hlutverk skólans og gætir þess að starfsemin þjóni settum markmiðum. Hún ber ábyrgð á starfi skólans, rekstri, fjárhag, eignum og ákvarðar skólagjöld. Stjórnin ræður rektor. Ráðning hans er tímabundin til fjögurra ára í senn. Stjórnin getur vikið rektor frá að fenginni umsögn skólaráðs.
    

5. gr.

    Rektor annast rekstur og stjórn skólans í umboði stjórnar og ber ábyrgð gagnvart henni. Hann er ábyrgur fyrir að starfstilhögun sé í samræmi við hlutverk, markmið og gæðakröfur, m.a. hvað varðar námskrá og kennslufyrirkomulag. Rektor er ábyrgur fyrir ráðningu starfsmanna.
    

6. gr.

    Skipa skal starfi skólans í deildir eftir listgreinum. Deildarforseti hefur umsjón með starfsemi og rekstri deildar og vinnur að stefnumörkun í málefnum hennar. Hann gerir tillögur um rannsóknir, námskrá og kennslutilhögun sem skulu lagðar fyrir skólaráð til umfjöllunar og staðfestar af rektor.
    

7. gr.

    Við skólann starfar skólaráð sem er samstarfsvettvangur skólans varðandi stefnu og starfshætti. Í skólaráði eiga sæti forsetar deilda, fjármálastjóri, fulltrúi kennara úr hverri deild og fulltrúi nemenda úr hverri deild. Skólaráð kýs sér formann úr hópi deildarforseta og skal hann ásamt fulltrúum kennara og nemenda tilnefndur til eins árs í senn. Rektor situr fundi skólaráðs. Skólaráð er rektor og stjórn skólans til ráðuneytis um fagleg innri málefni, þar á meðal inntökuskilyrði, námskröfur, námskrá, stundaskrá, kennslutilhögun, gæðamat, agamál og styrkveitingar. Skólaráð getur vísað málum til stjórnar sem getur einnig leitað umsagnar skólaráðs um hvaðeina er varðar starfsemi skólans og þróun hans.
    

8. gr.

    Stjórnskipun skólans við stofnun hans er háttað eins og lýst er í skipuriti:
    


    SKIPURIT REPRÓ






















    Yfir hverri deild er deildarforseti og yfir fjámálum og skrifstofuhaldi er fjármálastjóri. Rektor tilnefnir staðgengil sinn úr hópi starfsmanna skólans er sitja í skólaráði.
    

9. gr.

    Dómnefnd skal meta hæfni umsækjenda um stöður deildarforseta og gera tillögu til rektors um ráðningu. Rektor ræður í stöðu deildarforseta úr hópi hæfra umsækjenda að mati dómnefndar. Rektor skipar dómnefnd. Í henni sitja þrír menn. Einn tilnefndur af kennurum viðkomandi deildar, annar af skólaráði og sá þriðji af samtökum listamanna í viðkomandi grein. Við stofnun skólans skulu tveir þeirra tilnefndir af samtökum listamanna og einn af menntamálaráðherra. Rektor ræður í stöður kennara að fengnum tillögum deildarforseta og í stöðu fjármálastjóra að fengnu samþykki stjórnar. Skipa skal dómnefnd með sama hætti og að framan greinir til að meta hæfni kennara ef viðkomandi deildarforseti eða rektor æskja þess.
    

10. gr.

    Menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg ábyrgjast fjárstuðning við Listaháskóla Íslands er byggist á samningi um greiðslur fyrir þjónustu sem skólinn veitir. Skólanum er heimilt að gera hliðstæða samninga eða annars konar við hvern þann sem vill veita skólanum fjárhagslegt lið eða nýta sér þjónustu hans. Skólinn ber ábyrgð á skuldbindingum sínum.
    

11. gr.

    Listaháskóli Íslands fær til afnota húsnæðið að Laugarnesvegi 91. Húsið afhendist fullbúið til fyrirhugaðra nota. Húsaleiga, sem greiðist í ríkissjóð, tekur mið af húsaleigu sem ákveðin er af Fasteignum ríkissjóðs fyrir sambærilegt húsnæði.
    

12. gr.

    Reikningsár skólans er frá 1. júlí til 30. júní og skal rektor, innan tveggja mánaða frá lokum reikningsárs, leggja ársreikning ásamt skýrslu um starfsemina fyrir stjórn skólans. Rektor skal fyrir 1. maí ár hvert leggja rekstraráætlun næsta reikningsárs fyrir stjórn skólans til afgreiðslu.
    

13. gr.

    Verði Listaháskóli Íslands lagður niður sem sjálfseignarsstofnun skal skilanefnd skipuð einum fulltrúa frá hverjum tilnefningaraðila í stjórn skólans og skal hún ákveða hvernig að niðurlagningu verður staðið.
    

14. gr.


    Stjórn skólans getur með samhljóða samþykkt breytt skipulagsskrá þessari, enda sé fundur lögmætur og tillaga um slíkt verið kynnt.
    
    

Athugasemdir við einstakar greinar skipulagsskrár.


Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 2. gr.


    Hér er gerð grein fyrir starfssviði skólans. Í orðunum „miðstöð æðri mennta . . . “ felst að skólinn skuli hafa forustu í þróun listmennta í landinu og sinna hlutverki háskólastofnunar á sínu sviði, en venja er að telja hlutverk háskóla þríþætt, kennslu, rannsóknir og þjónustu. Listsköpun er lögð að jöfnu við fræðilegar rannsóknir.
    Í greininni er gert ráð fyrir heimild til að sinna öðrum greinum en tónlist, myndlist og leiklist. Er hér um almennt ákvæði að ræða, en einnig er með því vísað til umræðna sem þegar eru hafnar um aðild Listdansskóla Íslands að listmenntun á háskólastigi og til áforma um að koma á fót arkitektanámi innan vébanda væntanlegs Listaháskóla. Einnig er gert ráð fyrir að kennaramenntun í listgreinum sé á verksviði skólans. Enn fremur þykir eðlilegt að listgreinum innan skólans verði gert mögulegt að efla tengsl sín við kvikmyndagerð og að kvikmyndagerðarmenn fái að einhverju leyti svigrúm innan skólans.
    Skýrslan „Háskólamenntun í listum“, sem gefin var út af menntamálaráðuneytinu í janúar 1992, var höfð til hliðsjónar við samningu skipulagsskrár. Þar er háskólamenntun í listum skilgreind á eftirfarandi hátt:
    „1. Hlutverk listaháskóla er að annast kennslu, sinna rannsóknum, þróunarstarfi og nýsköpun og veita þjónustu á sínu sviði. Listsköpun/iðkun er lögð að jöfnu við fræðilegar rannsóknir.
    2. Við upphaf háskólanáms í listum skal nemandi, auk almennrar menntunar eftir því sem við á, hafa lokið viðurkenndu undirbúningsnámi í viðkomandi listgrein og/eða hafa staðist inntökupróf sem sýnir að hann sé undir æðra listnám búinn.
    3. Háskólamenntun í listum miðast við að nemandi öðlist sérþekkingu/hæfni í viðkomandi grein og geti unnið sjálfstætt að list sinni.
    4. Til kennara skal gera þær kröfur að hann hafi lokið framhaldsmenntun í sinni grein og/eða hafi sýnt það með list sinni eða fræðistörfum og starfsferli að öðru leyti að hann sé sérfræðingur á viðkomandi sviði og hæfur til að gegna háskólakennarastarfinu.
    5. Skil undirbúningsmenntunar og háskólamenntunar skal miða við alþjóðlegar hefðir viðkomandi listgreinar. Tryggja skal með samanburði að inntökuskilyrði og námskröfur svari jafnan til þess sem er í viðurkenndum listaháskólum erlendis.“ (Bls. 20).
    

Um 3. gr.


    Ein meginhugmyndin varðandi stofnun og uppbyggingu listaháskóla sem sjálfseignarstofnunar er að hann skuli vera í eigu almenningsfélags. Lagt er til að stofnað verði félag áhugafólks um rekstur og viðgang skólans og skuli það hafa meiri hluta í stjórn. Sérstakar samþykktir munu gilda fyrir félagið og virðist eðlilegt að Bandalag íslenskra listamanna hafi forgöngu um stofnun þess.
    

Um 4. gr.


    Hlutverk stjórnarinnar er fyrst og fremst að standa vörð um hlutverk skólans og hafa eftirlit með því að hann starfi samkvæmt þeim gæðakröfum og samanburðarviðmiðunum sem ákveðnar eru. Stjórnin er ekki fagstjórn og hefur ekki afskipti af daglegum rekstri, en ber formlega ábyrgð á starfsemi skólans og hefur því úrslitavald um öll málefni þannig að hún getur gripið inn í telji hún að ekki sé farið eftir gefnum forsendum. Stjórnin ræður rektor tímabundið til að annast daglega stjórnun og rekstur.
    

Um 5. gr.


    Rektor starfar í umboði stjórnar og ber honum að miða störf sín við tilgang skólans og markmið og sjá til þess að skólinn standi undir þeim gæðakröfum og samanburðarviðmiðunum sem ákveðnar eru. Rektor hefur óskorað úrskurðarvald um innri málefni skólans, en byggir ákvarðanatöku og úrskurði á tillögum fagdeilda og umfjöllun skólaráðs. Rektor er ábyrgur gagnvart stjórn skólans sem ræður hann og getur vikið honum frá.
    

Um 6. gr.


    Hver deild skólans er faglega sjálfstæð innan þess ramma sem settur er með gæða- og viðmiðunarkröfum. Deildarforseta er falinn rekstur og þróun deildar og ber hann ábyrgð gagnvart rektor jafnframt því að vera honum til ráðuneytis um málefni viðkomandi deildar. Gera má ráð fyrir að innan hverrar deildar starfi fagráð sem sé deildarforseta til ráðuneytis um stefnumörkun og starfshætti.
    

Um 7. gr.


    Skólaráð fjallar um sameiginleg málefni deilda skólans og vinnur að samræmingu stefnu og starfshátta deilda og heildarstefnumótun varðandi framtíðarþróun Listaháskóla Íslands. Skólaráð er rektor til ráðuneytis um sameiginleg málefni skólans. Skólaráð getur vísað málum til stjórnar skólans telji það að rektor vinni ekki samkvæmt settum markmiðum, eða í öðrum tilvikum ef það telur ástæðu til. Stjórnin getur einnig leitað umsagnar skólaráðs um hvaðeina er rekstur og stjórnun skólans varðar. Með þessu er leitast við að tryggja samstöðu um sett markmið og að aðhald sé varðandi skynsamlega og réttláta stjórnun, faglega og rekstrarlega.

Um 8. gr.


    Skipurit yfir Listaháskóla Íslands gerir í stórum dráttum grein fyrir eftirfarandi: Þrír aðilar, menntamálaráðuneytið, Reykjavíkurborg og Félag um Listaháskóla Íslands standa að stofnun Listaháskóla Íslands sem sjálfseignarstofnunar. Þeir tilnefna fulltrúa í stjórn sem hefur það hlutverk að standa vörð um tilgang skólans og tryggja að hann starfi samkvæmt því markmiði að vera samkeppnishæfur listaháskóli. Stjórnin er ekki fagstjórn en ræður rektor að skólanum og framselur honum umboð sitt til daglegs reksturs og stjórnunar. Skal hann hafa umsjón með því að skólinn starfi samkvæmt settu markmiði. Stjórnin hefur formlegt vald til að grípa inn í rekstur og stjórnun ef nauðsyn krefur. Einstakar deildir skólans eru faglega sjálfstæðar og hefur hver þeirra sinn deildarforseta. Fulltrúar deilda mynda skólaráð sem er samstarfsvettvangur hinna sjálfstæðu deilda og rektor til ráðuneytis um ákvarðanatöku og úrskurð mála. Skólinn í heild, undir forustu rektors, er þannig sjálfstæð stofnun sem starfar samkvæmt yfirlýstum markmiðum en er háður gæðamati yfirstjórnar menntamála og samanburði við erlenda listaháskóla. Staðgengill rektors skal vera úr hópi starfsmanna sem í skólaráði sitja. Með því er leitast við að tryggja samráð rektors og skólaráðs um stjórnun skólans.
    

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 10. gr.


    Gert er ráð fyrir að skólinn geri samninga við menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg (með fyrirvara um þátttöku hennar í rekstrinum) um greiðslu rekstrarkostnaðar. Samningar taki til kennslu, rannsókna og annarrar þjónustu er skólinn veitir. Það sem hér er haft í huga er að við samninga um greiðslu rekstrarkostnaðar skuli miða við heildarstarfsemi listaháskóla samkvæmt þeirri skilgreiningu sem nefnd er í athugasemd við 2. gr. Einnig getur skólinn gert hliðstæða samninga við aðra aðila. Er þar t.d. átt við að skólinn geti tekið að sér kennslu í einstökum undirbúningsgreinum á framhaldsskólastigi ef hentugt þykir vegna aðstæðna eða að skólinn geti tekið að sér að vinna verkefni á sviði lista og listfræða fyrir utanaðkomandi aðila. Rektor ber ábyrgð á því gagnvart stjórn að slíkir samningar hafi ekki áhrif á faglegt sjálfstæði skólans.
    

Um 11. gr.


    Fullbúin aðstaða í Listaháskólahúsinu í Laugarnesi er ein meginforsenda þess að Listaháskóli Íslands geti starfað á raunhæfan og hagkvæman hátt. Ákvæði um húsaleigu er í samræmi við það sem gildir um ríkisstofnanir í eigin húsnæði. Gert er ráð fyrir að húsaleigugreiðslur renni til viðhalds fasteignarinnar sjálfrar.
    

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
    

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal III.
    
    

Drög að samþykktum


fyrir félag um Listaháskóla Íslands.


    Það verður vitanlega á valdi félagsmanna í félagi um listaháskóla að semja endanlega og samþykkja reglur fyrir félagið. Þessi drög eru einungis sett hér fram sem sýnishorn af hugsanlegum samþykktum fyrir slíkt félag.
    

1. gr.

    Félagið heitir . . .  Varnarþing þess er í Reykjavík.
    

2. gr.

    Markmið félagsins er að efla og styrkja Listaháskóla Íslands með því að vera listrænn, fjárhagslegur og stjórnunarlegur bakhjarl skólans.
    

3. gr.

    Markmiði félagsins skal m.a. náð með eftirfarandi hætti:
    Stofna til umræðna um starfsemi Listaháskóla Íslands og nýjungar í listnámi.
    Standa fyrir listkynningum í samvinnu við skólann.
    Standa fyrir fjáröflun og styrktaraðgerðum í samvinnu við og í þágu skólans.
    Efla starfsemi Listaháskóla Íslands með kaupum á búnaði til skólans eða fjármögnun einstakra verkefna.
    Veita nemendum skólans fjárhagsaðstoð og verðlauna fyrir góðan námsárangur.
    Kjósa þrjá menn í stjórn Listaháskóla Íslands.
    

4. gr.

    Rétt til inngöngu í félagið eiga einstaklingar sem greiða áskilin árleg félagsgjöld. Hver aðildarfélagi hefur eitt atkvæði.
    

5. gr.

    Tekjur félagsins eru félagsgjöld, frjáls framlög einstaklinga, fyrirtækja, samtaka og stofnana og annað aflafé. Tekjum skal varið til að vinna að markmiði félagsins, sbr. 3. gr. Félagsgjöld skulu ákveðin af aðalfundi en skulu þó aldrei vera lægri en 3.000,00 kr. fyrir hvern aðildarfélaga miðað við framfærsluvísitölu eins og hún var í apríl 1993.
    

6. gr.

    Stjórn félagsins skipa fimm menn sem kjörnir eru hlutfallskosningu á félagsfundi og er kjörtímabil stjórnar tvö ár. Stjórnin skiptir með sér verkum.
    

7. gr.

    Stjórnin stýrir starfsemi félagsins og ráðstafar fjárveitingum. Hún skal hafa eftirlit með að fjármunir nýtist í samræmi við markmið félagsins. Stjórn félagsins er ábyrg fyrir reikningshaldi og reikningsskilum. Hún varðveitir eignir félagsins og skal ávaxta sjóði á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt.
    

8. gr.

    Gera skal ársreikning fyrir hvert almanaksár. Ársreikningur skal fullgerður og undirritaður af stjórninni eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok almanaksárs. Öll meðferð fjármuna, svo og bókhald og reikningsskil félagsins, skal háð endurskoðun óháðs löggilts endurskoðanda. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu sendir stjórn skólans, menntamálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun að afloknum aðalfundi.
    

9. gr.

    Aðalfund félagsins skal halda fyrir 1. apríl ár hvert og telst hann löglegur ef til hans er boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara með skriflegu fundarboði og auglýsingu í dagblöðum. Geta skal dagskrár í fundarboði. Á dagskrá aðalfundar skal vera:
    Skýrsla stjórnar.
    Reikningar liðins starfsárs.
    Skýrsla um starfsemi Listaháskóla Íslands.
    Hlutfallskosning þriggja manna í stjórn Listaháskóla Íslands, sbr. skipulagsskrá Listaháskóla Íslands.
    Kosning fimm manna í stjórn félagsins, sbr. 6. gr.
    Lagabreytingar.
    Önnur mál.
    Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Tillögur til breytinga á lögum verða ekki teknar til meðferðar nema helmingur félagsmanna hið fæsta sæki fundinn. Nái tillaga til lagabreytinga samþykki meiri hluta fundarmanna fær hún gildi.
    

10. gr.

    Til að slíta félaginu þarf atkvæði tveggja þriðju hluta fullgildra félagsmanna. Skulu eignir félagsins renna óskiptar til Listaháskóla Íslands og ráðstafað af stjórn hans.


Fylgiskjal IV.

REKSTRARÁÆTLUN LISTAHÁSKÓLA ÍSLANDS 1995


Samanburður við núverandi rekstrarkostnað listaskólanna 1994.




TAFLA REPRÓ






























    

Skýringar.


    1. Framlög ríkissjóðs á árinu 1993 voru um 113 milljónir kr. til reksturs þeirra þriggja skóla sem fyrirhugað er að sameinist í Listaháskóla Íslands. Leiklistarskólinn var að fullu fjármagnaður úr ríkissjóði, Myndlista- og handíðaskólinn var aftur á móti fjármagnaður 60% úr ríkissjóði á móti 40% framlagi frá Reykjavíkurborg og Tónlistarskólinn í Reykjavík þáði framlag frá ríkissjóði sem nam 13,4% af rekstrarkostnaði á móti Reykjavíkurborg og skólagjöldum.
    2. Framlag Reykjavíkurborgar hefur skipst nokkuð jafnt á milli Myndlista- og handíðaskólans og Tónlistarskólans í Reykjavík.
    3. Áætlun fyrir nýjan skóla gerir ráð fyrir að allir nemendur greiði skólagjöld, mismunandi eftir því hvar þeir eru staddir í námi og eftir kostnaði vegna kennslu hvers nemanda. Námið verði lánshæft. Í tillögum nefndarinnar var sleginn sá varnagli að meðalskólagjöld yrðu ekki hærri en sem nemur 10% af meðalframlagi ríkissjóðs á hvern nemanda. Í töflunni hér að ofan er reiknað með hámarkstekjum af þessum lið.
    4. Styrkir, einkum til Tónlistarskólans, hafa oft numið verulegum upphæðum þótt sú upphæð sé óvenjulág á árinu 1993. Gert er ráð fyrir að félag um Listaháskóla verði öflugt og virkt og eigi drjúgan þátt í að fjármagna einstök verkefni. Rétt er að benda á að fjárhæðin, sem reiknað er með í töflunni hér að ofan, er aðeins áætlun. Jafnframt verður að gera ráð fyrir að styrkir, sem Listaháskóli Íslands kann að hljóta, verði notaðir til uppbyggingar á tækjakosti og aðstöðu en ekki til þess að mæta almennum rekstrarútgjöldum skólans.
    5. Framlög til LÍ eru sett fram sem margfeldi af fjölda nemenda í virku námi og greiðslu fyrir hvert námsár sem er mismunandi eftir námsgreinum. Gert er ráð fyrir að þessar upphæðir séu útkoma úr samningum sjálfstæðs skóla og menntamálaráðuneytis.
    6. Rétt er að benda á að samkvæmt þessari frumáætlun verða nemendur Listaháskólans um 300, þ.e. álíka margir og þeir nemendur listaskólanna eru nú, sem taldir eru vera ofan framhaldsskólastigs í raun.
    Aðrir nemendur í listnámi verða áfram neðan háskólastigs og mun kostnaður vegna þeirra einkum falla á framhaldsskólana. Kostnaður á hvern nemanda í þannig námi verður þó að jafnaði mun lægri en kostnaður vegna hvers nemanda í Listaháskólanum.