Hægt er að sækja Word Perfect útgáfu af skjalinu, sjá upplýsingar um uppsetningu á Netscape fyrir Word Perfect skjöl.

1994. -- 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. -- 1 . mál.


353. Nefndarálit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Störf fjárlaganefndar við afgreiðslu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1995 hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf 26. september sl. og átti viðtal við fulltrúa sveitarfélaga í landinu sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum. Samstarf fjárlaganefndarmanna og sveitarstjórnarmanna hefur nú sem áður verið gott og sú yfirsýn, sem fundir nefndarinnar með sveitarstjórnarmönnum gefa, er mikilvæg fyrir nefndina við afgreiðslu fjárlaga. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði eftir með bréfi, dags. 19. október sl., álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga, þ.e. þá þætti er varða málefnasvið einstakra nefnda. Nefndirnar hafa skilað áliti sínu og eru þau prentuð sem fylgiskjöl með þessu nefndaráliti eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Þetta er þriðja árið sem þessi skipan er á um samskipti fastanefnda þingsins við fjárlaganefnd um afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.
    Eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi eru fjölmargir aðilar, félög, samtök og stofnanir, sem telja sig eiga erindi við fjárlaganefnd og kallar þá nefndin fyrir sig forsvarsmenn ýmissa stofnana til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 34 fundi og átt viðtöl við fjölmarga aðila sem komið hafa á fund hennar. Auk þess hafa undirnefndir unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust, svo sem skiptingu allra fjárfestingarliða. Breytingartillögur þær, sem eru til umfjöllunar við 2. umr., nema samtals 377,9 millj. kr. til hækkunar á 4. gr. frumvarpsins.
    Meiri hluti nefndarinnar vill þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Eins og venja er bíða 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 6. gr. Auk þess bíða ýmis viðfangsefni 3. umr., bæði smærri og stærri, sem nefndin hefur enn til umfjöllunar.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins

201    Alþingi: Framlag hækkar alls um 33 m.kr. og verður 747,1 m.kr. Hækkun skiptist á viðfangsefni sem hér segir: 1.01 Alþingiskostnaður 5,5 m.kr., 1.02 Aðalskrifstofa 1,2 m.kr., 1.03 Þingmálaskrifstofa 2,4 m.kr., 1.04 Rekstrarskrifstofa 3,3 m.kr., 1.05 Alþjóðasamstarf þingmanna 0,5 m.kr., 1.06 Norðurlandaráð 0,1 m.kr. og 5.20 Fasteignir 20 m.kr.
610    Umboðsmaður Alþingis: Framlag til embættisins hækkar um 8 m.kr. og verður 30,4 m.kr. Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 4,2 m.kr. vegna aukins fjölda mála hjá embættinu. Tekinn er inn nýr liður, 6.01 Tæki og búnaður, og er framlag 3,8 m.kr. sem ætlað er til innréttinga og tölvulagna í nýju húsnæði fyrir embættið.
620    Ríkisendurskoðun: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 4,5 m.kr., þar af eru 2,9 m.kr. launagjöld.

01 Forsætisráðuneyti

101    Forsætisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1,2 m.kr. og verður 61,3 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
231    Norræna ráðherranefndin: Tekinn er inn nýr liður, 1.91 Þing Norðurlandaráðs í Reykjavík 1995, og er framlag 7,1 m.kr. Framlag er ætlað til kostnaðar við gestamóttöku, aukins ferðakostnaðar o.fl. í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík á næsta ári.
241    Umboðsmaður barna: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 1,5 m.kr. og verður 7,5 m.kr.

02 Menntamálaráðuneyti

101    Menntamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 3,2 m.kr. og verður 240 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
201    Háskóli Íslands: Framlag hækkar alls um 9,3 m.kr. og verður 1.508 m.kr. Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2 m.kr. og er framlag ætlað til Upplýsingaþjónustu Háskólans vegna þróunar sjálfsnámskerfis. Viðfangsefni 1.06 Kennslu- og vísindadeildir hækkar um 7,3 m.kr. Annars vegar er 4,3 m.kr. hækkun vegna ljósmæðranáms en á móti fellur niður fjárlagaliður 08-601 Ljósmæðraskóli Íslands undir heilbrigðisráðuneyti en framlag er 2,4 m.kr. í fjárlögum 1994. Hins vegar er 3 m.kr. hækkun vegna stöðu rannsóknarprófessors í eðlisfræði þéttefnis.
210    Háskólinn á Akureyri: Viðfangsefni 1.02 Rannsóknastarfsemi hækkar um 4 m.kr. og verður 11,1 m.kr. vegna framlags í vinnumatssjóð.
221    Kennaraháskóli Íslands: Viðfangsefni 1.02 Rannsóknastarfsemi hækkar um 6 m.kr. og verður 22,9 m.kr. vegna framlags í vinnumatssjóð. Viðfangsefni 1.05 Kennsla hækkar um 4 m.kr. og er hækkunin ætluð til fjarkennslu.
299    Háskóla- og rannsóknastarfsemi: Tekinn er inn nýr liður, 1.61 Norræna eldfjallastöðin. Framlag, sem er 5 m.kr., er vegna tveggja sérfræðinga og eru 3,5 m.kr. launagjöld en 1,5 m.kr. annar rekstrarkostnaður.
318    Almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður: Viðfangsefni 5.90 Viðhald hækkar um 7 m.kr. og verður 165 m.kr. Viðfangsefni 6.90 Byggingarframkvæmdir hækkar um 16 m.kr. og verður 546 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðum á viðfangsefnum 5.90 Viðhald og 6.90 Byggingarframkvæmdir skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
319    Framhaldsskólar, almennt: Tekinn er inn nýr liður, 1.35 Myndlistarskólinn í Kópavogi, og er framlag 0,5 m.kr.

506    Vélskóli Íslands: Viðfangsefni 1.02 Annað en kennsla hækkar um 1 m.kr. og verður 12,4 m.kr. og er hækkunin ætluð til tölvukaupa.
580    Samvinnuskólinn: Viðfangsefni 1.01 Kennsla hækkar um 2 m.kr. vegna nýs námsáfanga við skólann.
725    Námsgagnastofnun: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 17 m.kr. og verður 286,5 m.kr.
884    Jöfnun á námskostnaði: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 10 m.kr. og verður 96,5 m.kr.
902    Þjóðminjasafn Íslands: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 3 m.kr. og verður 79,7 m.kr. Hækkun um 1 m.kr. er ætluð til endurskipulagningar tækniminjadeildar og 2 m.kr. eru ætlaðar nýrri stöðu minjavarðar.
903    Þjóðskjalasafn Íslands: Tekinn er inn nýr liður, 1.11 Héraðsskjalasöfn, og er framlag 3 m.kr. til stuðnings við héraðsskjalasöfn.
974    Sinfóníuhljómsveit Íslands: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 6 m.kr. og verður 108 m.kr. vegna kjarasamninga við hljóðfæraleikara.
981    Kvikmyndasjóður: Viðfangsefni 1.01 Kvikmyndasjóður hækkar um 21,5 m.kr. og verður 100 m.kr.
989    Ýmis íþróttamál: Tekinn er inn nýr liður 1.16 Íþróttafélög, styrkir og er framlag 14,5 m.kr.

03 Utanríkisráðuneyti

101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 8,5 m.kr. og verður 200,7 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
190    Ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður, 1.21 Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og er framlag 0,8 m.kr.
390    Þróunarsamvinnustofnun Íslands: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 4,1 m.kr. og verður 160,6 m.kr. Hækkun um 4 m.kr. er til greiðslu tryggingagjalds af greiddum launum. Fjárveiting hækkar um 0,1 m.kr. vegna símakostnaðar en á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
391    Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi: Viðfangsefni 1.10 Háskóli Sameinuðu þjóðanna hækkar um 2,9 m.kr. og verður 32 m.kr.
401    Alþjóðastofnanir: Viðfangsefni 1.75 Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE hækkar um 1,8 m.kr. og verður 8,8 m.kr.

04 Landbúnaðarráðuneyti

101    Landbúnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1 m.kr. og verður 70,3 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
190    Ýmis verkefni: Viðfangsefni 1.51 Norður-Atlantshafslaxveiðinefndin, NASCO, hækkar um 0,9 m.kr. og verður 5,4 m.kr.
261    Bændaskólinn á Hvanneyri: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 2,5 m.kr. vegna nýrrar stöðu aðalkennara á landnýtingarsviði við búvísindadeild.
271    Bændaskólinn á Hólum: Viðfangsefni 6.20 Fasteignir og lóðir hækkar um 10 m.kr.

og verður 15 m.kr. vegna endurbóta skólahússins á Hólum.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

101    Sjávarútvegsráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1,7 m.kr. og verður 71,8 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
201    Fiskifélag Íslands: Þetta er nýr fjárlagaliður. Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.01 Almennur rekstur. Framlag er 5 m.kr. og er ætlað til rekstrar tæknideildar.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

101    Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 0,9 m.kr. og verður 97,5 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
701    Biskup Íslands: Framlag hækkar alls um 8,6 m.kr. og verður 444,7 m.kr. Hækkun skiptist á fjögur viðfangsefni sem hér segir: Tekinn er inn nýr liður, 1.15 Kirkjumiðstöð Austurlands og er framlag 1,6 m.kr. Viðfangsefni 1.21 Prestar og prófastar hækkar um 4 m.kr. vegna nýrra prestsembætta, annars vegar héraðsprests í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og hins vegar prests í Reykjavík. Viðfangsefni 6.22 Hallgrímskirkja hækkar um 2 m.kr. og verður 6 m.kr. Að lokum hækkar viðfangsefni 6.24 Snorrastofa um 1 m.kr. og verður 2 m.kr.

07 Félagsmálaráðuneyti

101    Félagsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 0,9 m.kr. og verður 81,2 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

101    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1,3 m.kr. og verður 121,7 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
301    Landlæknir: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 5 m.kr. og verður 39,4 m.kr. Hækkun er ætluð til verkefnisins ,,heilsuefling`` og til slysavarnaráðs.
353    Fjórðungssjúkrahúsið Ísafirði: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 13 m.kr. og verður 236,7 m.kr.
358    Fjórðungssjúkrahúsið Akureyri: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 15 m.kr. og verður 1.275,5 m.kr. Hækkun er til öldrunarlækningardeildar við Kristnesspítala.
381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Viðfangsefni 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækkar um 25,5 m.kr. og verður 268,2 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.37 Hjartavernd hækkar um 2 m.kr. og verður 10,3 m.kr. Tekinn er inn nýr liður, 1.59 Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili, og er framlag 12 m.kr.

400    St. Jósefsspítali, Hafnarfirði: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 11 m.kr. og verður 260,2 m.kr.
401    St. Fransiskusspítali, Stykkishólmi. Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 6 m.kr. og verður 114 m.kr.
422    Hlaðgerðarkot: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 2 m.kr. og verður 37,8 m.kr.
553    Heilsugæslustöðin Akureyri: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 0,7 m.kr. og er hækkun ætluð til Heimahlynningar Akureyrar.
601    Ljósmæðraskóli Íslands: Liðurinn fellur niður vegna tilflutnings ljósmæðranáms til Háskóla Íslands en framlag í frumvarpi til fjárlaga 1995 er 2,4 m.kr.
950    Rekstrarhagræðing: Viðfangsefni 1.90 Almennur rekstur hækkar um 23,5 m.kr. vegna leiðréttinga á launauppbótum sjúkrastofnana vegna kjarasamninga við meinatækna, röntgentækna, ljósmæður og hjúkrunarfræðinga.
350    --585 Ýmsar heilbrigðisstofnanir: Launaliður stofnana breytist alls um 6,2 m.kr. vegna kjarasamninga við meinatækna, röntgentækna, ljósmæður og hjúkrunarfræðinga. Sundurliðun er sýnd í sérstöku yfirliti í breytingartillögu nefndarinnar.    

09 Fjármálaráðuneyti

101    Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 3,4 m.kr. og verður 266,9 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
103    Ríkisbókhald: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 1,1 m.kr. og verður 90,8 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
104    Ríkisfjárhirsla: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 0,2 m.kr. og verður 30,4 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
105    Ríkislögmaður: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 0,1 m.kr. og verður 20,6 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
999    Ýmislegt: Viðfangsefni 1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið lækkar um 30,1 m.kr. og verður 42,8 m.kr. Á móti hækka ýmsir aðrir fjárlagaliðir um samtals sömu fjárhæð eins og gerð er grein fyrir við hvern lið. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.

10 Samgönguráðuneyti

101    Samgönguráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 0,8 m.kr. og verður 82,4 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
330    Vita- og hafnamálastofnun: Heildarframlag til fjárlagaliðarins hækkar um 2 m.kr. Viðfangsefni breytast sem hér segir: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 10,3 m.kr. og verður 198,8 m.kr. Viðfangsefni 1.10 Hafnarannsóknir og mælingar fellur

brott en framlag í frumvarpi til fjárlaga 1995 er 29,9 m.kr. Viðfangsefni 6.70 Hafnamannvirki hækkar um 139,8 m.kr. og verður 580,8 m.kr. Viðfangsefni 6.72 Hafnamannvirki (fjármagnskostnaður), Sandgerði lækkar um 1,4 m.kr. og verður 19,6 m.kr. Viðfangsefni 6.80 Sjóvarnargarðar lækkar um 43 m.kr., þar af er lækkun um 45 m.kr. vegna tilfærslna í meðförum nefndarinnar. Viðfangsefni 6.90 Hafnabótasjóður lækkar um 87,4 m.kr. og verður 40,6 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðum á viðfangsefnum 6.70 Hafnamannvirki og 6.80 Sjóvarnargarðar skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti. Að lokum lækka sértekjur fjárlagaliðarins um 13,6 m.kr. og verða 189,2 m.kr.
651    Ferðamálaráð: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur lækkar um 5 m.kr. og verður 24,4 m.kr. Á móti er tekinn inn nýr liður, 1.11 Ferðamálasamtök landshluta, og er framlag 5 m.kr. Tekinn er inn nýr liður, 1.91 Landkynning í tengslum við HM í handknattleik á Íslandi, og er framlag 20 m.kr.

11 Iðnaðarráðuneyti

101    Iðnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1 m.kr. og verður 46,9 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
102    Einkaleyfastofan: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 0,3 m.kr. og verður 29,7 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
299    Iðja og iðnaður, framlög: Viðfangsefni 1.19 Staðlaráð hækkar um 1,2 m.kr. og verður 3,8 m.kr. Viðfangsefni 1.30 Alþjóðlegt rannsóknarsamstarf lækkar um 5,1 m.kr. og verður 5 m.kr. en á móti er tekinn inn nýr liður, 1.55 Viðskiptafulltrúi í Moskvu, og er framlag 5 m.kr.

12 Viðskiptaráðuneyti

101    Viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1 m.kr. og verður 66,8 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.
190    Ýmis verkefni: Viðfangsefni 1.10 Neytendasamtökin hækkar um 0,7 m.kr. og verður 3,5 m.kr.

13 Hagstofa Íslands

101    Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2,2 m.kr. og verður 116,3 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.

14 Umhverfisráðuneyti

101    Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1,2 m.kr. og verður 67,5 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 999-1.10 Símakostnaður og burðargjöld fyrir Stjórnarráðið undir fjármálaráðuneyti um sömu fjárhæð. Millifærslan er vegna breyttrar framsetningar á símakostnaði.

190    Ýmis verkefni: Viðfangsefni 1.53 Undirbúningur náttúrustofa hækkar um 1,3 m.kr. og verður 2,3 m.kr. Hækkun er vegna náttúrustofu fyrir Vestfirði í Bolungarvík, 0,6 m.kr., og fyrir Suðurland í Vestmannaeyjum, 0,7 m.kr.
201    Náttúruverndarráð: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 0,5 m.kr. vegna hækkunar á starfshlutfalli fjármálastjóra. Viðfangsefni 1.10 Þjóðgarðar og friðlýst svæði hækkar um 2 m.kr. og verður 32,2 m.kr.
210    Veiðistjóri: Viðfangsefni 1.01 Almennur rekstur hækkar um 1,5 m.kr. og verður 41,1 m.kr.
401    Náttúrufræðistofnun Íslands: Viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 2,5 m.kr. og verður 3,5 m.kr. Hækkunin er ætluð til tölvu- og gagnakerfis.
403    Náttúrustofur: Viðfangsefni 1.10 Almennur rekstur hækkar um 1,4 m.kr. en hækkun er sérstaklega ætluð til stofnbúnaðar við Náttúrustofu Austurlands.
410    Veðurstofa Íslands: Tekinn er inn nýr liður, 5.20 Viðhald fasteigna, og er framlag 5 m.kr.

    Nefndinni hafa borist óskir fjármálaráðuneytis og annarra ráðuneyta um leiðréttingar á nokkrum heitum fjárlagaliða og gjaldategundum. Hér er eingöngu um að ræða breytingu á framsetningu fjárlagaliða og viðfangsefna en ekki neinar efnisbreytingar. Breytingar þessar eru sem hér segir:
1.    Breytingar á heitum liða í menntamálaráðuneyti:
    a.    356 Fjölbrautaskólinn á Sauðárkróki: Skólinn fær heitið Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra.
    b.    905 Landsbókasafn Íslands, háskólabókasafn: Heiti fjárlagaliðarins er breytt til samræmis við ný lög, Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn.
2.    Breytingar á heitum liða í utanríkisráðuneyti:
    a.    320 Sendiráð, almennt. Viðfangsefnið 6.21 Sendiráð í Berlín fær heitið 6.21 Sendiráð Íslands í Berlín.
    b.    401 Alþjóðastofnanir. Viðfangsefnið 1.40 Efnahags- og framfarastofnunin, OECD fær heitið 1.40 Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunin, OECD.
3.    Tilfærsla milli gjaldategunda á viðfangsefni í fjármálaráðuneyti: Fjárlagaliður 989 Launa- og verðlagsmál, framlag á viðfangsefninu 6.01 Stofnkostnaður er fært af tilfærslum yfir á önnur gjöld.
4.    Breytingar á heitum liða í samgönguráðuneyti:
    a.    190 Ýmis verkefni. Viðfangsefnið 1.91 Ráðstefna um öryggi fiskiskipa fær heitið 1.91 Athugun á öryggi fiskiskipa.
    b.    211 Vegagerð ríkisins. Samkvæmt nýjum lögum heitir stofnunin nú Vegagerðin.
    c.    651 Ferðamálaráð. Viðfangsefnið 6.10 Ferðamál skv. 8. gr. laga nr. 79/1985 fær nýtt heiti vegna nýrra laga, 6.10 Ferðamál skv. 8. gr. laga nr. 117/1994.
5.    Breyting á heiti viðfangsefnis í umhverfisráðuneyti: 190 Ýmis verkefni, viðfangsefnið 1.54 Rannsóknastöð Kvískerjum fær heitið 1.54 Rannsóknastöð að Kvískerjum.
    Nefndin hefur fallist á þessar breytingar og verða þær teknar upp í frumvarpið þegar það verður prentað eftir 2. umr., en ekki fluttar sérstakar breytingatillögur um þær.

Alþingi, 12. des. 1994.


Sigbjörn Gunnarsson,
Sturla Böðvarsson.
Árni Johnsen.

form., frsm.
    

Gunnlaugur Stefánsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Árni M. Mathiesen.



Fylgiskjal I.




Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 19. október 1994. Á fund nefndarinnar komu frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti Þorsteinn Geirsson ráðuneytisstjóri, Ari Edwald, aðstoðarmaður ráðherra, og Árni Hauksson deildarstjóri og frá forsætisráðuneyti Guðmundur Árnason deildarstjóri.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir hækkun framlaga til tveggja málaflokka, í fyrsta lagi fangelsismála, til nýrrar fangelsisbyggingar á Litla-Hrauni, og í öðru lagi til löggæslu- og öryggismála, til kaupa á björgunarþyrlu. Hins vegar er það áhyggjuefni að ekki er gert ráð fyrir hækkun framlaga til Landhelgisgæslunnar til að standa straum af rekstrarkostnaði hinnar nýju þyrlu.
    Einnig var fjallað um framlag til dómsmála. Fram kom að gert er ráð fyrir að heildarframlag til málaflokksins lækki miðað við fjárlög 1994 og er það vegna lækkunar framlaga til byggingar nýs Hæstaréttarhúss. Gert er ráð fyrir óbreyttum rekstrarkostnaði við dómstóla.

Alþingi, 10. nóv. 1994.


Sólveig Pétursdóttir, form.

Gísli S. Einarsson.

Ingi Björn Albertsson.

Eyjólfur Konráð Jónsson.

María E. Ingvadóttir.


Fylgiskjal II.






Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


    Eins og fram kemur í áliti meiri hluta allsherjarnefndar komu á fund nefndarinnar fulltrúar frá forsætisráðuneyti annars vegar og dóms- og kirkjumálaráðuneyti hins vegar til að fara yfir tölur viðkomandi ráðuneyta í fjárlagafrumvarpi en engir fulltrúar þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra. Það komu því ekki fram í nefndinni viðhorf forráðamanna þessara stofnana til hins almenna niðurskurðar eða tillagna frumvarpsins að öðru leyti. Þó er ljóst að víða er þröngur stakkur skorinn og ekki vitað hvernig gengur að mæta hinum almenna niðurskurði.
    Í fjárlagafrumvarpinu er fjárveiting til Byggðastofnunar hækkuð um 25 millj. kr. Í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að sú hækkun sé vegna aukinna verkefna stofnunarinnar í framhaldi af ályktun Alþingis vorið 1994 um gerð stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir tímabilið 1994--1997. Þetta er þó ekki í samræmi við þá ályktun því að í henni segir að á næsta ári skuli hækka framlag til nýsköpunar um 50 millj. kr. Þannig er strax á fyrsta ári ekki farið eftir þeirri samþykkt Alþingis og segir það meira en mörg orð um stefnu ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og vantrú hennar á að fjármagn til atvinnuuppbyggingar skili arði og auknum tekjum í þjóðarbúið.
    Þetta stangast líka algjörlega á við staðreyndirnar sem blasa við því að í frumvarpi til fjáraukalaga er lögð til 300 millj. kr. fjárveiting til Byggðastofnunar til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum samkvæmt lögum sem samþykkt voru á síðsta þingi. Í umræðum um það frumvarp kom hins vegar fram að þörf væri fyrir slíka aðstoð víðar á landinu og því engar líkur til annars en að til þeirra þurfi að grípa á næsta ári.
    Í fjárlögum fyrir árið 1994 var löggæsla skorin mikið niður og hefur komið í ljós að það var algjörlega óraunhæft. Hefur ríkisstjórnin viðurkennt það með tillögu um 17 millj. kr. aukafjárveitingu til lögreglustjórans í Reykjavík í frumvarpi til fjáraukalaga og tillögu í fjárlagafrumvarpi um 30,8 millj. kr. hækkun á framlagi til sama verkefnis á næsta ári. Jafnframt hefur komið í ljós að lögreglan hefur ekki nægileg fjárráð til að geta sinnt þeim vaxandi verkefnum sem við er að glíma og kemur það fram á mörgum sviðum.
    Í greinargerð fjárlagafrumvarps kemur fram að Landhelgisgæslunni er ekki ætlað neitt viðbótarfjármagn til að reka nýju björgunarþyrluna og því verði að mæta með að hagræða í rekstri á öðrum sviðum og fá þannig 60 millj. kr. Ekki virðist hafa verið hægt að finna slíkt svigrúm á þessu ári því að í fjáraukalagafrumvarpinu er nú sótt um 15 millj. kr. fjárveitingu til að standa straum af kostnaði vegna úthalds varðskips í tvo mánuði í Barentshafi til aðstoðar íslenskum fiskiskipum sem þar voru að veiðum.
    Það hlýtur að vekja athygli að engin fjárveiting skuli vera ætluð til þess verkefnis á næsta ári. Þær spurningar hljóta að vakna hvort ríkisstjórnin reikni ekki með að til veiða á þessu svæði komi á næsta ári eða hvort ekki eigi þá að veita sambærilega þjónustu við fiskiskipaflotann við þá sem veitt var á þessu ári, en þorskaflinn þar er sá happdrættisvinningur þjóðarbúsins sem ríkisstjórnin telur að stórum hluta sanna ágæti stjórnarstefnunnar. Eða telur ríkisstjórnin að einfaldast sé að reikna með annarri fjárlagagerð á næsta ári með fjáraukalögum að loknum kosningum?
    Á síðasta ári voru færð 80--90 millj. kr. útgjöld frá ríkissjóði yfir á tekjustofna kirkjunnar og enn er haldið áfram að stefna í sömu átt.
    Þrátt fyrir það að allsherjarnefnd hafi ekki átt viðræður við starfsmenn einstakra stofnana benda þau fáu dæmi sem hér hafa verið nefnd til þess að þetta fjárlagafrumvarp verði óbreytt ekki marktækara en fjárlög þessa árs, en í frumvarpi til fjáraukalaga er gerð tillaga til hækkunar á þeim liðum sem allsherjarnefnd hefur til umfjöllunar, samtals um rúmlega 1 milljarð kr.
    Minni hluti allsherjarnefndar treystir sér því ekki til að gera frekari athugasemdir við

þessa kafla fjárlagafrumvarpsins eða ákveðnar tillögur til breytinga en leggur áherslu á að fjárlaganefnd þurfi að kanna ýmsa liði þar nánar.

Alþingi, 16. nóv. 1994.


Jón Helgason.

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Kristinn H. Gunnarsson.

Pétur Bjarnason.




Fylgiskjal III.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 19. október 1994. Á fund nefndarinnar komu frá félagsmálaráðuneyti Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri, Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri og Sturlaugur Tómasson deildarstjóri og frá Hagsýslu ríkisins Ómar H. Kristmundsson stjórnsýslufræðingur. Einnig kom Guðjón Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Þá komu Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar, Marta Bergmann, félagsmálastjóri Hafnarfjarðar, og Gunnar Klængur Gunnarsson, yfirmaður fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Kópavogs. Enn fremur fór nefndin, í tengslum við umfjöllun um málið, í heimsókn til Húsnæðisstofnunar ríkisins og Vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðneytisins. Þar voru mættir frá Húsnæðisstofnun Sigurður E. Guðmundsson framkvæmdastjóri, Hilmar Þórisson aðstoðarframkvæmdastjóri, Grétar J. Guðmundsson rekstrarstjóri og Sigurður Geirsson, forstöðumaður verðbréfadeildar. Frá Vinnumálaskrifstofu voru mættir Gunnar Sigurðsson deildarstjóri, Stefán Stefánsson deildarsérfræðingur, f.h. Atvinnuleysistryggingasjóðs Margrét Tómasdóttir deildarstjóri, og f.h. Ábyrgðasjóðs launa Ólafur B. Andrésson deildarstjóri.
    Fyrir ári síðan ákvað félagsmálanefnd að taka einn málaflokk sérstaklega fyrir við yfirferð fjárlagafrumvarps hverju sinni. Á sl. vetri urðu málefni fatlaðra fyrir valinu en nú voru málefni barna og ungmenna sérstaklega rædd. Hefur nefndin kynnt sér fyrirhugaðar skipulagsbreytingar í málaflokknum sem meiri hlutinn telur ástæðu til að binda góðar vonir við. Fagnar meiri hlutinn auknum fjárveitingum til málaflokksins sem helgast af áætlaðri byggingu eða kaupum á nýju húsnæði fyrir móttöku- og meðferðarstöð unglinga, en alls er gert ráð fyrir 30 millj. kr. til þessa verkefnis. Hins vegar er liður 400 Málefni barna og ungmenna safnliður þar sem eftir er að skipta heildarupphæðinni að öðru leyti milli einstakra málaflokka (sbr. liði 400, 402 og 410 í fjárlögum 1994). Hefur meiri hlutinn áhuga á að fá vitneskju um fyrirhugaða sundurliðun þegar hún liggur fyrir.
    Hvað varðar málefni fatlaðra er vakin athygli á 3. tölul. 39. gr. laga nr. 59/1992, um

málefni fatlaðra, en þar er gert ráð fyrir sérstöku framlagi ríkissjóðs samkvæmt ákvörðun Alþingis til uppbyggingar þjónustu í þágu geðfatlaðra næstu fimm ár frá gildistöku laganna. Nú hefur verið með samstarfi við Geðhjálp stofnsett sambýli fyrir geðfatlaða á Bárugötu. Um er að ræða sambýli fyrir 10 manns auk liðveislu frá húsinu. Meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að þessari uppbyggingu verði haldið áfram.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að leita eftir samkomulagi um áframhaldandi framlag sveitarfélaga í Atvinnuleysistryggingasjóð árið 1995. Um er að ræða 600 millj. kr. framlag til átaksverkefna og atvinnuskapandi aðgerða. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett fram harða gagnrýni í nefndinni vegna málsins. Meiri hlutanum er kunnugt um að nú eru í gangi viðræður milli ríkisvaldsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um átaksverkefnin.
    Staða Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur verið til umræðu vegna krafna Innheimtustofnunar sveitarfélaga á hendur sjóðnum vegna óinnheimtra barnsmeðlaga. Fram hefur komið að viðræður eiga sér stað á milli félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis og niðurstöðu er fljótlega að vænta.
    Meiri hlutinn vekur loks athygli á að afar erfitt er fyrir fagnefndir að átta sig á hver sé þeirra þáttur í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Meiri hlutinn vill ítreka þá skoðun sína að mikilvægt er að mótaðar verði reglur um þessa samvinnu og leggur til við fjárlaganefnd að hún feli t.d. fagnefndum ákveðna þætti fjárlagafrumvarpsins til umfjöllunar eða einstök verkefni, t.d. úthlutun einstakra safnliða.

Alþingi, 8. nóv. 1994.


Rannveig Guðmundsdóttir, form.

Gísli S. Einarsson.

Einar K. Guðfinnsson.

Eggert Haukdal.

Elínbjörg Magnúsdóttir.




Fylgiskjal IV.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.


    Minni hluti félagsmálanefndar bendir á eftirfarandi atriði eftir yfirferð yfir þann kafla fjárlagafrumvarpsins 1995 sem snertir félagsmálaráðuneytið:
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélögin í landinu greiði 600 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta er skýlaust brot á undirrituðu samkomulagi þriggja ráðherra við forustumenn sveitarstjórna í landinu og hefur því verið mótmælt harðlega af þeim. Minni hlutinn telur að ekki sé mögulegt að ganga á bak undirrituðu samkomulagi og það stefni samskiptum ríkis og sveitarfélaga í stórhættu.
    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að vandi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna vanskila

í Innheimtustofnun sveitarfélaga verði leystur. Á árinu 1994 er þessi vandi 225 millj. kr. og ekkert liggur fyrir um breytingar á næsta ári sem verði til þess að leysa þennan vanda. Því verður að taka tillit til þessa við fjárlagagerðina því gengið var út frá því við sveitarfélögin á sínum tíma að ríkið ábyrgðist vanskil í Jöfnunarsjóðnum umfram 300 millj. kr.
    Minni hlutinn bendir á að sú löggjöf, sem samþykkt var á síðasta vori um húsaleigubætur, hefur reynst erfið í framkvæmd og fjölmörg sveitarfélög hafa neitað þátttöku í þessu samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Því er nauðsynlegt að skoða sérstaklega þau ákvæði sem þær varða. Ljóst er að endurmeta þarf hvort réttlætanlegt er að þetta verkefni verði samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, auk þess sem ekki hefur verið staðið við það enn sem komið er að leggja fram frumvarp um skattfrelsi húsaleigutekna upp að 300 þús. kr. á ári eins og fyrirheit voru gefin um á síðasta vori.
    Minni hlutinn bendir á að gríðarleg vanskil eru í húsbréfakerfinu, en þar eru gjaldfallnar 700 millj. kr. í vöxtum og afborgunum af 15 milljarða kr. höfuðstól. Fram kom á fundi með forráðamönnum Húsnæðisstofnunar ríkisins að umsóknir um greiðsluerfiðleikalán hrannast upp í stofnuninni og hún hefur ekki mannafla til þess að fara yfir þær eða leysa úr þeim. Þá bendir minni hlutinn á þann vanda sem sveitarfélögin eiga við að glíma vegna félagslegra íbúða sem þau hafa þurft að leysa til sín en standa auðar vegna þess að ódýrara er að kaupa á almennum markaði. Þessi mál eru algjörlega óleyst og hljóta að koma til kasta fjárveitingavaldsins.
    Minni hlutinn bendir einnig á að gert er ráð fyrir 200 millj. kr. lækkun tekjutryggingar lífeyrisþega í kjölfar upptöku húsaleigubóta, sbr. bls. 325 og 326. Virðist því ekki ætlunin að húsaleigubætur séu lífeyrisþegum til hagsbóta, heldur verði þeir einir húsaleigubótaþega að gjalda bótanna með rýrari tekjum að öðru leyti.

Alþingi, 8. des. 1994.


Jón Kristjánsson.

Jón Helgason.

Kristinn H. Gunnarsson.

Guðrún J. Halldórsdóttir.

Fylgiskjal V.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við bréf fjárlaganefndar, dags. 19. október 1994, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarps sem er á málefnasviði hennar.
    Nefndin fékk til viðræðna við sig frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra og Svanhvíti Jakobsdóttur skrifstofustjóra og skýrðu þau þá liði frumvarpsins er varða ráðuneytið og stofnanir þess.
    Þá kynnti nefndin sér sérstaklega málefni sjúkrahúsa og fékk á sinn fund í því skyni frá Ríkisspítölum Ásmund Brekkan, formann læknaráðs Landspítala, Ingólf Þórisson, framkvæmdastjóra tæknisviðs, Olgu Möller, forstöðumann áætlana- og hagdeildar, og

Vigdísi Magnúsdóttur, hjúkrunarforstjóra á Landspítala; frá Borgarspítala Jóhannes M. Gunnarsson lækningaforstjóra, Jóhannes Pálmason framkvæmdastjóra og Sigríði Snæbjörnsdóttur hjúkrunarforstjóra; frá Landakotsspítala Loga Guðbrandsson framkvæmdastjóra og Ólaf Örn Arnarson yfirlækni; frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri Baldur Dýrfjörð stjórnarformann, Halldór Jónsson framkvæmdastjóra og Vigni Sveinsson aðstoðarframkvæmdastjóra og frá Sjúkrahúsi Akraness Ara Jóhannesson yfirlækni, Ríkharð Jónsson stjórnarformann, Sigurð Ólafsson framkvæmdastjóra og Steinunni Sigurðardóttur hjúkrunarforstjóra. Einnig komu á fund nefndarinnar Ásgerður Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins, og Helgi Seljan, félagsmálafulltrúi sömu samtaka.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir því helsta sem fram kom í máli framangreindra aðila:
    Ríkisspítalar. Forsvarsmenn Ríkisspítala telja að með óbreyttu fjárlagafrumvarpi stefni í mikinn vanda í rekstri spítalanna. Í gögnum, sem þeir kynntu fyrir heilbrigðis- og trygginganefnd, kemur fram að gert er ráð fyrir að halli á rekstri Ríkisspítala, miðað við þær forsendur sem forsvarsmenn stofnunarinnar hafa gefið sér, nemi á næsta ári 412 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir nýrri innheimtu vegna ferliverka að fjárhæð 50 millj. kr.
    Forsendur í rekstri Borgarspítala og Landakotsspítala hafa breyst síðan fulltrúar stofnananna komu fyrir heilbrigðis- og trygginganefnd þar sem spítalarnir hafa nú verið sameinaðir í eina stofnun, Sjúkrahús Reykjavíkur. Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar vill lýsa ánægju sinni yfir þeirri lausn sem fundist hefur með þessari sameiningu. Meiri hluti nefndarinnar leitaði eftir afstöðu forsvarsmanna stofnananna eftir sameininguna. Þeir bentu á að samkvæmt hugmyndum um sameiningu sjúkrahúsanna ætti að útfæra 180 millj. kr. rekstrarhagræðingu.
    Borgarspítali. Fulltrúar Borgarspítala bentu á að mikilvægt væri að liðkað yrði fyrir fjárstreymi til að sameining spítalanna gæti gengið eðlilega fyrir sig þegar í upphafi. Þeir telja að í því skyni sé nauðsynlegt að tryggt verði fé til flutnings barnadeildar, samtals að fjárhæð 130 millj. kr., sem þeir sundurliða á eftirfarandi hátt: 80 millj. kr. til innréttingar deildar B-7 (miðað við kostnað án búnaðar fyrir hjartadeild), 5 millj. kr. vegna flutnings barnadeildar í húsnæði hjartadeildar og 45 millj. kr. til endurnýjunar deilda 2A og 3B á Landakoti. Í því sambandi benda forsvarsmenn Borgarspítala á möguleika á fjárveitingu úr Framkvæmdasjóði aldraðra til framkvæmda á Landakoti og enn fremur til reksturs fyrsta árið. Loks benda forsvarsmenn Borgarspítala á að þar sem höfuðáhersla muni verða lögð á bráðaþjónustu í húsnæði Borgarspítalans þurfi að endurnýja tölvusneiðmyndatæki. Við kaup tækisins fyrir rúmum sex árum hafi verið gert ráð fyrir að það yrði endurnýjað að fimm árum liðnum eða í síðasta lagi árið 1993. Áætlaður kostnaður við kaup á nýju tæki er að mati forsvarsmanna Borgarspítala 60--90 millj. kr. Varðandi fé til tækjakaupa almennt benda forsvarsmenn Borgarspítala á að skynsamlegt sé að miða við að það nemi 3--5% af rekstrarfé eins og tíðkist víða og að afskriftareglur verði teknar upp þannig að endurnýjun tækja geti gengið sjálfkrafa og eðlilega fyrir sig.
    Landakotsspítali. Fulltrúar Landakotsspítala telja að í kjölfar opnunar röntgengreiningarstofu í Domus Medica árið 1993 hafi Landakotsspítali tapað stórum hluta þeirra tekna sem hann hafi haft af rannsóknum á ferlisjúklingum. Þeir benda einnig á að röntgentaxtar hafi lækkað um 20--30% samkvæmt ákvörðun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Forsvarsmenn Landakots gera því ráð fyrir að tekjur af röntgenrannsóknum á ferlisjúklingum lækki um 50--60 millj. kr. á yfirstandandi ári, eða um 60--70% frá því sem var á árinu 1993. Þeir telja að hvorki sé tekið tillit til þessa á fjárlögum þessa árs né í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 og að ef ekki verði að gert þýði það enn meiri

samdrátt í starfsemi Landakots.
    Nefndin kynnti sér einnig málefni heilsugæslustöðva og fékk á sinn fund frá Landssamtökum heilsugæslustöðva og samstarfsráði Heilsugæslunnar í Reykjavík Ingimar Sigurðsson og Valdimar K. Jónsson.
    Þá fékk nefndin til viðræðna við sig Sverri Bergmann, formann Læknafélags Íslands, Gest Þorgeirsson, formann Læknafélags Reykjavíkur, Ólaf F. Magnússon frá Félagi sjálfstætt starfandi heimilislækna, Tómas Jónsson frá Sérfræðingafélagi íslenskra lækna, Guðmund I. Eyjólfsson, formann samninganefndar sérfræðinga, Víglund Þorsteinsson, fulltrúa í samninganefnd sérfræðinga, og Sigurbjörn Sveinsson og Ólaf Stefánsson frá Félagi íslenskra heimilislækna. Fram kom í máli meiri hluta framangreindra gesta að þeir teldu hæpið að sparnaður næðist með því að koma á svonefndu tilvísanakerfi. Þeir töldu að tilvísanakerfi fylgdi aukin skriffinska og tvöföldun á þjónustu.
    Á fund nefndarinnar komu Ásgerður Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, og Helgi Seljan, félagsmálafulltrúi sömu samtaka. Þau gerðu grein fyrir sjónarmiðum Öryrkjabandalagsins varðandi eingreiðslur til lífeyrisþega og greiðslur húsaleigubóta.
    Loks komu á fund nefndarinnar frá hjúkrunarheimilum aldraðra Sigurður Helgi Guðmundsson frá Skjóli og Eir og Ásgeir Jóhannesson og Jóhann Árnason frá Sunnuhlíð. Fram kom í máli þeirra að þeir teldu að ekki yrði gengið lengra í aðhaldsaðgerðum. Sigurður Helgi óskaði eftir því koma á framfæri að á síðustu fjórum árum hefðu framlög til Skjóls lækkað um 10% þrátt fyrir hækkun kostnaðar á tímabilinu. Hann taldi að þegar heimilið hefði farið á föst fjárlög hefði verið fellt niður 1% afskriftargjald sem væri hluti af daggjöldum og hefði getað staðið undir afborgunum af lánum hjá Húsnæðisstofnun ríkisins sem næmu um 115 millj. kr.
    Meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar kemur hér með á framfæri þeim atriðum sem að framan hafa verið rakin til upplýsingar fyrir háttvirta fjárlaganefnd í frekari vinnu hennar.
    Eins og venja er áskilja einstakir nefndarmenn sér rétt til að koma að frekari athugasemdum við síðari umræður um frumvarpið og flytja við það breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.

Alþingi, 6. des. 1994.


Gunnlaugur Stefánsson, form.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.

Sólveig Pétursdóttir.

Sigríður A. Þórðardóttir.




Fylgiskjal VI.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).


Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.


    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við bréf fjárlaganefndar, dags. 19. október 1994, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar.
    Nefndin fékk til viðræðna við sig frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra og Svanhvíti Jakobsdóttur skrifstofustjóra, frá Ríkisspítölum Ásmund Brekkan, formann læknaráðs Landspítalans, Ingólf Þórisson, framkvæmdastjóra tæknisviðs, Olgu Möller, forstöðumann áætlana- og hagdeildar, og Vigdísi Magnúsdóttur hjúkrunarforstjóra, frá Borgarspítala Jóhannes M. Gunnarsson lækningaforstjóra, Jóhannes Pálmason framkvæmdastjóra og Sigríði Snæbjörnsdóttur hjúkrunarforstjóra, frá Landakotsspítala Loga Guðbrandsson framkvæmdastjóra og Ólaf Örn Arnarson yfirlækni, frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri Baldur Dýrfjörð stjórnarformann, Halldór Jónsson framkvæmdastjóra og Vigni Sveinsson aðstoðarframkvæmdastjóra, frá Sjúkrahúsi Akraness Ara Jóhannesson yfirlækni, Ríkharð Jónsson stjórnarformann, Sigurð Ólafsson framkvæmdastjóra og Steinunni Sigurðardóttur hjúkrunarforstjóra. Einnig komu til viðræðna við nefndina Sverrir Bergmann, formaður Læknafélags Íslands, Gestur Þorgeirsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, Tómas Jónsson, Sérfræðingafélagi íslenskra lækna, Guðmundur E. Jónsson, formaður samninganefndar sérfræðinga, Víglundur Þorsteinsson, sérfræðingur í kvensjúkdómum, Sigurbjörn Sveinsson og Ólafur Stefánsson, Félagi íslenskra heimilislækna, og Ólafur F. Magnússon, Félagi sjálfstætt starfandi heimilislækna. Einnig komu á fund nefndarinnar þeir Sigurður Helgi Guðmundsson frá hjúkrunarheimilunum Skjóli og Eir og Ásgeir Jóhannesson og Jóhann Árnason frá hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi.
    Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar gerir fjárlaganefnd í áliti sínu grein fyrir því er fram kom við skoðun heilbrigðis- og trygginganefndar á fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1995.
1.     Það var mat Páls Sigurðssonar, ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, að 2.000 millj. kr. vantaði í málaflokknum 08 sem er heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ef halda á óbreyttri starfsemi í rekstri ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir það heyra. Það er sá fyrirhugaði sparnaður sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu og lendir á heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu á árinu 1995. Talið er að útgjöld í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu á árinu 1994 stefni í að verða 2.000 millj. kr. meiri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Þessar staðreyndir staðfesta áðurnefnt mat ráðuneytisstjóra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.
2.     Útgjöld lífeyristrygginga eru lækkuð í frumvarpinu um samtals 850 millj. kr. Spara á 600 millj. kr. með því að aftengja sjálfvirka hækkun bótagreiðslna lífeyristrygginga vegna ófyrirséðra launabreytinga og miða þær þess í stað við forsendur fjárlaga hverju sinni. Af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er þetta yfirlýsing og um leið er það stefna stjórnarflokkanna að bótagreiðslur lífeyristrygginga á árinu 1995 verði ekki hækkaðar til samræmis við þær launahækkanir sem verða munu í kjölfar kjarasamninga. Með öðrum orðum eiga elli- og örorkulífeyrisþegar ekki að fá sömu kjarabætur og aðrir. Ef svo er ekki er 600 millj. kr. sparnaðurinn blekking til að sýna minni halla á fjárlögum en hann raunverulega mun verða á árinu 1995. Til viðbótar lækka útgjöld lífeyristrygginga um 250 millj. kr., þar af eru 200 millj. kr. vegna endurskoðunar á svokölluðum heimildarbótum í kjölfar upptöku húsaleigubóta og þeirra

breytinga sem gerðar hafa verið á sjúkratryggingum vegna þeirra sem bera háan lyfja- og lækniskostnað. Engar skýringar hafa fengist á því hvernig á að spara þessar 200 millj. kr. Það er staðreynd að fjöldi einstaklinga á engan rétt á húsaleigubótum, þar sem þeir búa í eigin húsnæði, en bera engu að síður mikinn húsnæðiskostnað og fá þess vegna greidda uppbót frá Tryggingastofnun. Það blasir því við að langstærstur hluti þessara 200 millj. kr. er bein lækkun á bótum til elli- og örorkulífeyrisþega og þeirra sem búa við erfiðustu aðstæðurnar. Stefnt er að því að lækka lífeyristryggingar um 50 millj. kr. til viðbótar með almennri endurskoðun bótakerfisins. Engar skýringar hafa fengist á hvernig ná á fram þessum 50 millj. kr. í sparnað né hvað felst í almennri endurskoðun bótakerfisins. Ljóst er að þessi sparnaður mun leiða til aukinnar kjaraskerðingar hjá elli- og örorkulífeyrisþegum.
3.     Áætlaður sparnaður í sjúkratryggingum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er 420 millj. kr. og skiptist þannig: Sparnaður í lyfjum 200 millj. kr., í sérfræðilæknishjálp 100 millj. kr., 70 millj. kr. hjá rannsóknarlæknum og 50 millj. kr. í sjúkraþjálfun. Sparnaði í lyfjakostnaði á að ná með því að flýta gildistöku á þeim ákvæðum lyfjalaganna, er snúa að verðlagningu, sölu og dreifingu. Það er mat minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar að það muni ekki leiða til sparnaðar heldur geti það þvert á móti leitt til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Hins vegar var það samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu á sínum tíma að fyrst skyldi reyna á EES-ákvæði lyfjalaganna áður en ákvæðin um verðlagningu, sölu og dreifingu lyfja tækju gildi. Það að flýta gildistöku á ákvæðunum væri því brot á áðurnefndu samkomulagi. Áætlað er að ná 100 millj. kr. sparnaði í sérfræðilæknishjálp með upptöku tilvísanakerfis. Það kom fram hjá fulltrúum heilsugæslustöðva og Læknafélags Íslands og Félags íslenskra heimilislækna að vafasamt væri, ef ekki útilokað, að ná slíkum sparnaði í sérfræðilæknishjálpinni og á sama tíma og áætlað er að spara í heilsugæslunni um 100 millj. kr., 50 millj. kr. með lækkun á rekstrarkostnaði og 50 millj. kr. með hagræðingu í sjúkraflutningum. Verði tekin upp tilvísanaskylda milli sérfræðinga og heimilislækna mun það þýða aukin útgjöld í heilsugæslunni. Það er því vonlaust og algjörlega óraunhæft að ætla á sama tíma að spara í sérfræðilæknishjálp með tilvísanakerfi og að skera niður í rekstri heilsugæslustöðvanna. Hér er því enn ein blekkingin á ferðinni. Skiptar skoðanir voru um það milli heilsugæslulækna og sérfræðinga hvort taka ætti upp tilvísanaskyldu eða ekki. Slík spurning snýr ekki lengur að löggjafanum heldur fyrst og fremst að framkvæmdarvaldinu þar sem heimild til þess að koma á tilvísanakerfi er í höndum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Engar tillögur liggja fyrir um með hvaða hætti á að spara 70 millj. kr. hjá rannsóknarlæknum og 50 millj. kr. í sjúkraþjálfun.
4.     Áætla má að á árinu 1994 stefni í að 1.000 millj. kr. vanti til reksturs sjúkrahúsanna í landinu.
             Ríkisspítalar. Í mikinn vanda stefnir í rekstri Ríkisspítalanna. Áætlað er að 441 millj. kr. vanti á fjárveitingar til Ríkisspítalanna árið 1994. Fyrirséð fjárvöntun samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á árinu 1995 er 412 millj. kr. miðað við þær forsendur sem forsvarsmenn stofnunarinnar gefa sér í rekstri árið 1995 og er þá gert ráð fyrir nýrri innheimtu fyrir ferliverk að upphæð 50 millj. kr. sem er með öllu óvíst hvort skilar sér. Á tveimur árum, þ.e. árið 1994 og 1995, stefnir því að óbreyttu í 853 millj. kr. halla á Ríkisspítölunum.
             Borgarspítali. Það er mat forsvarsmanna Borgarspítalans að uppsafnaður rekstrarhalli spítalans árið 1993 og 1994 sé a.m.k. 350 millj. kr. Í samningi þeim, sem

heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafa gert um sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala í Sjúkrahús Reykjavíkur, er gert ráð fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra muni beita sér fyrir fjárveitingum til Borgarspítalans í fjáraukalögum fyrir árið 1994 að upphæð 167 millj. kr. til viðbótar þeirri fjárhæð sem áætluð er til spítalans í frumvarpi til fjáraukalaga sem er 87 millj. kr. eða samtals 254 millj. kr. Samkvæmt þessu hefur því verið samið um að bæta ekki 100 millj. kr. af uppsöfnuðum rekstrarhalla spítalans árin 1993 og 1994. Það var mat forsvarsmanna Borgarspítalans að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995 vanti 290 millj. kr. Í áðurnefndum samningi er gert ráð fyrir að á árinu 1995 muni heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra beita sér fyrir 100 millj. kr. eingreiðslu til reksturs Sjúkrahúss Reykjavíkur í fjárlögum ársins 1995. Það er því ljóst að a.m.k. 190 millj. kr. vantar upp á í fjárlagafrumvarp fyrir árið 1995. Í áðurnefndum samningi er gert ráð fyrir að stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur grípi til aðgerða svo fljótt sem kostur er sem skila eiga 180 millj. kr. sparnaði á árinu 1995. Forsvarsmenn Borgarspítalans hafa hins vegar bent á að til þess að liðka fyrir sameiningu spítalanna sé nauðsynlegt að tryggja fé til flutnings barnadeildar af Landakotsspítala yfir á Borgarspítalann. Það mun kosta a.m.k. 130 millj. kr. Nauðsynlegt er að kaupa tækjabúnað til Borgarspítalans þar sem höfuðáhersla verði lögð á að Borgarspítalinn verði bráðaþjónustusjúkrahús. Áætlaður kostnaður við tækjakaup gæti verið tæplega 100 millj. kr. Það má því ætla að hið nýja Sjúkrahús Reykjavíkur, þ.e. Borgarspítali og Landakotsspítali, þurfi á árinu 1995 520 millj. kr. en af þeim 520 millj. kr. er áætlað að ná fram 180 millj. kr. sparnaði á árinu 1995.
             Landakotsspítali. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 1994 er gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingu til Landakotsspítala upp á 100 millj. kr. Forsvarsmenn Landakots gera ráð fyrir að tekjur af röntgenrannsóknum spítalans lækki um 50--60 millj. kr. á árinu 1994. Ekki er tekið tillit til þessa í fjáraukalögum 1994 og ekki heldur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995. Því vanti upp á fjárveitingar til Landakots á árinu 1994 til viðbótar við þær 100 millj. kr. sem nú eru í fjáraukalögum 50--60 millj. kr. og í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 50--60 millj. kr.
             Fjórðungssjúkrahús Akureyrar. Það var mat forsvarsmanna sjúkrahússins þegar þeir komu til fundar við nefndina að það vantaði a.m.k. 36 millj. kr. í fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1995 til að halda óbreyttum rekstri.
             Sjúkrahúsið á Akranesi. Það var mat forsvarsmanna sjúkrahússins þegar þeir komu til fundar við nefndina að það vantaði a.m.k. 24 millj. kr. í fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1995 til að halda óbreyttum rekstri.
        Samkvæmt þessu má áætla að til reksturs sjúkrahúsa í landinu samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1995 vanti 1.000 millj. kr. eða sömu upphæð og vantaði í fjárlögin fyrir árið 1994. Það er því kominn tími til að menn horfist í augu við þetta vandamál.
5.     Þeir fulltrúar hjúkrunarheimilanna sem komu til fundar við nefndina vildu taka það skýrt fram að ekki yrði gengið lengra í aðhaldsaðgerðum gagnvart þeim stofnunum sem þeir væru í forsvari fyrir. Þessir fulltrúar vöruðu við að gengið yrði lengra á þeirri braut að láta Framkvæmdasjóð aldraðra fjármagna rekstur nýrra stofnananna, ekki síst í ljósi þess að mikillar uppbyggingar á hjúkrunarheimilum er þörf á höfuðborgarsvæðinu.

Alþingi, 5. des. 1994.


Ingibjörg Pálmadóttir.

Guðrún Halldórsdóttir.

Margrét Frímannsdóttir.

Finnur Ingólfsson.




Fylgiskjal VII.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.


    Nefndin hefur skv. 2. mgr. 25. gr. þingskapa Alþingis og í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 19. október 1994 fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Kristmund Halldórsson, deildarstjóra í iðnaðarráðuneytinu, og gerði hann grein fyrir iðnaðar- og orkumálakafla frumvarpsins og svaraði fyrirspurnum nefndarmanna. Þá komu einnig á fund nefndarinnar Jakob Björnsson orkumálastjóri, Hallgrímur Jónasson, forstjóri Iðntæknistofnunar, Kristján Jónsson, forstjóri Rarik, og Eiríkur Briem, fjármálastjóri Rarik.
    Nefndin ítrekar þá afstöðu sem hún hefur sett fram í áliti sínu á undanförnum árum að nauðsynlegt sé að koma betri skipan á samskipti fjárlaganefndar og fagnefnda við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið. Í því sambandi þarf sérstaklega að skilgreina nánar hlutverk fagnefndanna í fjárlagavinnunni. Nefndin telur því brýnt að forseti Alþingis beiti sér fyrir því að fyrir lok þessa þings verði efnt til fundar með formönnum þingflokka og þingnefnda þar sem þáttur fagnefndanna í fjárlagavinnunni verði tekinn til umfjöllunar. Á þeim fundi verði lagt mat á hvernig til hafi tekist á kjörtímabilinu og jafnframt verði mótaðar tillögur um hvaða hlutverki fagnefndirnar eigi að gegna í fjárlagavinnunni á næsta kjörtímabili.
    Hvað varðar einstaka þætti í fjárlagafrumvarpi ársins 1995 vill nefndin benda á eftirfarandi:
1.     Málefni Iðntæknistofnunar. Nefndin fór rækilega yfir fjárlagamál Iðntæknistofnunar, en umfjöllun um hana er ekki að finna í greinargerð fjárlagafrumvarpsins. Fram kom m.a. að stofnunina skortir fé til þess að vinna að faggildingu með þeim hætti sem óhjákvæmilegt er um þessar mundir. ,,Ætla má``, segir forstjóri stofnunarinnar í bréfi til nefndarinnar, ,,að stofnunin þurfi að vinna að þessum undirbúningi fyrir um 3 millj. kr. ef fjármunir fást til þess.`` Vaxandi kröfur eru gerðar til stofnunarinnar á þessum sviðum vegna aðildar Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Þess vegna leggur nefndin áherslu á að stofnuninni verði tryggt svigrúm til þess að standa undir þessum kostnaði. Í annan stað nefnir Iðntæknistofnun í erindi sínu sérstaklega þjónustuna við landsbyggðina. Fjárveitingar til stofnunarinnar hafa lækkað úr um 140 millj. kr. í um 96 millj. kr. á árinu 1994. Afleiðingin af þessum niðurskurði hefur m.a. orðið sú að dregin hafa verið skarpari skil milli þjónustuverkefna sem standa undir sér og

þróunarverkefna sem kostuð eru með framlögum úr ríkissjóði. Til þess að geta sinnt landsbyggðinni með þeim hætti sem telja mætti viðunandi telur stofnunin að alls þyrfti um 2,5 millj. kr. á árinu 1995.
2.     Málefni Orkusjóðs. Framlög til Orkusjóðs lækka verulega samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Framlög til lánagreiðslna lækka um 11,6 millj. kr. og framlög til dreifikerfis í sveitum lækka um 4,6 millj. kr. og loks er gert ráð fyrir að lækka lán til jarðhitaleitar. Af þessum ástæðum fékk nefndin orkumálastjóra á sinn fund. Hann gerði grein fyrir málinu og vísaði m.a. til vinnu nefndar sem er að athuga hvernig fjármögnun sjóðsins verði hagað í framtíðinni. Sú nefnd hafði ekki skilað niðurstöðum er þetta álit var skrifað en iðnaðarnefnd hvetur fjárlaganefnd til að fara vel yfir niðurstöður nefndarinnar þegar það liggur fyrir. Sömu nefnd er ætlað að fjalla um fjármál Rarik.
3.     Málefni Rafmagnsveitna ríkisins. Í viðræðum við fulltrúa Rarik kom fram að nefnd sú sem er að fjalla um málefni fyrirtækisins hefur enn ekki lokið störfum og töldu forsvarsmenn Rarik vandséð að hún gæti komið með nokkrar lausnir á vandamálum fyrirtækisins. Þeir lögðu áherslu á að orkufyrirtækin þrjú, þ.e. Rarik, Hitaveita Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða, yrðu meðhöndluð með sambærilegum hætti í fjárlögum að því er varðar kröfur um arðgreiðslur í ríkissjóð. Nefndin ákvað að fara fram á sérstakar viðræður við forustu fjárlaganefndar um þetta mál. Er hér með óskað eftir slíkum viðræðum.
4.     Safnliðir. Nefndin fór sérstaklega yfir safnliði ráðuneytisins og fékk svofelldar skýringar:
                        ,,Ráðuneytið vísar til fundar með iðnaðarnefnd Alþingis 26. október um fjárlagafrumvarp fyrir árið 1995. Í framhaldi þeirra umræðna sem áttu sér stað á fundinum vill ráðuneytið láta nefndinni eftirfarandi í té: Spurt var um verkefni og styrki sem veittir hafa verið af fjárlagaliðunum:
                11-240 Iðnaðarrannsóknir.
                11-299-114 Iðja og iðnaður---Iðnþróun og tækninýjungar.
                11-299-140 Iðja og iðnaður---Smáiðnaður í dreifbýli.
                11-299-150 Iðja og iðnaður---Nýsköpun og markaðsmál.
                Við úthlutun á liðnum smáiðnaður í dreifbýli var hafður sá háttur á að auglýst var eftir umsóknum í fjölmiðlum í öllum landshlutum og tiltekinn umsóknarfrestur ákveðinn. Að því búnu var starfshópi skipuðum fulltrúum ráðuneytisins, Iðntæknistofnunar og Byggðastofnunar, falið að yfirfara umsóknirnar og gera tillögur um úthlutun. Ráðherra tók síðan endanlega ákvörðun um úthlutun styrkja samkvæmt tillögu úthlutunarnefndar. Listi yfir hana fylgir hér með.
                Styrkir hafa einnig verið veittir af öðrum liðum Iðnaðarrannsóknir og Iðja og iðnaður, en af þeim hefur einnig verið greiddur þar kostnaður vegna nefndarstarfa og fleiri verkefna sem unnið hefur verið að beint á vegum ráðuneytisins.
                Ekki hefur verið um að ræða umsóknarfrest, en ákveðnar verklagsreglur hafa lengi verið viðhafðar í því sambandi. Verklagsreglur þessar hafa nú verið staðfestar.
                Í flestum tilfellum hefur ráðuneytið óskað eftir skýrslu um ráðstöfun fjárins og árangur verkefnisins sé það þess eðlis.
                Reglur þessar fylgja hér með ásamt listum yfir úthlutanir á þessu ári.``
5.     Jöfnunaraðstoð. Á þessu ári hefur iðnaðarráðuneytið veitt jöfnunaraðstoð til að halda skipasmíðaverkefnum hér á landi. Það er samdóma álit iðnaðarnefndar að þetta fyrirkomulag hafi gefist vel. Ekki er gert ráð fyrir þessum fjármunum í fjárlagafrumvarpinu fyrir 1995, en iðnaðarnefnd leggur áherslu á að þegar fyrir liggur á næstu dögum álit nefndar sem fjallar um áhrif jöfnunaraðstoðar verði vandlega kannað hvort ekki er full þörf á fjármunum í þessu skyni á næsta ári.
    Sigríður Anna Þórðardóttir og Guðmundur Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 25. nóv. 1994.


Svavar Gestsson, form.

Gísli S. Einarsson.

Pálmi Jónsson.

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Tómas Ingi Olrich.

Páll Pétursson.

Guðjón Guðmundsson.




Fylgiskjal VIII.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.


1. Inngangur.
    Nefndin hefur fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Á fundi nefndarinnar komu Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambands bænda, Gísli Karlsson, framkvæmdastjóri Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra, Jóhann Guðmundsson, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneyti, Hrönn Pálsdóttir frá Þjóðhagsstofnun og frá Landssambandi fóðurbænda Magnús Finnbogason, Ólafur Eggertsson, Páll Ólafsson og Einar Baldursson. Auk þess höfðu eftirtaldir aðilar samband við formann nefndarinnar eða sendu nefndinni erindi: Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri, Magnús B. Jónsson, skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri, Árni Ísaksson veiðimálastjóri og Jóhann Þórhallsson hjá Héraðsskógum.
    Á undanförnum árum hefur landbúnaðarnefnd farið mjög ítarlega yfir þennan hluta fjárlagafrumvarpsins, rætt við forsvarsmenn hinna ýmsu stofnana eftir því sem við hefur átt hverju sinni og fengið í hendur skýringar og athugasemdir. Í álitum sínum til fjárlaganefndar Alþingis hefur nefndin jafnan lagt áherslu á að vissra breytinga væri þörf. Þótt við fjárlagagerð hafi jafnan verið komið að nokkrum leiðréttingum hefur það á engan hátt nægt til þess að rétta hlut landbúnaðarins.
    Landbúnaðarnefnd vekur sérstaka athygli á að greiðslur til landbúnaðar hafa dregist mikið saman á kjörtímabilinu. Árið 1992 námu þær um 10,1 milljörðum kr., árið 1993

6,8 milljörðum kr., á þessu ári er áætlað að þær verði um 5,8 milljarðar kr. og í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er lagt til að þessar greiðslur nemi 5,7 milljörðum kr. Hér er um að ræða meiri niðurskurð á fjárveitingum en gagnvart nokkrum öðrum þætti í fjárlögum undanfarinna ára. Því verða menn að hafa hugfast, ekki síst á breytingatímum eins og íslenskur landbúnaður gengur nú í gegnum, að ekki sé sótt af meira kappi en forsjá.
    Óhætt er að fullyrða að sauðfjárrækt sé sú búgrein sem hvað verst stendur á Íslandi í dag. Á það hefur landbúnaðarnefnd verði rækilega minnt á í ferðum sínum um landið. Höfuðáherslu verður að leggja á að bregðast strax við þeirri vá ef ekki á enn verr að fara. Ekki er að efa að með skipulögðu markaðsstarfi erlendis, sérstaklega á sviði lífrænnar ræktunar, er unnt að ná árangri sem treysta mun framtíð sauðfjárræktar í landinu.
    Í upphafi janúarmánuðar boðaði fjárlaganefnd Alþingis formenn fastanefnda þingsins á sinn fund. Þar var fjallað um samstarf nefnda þingsins við fjárlagagerð. Ákveðið var að annar fundur yrði haldinn í febrúarmánuði. Til hans hefur enn ekki verið boðað og er málið því að þessu leyti í sama horfi og við síðustu fjárlagagerð. Af framangreindum ástæðum hefur nefndin gert þær breytingar á störfum sínum frá því sem verið hefur að nú er fyrst og fremst fjallað um þau mál sem nefndinni hafa borist erindi um eða hún telur að eðlilegt sé að koma á framfæri við fjárlaganefnd.

2. Búvörusamningur.
    Í bréfi dags. 9. nóvember 1993 fór landbúnaðarnefnd þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún kannaði hvort framkvæmd núgildandi búvörusamnings væri í samræmi við ákvæði hans. 16. desember 1993 barst nefndinni svarbréf Ríkisendurskoðunar við þessari fyrirspurn. Þar koma fram mikilvægar upplýsingar um framkvæmd búvörusamningsins sem m.a. eru lagðar til grundvallar þessu áliti. Í greinargerðinni kemur fram að ágreiningur er um ýmis atriði. Rík áhersla er lögð á að aðilar að búvörusamningnum leysi þann ágreining.

2.1. Uppgjör birgða.
    Ágreiningur er milli Stéttarsambands bænda og landbúnaðarráðuneytisins um ákvæði samningsins um uppgjör birgða. Hann er til kominn vegna söluátaks í ágúst 1992 en af því leiddi að birgðir minnkuðu verulega sem dró úr skyldum ríkissjóðs samkvæmt búvörusamningnum við að koma birgðahaldi í eðlilegt horf.

2.2. Stuðningsaðgerðir samkvæmt viðauka II.
a. Framleiðnisjóður landbúnaðarins.
    Framleiðnisjóður hefur aðeins varið 10--12% af ráðstöfunarfé sínu til atvinnusköpunar í sveitum. Nefndin telur að þetta sé ekki í samræmi við þær væntingar og þau áform sem lágu til grundvallar tilurð sjóðsins. Þess vegna leggur nefndin ríka áherslu á að fjárveitingar Framleiðnisjóðs taki í auknum mæli mið af þeirri miklu þörf sem fyrir hendi er í sveitum landsins til eflingar atvinnulífinu.

b. Jarðasjóður ríkisins.
    Samkvæmt búvörusamningnum áttu fjárveitingar til Jarðasjóðs að vera 150 millj. kr. árin 1992 og 1993. Þær hafa hins vegar reynst miklu lægri eða aðeins 21 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðarráðuneytinu liggur fyrir að uppkaup bújarða á grundvelli búvörusamningsins hafa verið lítil sem engin. Landbúnaðarnefnd leitaði eftir því við landbúnaðarráðuneytið að það léti nefndinni í té greinargerð um málefni Jarðasjóðs.

Nefndin mun fjalla um þá greinargerð þegar hún berst og hefur því málefni sjóðsins enn þá til athugunar.

c. Þáttur Byggðastofnunar.
    Samkvæmt búvörusamningnum (viðauka II) er kveðið á um að ,,Byggðastofnun verði útvegað fjármagn til að greiða fyrir annarri atvinnuuppbyggingu á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárframleiðslu``. Í bréfi, sem nefndinni hefur borist frá Byggðastofnun, kemur fram að lántökuheimildir einar saman gagnast ekki til þessara verkefna. Því er óumflýjanlegt að aðilar að búvörusamningnum og Byggðastofnun komist að niðurstöðu um í hvaða formi framangreindar fjárveitingar verði til að árangur náist. Þá liggur enn fremur fyrir að einungis hafa verið veittar 20 millj. kr. til þessara verkefna og vantar því 230 millj. kr. til að við þetta ákvæði hafi verið staðið og að viðbættri fjárveitingu fyrir næsta ár nemur það sem á skortir 280 millj. kr.
    Samkvæmt greinargerð frá Byggðastofnun hafa þau sauðfjárræktarsvæði verið skilgreind þar sem samdráttur í sauðfjárrækt er alvarlegastur (sjá mynd). Þar kemur greinilega fram að mikil vá er fyrir dyrum ef ekki verður úr bætt.


Figure

Graphic file isl.wpg with height 232 p and width 369 p Center aligned

[
Byggðir í hættu eru táknaðar með svörtum lit á myndinni.
]

d. Lífeyrissjóður bænda.
    Þann 1. janúar 1993 tók gildi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að binda ríkisframlög í Lífeyrissjóð bænda við þær búgreinar einar sem falla undir búvörusamninginn, þ.e. mjólkur- og sauðfjárframleiðslu. Samtals námu iðgjöld úr þessum tveimur greinum 84% af heildariðgjöldum árið 1993. Hlutfallið árið 1994 verður svipað. Allar aðrar búgreinar greiða því innan við fimmtung af iðgjöldum til sjóðsins. Ekki er að furða að aðrar greinar streitist gegn því að greiða sinn hluta þegar ekki er von á neinu framlagi á móti frá ríkinu. Landbúnaðarnefnd telur eðlilegt að ríkið greiði framlög á móti iðgjöldum til allra búgreina en ekki aðeins þeirra er falla undir samninginn og vitnar í því sambandi til álits Ríkisendurskoðunar frá 16. desember 1993. Einungis þannig verður greitt úr þeirri miklu óreiðu sem verið hefur í málefnum lífeyrissjóðsins frá ársbyrjun 1993 sem m.a. hefur

birst í deilum milli bænda og afurðastöðva. Á það ber einnig að líta að slík ríkisframlög falla undir styrki til félagslega kerfisins samkvæmt EES- og GATT-samningunum og teljast því ekki samkeppnishindrandi. Þannig er hægt að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra búgreina án brota á alþjóðlegum samningum. Reiknað er með að heildariðgjöld í lífeyrissjóðinn muni á næsta ári nema 120 millj. kr. Mótframlagið ætti þá með réttu að vera 1,5 sinnum hærra eða 180 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpinu er hins vegar aðeins gert ráð fyrir 155 millj. kr. og því vantar 25 millj. kr. upp á.
    Landbúnaðarnefnd vill vekja athygli á því að fjárveitingar til framangreindra verkefna hafa ekki verið verðbættar eins og kveðið er á um í búvörusamningnum. Að því verða samningsaðilar að hyggja sérstaklega.


2.3. Landgræðsla og skógrækt.
    Engin aukning hefur orðið á fjárveitingum til landgræðslu og skógræktarstarfa þrátt fyrir yfirlýsingu samningsins í þessu efni samkvæmt bókun VI. Þessi staðreynd gengur gegn þeirri stefnumörkun Alþingis sem staðfest var með þingsályktun á 113. löggjafarþingi og ríkisstjórnin byggir stefnu sína í landgræðslumálum á í starfsáætlun sinni. Fjárveitingar til þessa málaflokks eru ekki í neinu samræmi við þessar mikilvægu áherslur.
    Af framansögðu má ljóst vera að framkvæmd búvörusamningsins er ekki í því horfi sem samrýmist markmiðum hans. Hins vegar er lögð á það áhersla að þótt svo væri yrði eftir sem áður fyrir hendi mikill vandi í sauðfjárbúskap. Nefndin hefur sérstaklega kynnt sér þessi mál með vettvangsferðum um þær byggðir sem þessi vandi brennur hvað heitast á og rætt þar við fjölda bænda, sveitarstjórnamenn og forsvarsmenn búnaðarsambanda og vinnslustöðva. Einnig hefur hún aflað sér mikilvægra gagna í þessum efnum.
    Fyrir liggur að tekjur í sauðfjárbúskap fara stöðugt lækkandi og eignarýrnun eykst með ári hverju. Samdráttur í sölu kindakjöts nemur árlega um 2,5% og birgðir eru því ekki á neinn hátt í samræmi við markmið samningsins um að þær skulu eigi vera meiri en sem nemur 500 tonnum við lok hvers framleiðsluárs. Ekki liggur enn fyrir reglugerð skv. 73. gr. búvörulaganna um endurgreiðslur á unnar landbúnaðarvörur og enn á að leita eftir skerðingum á greiðslur vegna sauðfjárafurða að upphæð 70--80 millj. kr. Hér stefnir því í aukinn vanda í þessari búgrein ef ekki verður að gert.
    Það sem hér er nærtækast að grípa til er að tekin verði upp fjárveiting til markaðsmála sem hamlaði gegn síaukinni birgðasöfnun og dregin verði til baka áformuð 5% skerðing útborgunarverðs sláturafurða til bænda.

3. Jarðræktarframlög.
    Í áliti landbúnaðarnefndar á síðasta ári var lögð áhersla á að greidd yrðu framreiknuð jarðræktarframlög fyrir árið 1992 en framkvæmdir fyrir árið 1993 yrðu látnar bíða. Þrátt fyrir að hér hafi verið um réttmæta kröfu að ræða var ekki tekið tillit til hennar við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Vandinn hefur því að því leyti aukist að eins árs vanskil hafa nú bæst við. Því er gerð tillaga um að fjárveiting til jarðræktarframkvæmda ársins 1992, sem við endurskoðun nemur nú 67,3 millj. kr., verði greidd á fjáraukalögum þessa árs. Lagt er til að jarðræktarframkvæmdir ársins 1993, samtals að fjárhæð 70 millj. kr., verði greiddar samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 en að framkvæmdir þessa árs, sem ætla má að verði svipaðar, bíði fjárlagagerðar á næsta ári.
    Stuðningur við korn- og fræakra lifði af breytingar sem gerðar voru á jarðræktarlögunum árið 1989. Þær breytingar fólu sem kunnugt er í sér mikinn samdrátt heimilda til

greiðslu jarðræktarframlaga en á móti var lofað skilvísri greiðslu. Samkvæmt upplýsingum, sem landbúnaðarnefnd hefur aflað sér, er stuðningur við þessar greinar víða erlendis a.m.k. tvöfaldur á við það sem lög mæla fyrir um hér á landi. Aðflutningsgjöld á innflutt korn hafa verið stórlækkuð sem eykur enn á vanda þessarar nýju greinar í samkeppni við niðurgreiddan korninnflutning.

4. Málefni loðdýraræktarinnar.
    Loðdýraræktin hefur enn ekki risið upp úr þeim áföllum sem hún varð fyrir í upphafi. Bjartari horfur virðast þó fram undan þar sem verð á skinnum hefur farið hækkandi síðasta ár og er enn að stíga. Ljóst er að meðan greinin er að komast yfir ákveðinn þröskuld eru ekki út frá samkeppnislegu sjónarmiði forsendur fyrir því að skerða framlög til niðurfærslu á loðdýrafóðri. Nefndin leggur því til að sama upphæð verði veitt til þessarar niðurgreiðslu og á þessu ári.

5. Varnir gegn landbroti.
    Enn eykst vandi við að hemja landbrot enda naumt skammtað fjármagn til þeirra verkefna á undanförnum árum. Við fjárlagagerð ársins 1993 var horfið að því ráði að veita fé til framkvæmda vegna landbrots við Markarfljót en þess þá enn fremur vænst að unnt yrði að veita fé til varnaraðgerða við Jökulsá á Dal og var áætlaður kostnaður af þeim framkvæmdum um 10 millj. kr. á verðlagi síðasta árs. Landbúnaðarnefnd lagði til í áliti sínu í fyrra að þeim kostnaði yrði skipt niður á tvö ár. Þessi vandi hefur nú enn aukist þar sem ekkert varð af framkvæmdum á þessu ári. Því verður nú ekki komist hjá að gera ráðstafanir til að stöðva landbrot við Jökulsá á Dal á næsta ári og að fjárveiting til þeirra verkefna verði 10 millj. kr. Í bréfi landgræðslustjóra til nefndarinnar er vakin athygli á nýjum hættum vegna aðsteðjandi landbrots við Markarfljót. Heildarkostnaður við nauðsynlegar varnaraðgerðir þar er áætlaður 32,6 millj. kr. Að mati Landgræðslu ríkisins og Vegagerðarinnar er allra brýnasta verkefnið við Stóru-Mörk og er áætluð fjárþörf til lausnar þeim vanda 6,1 millj. kr. en þarna er í hættu vegur inn í Þórsmörk og nálægur flugvöllur. Vegna aðsteðjandi vanda, er leitt hefur af vanrækslu í viðhaldi varnargarða, leitaði nefndin álits landgræðslustjóra um hver kostnaður að þessum viðhaldsverkefnum væri mikill. Í greinargerð landgræðslustjóra er kostnaður við þessi brýnu viðhaldsverkefni metinn um það bil helmingi hærri en nemur þeirri fjárveitingu sem áformuð er í fjárlagafrumvarpinu. Heildarfjárþörf þessa málaflokks er hins vegar a.m.k. þrefalt hærri en sú fjárhæð sem þar kemur fram.

6. Annað.
    Nefndinni bárust einnig erindi frá Héraðsskógum, veiðimálastjóra og Bændaskólanum á Hvanneyri.
    Í erindi frá Héraðsskógum er vakin athygli á því að fjárveitingar til skógræktarverkefnisins hafa ekki verið í samræmi við upphaflegar áætlanir og samninga sem gerðir voru við skógarbændur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nemur það sem á vantar 11,7 millj. kr. fyrir árið 1995. Til að halda samningsbundnum framkvæmdum hafa skógarbændur gripið til þess ráðs að taka til ræktunar þau landsvæði sem best hafa hentað fyrir þessa ræktun. Þau lönd eru nú að ganga til þurrðar svo að ræktunarkostnaður eykst. Nauðsynlegt er að fjárveiting til þessara verkefna taki mið af þessum aðstæðum.
    Á 117. löggjafarþingi voru afgreidd lög um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði sem m.a. kveða á um aukið veiðieftirlit með ólöglegum laxveiðum í sjó. Brýnt er

að slíkt eftirlit sé virkt. Í lögunum er beinlínis mælt fyrir um að kostnaður við þetta veiðieftirlit greiðist úr ríkissjóði. Enn hefur ekkert verið greitt úr ríkissjóði til þessara mála þótt veiðimálastjóri hafi ítrekað óskað eftir 2,5 millj. kr. framlagi til eftirlits sl. sumar. Nauðsynlegt er að úr þessu verði bætt, t.d. með fjárveitingu í fjáraukalögum.
    Í erindi Bændaskólans á Hvanneyri kemur fram að á síðasta 10 ára tímabili hafa fjárveitingar úr ríkissjóði til reksturs skólans stöðugt verið að minnka meðan sértekjur hafa verið að aukast. Skólanum virðist þannig meir og meir ætlað að standa undir rekstri með eigin tekjuöflun. Á sama tíma er talað um að efla þurfi starfsemi skólans. Þá er í erindi Bændaskólans óskað eftir því að veitt verði fjármagn til að setja upp nýja stöðu aðalkennara á landnýtingarsviði við búvísindadeild. Nefndin leggur til að þetta verði gert að forgangsverkefni og varar við þeirri þróun sem orðið hefur í fjárveitingum til skólans.
7. Lokaorð.
    Eins og fram kom í inngangi að þessu áliti ákvað nefndin að fara þá leið að fjalla aðeins um þau mál sem nefndinni hafa borist erindi um eða hún telur eðlilegt að koma á framfæri við fjárlaganefnd. Ekki voru kallaðir til fulltrúar hinna ýmsu undirstofnana landbúnaðarráðuneytisins eins og venjan hefur verið. Enn geta því verið ýmis álitaefni í tengslum við þær stofnanir sem ekki er fjallað um í áliti þessu og er nefndin reiðubúin að taka það til athugunar ef fjárlaganefnd óskar eftir því.
    Nefndin óskar eftir að fjárlaganefnd taki tillit til þeirra athugasemda er fram koma í áliti þessu við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið svo nefndinni gefist ráðrúm til að meta stöðu mála.

Alþingi, 2. des. 1994.


Egill Jónsson, form.

Gísli S. Einarsson.

Guðni Ágústsson.

Ragnar Arnalds.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Eggert Haukdal.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.

Einar K. Guðfinnsson, með fyrirvara.




Fylgiskjal IX.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.


    Menntamálanefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við bréf fjárlaganefndar, dags. 19. október 1994, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar.

    Til viðræðna við nefndina komu frá menntamálaráðuneyti Guðríður Sigurðardóttir ráðuneytisstjóri, Árni Gunnarsson skrifstofustjóri, Örlygur Geirsson skrifstofustjóri, Stefán Baldursson deildarstjóri og Ólafur Darri Andrason deildarsérfræðingur og frá fjármálaráðuneyti Ásdís Sigurjónsdóttur deildarsérfræðingur. Þá komu á fund nefndarinnar eftirtaldir: Frá Háskóla Íslands Sveinbjörn Björnsson rektor, Gunnlaugur H. Jónsson háskólaritari og Örn Helgason formaður fjármálanefndar, frá Lánasjóði íslenskra námsmanna Lárus Jónsson framkvæmdastjóri og Guðjón Viðar Valdimarsson fjármálastjóri og Gísli Fannberg deildarstjóri, frá Skólameistarafélagi Íslands Hjálmar Árnason, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, og Margrét Friðriksdóttir, rektor Menntaskólans í Kópavogi, frá Listskreytingasjóði ríkisins Þorgeir Ólafsson stjórnarformaður, frá Sinfóníuhljómsveit Íslands Runólfur Birgir Leifsson framkvæmdastjóri og Jón Þórarinsson stjórnarformaður, frá Landsbókasafni Íslands -- Háskólabókasafni Einar Sigurðsson landsbókavörður og Egill Skúli Ingibergsson, Kristín Indriðadóttir og Vésteinn Ólason stjórnarmenn, frá Stúdentaráði Háskóla Íslands Dagur Eggertsson formaður og Brynhildur Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri og frá Félagi háskólakennara Andrea Jóhannsdóttir deildarstjóri og Logi Jónsson dósent.
    Meiri hluti menntamálanefndar gerir ekki athugasemdir við einstaka liði þess þáttar fjárlagafrumvarps sem heyrir undir málefnasvið nefndarinnar en leggur áherslu á eftirfarandi atriði:
    Fyrir liggur að Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn mun hefja starfsemi þann 1. desember nk. Meiri hluti menntamálanefndar telur að með því sé náð stórmerkum áfanga sem muni styrkja starfsemi Háskóla Íslands og annarra menntastofnana í framtíðinni. Mikilvægt er að safninu verði við upphaf starfseminnar veitt svigrúm til eðlilegrar uppbyggingar og fái þannig staðið undir þeim væntingum sem til þess eru gerðar. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vel búið bókasafn er einn mikilvægasti þáttur í starfsemi háskóla.
    Fulltrúar Háskóla Íslands, sem komu á fund menntamálanefndar, lýstu yfir áhyggjum vegna fjárhagsstöðu skólans. Þeir vöktu athygli nefndarinnar á því að nú væri unnið að gerð reiknilíkans þar sem metinn er lágmarkskostnaður á hvern virkan nemanda og að það gæti orðið grundvöllur ákvarðana um fjárveitingar til Háskóla Íslands í framtíðinni. Meiri hluti nefndarinnar telur að þær hugmyndir verði athyglisvert framlag í umræðu um fjárveitingar til Háskóla Íslands og gætu orðið til þess að sátt næðist um þau mál í framtíðinni.
    Menntamál verða í brennidepli á Alþingi í vetur og framkomin frumvörp til laga um grunnskóla og framhaldsskóla gera ráð fyrir auknum framlögum til menntamála og eru skref fram á við. Meiri hlutinn vill að lokum leggja áherslu á að málaflokkurinn í heild verði efldur í ljósi þess að uppbygging menntamála er einn af grundvallarþáttum í efnahagslegri stöðu þjóða.

Alþingi, 10. nóv. 1994.


Sigríður A. Þórðardóttir, form.

Petrína Baldursdóttir.

Tómas Ingi Olrich.

María E. Ingvadóttir.

Elínbjörg Magnúsdóttir.




Fylgiskjal X.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá minni hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1995 sem snýr að menntamálaráðuneytinu. Minni hluti nefndarinnar gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið og lætur fylgja með samþykkt háskólaráðs frá 19. október sl., einróma samþykkt stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 3. október 1994 og ályktun SHÍ og Félags háskólakennara. Þá fylgir einnig með áliti þessu bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 10. nóvember 1994.

Lækkun framlaga til menntamála.
    Í upphafi þessa álits vill minni hlutinn vekja athygli fjárlaganefndar á því að fram kemur í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 að framlög til menntamála á föstu verðlagi hafa lækkað um 2,1 milljarð kr. frá árinu 1991 (sjá töflu á bls. 291 í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995). Það er samdóma álit flestra þeirra sem fjallað hafa um framtíð þjóðarinnar að góð lífskjör og örugg framtíð byggist á öflugu menntakerfi, vísindum og rannsóknum. Sú stefna sem rekin hefur verið gagnvart menntakerfinu á þessu kjörtímabili hefur nú þegar stórskaðað það og nægir þar að minna á hörð mótmæli frá Háskóla Íslands. Ekki verður lengur unað við niðurskurð og fjársvelti í menntakerfinu. Menntun verður að fá þann forgang sem henni ber.

Háskóli Íslands.
    Á undanförnum árum hafa framlög til Háskóla Íslands verið skert verulega. Skólinn hefur brugðist við með því að skera niður kennslu, fjölga í hópum, fækka stundakennurum og beita öllum hugsanlegum aðgerðum til sparnaðar. Á sama tíma hefur nemendum við skólann fjölgað jafnt og þétt, en það gefur auga leið að þjónusta við þá hefur versnað. Þess eru dæmi að nemendur hafa átt í erfiðleikum með að ljúka námi vegna lítils framboðs á námskeiðum. Stúdentar og kennarar við skólann hafa miklar áhyggjur af því ástandi sem skapast hefur og telja að orðstír skólans sé í mikilli hættu verði ekki brugðist skjótt við. Ef skólinn ætti að veita svipaða þjónustu og sambærilegir háskólar erlendis þyrfti að auka fjárframlög til hans um 300 millj. kr. en það er sama upphæð og sem nemur tekjutapi ríkisins verði hátekjuskatturinn lagður af. Háskóli Íslands fer fram á 70 millj. kr. hækkun á fjárveitingum fyrir næsta ár sem algjört lágmark og ljóst er að bregðast verður við fjárþörf skólans nú þegar til að koma í veg fyrir stórslys í skólamálum. Tekjur Háskóla Íslands af skólagjöldum nema 87,5 millj. kr. en það er ekki stefna Háskólans að hækka þau gjöld til að afla meiri sértekna. Minni hlutinn tekur undir þá stefnu og minnir á andstöðu sína við skólagjöld sem draga úr jafnrétti til náms.

Kennaraháskóli Íslands.
    Fjárveitingar til Kennaraháskóla Íslands lækka hlutfallslega og eru þannig að skólanum er mjög þröngur stakkur skorinn. Nemendafjöldi er takmarkaður ár hvert, en á móti

kemur að skólinn hefur boðið upp á réttindanám fyrir kennara með fjarkennslu sem ekki síst kemur nemendum úti á landsbyggðinni til góða. Fjarnámið er í mikilli hættu ef ekki fást til þess auknar fjárveitingar. Þá eru húsnæðismál KHÍ í miklum ólestri þar sem skólinn rúmar hvergi nærri þá starfsemi sem þar fer fram, enda þrengsli mikil. Það er brýnt að hefja undirbúning að stækkun skólans eins og fyrirhugað var þegar núverandi húsnæði var byggt.

Framhaldsskólar.
    Framhaldsskólar landsins hafa eins og aðrir skólar orðið fyrir niðurskurði þrátt fyrir stöðuga fjölgun nemenda. Segja má að framhaldsskólarnir séu í biðstöðu vegna hugmynda um að breyta framhaldsskólakerfinu, en þær kalla á mun meira fjármagn ef takast á að efla verk- og starfsnám, svo og til eftirlits og samræmdra prófa.

Grunnskólar.
    Á undanförnum árum hafa fjárframlög til grunnskóla landsins verið skorin verulega niður, kennslustundum hefur fækkað og stöður kennara hafa verið lagðar niður. Á þessu ári var m.a. ætlunin að spara 100 millj. kr. með ,,hagræðingu`` ofan á annan niðurskurð, en aukafjárlög fyrir árið 1994 bera með sér að sá sparnaður náðist aðeins til hálfs eða sem nemur 50 millj. kr. Það er búið að þrengja svo að grunnskólanum að lengra verður ekki gengið, enda hefur blaðinu nú verið snúið við og er fjölgun kennslustunda hafin að nýju. Að vísu er þar skammt gengið, en gert er ráð fyrir að kennslustundum fjölgi haustið 1995 þannig að það hafi í för með sér 60 millj. kr. kostnað. Gert er ráð fyrir að grunnskólinn borgi þessa hækkun í raun sjálfur því að miðað er við að niðurskurður á fjárveitingum til grunnskólans muni á næsta ári nema um 40 millj. kr. Það er rík ástæða til að kanna afleiðingar niðurskurðarins á skólastarfið og hvort nemendur hafi orðið fyrir tjóni, m.a. vegna fækkunar kennslustunda í íslensku og stærðfræði. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1995 er ekki gert ráð fyrir flutningi grunnskólans yfir til sveitarfélaganna þrátt fyrir áform þar um. Minni hlutinn telur að mun lengri tíma þurfi til að undirbúa flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna og tekur undir athugasemdir sveitarfélaga þar um. Verði af flutningi kallar það á miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem minni hlutinn gerir kröfu um að fá að fylgjast með.

Menningarmál.
    Að þessu sinni eru það menningarmálin sem verða fyrir mestum niðurskurði. Þar ber hæst að fjárframlög til Listskreytingasjóðs eru felld niður en honum voru ætlaðar 12 millj. kr. Kvikmyndasjóður er einnig skorinn við trog en kvikmyndagerð er einn helsti vaxtarbroddur íslenskrar menningar og á sinn hlut í að kynna Ísland á erlendri grund. Hér er því dæmi um ranga forgangsröð enda hefur ríkið talsverðar tekjur af kvikmyndum, innlendum sem erlendum. Þá búa söfn landsins við þröngan kost, hvort sem um er að ræða listasöfnin, Þjóðminjasafnið eða Þjóðskjalasafn Íslands. Nú þegar framkvæmdum við Þjóðarbókhlöðu er að ljúka hlýtur röðin að vera komin að menningarstofnunum á borð við Þjóðminjasafnið og Þjóðskjalasafnið sem þarfnast endurskipulagningar og frekari uppbyggingar.

Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn.
    Lög um Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn voru samþykkt síðasta vor með fögrum fyrirheitum. Þegar fjárlagafrumvarp ársins 1995 er skoðað kemur í ljós að bókasafninu er alls ekki tryggt það fjármagn sem það þarf til að halda uppi eðlilegri þjónustu. Stúdentar við Háskóla Íslands hafa efnt til mikils þjóðarátaks í bókakaupum safninu til stuðnings, enda bókakostur rýr miðað við þá miklu þjónustu sem safnið á að veita landsmönnum. Verra er þó ef byrja þarf á því að skera reksturinn niður og t.d. að takmarka opnunartíma safnsins sem fer ekki saman við þarfir námsmanna sem ætlað er að nýta lestrarsali safnsins, m.a. til próflesturs. Það er óhjákvæmilegt að auka fjárveitingar til safnsins, enda væri það að bíta höfuðið af skömminni ef ekki yrði hægt að reka safnið almennilega þegar byggingu þess loksins lýkur 20 árum eftir að framkvæmdir hófust.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.
    
Sinfóníuhljómsveitin á við nokkurn rekstrarvanda að stríða sem stafar m.a. af því að hún hefur ekki fengið greidd lögbundin framlög úr Menningarsjóði útvarpsstöðva og nemur skuld sjóðsins við hljómsveitina nú 125 millj. kr. Ríkissjóður hefur hlaupið undir bagga og nemur skuld hljómsveitarinnar við ríkið 132 millj. kr. en hætt er við að ekki takist að innheimta það sem Menningarsjóðnum ber að greiða. Hljómsveitin hefur farið fram úr áætlunum í rekstri sínum, en henni eru lagðar margvíslegar skyldur á herðar, svo sem heimsóknir út á landsbyggðina, upptökur fyrir Ríkisútvarpið o.fl. Það er ljóst að hljómsveitin er í mikilli sókn og hefur gert garðinn frægan erlendis með geisladiskum og heimsóknum sem vakið hafa athygli. Bregðast verður við vanda hljómsveitarinnar með því að auka framlög og huga að frekari möguleikum til sértekna. Það kemur ekki til greina að minnka hljómsveitina enda mundi það rýra gæði hennar eftir margra ára uppbyggingu.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Innan Lánasjóðs íslenskra námsmanna er haldið áfram á sömu braut og gengin hefur verið á þessu kjörtímabili. Hlutur ríkisins minnkar stöðugt, en sjóðnum er vísað út á almennan lánamarkað. Í upplýsingum frá LÍN kemur fram að lánþegum í námi hérlendis hefur fækkað verulega meðan nemendum á háskólastigi hefur fjölgað. Nemendur kosta nám sitt sjálfir eða með aðstoð foreldra í mun ríkara mæli en áður tíðkaðist. Enn er ekki komið í ljós hvaða áhrif það hefur á námslengd, en það er dýrt fyrir skólana ef nemendur eru lengi að ljúka námi, hvort sem það er á framhaldsskólastigi eða háskólastigi. Minni hlutinn vekur sérstaklega athygli á því sem fram kemur í greinargerð fjárlagafrumvarpsins þar sem boðuð er endurskoðun á vaxtakjörum og útlánareglum verði röskun á kostnaðarhlutfalli ríkissjóðs. Minni hlutanum þykir meira en nóg að gert í álögum á þá námsmenn sem taka námslán samkvæmt breyttum lögum og minnir á að margir eiga eftir að lenda í erfiðleikum með greiðslur á lánunum á þeim kjörum sem nú gilda, hvað þá ef kjörin þyngjast enn. Staða LÍN tengist þeirri menntastefnu sem rekin er í landinu en inntak hennar á að vera að tryggja jafnrétti til náms eftir því sem kostur er.

Alþingi, 6. des. 1994.


Kristín Ástgeirsdóttir.

Svavar Gestsson.

Valgerður Sverrisdóttir.

Pétur Bjarnason.

Fskj. 1.

Samþykkt háskólaráðs.

(Á aukafundi 19. október 1994.)

    Háskólaráð mótmælir harðlega þeirri stefnu sem kemur fram gagnvart Háskóla Íslands í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995. Fjárframlög til Háskólans hafa ekki verið í samræmi við aukin verkefni og nemendafjölda undanfarin ár. Háskólinn hefur verið ábyrgur í fjármálastjórn sinni og mætt fjárhagsvandanum, fyrst með hagræðingu og síðan niðurskurði í kennslu. Lengra verður ekki gengið á þessari braut og því er komið að alvarlegum tímamótum í starfsemi Háskólans. Yfirlýst mennta- og vísindastefna ríkisstjórnarinnar kemur ekki fram í fjárlagafrumvarpinu. Háskólaráð hlýtur því að spyrja þessara spurninga: Er það í reynd stefna stjórnvalda að gera Háskóla Íslands að annars flokks háskóla? Er það stefna stjórnvalda að flytja æðri menntun Íslendinga úr landi?
    Háskólaráð bendir á eftirfarandi atriði:
1.     Fjárveiting á nemanda í fullu námi hefur lækkað um þriðjung að raungildi á síðustu sjö árum.
2.     Samanburður við aðra háskóla í Vestur-Evrópu sýnir að kennslumagn við Háskóla Íslands er um 75% af því sem erlendis telst viðunandi.
3.     Afleiðingar niðurskurðar undanfarinna ára hafa m.a. birst í því að valnámskeið hafa verið felld niður, svo og umræðutímar og raunhæf verkefni, auk þess sem verkleg kennsla hefur dregist saman. Fjöldi nemenda, sem hver kennari verður að sinna, er svo mikill að ekki gefst tími til viðræðna og handleiðslu eins og þörf er. Framboð námsgreina verður of fábreytt, námsefni ekki endurnýjað og nýjar greinar ekki teknar upp.
4.     Ljóst er af þessu að Háskóli Íslands hefur dregist aftur úr á síðustu árum. Erlendis eiga nemendur val milli háskóla og einn slakur háskóli ræður því ekki úrslitum um háskólamenntun viðkomandi lands. Þessu er ekki þannig varið hérlendis. Háskóli Íslands er eina miðstöð háskólamenntunar og grunnrannsókna hér á landi.
5.     Háskólaráð bendir á að hnignun háskóla, sem er óhjákvæmileg afleiðing skertra fjárveitinga, tekur skamman tíma og það er síður en svo auðvelt að snúa þeirri þróun við. Endurreisn getur orðið mjög torveld því að uppbygging vísindastofnana tekur langan tíma.
6.     Fjöldatakmarkanir munu ekki leysa bráðan fjárhagsvanda Háskólans.
7.     Háskóli Íslands er ein stærsta stofnunin í samfélagi okkar. Þar vinna 5.500 nemendur og 500 starfsmenn auk stundakennara. Háskólinn er lykilþáttur í íslensku atvinnulífi og menningu. Viðskiptafræðingar, lögfræðingar og verkfræðingar stýra flestum stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Án kennslu og rannsókna við Háskólann væri ekki hægt að halda heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu gangandi.
8.     Háskólaráð mótmælir því einnig að í fjárlagafrumvarpi er ekki séð fyrir nægjanlegu rekstrarfé til hins nýja Landsbókasafns. Bygging Þjóðarbókhlöðunnar hefur tekið yfir 20 ár og nú þegar henni er lokið vantar verulegan hluta nauðsynlegs rekstrarfjár. Þessi stefna er algerlega óviðunandi. Háskóli Íslands er í 19. sæti af 20 sambærilegum háskólum hvað varðar bóka- og tímaritakaup á árinu 1993. Hér ber enn að sama brunni. Ónógar fjárveitingar draga mátt úr stofnuninni og háskóli án öflugs bókasafns á erfitt um rannsóknir.
9.     Háskóli Íslands hefur haft það orð á sér á síðustu áratugum að vera góð kennslustofnun og jafnframt hefur verið reynt af vanefnum að byggja upp rannsóknir í samræmi við alþjóðlegar kröfur. Nemendum hefur gengið vel að komast að í framhaldsnám við góða háskóla erlendis. Kennarar Háskólans eru flestir mjög vel menntaðir,

m.a. með margvíslega framhaldsmenntun við þekkta háskóla. Aukin tengsl við erlenda háskóla og stofnanir gera sífellt meiri kröfur til Háskóla Íslands um gæði kennslu og rannsókna. Þess er ekki að vænta að Háskóla Íslands takist að halda góðum kennurum og fá nýja vísindamenn til starfa ef stefna stjórnvalda í fjárveitingum til hans breytist ekki. Háskóli Íslands er í alþjóðlegri samkeppni um góða starfsmenn.
10.     Samkeppnishæfni þjóða á næstu öld í sífellt opnari þjóðfélögum mun fyrst og fremst ráðast af menntun þegnanna, ekki síst færni til nýsköpunar á grundvelli vísindalegrar þekkingar. Ef Háskóli Íslands verður ekki efldur á næstu árum mun það koma fram í verri lífskjörum landsmanna, brottflutningi hæfra kennara og nemenda og lakari kennslu og rannsóknum. Það getur orðið álitamál hve lengi erlendir háskólar taka prófgráður frá Háskóla Íslands gildar.
    Íslendingar hafa verið stoltir af háskóla sínum og það með réttu. Þetta getur breyst og háskólaráð getur ekki staðið hjá aðgerðalaust þegar stefnir í verulega hnignun Háskólans vegna ónógra fjárveitinga. Háskólaráð styður aðgerðir Félags háskólakennara og samtaka stúdenta við að vekja máls á vandanum og berjast fyrir hagsmunum Háskólans.
    Háskólaráð mun óska eftir fundi með forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra þar sem málefni Háskólans verða rædd. Þar verður lögð áhersla á að í fjárlögum næsta árs verði framlag til Háskólans aukið frá fjárlagafrumvarpi um a.m.k. 200 millj. kr. og að gerð verði áætlun til næstu ára um aukið fé til starfsemi Háskóla Íslands. Jafnframt leggur háskólaráð áherslu á að fullnægt verði þörfum Landsbókasafns -- Háskólabókasafns fyrir rekstrarfé.


Fskj. 2.

Ályktun stúdentaráðs Háskóla Íslands.

(3. október 1994.)


Háskóli í úlfakreppu.

Niðurskurður til menntamála er alröng stefna í hörðu ári.
    Kennsla við HÍ er í úlfakreppu sem brjótast þarf út úr. Rannsóknum þarf að skipa þann sess sem hæfir þjóð sem ekki ætlar að verða undir í alþjóðlegri samkeppni. Þjóðin hefur ekki efni á ónýtum háskóla. Frumvarp til fjárlaga þarf að taka breytingum í meðferð Alþingis Íslendinga.

Hefur þjóðin efni á annars flokks háskóla?

    Stúdentaráð vekur athygli Alþingis á augljósum vanköntum frumvarps ríkisstjórnar Íslands til fjárlaga 1995, frumvarps sem sker niður framlög til rannsókna, vísinda og Háskóla Íslands.
    Skilaboðin í framlögðu fjárlagafrumvarpi eru skýr. Í harðnandi samkeppni þjóðanna er enn hert að Háskóla Íslands, miðstöð rannsókna og æðri menntunar á Íslandi. Þeirri stefnu þarf að breyta. Menntamál á að setja í öndvegi.

Framlög til háskóla verða óbreytt að krónutölu fjórða árið í röð að óbreyttum fjárlögum.
    Á sama tíma hefur nemendum við Háskólann fjölgað um 10%. Og fjölgar enn.
     Afleiðingar. Undanfarin þrjú ár hafa verið ár stöðnunar í deildum Háskóla Íslands.

Námskeið hefur miskunnarlaust þurft að fella niður. Valnámskeið hafa verið aflögð með öllu á sumum námsbrautum vegna fjárskorts. Vegna niðurskurðar er ókleift að halda uppi fullri kennslu í einstökum deildum.
     Afleiðingar. Niðurstaðan fyrir Háskólann og stúdenta er ekki aðeins lakara nám en áður heldur einnig að stúdentum er fyrirmunað að mæta hörðum kröfum LÍN um námsframvindu ef þeir eiga ekki kost á fullu námi á hverju missiri.

Óbreytt framlög þýða ekkert annað en hnignun Háskóla Íslands.
    Fyrir fjórum árum var 100 millj. kr. niðurskurður til HÍ. Sú fjárhæð samsvarar því að öll kennsla sé skorin niður í lögfræði, viðskiptafræði og hagfræði. Þessi niðurskurður hefur ekki verið bættur með auknum framlögum.
     Afleiðingar. Háskóla Íslands er alls ókleift að sinna þeim skyldum sem lög og reglugerðir setja honum á herðar.
     Afleiðingar. Háskóli Íslands dregst hratt aftur úr menntastofnunum þeirra landa sem Íslendingar vilja bera sig saman við.

Fjöldatakmarkanir spara ekkert --- og leysa engan vanda.

Fjöldatakmarkanir leysa engan vanda.
    Fjöldatakmarkanir eru það úrræði sem fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar vísar í til úrlausnar á vanda Háskólans. Þótt fjöldatakmarkanir yrðu settar á þegar í stað mundu þær ekki spara Háskólanum nein útgjöld á næsta ári.
     Háskóli Íslands er þjóðskóli. Það er lögboðin skylda HÍ að allir sem tilskilinn undirbúning hafa hlotið eigi rétt til inngöngu í skólann. Það styður stúdentaráð HÍ. Ef Alþingi hyggst gefa rýmri heimildir til fjöldatakmarkana þannig að fjárskortur verði álitinn gild rök til að meina stúdentum setu í skólanum er það komið í hendur Alþingis að ákveða fjölda háskólastúdenta haust hvert við afgreiðslu fjárlaga. Finnst þingmönnum þeir í stakk búnir til að ákvarða fjölda stúdenta í hverri grein við Háskóla Íslands? Er rétt að Alþingi taki sér slíkt vald?
     Fjöldatakmarkanir gera ekki annað gagn en að tefja námsfólk á fyrsta námsári þess. Numerus clausus er mjög ófullkomin leið til að velja einstaklinga úr stórum hópi til starfa á ákveðnum sviðum þjóðfélagsins. Clausus er þó eina leiðin sem Háskólinn getur farið við fjöldatakmarkanir. Slík aðferð er nú neyðarbrauð og aðeins notuð í deildum sem byggja á starfsnámi sem fer fram utan hins eiginlega háskóla.
     Fjöldatakmarkanir við HÍ leiða ekki annað af sér en að fjárþörfin, sem auknum nemendafjölda fylgir, færist út fyrir veggi Háskólans. Aðrir skólar þyrftu að taka við nemendafjöldanum sem Háskólinn mundi úthýsa ef áfram á að veita öllum útskrifuðum stúdentum kost á framhaldsmenntun. Eftir stæðu þá fleiri en smærri starfseiningar, þeim væri aðeins dreift á fleiri skóla en nú er. Það leiddi augljóslega af sér kostnaðarauka en ekki sparnað.
     Síðast en ekki síst, fjöldatakmarkanir munu ekki spara eina einustu krónu í útgjöldum Háskólans á allra næstu árum þótt þeim yrði þegar komið á. Fyrirhugaðar fjöldatakmarkanir breyta því engu um brýna þörf Háskólans fyrir auknar fjárveitingar til að bregðast við aðsteðjandi vanda.



Fskj. 3.


Stúdentaráð Háskóla Íslands,
Félag háskólakennara:


HÆKKUN FJÁRVEITINGA TIL HÁSKÓLA ÍSLANDS

Forgangsverkefni í fjárveitingabeiðni Háskóla Íslands.


Aukin fjárframlög til kennslu. Beiðni: 95 millj. kr. aukning.
    Kennsla við HÍ er í úlfakreppu sem brjótast verður úr. Niðurskurður síðustu ára hefur bitnað harðast á kennslunni. Kennsluhópa hefur þurft að stækka, námskeiðaframboð hefur stórminnkað. Í sumum greinum er ekki unnt að bjóða upp á fullt nám. Háskóli Íslands getur ekki fylgt erlendum skólum eftir í framþróun. Það er alvarlegt því að þjóðin hefur ekki efni á máttvana háskóla.

Aukið vægi rannsókna. Beiðni: 45 millj. kr. aukning.
    Flestum er löngu orðið ljóst gildi rannsókna fyrir land og þjóð. Færa má gild rök fyrir því að koma hefði mátt í veg fyrir rangar ákvarðanir í veigamiklum málum og slys í fjárfestingu ef forsendur hefðu verið kannaðar ítarlega. Fiskeldi er oft nefnt sem augljóst dæmi um þetta.
    Eitt mikilvægasta verkefnið í að styrkja stöðu rannsókna í landinu er að efla meistara- og doktorsstig náms við Háskóla Íslands. Mikið uppbyggingarstarf er þar fram undan. Jafnframt er mikilvægt að efla Rannsóknasjóð Háskólans og vinnumatskerfið.

Framlög til Landsbókasafns -- Háskólabókasafns: Bókhlöðuskattur.
    Rík áhersla er lögð á auknar fjárveitingar til bóka- og tímaritakaupa. Mikið skortir á að safnkostur núverandi Háskólabókasafns standi undir nafni sem nútímalegt rannsóknabókasafn. Fulltrúar stúdenta og háskólakennara skora á alþingismenn að styðja hugmyndir um að eignarskattsaukanum, svokölluðum þjóðarbókhlöðuskatti, verði öllum varið til Þjóðarbókhlöðunnar næstu tvö ár.

Sumarmissiri við Háskóla Íslands. Fjárþörf: 30 millj. kr.
    Stúdentar við Háskólann hafa kynnt hugmyndir sínar um kennslu á sumarnámskeiðum við HÍ. Hafa þær hlotið brautargengi og stefnt er að því að sumarmissiri við HÍ næsta sumar. Háskólinn mun bera nokkurn kostnað vegna námskeiðanna. Til að hugmyndin verði að veruleika þurfa stúdentar þó að afla fjár til að mæta öllum öðrum kostnaði við tilraunina.


Fskj. 4.

Athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga

við frumvarp til fjárlaga 1995.

(10. nóvember 1994.)


Fjárlagaliður 222, 700--708 Grunnskólar.
    Á þessum fjárlagalið er gert ráð fyrir að ná fram hagræðingu í rekstri grunnskóla sem nemur tæpu 1% af rekstri grunnskóla eða um 40 millj. kr. Engin rök eru færð fyrir því í frumvarpinu með hvaða hætti á að ná fram umræddri hagræðingu. Lækkun útgjalda ríkisins til rekstrar grunnskóla að undanförnu hefur í mörgum tilvikum leitt til kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum. Á sama tíma og verið er að ræða um yfirtöku sveitarfélaga á öllum rekstrarkostnaði grunnskóla er mjög óeðlilegt að lækka rekstrarframlög til skólanna með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Lagt er til að horfið verði frá umræddri lækkun og fjárlagaliðurinn hækki um 40 millj. kr.

Fjárlagaliður 720 Grunnskólar, almennt.
    Hér er gert ráð fyrir að óskipt fjárveiting til grunnskóla til að mæta auknum kostnaði vegna fjölgunar nemenda og breytinga á samsetningu bekkja og öðrum ófyrirséðum kostnaði lækki um 5,7 millj. kr. Ekki er nein útlistun á því í frumvarpinu hvers vegna umræddur fjárlagaliður er lækkaður frá því sem var á fyrra ári. Óeðlilegt er að slík breyting sé gerð á sama ári og ætlað er að færa allan rekstrarkostnað grunnskóla til sveitarfélaga.
    Lagt er til að fjárlagaliðurinn hækki um 5,7 millj. kr. vegna þessa verkefnis.

Fjárlagaliður 750--799 Kennsla fyrir fatlaða og sérskólar fyrir börn og unglinga.
    Hér er gert ráð fyrir 15 millj. kr. lækkun á endurgreiðslum til sveitarfélaga vegna dagvistar fyrir fatlaða forskólanemendur. Slík kostnaðartilfærsla yfir á sveitarfélög hefur verið reynd áður en ekki náð fram að ganga, enda stangast hún á við gildandi lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Lagt er til að ákvæði laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga verði virt og umræddur fjárlagaliður hækki um 15 millj. kr.

Fjárlagaliður 980 Listskreytingasjóður.
    Ekki er gert ráð fyrir framlagi til Listskreytingasjóðs á árinu 1995. Í því sambandi er minnt á ákvæði laga um Listskreytingasjóð ríkisins frá árinu 1990. Þrátt fyrir að ákvæðum þeirra laga um framlög ríkisins í sjóðinn hafi ekki verið framfylgt til fullnustu hefur sjóðurinn þó stuðlað að listskreytingu opinberra bygginga í sveitarfélögum víða um land, sem almenningur fær notið. Það skýtur skökku við að einmitt á árinu 1995, sem er Norrænt myndlistarár, skuli framlög til sjóðsins felld niður.
    Lagt er til að Listskreytingasjóður ríkisins fái á næsta ári eigi lægri fjárhæð til ráðstöfunar en á síðasta ári, þ.e. 12 millj. kr.

Virðingarfyllst,

Þórður Skúlason.


Fylgiskjal XI.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.


    Samgöngunefnd hefur í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er varðar samgönguráðuneytið

og stofnanir á þess vegum. Á fundi nefndarinnar komu frá samgönguráðuneyti Jón Birgir Jónsson ráðuneytisstjóri, Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri og Rúnar Guðjónsson deildarstjóri og gáfu þeir ýmsar upplýsingar og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna.
    Nefndin lýsir áhyggjum sínum vegna samdráttar í framlögum til helstu framkvæmdaflokka samgöngumála í frumvarpinu, einkum í hafnamálum og flugmálum. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að á næsta ári og árunum þar á eftir verði efnt til nýs framkvæmdaátaks í vegamálum og til þess varið verulegum fjármunum umfram það sem tillögur eru um í fjárlagafrumvarpi. Í ljósi þessa lítur nefndin svo á að eðlilegt væri að hverfa frá því að taka 275 millj. kr. í ríkissjóð af því fé sem sérmerktir tekjustofnar til vegamála eru taldir gefa og lækka að sama skapi það nýja fé sem ríkisstjórnin hyggst útvega á næsta ári ella verði því varið til að lækka skuldir vegna fyrra framkvæmdaátaks í vegamálum.
    Nefndin áskilur sér rétt til að skila síðar tillögum sínum til fjárlaganefndar um skiptingu á fé samkvæmt fjárlagaliðnum ,,Vetrarsamgöngur og vöruflutningar``.
    Að öðru leyti gerir nefndin ekki athugasemdir við frumvarpið.
    Petrína Baldursdóttir var fjarstödd afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. des. 1994.


Pálmi Jónsson, form.

Jóhann Ársælsson.

Egill Jónsson.

Guðni Ágústsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Stefán Guðmundsson.

Sturla Böðvarsson, með fyrirvara.

Árni Johnsen, með fyrirvara.




Fylgiskjal XII.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.


    Nefndin hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Nefndin fékk á sinn fund frá sjávarútvegsráðuneyti Árna Kolbeinsson ráðuneytisstjóra og Arndísi Steinþórsdóttur skrifstofustjóra. Þá komu Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri, Hinrik Greipsson frá Þróunarsjóði og frá Fiskifélagi Íslands Einar K. Guðfinnsson formaður og Bjarni Kr. Grímsson fiskimálastjóri.
    Þeir fjárlagaliðir sem lúta að sjávarútvegsmálum voru ítarlega ræddir á fundum nefndarinnar. Erindi barst frá Fiskifélagi Íslands þar sem þess er farið á leit við sjávarútvegsnefnd að hún mæli með beiðni félagsins um 5 millj. kr. framlag til reksturs tæknideildar og 2 millj. kr. framlag til tækja- og hugbúnaðarkaupa vegna þeirra verkefna sem tæknideild er að vinna að. Nefndin tekur undir þessa beiðni Fiskifélagsins.
    Fram kom hjá einstökum nefndarmönnum að þeir gerðu athugasemdir við ákveðna fjárlagaliði en nefndin gerir ekki tillögur til breytinga á þessu stigi umfjöllunar um fjárlagafrumvarpið. Nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur og andmæla tilteknum atriðum sem varða sjávarútvegsmál þegar fjárlagafrumvarpið kemur til síðari umræðna og afgreiðslu.
    Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Steingrímur J. Sigfússon, Jóhann Ársælsson og Gunnlaugur Stefánsson. Með áliti þessu fylgir bréf Fiskifélags Íslands frá 16. nóv. 1994.

Alþingi, 16. nóv. 1994.


Matthías Bjarnason, form.

Guðmundur Hallvarðsson.

María E. Ingvadóttir.

Ragnar Þorgeirsson.

Stefán Guðmundsson.

Vilhjálmur Egilsson.




Fylgiskjal XIII.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá umhverfisnefnd.


    Umhverfisnefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við bréf fjárlaganefndar, dags. 19. október 1994, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar. Á fund nefndarinnar komu frá umhverfisráðuneyti Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri og Þórður H. Ólafsson skrifstofustjóri og skýrðu þá liði frumvarpsins er varða ráðuneytið og stofnanir þess. Einnig fékk nefndin á sinn fund fulltrúa eftirtalinna stofnana: frá Hollustuvernd ríkisins Hermann Sveinbjörnsson forstöðumann og Jón Gíslason deildarstjóra, frá Landmælingum Íslands Ágúst Guðmundsson forstjóra og Kristján F. Guðjónsson fjármálastjóra, frá Náttúruverndarráði Arnþór Garðarsson formann, Aðalheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra og Lárus Þór Svanlaugsson fjármálastjóra, frá Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn Gísla Má Gíslason prófessor, stjórnarformann, og Árna Einarsson líffræðing, frá Félagi landvarða Árna Jónsson og Helgu Einarsdóttur, frá Náttúrufræðistofnun Íslands Jón Gunnar Ottósson forstjóra, frá Skipulagi ríkisins Stefán Thors skipulagsstjóra, frá Veðurstofu Íslands Magnús Jónsson veðurstofustjóra og Sigríði H. Ólafsdóttur fjármálastjóra og frá veiðistjóraembættinu Pál Hersteinsson veiðistjóra.
    Umhverfisnefnd bendir á að æskilegt er að í greinargerð með fjárlagafrumvarpi verði framvegis gerð betri grein fyrir einstökum málaflokkum, m.a. umhverfismálum, með hliðsjón af stefnu og markmiðum stjórnvalda. Ekki er síst ástæða til að viðhafa slík málstök eftir þá breytingu sem gerð var á þingsköpum Alþingis árið 1991 þegar fastanefndir

þingsins voru tengdar vinnu að fjárlagagerð.
    Á fundum með framangreindum aðilum komu fram eftirfarandi atriði:
1.      Hollustuvernd ríkisins. Forsvarsmenn Hollustuverndar ríkisins telja að fjárlagafrumvarpið feli í sér óverulega aukningu á ríkisframlagi, enda þótt grunnfjárveiting hækki. Fyrirsjáanlegt er að stofnunin verður rekin með 3--4 millj. kr. halla á þessu ári og miðað við fjárlagafrumvarp og óbreyttar forsendur í starfsemi Hollustuverndar eru horfur á 7--8 millj. kr. halla á næsta ári. Ástæðu þess segja forsvarsmenn Hollustuverndar m.a. þá að ekki séu líkur á að áform í fjárlagafrumvarpi um aukningu sértekna náist. Þeir segja að frá árinu 1991 hafi fjárveitingar til stofnunarinnar ekki haldið í við aukin verkefni og það hafi valdið vaxandi uppsöfnuðum vanda. Undirbúningur og framkvæmd EES-samningsins hefur og mun skapa stóraukið álag hjá Hollustuvernd. Auk vinnu við reglugerðir og tilskipanir felur samningurinn í sér umtalsverðar kvaðir svo sem umhverfisvöktun og opinbert eftirlit og uppbyggingu innra eftirlits á sviði framleiðslu og dreifingar matvæla. Undanfarið hefur alþjóðlegum skuldbindingum verið gefinn forgangur umfram innlend verkefni en forsvarsmenn stofnunarinnar telja að svo geti ekki gengið lengur og að nauðsynlegt sé að framlag til stofnunarinnar verði aukið um a.m.k. 15 millj. kr.
2.      Landmælingar Íslands. Forsvarsmenn Landmælinga Íslands leggja nú, eins og á sl. ári, áherslu á mikilvægi þess að stofnuninni verði gert kleift að halda áfram vinnu við DMA-kortagerð sem unnin er samkvæmt samningi íslenska ríkisins við Landmælingastofnun varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Á fjárlögum 1994 voru veittar til verkefnisins 6 millj. kr. en óskað var eftir 14 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 er enn gert ráð fyrir 6 millj. kr. fjárveitingu til verksins en forsenda þess að Landmælingar geti haldið áfram að vinna við þetta þriggja ára verkefni er að til verksins verði veittar 16 millj. kr. til viðbótar. Fyrir liggur að Bandaríkjamenn eru komnir lengra á veg með sinn þátt en samningur ríkjanna gerir ráð fyrir.
        Forsvarsmenn Landmælinga benda einnig á mikilvægi þess að veitt verði fé til uppbyggingar nýs landnets en það verk er unnið í samstarfi við mælingastofnun Þýskalands. Landmælingar hafa þegar hlotið verulegar fjárveitingar erlendis frá vegna þessa verkefnis en óska eindregið eftir að gert verði ráð fyrir 6 millj. kr. til þess í fjárlögum 1995.
                Loks telja forsvarsmenn Landmælinga Íslands nauðsynlegt að fé fáist til byggingar mælistöðvar á Höfn í Hornafirði sem verður hluti af neti mælistöðva um allan heim sem skrá merki frá GPS-gervitunglum. Norðmenn munu styrkja byggingu hússins með 2 milljóna króna framlagi og tækjabúnaði. Hlutdeild Landmælinga í verkinu er 4 millj. kr.
3.      Náttúruverndarráð. Forsvarsmenn Náttúruverndarráðs benda á að fjárveitingar til ráðsins hafa verið í lágmarki um margra ára skeið og fyrir liggur að án hækkunar frá fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 telja forsvarsmenn ráðsins að ekki verði unnt að sinna lögbundu hlutverki þess á fullnægjandi hátt. Landverðir sem komu á fund umhverfisnefndar bentu á að á sama tíma og hvatt væri til aukinna ferðalaga um landið væri dregið úr landvörslu. Bent var sérstaklega á að ferðafólki í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum fjölgaði um 102% á milli áranna 1993 og 1994. Í máli landvarða komu fram upplýsingar um alvarlegar skemmdir og ófullnægjandi umhirðu á viðkvæmum svæðum svo sem við Leirhnjúk og Dettifoss. Þá var bent á að engin landvarsla hefur verið á nokkrum friðlýstum svæðum á landinu svo sem á Lónsöræfum, í Vatnsfirði, í Húsafelli, í Dyrhólaey og á Búðum á Snæfellsnesi.

4.      Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn. Forsvarsmenn Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn bentu á að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 er gert ráð fyrir að stöðin afli 2,5 millj. kr. sértekna sem þeir telja óraunhæft. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneyti er gert ráð fyrir að til Náttúrurannsóknastöðvarinnar renni 2,5 millj. kr. af námaleyfisgjaldi Kísiliðjunnar.
5.      Náttúrufræðistofnun Íslands. Starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur verið efld með lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Forstjóri stofnunarinnar telur mikilvægt að henni verði með aukinni fjárveitingu gert kleift að sinna því lögbundna hlutverki að skrá kerfisbundið fyrirliggjandi upplýsingar um íslenska náttúru. Í stofnuninni liggja upplýsingar allt frá árinu 1889 um flesta þætti íslenskrar náttúru sem erfitt er að vinna með nema þeim verði komið í tölvutækt form. Áætlað er að fullbúið gagnanet kosti um 7 millj. kr.
6.      Náttúrustofa á Austurlandi. Framlag til Náttúrustofu á Austurlandi nemur samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2,4 millj. kr., þar af er aðeins 0,1 millj. kr. til stofnkostnaðar. Fulltrúar umhverfisráðuneytis bentu á að þennan lið þyrfti að hækka þar eð koma á stofunni á fót frá og með næstu áramótum. Í erindi, sem stjórn stofnunarinnar sendi umhverfisnefnd, er lögð áhersla á sama atriði.
7.      Skipulagsstjóri ríkisins. Embætti Skipulagsstjóra ríkisins hafa verið falin aukin verkefni með gildistöku laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum. Í máli skipulagsstjóra kom m.a. fram að óbreytt framlag til stofnunarinnar mundi bitna á vinnu við gerð svæðisskipulags á landsbyggðinni. Skipulag ríkisins hefur undanfarið hvatt sveitarfélög víða um land, þar sem ekki er fyrir hendi skipulag, til að hefja slíka vinnu. Skipulagsstjóri sagði að miðað við óbreytt fjárlagafrumvarp gæti sú staða komið upp að ekki yrði unnt að sinna óskum sveitarfélaga um mótframlög til þessara verkefna.
8.      Veðurstofa Íslands. Forsvarsmenn Veðurstofu Íslands telja að 10--20 millj. kr. halli verði á rekstri Veðurstofu Íslands á þessu ári en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1995 er gert ráð fyrir að framlög til stofnunarinnar lækki um 1% að raungildi frá gildandi fjárlögum. Rekstrarvandi stofnunarinnar byggist einkum á 18 millj. kr. aukningu á launaútgjöldum vegna kjarasamninga. Forsvarsmenn Veðurstofunnar telja að óbreytt fjárlög leiði til samdráttar á sviði veðurþjónustu og öðrum þáttum í starfsemi stofnunarinnar. Þeir telja að fresta verði nauðsynlegri aðlögun að skipan hjá veðurstofum nágrannalandanna og slík aðlögun yrði þá að mati veðurstofustjóra mun dýrari og óhagkvæmari en ella. Veðurstofustjóri telur að viðvarandi fjárskortur komi í veg fyrir þá uppbyggingu sem er forsenda fyrir öflun sértekna sem þó er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Þá bendir hann á nauðsyn þess að almenn veðurþjónusta verði skilgreind þannig að ekki leiki vafi á fyrir hvers konar þjónustu sé eðlilegt og löglegt að taka gjald. Veðurstofustjóri telur að komi ekki til hækkun um 20 milljónir króna frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi sé fyrirsjáanlegt að draga þurfi saman starfsemi og segja upp starfsfólki.
    Meiri hluti umhverfisnefndar leggur ekki til við fjárlaganefnd að gerðar verði neinar breytingar á þeim þætti fjárlagafrumvarps sem fellur undir málefnasvið nefndarinnar.
    Minni hlutinn, fulltrúar Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Kvennalista, taka undir athugasemdir forsvarsmanna þeirra stofnana sem getið er í áliti þessu og hvetur fjárlaganefnd til þess að taka þær til ítarlegrar athugunar. Minni hlutinn vill benda á mikilvægi þess að fjárveitingar til umhverfismála verði auknar en ekki haldið í lágmarki eins og nú er þannig að það bitni á náttúru landsins og þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa

sett sér um málaflokkinn í heild. Minni hlutinn leggur áherslu á að áframhaldandi vanræksla á sviði umhverfismála getur haft óbætanlegt tjón í för með sér.

Alþingi, 11. nóv. 1994.


Kristín Einarsdóttir, form.

Petrína Baldursdóttir.

Tómas Ingi Olrich.

Jón Helgason.

Árni M. Mathiesen, með fyrirvara.

Hjörleifur Guttormsson.

Árni R. Árnason.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Ólafur Ragnar Grímsson.


Fylgiskjal XIV.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Utanríkismálanefnd hefur, skv. 2. mgr. 25. gr. þingskapa Alþingis og í samræmi við bréf fjárlaganefndar dags. 19. október 1994, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Róbert T. Árnason, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, og Benedikt Jónsson, skrifstofustjóra í sama ráðuneyti, og gerðu þeir grein fyrir utanríkismálakafla frumvarpsins og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna. Í framhaldi af þeim viðræðum lagði ráðuneytið fram, að ósk nefndarmanna, gögn um ýmsa þætti er varða utanríkismálakafla frumvarpsins. Þá fjallaði nefndin einnig sérstaklega um málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og framlög Íslands til þróunarmála. Í því sambandi komu á fund nefndarinnar Pétur Guðmundsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli, Logi Úlfarsson, framkvæmdastjóri Íslensks markaðar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Steinþór Skúlason, stjórnarmaður í sama fyrirtæki, og Björn Dagbjartsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
    Meiri hluti nefndarinnar vill vekja athygli á eftirfarandi atriðum í sambandi við þá umræðu sem varð um utanríkismálakafla fjárlagafrumvarpsins.
1.     Í viðræðum við nefndina lögðu fulltrúar utanríkisráðuneytisins áherslu á að þegar hafi verið fulllangt gengið í lækkun rekstrargjalda ráðuneytisins, einkum vegna hækkunar skylduframlaga til verkefna á vegum fjölþjóðastofnana sem Ísland er aðili að. Það er mat ráðuneytisins að hætta sé á að núverandi fjárveitingar nægi tæplega lengur til að sinna brýnustu hagsmunum Íslands í samskiptum við aðrar þjóðir.
2.     Nefndarmenn benda á að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum vegna aukins kostnaðar af þátttöku Íslands í EES við inngöngu fjögurra EFTA-ríkja í ESB.
3.     Nefndarmenn ítreka mikilvægi þess að Ísland styðji friðargæslustörf Sameinuðu þjóðanna. Í því sambandi er minnt á eindreginn stuðning nefndarinnar á síðasta ári við þátttöku Íslands í norrænu friðargæslusveitinni í Júgóslavíu, en í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að samstarf Íslands og Noregs haldi áfram á því sviði
4.     Nefndarmenn eru almennt sammála um að tímabært sé orðið að endurskoða lög nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, og lýsa áhuga á því að eiga samstarf við ráðuneytið um slíka endurskoðun.
5.     Nefndarmenn ítreka mikilvægi þess að Ísland gæti sem best með virkum hætti hagsmuna sinna hjá þeim helstu fjölþjóðastofnunum sem landið á aðild að, sbr. álit nefndarinnar á síðasta þingi. Nefndarmenn lýsa í því sambandi ánægju með áherslu utanríkisráðuneytisins á bætt tengsl við ýmsar fjölþjóðastofnanir, m.a. Evrópuráðið.
6.     Nefndarmenn minna á að vorið 1985 samþykkti Alþingi þingsályktun þess efnis að Íslendingar skyldu á næstu sjö árum þar á eftir ná því marki að verja 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunaraðstoðar á hverju ári. Árið 1994 er þetta hlutfall um 0,12%.
7.     Nefndarmönnum voru kynntar hugmyndir samstarfshóps á vegum Íslensks markaðar, Flugleiða, Samtaka iðnaðarins og fleiri aðila um hugsanlega stofnun félags á vegum einkaaðila er tæki yfir allan rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þá voru einnig kynntar hugmyndir um að fríhöfnin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar tæki yfir allan verslunarrekstur í flugstöðinni. Nefndarmenn leggja áherslu á að rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríksssonar verði skipulagður með þeim hætti að tryggt sé að flugstöðin verði ekki fjárhagslegur baggi á ríkissjóði.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.
    Árni R. Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. nóv. 1994.


Björn Bjarnason, form.

Páll Pétursson.

Rannveig Guðmundsdóttir.

Ólafur Ragnar Grímsson.

Geir H. Haarde.

Halldór Ásgrímsson.

Lára Margrét Ragnarsdóttir.




Fylgiskjal XV.





Álit


um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem fjallar um utanríkisráðuneytið. Minni hluti nefndarinnar hefur nokkrar athugasemdir fram að færa um fjárlagatillögur fyrir árið 1995.

1.     Framlög til þróunarmála eru fjarri því marki sem Íslendingar samþykktu að stefna að með þingsályktunartillögu sem samþykkt var 28. maí 1985. Þau nema nú 0,12% af vergri landsframleiðslu. Inni í þessari upphæð eru m.a. lögbundin framlög til alþjóðastofnana sem óvíst er hvort flokka megi sem virka þróunaraðstoð, svo og framlög til uppbyggingar á svæðum Palestínumanna. Séu þessi framlög dregin frá lækkar hlutfallið enn.
                Ekki er ljóst á þessari stundu hvernig þeim framlögum, sem ætluð eru til uppbyggingar í á svæðum Palestínumanna, verður varið. Ákvörðun um ráðstöfun þess fjár hefur verið færð frá Þróunarsamvinnustofnun til ríkisstjórnarinnar.
                Kvennalistinn leggur áherslu á að framlög til UNIFEM verði í samræmi við þörf, en þau hafa verið tekin af óskiptum safnlið.
2.     Kvennalistinn hefur frá upphafi gagnrýnt mjög það gífurlega fjárstreymi sem hefur verið úr ríkissjóði vegna byggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkissonar. Lán að upphæð 2,4 milljarðar kr. falla í gjalddaga á næsta ári og verða endurfjármögnuð að stórum hluta með nýjum lánum. Ljóst er að þrátt fyrir ýmsar hugmyndir um skipulagsbreytingar í Leifsstöð þá hillir ekki undir að þessum kostnaði verði mætt með tekjum af stöðinni.
3.     Kostnaður við uppbyggingu sendiráða í Kína og Berlín er áhyggjuefni. Kvennalistinn styður að opnað verði sendiráð í Austur-Asíu en telur að staðsetning þess í Kína sé umdeilanleg vegna þeirra mannréttindabrota sem stjórnvöld þar bera ábyrgð á. Kostnaður við húsnæði sendiráðsins er enn fremur mjög mikill og bendir til þess að ekki hafi verið reynt til þrautar að finna ódýrari lausnir. Eins er ljóst að húsnæði undir sendiráð í Berlín verður afar dýrt og því beinir minni hlutinn því til fjárlaganefndar hvort ekki sé rétt að endurskoða ákvörðun um það og leita betri leiða til að koma upp sendiráði í Berlín.

Alþingi, 21. nóv. 1994.


Anna Ólafsdóttir Björnsson.