Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 1 . mál.


361. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1995.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Fjárlaganefnd hefur í umfjöllun sinni fyrir 2. umr. fjallað um gjaldahlið frumvarpsins. Nokk ur mál, svo sem B-hlutastofnanir, sjúkrahúsin í Reykjavík, sjúkratryggingar, Háskóli Íslands og 6. gr. ásamt safnliðum bíða 3. umr., svo og umfjöllun um tekjuhliðina.

Þjóðhagshorfur.
    
Þegar vinna fjárlaganefndar við frumvarpið hófst á sl. hausti komu fulltrúar Þjóðhagsstofnunar á fund nefndarinnar og gerðu grein fyrir þjóðhagshorfum á næsta ári. Í forsendum frum varpsins er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,4%, verðbólga verði 2,5% og launaþróun í takt við almennar breytingar þjóðartekna 2,5–3,5%. Atvinnuleysi er áætlað 4,9%.
    Fram kom að mikil óvissa er í þessari spá. Hún er byggð á þeim forsendum að afli á fjarlæg um miðum haldist og veitt sé úr minnkandi þorskstofni. Á móti hefur verð á sjávarafurðum farið hækkandi.
    Minni hlutinn telur að forsendur fjárlagafrumvarpsins séu veikar. Samningar eru lausir og hörð átök eru nú þegar á vinnumarkaði. Markmiðið að koma atvinnuleysi í 4,9% er einnig hæpið í ljósi þess að fjárfestingar eru hér minni en í öðrum OECD-ríkjum. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir verulegum samdrætti í opinberum fjárfestingum. Fjárhagsstaða sveitarfélaga hefur versnað og niðurskurður er í félagslega húsnæðiskerfinu. Ekki er við því að búast að fyrirtæki fjárfesti í stórum stíl eftir hallarekstur liðinna ára. Auk þess hefur haustvertíð á loðnu brugðist og óvissa er um Smuguveiðar vegna samningaviðræðna um þau mál.
    Síðustu daga hefur ríkisstjórnin kynnt ýmsar ráðstafanir sem hafa veruleg áhrif á tekjuhlið fjárlaga og auka halla ríkissjóðs. Því mun minni hlutinn fjalla nánar um áhrif þeirra á ríkisfjár málin í framhaldsnefndaráliti fyrir 3. umr. málsins.

Menntamál.
    Þrátt fyrir nokkrar leiðréttingar á fjárlagafrumvarpinu í meðförum fjárlaganefndar telur minni hlutinn að sú afgreiðsla sem frumvarpið felur í sér á mennta- og menningarmálum sam rýmist ekki framsækinni stefnu í þessum málaflokkum. Meðan framtíð þjóðarinnar í vaxandi alþjóðasamskiptum og samkeppni erlendis sem innan lands byggist á menntun og rannsóknum er dregið úr fjármagni til þessara málaflokka.
    Framlög til grunnskóla hafa verið skorin niður á undanförnum árum og kennslustundum fækkað. Á næsta ári er áformað að færa rekstur grunnskóla að fullu til sveitarfélaga og nýtt grunnskólafrumvarp liggur fyrir Alþingi. Í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem nú hefur verið lagt fram, eru ákvæði um að fresta gildistöku ákvæða gildandi grunnskóla laga um skólamáltíðir og einsetna skóla.
    Sú hækkun, sem frumvarpið gerir ráð fyrir, vegna grunnskólans er eingöngu vegna nemenda fjölgunar og fjölgun viðmiðunarstunda á ný. Framlag til fræðsluumdæmanna hækkar um 233,3 millj. kr. 60 millj. kr. af hækkun kennsluliðar skýrast af fjölgun viðmiðunarstunda, en geta má þess að grunnskólanum er ætlað að spara 40 millj. kr. vegna almennrar hagræðingar.
    Það er því ljóst að frumvarpið tekur engan veginn á vanda grunnskólanna eftir niðurskurð liðinna ára og ekkert liggur fyrir um það hvort sveitarfélögin í landinu muni sætta sig við að taka við þessu verkefni með þeim fjármunum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Því er ljóst að málaflokkurinn mun koma til frekari umræðu á næsta ári og þær upphæðir, sem frumvarpið ger ir ráð fyrir, geta engan veginn talist marktækar sé alvara í þeim áformum að flutningurinn eigi sér stað á árinu 1995.
    Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að hækkun framlaga til reksturs skóla á framhaldsskóla stigi verði 82,4 millj. kr. frá fjárlögum ársins 1994. Þessi hækkun er eingöngu vegna nemenda fjölgunar. Erindi hafa borist fjárlaganefnd um framlög vegna tækja og búnaðar til nokkurra skóla sem verða að teljast forsenda fyrir nútímalegum kennsluháttum. Má í þessu sambandi nefna Stýrimannaskólann í Reykjavík, Sjómannaskólann og Vélskóla Íslands og Fiskvinnslu skólann. Þessum erindum er nær öllum hafnað þrátt fyrir að þessir skólar þjóni undirstöðuat vinnugrein þjóðarinnar. Málefni Fiskvinnsluskólans eru í algjörri sjálfheldu og verður ekki kennsla þar á vormissiri sökum óvissu um framtíð skólans en málefni hans eru til meðferðar í nefnd. Beiðnum um 2 millj. kr. fjárframlag til þess að halda úti námskeiðum á biðtímanum er hafnað af meiri hlutanum.     Í meðförum fjárlaganefndar var komið til móts við óskir Kennaraháskóla Íslands um framlög vegna vinnu matssjóðs og vegna fjarkennslu. Rekstrarfé til skólans lækkar hins vegar frá síðasta ári og hús næðismál hans eru óleyst. Byggingarframkvæmdum var frestað fyrir 10 árum og beiðnum um framlag til undirbúnings og hönnunar framkvæmda var hafnað af meiri hlutanum.
    Málefnum Háskóla Íslands og Tækniskóla Íslands er frestað til 3. umr. Tækniskólinn sækir um áframhaldandi framlög til tækjabúnaðar, enda er hann forsenda árangursríkrar kennslu. Gögn liggja fyrir frá Háskóla Íslands um að stofnunin sé að dragast aftur úr háskólum nágranna landanna í gæðum náms. Minni hlutinn mun fjalla nánar um þessi mál í framhaldsnefndaráliti við 3. umr. í trausti þess að fjallað verði um þau í nefndinni milli umræðna.
    Yfirlit barst til fjárlaganefndar um fjármál Námsgagnastofnunar þar sem kemur fram að fjár magn til stofnunarinnar hefur rýrnað um 171 millj. kr. frá árinu 1991. Þar kemur einnig fram að stofnuninni er ætlað að greiða virðisaukaskatt upp á 27,5 millj. kr. á næsta ári. Lagt er til að fjárveitingar til Námsgagnastofnunar hækki um 17 millj. kr. til þess að mæta þessum vanda, en ljóst er að þrátt fyrir það er geta hennar til þess að sinna verkefnum sínum ekki í neinu samræmi við þarfirnar. Það kemur m.a. niður á samfelldu útgáfustarfi sem er undirstaða nútímalegra kennslugagna, einnig kaupum og gerð fræðslumynda og útgáfu kennsluforrita.
    Þjóðarbókhlaða hefur nú verið tekin í notkun og Háskólabókasafn og Landsbókasafn sam einuð. Bent er á að þeir rekstrarfjármunir sem safninu eru ætlaðir í frumvarpinu nægja ekki til þess að halda uppi því þjónustustigi sem Háskólabókasafn veitti nemendum sínum.
    Bent er á að liðurinn Verndun gamalla húsa, undir Þjóðminjasafni, lækkar um helming eða í 15 millj. kr. Jafnframt er haldið áfram á þeirri braut að skerða framlag ríkissjóðs til húsafriðun arsjóðs. Framlög hafa verið skert um 123,6 millj. kr. sl. fimm ár.
    Áhugi hefur aukist mjög á verndun gamalla bygginga og á árinu 1994 voru umsóknir um styrki í þessu skyni 236 talsins. Ástæðurnar eru hvort tveggja í senn menningarsögulegar og at vinnulegar þar sem það hefur sýnt sig að sá arfur sem haldið er til haga í húsbyggingum laðar að sér ferðamenn. Meginþunginn í fjármögnun sjóðsins hefur hvílt á Jöfnunarsjóði sveitarfé laga.
    Minni hlutinn bendir á að framlög til Kvikmyndasjóðs eru skert þótt leiðrétting hafi verið gerð í meðförum fjárlaganefndar frá því sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir. Framlag til Listskreytingasjóðs er fellt niður og hefur ekki fengist leiðrétting á því. Minni hlutinn telur að endurskoðun laga um sjóðinn gefi á engan hátt tilefni til þess að klippa á þessa starfsemi nú.

Landbúnaður.
    Greiðslur til landbúnaðar hafa dregist mjög mikið saman í tíð núverandi ríkisstjórnar, meira en til nokkurs annars málaflokks. Fullyrða má að nánast allur sá sparnaður í ríkisútgjöldum, sem ríkisstjórnin hælir sér af, sé niðurskurður til landbúnaðarmála.
    Niðurskurður þessi hefur að verulegu leyti byggst á ákvæðum búvörusamningsins frá 1991 en á hinn bóginn hefur ríkisstjórnin vikið sér undan því að standa við fyrirheit sem gefin voru um aðstoð við nýja atvinnuuppbyggingu í svokölluðum „viðaukum“ með samningnum.
    Samkvæmt búvörusamningnum (viðauka II) er kveðið á um að „Byggðastofnun verði útvegað fjármagn til að greiða fyrir annarri atvinnuuppbyggingu á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárframleiðslu“. Í bréfi, sem nefndinni hefur borist frá Byggðastofn un, kemur fram að lántökuheimildir einar saman gagnast ekki til þessara verkefna. Því er óum flýjanlegt að aðilar að búvörusamningnum og Byggðastofnun komist að niðurstöðu um í hvaða formi framangreindar fjárveitingar verði til að árangur náist. Þá liggur enn fremur fyrir að ein ungis hafa verið veittar 20 millj. kr. til þessara verkefna og vantar því 230 millj. kr. til að við þetta ákvæði hafi verið staðið og að viðbættri fjárveitingu fyrir næsta ár nemur það sem á skortir 280 millj. kr.
    Í bréfinu er greint frá þeim hugmyndum Byggðastofnunar um ráðstöfun þessa fjár ef staðið væri við fyrirheitin. Þær aðgerðir, sem stofnunin hyggst beita sér fyrir á hinum svokölluðu sauð fjársvæðum, eru eftirfarandi:
     1 .     Veittir verði styrkir til nýjunga í atvinnulífi sauðfjársvæðanna. Hér er átt við hvers kyns nýjungar í atvinnulífi viðkomandi svæða, hvort sem er til sjávar eða sveita, vegna þess að samkvæmt skilningi Byggðastofnunar á hlutverki sínu í þessu efni er það hvers kyns efling atvinnulífs sem bætt getur stöðu þessara byggðarlaga.
     2 .     Í samráði við heimamenn verði kannað hvort gagn mætti verða af fræðslustarfi til að aðstoða bændur í þeirri aðlögun sem þeir eru að ganga í gegnum. Hér er átt við endurmenntun bænda sem hafa hug á að taka upp önnur störf, annaðhvort með námskeiðahaldi eða með lengra námi eða þjálfun. Þá er einnig átt við fræðslustarfsemi sem snýr að upplýsingum um aðra möguleika til vinnu en búskap og þær breytingar sem fylgja því að hætta að vera sjálf stætt starfandi og að verða launþegi.
     3 .     Efnt verði til sérstakra átaksverkefna á hverju sauðfjársvæði sem hafi það markmið að efla frumkvæði til nýjunga í atvinnulífi. Þessi átaksverkefni verði með líku sniði og þar sem þau hafa verið unnin annars staðar. Þátttaka Byggðastofnunar í kostnaði verði allt að 3 / 4 á móti framlögum heimaaðila. Framkvæmd slíkra verkefna byggist því á því að sveitarstjórnir, búnaðarfélög og aðrir aðilar í héraði hafi áhuga og trú á slíkum vinnuaðferðum.
     4 .     Veitt verði framlag í afskriftareikning útlána hjá Byggðastofnun til að gera henni kleift að veita aðilum á sauðfjársvæðunum lán til ýmiss konar framkvæmda.
    Óhætt mun að fullyrða að sauðfjárrækt sé sú búgrein sem hvað verst stendur á Íslandi nú og brýnt að grípa þegar til varnaraðgerða.
    Ýmislegt fleira má nefna af stuðningsaðgerðum við landbúnaðinn vegna breyttra aðstæðna sem ekki hefur verið staðið við af hálfu ríkisvaldsins. Má þar nefna ráðstöfun fjár Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til atvinnusköpunar, framlög til Lífeyrissjóðs bænda, framlög til landgræðslu og skógræktar og fjárveitingar til Jarðasjóðs ríkisins. Samkvæmt búvörusamningnum áttu fjárveitingar til sjóðsins að vera 150 millj. kr. árin 1992 og 1993 en hafa aðeins orðið 21 millj. kr.
    Frá öllu þessu er ítarlega greint í áliti landbúnaðarnefndar til fjárlaganefndar sem birt er sem fylgiskjal með nefndaráliti meiri hlutans. Þar segir m.a.:
    „Af framansögðu má ljóst vera að framkvæmd búvörusamningsins er ekki í því horfi sem samrýmist markmiðum hans. Hins vegar er lögð á það áhersla að þótt svo væri yrði eftir sem áður fyrir hendi mikill vandi í sauðfjárbúskap. Nefndin hefur sérstaklega kynnt sér þessi mál með vettvangsferðum um þær byggðir sem þessi vandi brennur hvað heitast á og rætt þar við fjölda bænda, sveitarstjórnamenn og forsvarsmenn búnaðarsambanda og vinnslustöðva. Einnig hefur hún aflað sér mikil vægra gagna í þessum efnum.
    Fyrir liggur að tekjur í sauðfjárbúskap fara stöðugt lækkandi og eignarýrnun eykst með ári hverju. Samdráttur í sölu kindakjöts nemur árlega um 2,5% og birgðir eru því ekki á neinn hátt í samræmi við markmið samningsins um að þær skulu eigi vera meiri en sem nemur 500 tonnum við lok hvers framaleiðsluárs. Ekki liggur enn fyrir reglugerð skv. 73. gr. búvörulaganna um endurgreiðslur á unnar landbúnaðarvörur og enn á að leita eftir skerðingu á greiðslur vegna sauðfjárafurða að upphæð 70–80 millj. kr. Hér stefnir því í aukinn vanda í þessari búgrein ef ekki verður að gert.
     Það sem hér er nærtækast að grípa til er að tekin verði upp fjárveiting til markaðsmála sem hamlaði gegn síaukinni birgðasöfnun og dregin verði til baka áformuð 5% skerðing útborgunarverðs sláturafurða til bænda“.
    Minni hlutinn telur ekki ástæðu til að fara um þennan málaflokk öllu fleiri orðum en vísar til ítarlegs álits landbúnaðarnefndar. Þó er rétt að geta þess að enn hlaðast upp vanskil ríkisvaldsins við bændur vegna óuppgerðra jarðræktarframlaga undangenginna ára. Óuppgerðar, réttmætar kröfur frá árinu 1992 nema 67,3 millj. kr. og vegna ársins 1993 milli 70 og 80 millj. kr. Er þá enn ótalin skuld sem kann að hafa myndast vegna framkvæmda í ár. Ekkert bólar á því að ríkisstjórnin hugsi sér að gera þetta upp með fjárveitingum á fjáraukalögum fyrir árið 1994 eða við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár en enn er þó möguleiki að lagfæra þetta ranglæti með breytingartil lögum við 3. umr. um þessi frumvörp.

Sjávarútvegsmál.
    Enn er því haldið fram að útgjöld fari lækkandi vegna Fiskistofu. Lækkunin skýrist þó fyrst og fremst af því að nú eru greiðslur til Fiskifélagsins ekki í lið Fiski stofu heldur undir Ýmis verkefni. Sá liður hækkar um 50 millj. kr. milli ára og af því fara 30 millj. kr. til Fiskifélagsins og 15 millj. kr. til skiptaverðsnefndar sem sett var á fót í tengslum við verkfall sjómanna á sl. vetri.
    Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi fá aðeins 500 þús. kr. hækkun í frumvarpinu. Liðurinn var skorinn niður um helming fyrir tveim ur árum og enn hefur ekki verið bætt úr því.

Dóms- og kirkjumál.
    Varðandi fjárframlög til dóms- og kirkjumála minnir minni hlutinn á tvö atriði sem standa upp úr.
    Í fyrsta lagi má nefna málefni Landhelgisgæslu Íslands þar sem ekki er gert ráð fyrir rekstrarkostnaði nýrrar björgunarþyrlu en stofnuninni gert að skera niður aðra starfsemi sem honum nemur um 10 millj. kr. mánaðarlega. Þetta mun nema 60 millj. kr. á árinu 1995 þar sem gert er ráð fyrir að þyrlan komist í notkun á miðju ári. Ljóst er að stofnunin má ekki við því að draga saman skipaútgerð sína sem þessu nemur ef hún á að sinna hlutverki sínu.
    Í öðru lagi hafa fjárlaganefnd borist fjölmörg erindi um ófullnægjandi löggæslu frá ýmsum byggðarlögum. Þessum erindum hefur ekki verið sinnt.

Heilbrigðis- og tryggingamál.
    Í fjárlögum yfirstandandi árs var gert ráð fyrir margvíslegum sparnaði í þessum mikilvæga en kostnaðarsama málaflokki. Má þar minna á tillögur um lækkun lyfja kostnaðar, endurskoðun á greiðslum til lækna, greiðslum fyrir röntgenmyndatökur og rannsóknir, útboð á tannlækningum og hjálpartækjum, lækkun á erlendum sjúkra kostnaði, sjúkradagpeningum og greiðslum fyrir sjúkraþjálfun.
    Fulltrúar minni hlutans töldu að hér væri um vanhugsaðar og illa undirbúnar tillögur að ræða og gerðu ítarlega grein fyrir skoðun sinni í nefndaráliti og umræðum um frumvarpið. Auk þess var bent á að fjárveitingar til stóru sjúkrahúsanna væru stórlega vanáætlaðar og óraunhæft að ætla að reka sjúkrahúsin með þeim fjármunum.
    Skemmst er frá að segja að allt hefur þetta farið eins og minni hlutinn taldi og er það staðfest með þeim tillögum sem nú liggja fyrir í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga fyrir árið 1994. Þar er óskað eftir „800 millj. kr. vegna ýmissa sparnaðaráforma og aðhaldsaðgerða sem ekki hafa gengið eftir í sjúkratryggingum“ svo orðrétt sé vitnað í greinargerð frumvarpsins. Auk þess þarf að hækka fjárveitingar til sjúkrahúsanna um mörg hundruð milljónir króna.
    Af þessu er ljóst að lítið hefur orðið úr þeim sparnaðaraðgerðum sem boðaðar voru.
    Nú bregður svo við í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár að enn eru boðaðar hliðstæðar aðgerðir þeim sem mistókust hrapallega á yfirstandandi ári. Spara á í lyfjaút gjöldum, greiðslum til lækna, rannsóknum og kostnaði við sjúkraþjálfun sem svarar 420 millj. kr. Er líklegt að þessar aðgerðir nái fram að ganga á næsta ári eða er hér um hreinan blekkingarleik að ræða? Minni hlutinn telur gott ef hægt er að ná fram sparnaði í þessum málaflokki án þess að draga úr þjónustunni eða auka útgjöld sjúkra og aldraðra með hækkuðum þjónustugjöldum og hærri greiðslum fyrir lyf. Því miður hefur það reynst megininntakið í svokölluðum „sparnaðaraðgerðum“ ríkisstjórnarinnar á þessu sviði og í greinargerð frumvarpsins er m.a. þessa setningu að finna:
    „Þá er gert ráð fyrir því hér að þeir sem njóta þjónustunnar taki meiri þátt í kostnaði henni samfara.“
    Því má álykta að enn eigi að höggva í sama knérunn til að ná fram áætluðum sparnaði. Sérstaklega varar minni hlutinn við afleiðingum fyrirhugaðs sparnaðar við sjúkraþjálfun og bendir í því sambandi á bréf Félags íslenskra sjúkraþjálfara til fjárlaganefndar Alþingis. Þar segir m.a.:
    „Það er ljóst að endurhæfing á göngudeild er mun ódýrari en innlögn á sjúkrahús. Meðferð á göngudeild heldur mörgum sjúklingum frá innlögn í lengri eða skemmri tíma. Endurhæfing getur verulega stytt veikindaforföll vegna slysa og sjúkdóma frá hreyfi- og stoðkerfi.
    Á niðurskurðartímum hafa nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndum aukið útgjöld til endurhæfingar en ekki dregið úr þeim eins og hér stendur til að gera. Þar hefur verið sýnt fram á að með markvissum aðgerðum í endurhæfingu er hægt að gera fólk vinnufært mun fyrr eftir slys og erfið veikindi með markvissri þjálfun.“
    Hjá sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og öðrum stofnunum ráðuneytisins er ráðgert að spara rúmar 400 millj. kr. Þar er um að ræða 100 millj. kr. auknar sértekjur sjúkrahúsanna og hagræðingu í rekstri sem spara á 100 millj. kr. á sjúkrahúsum, 50 millj. kr. í heilsugæslu, 50 millj. kr. í sjúkraflutningum og 80 millj. kr. hjá öðrum stofnunum ráðuneytisins.
    Nú hafa þegar verið boðaðar tillögur um viðbótarfjárveitingar til sjúkrahúsanna við 3. umr. og verður því umfjöllun um þær í framhaldsnefndaráliti minni hlutans. Einnig hefur verið látið að því liggja að áætlanir um auknar sértekjur verði lagðar til hliðar. Þá er í greinargerð frumvarpsins sagt að tillögur um sparnað á heilsugæslu stöðvum að upphæð 50 millj. kr. verði lagðar fyrir fjárlaganefnd fyrir afgreiðslu fjárlaga en ekkert hefur heyrst af því enn né heldur hvernig eigi að spara 80 millj. kr. á öðrum stofnunum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.
    Minni hlutinn telur því vafasamt að boðaður sparnaður náist og verði ekki gerð nánari grein fyrir því hvernig standa eigi að málum sé hér um vanáætlun á fjárlaga tillögum að ræða svo hundruðum milljónum króna skipti.
    Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er gert ráð fyrir að leggja niður embætti starfandi héraðslækna í Reykjavík og á Akureyri. Embættum þessum var ætlað að taka við verkefnum frá ráðuneyti og landlæknisembætti. Með boðaðri breytingu er hins vegar stefnt að því að færa verkefnin aftur inn í ráðuneytið og auka með því miðstýringuna. Minni hlutinn er andvígur þessum áformum og væntir þess að fyrir 3. umr. náist samkomulag um að starfrækja þessi embætti áfram óbreytt.
    Að lokum vill minni hlutinn vara við hugmyndum um að lækka heimildarbætur almannatrygginga um 200 millj. kr. svo sem frumvarpið gerir ráð fyrir en þessara bóta njóta fyrst og fremst þeir einstaklingar í þjóðfélaginu sem allra verst eru settir.
    Að öðru leyti vísar minni hlutinn til álits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar til fjárlaganefndar um þann kafla frumvarpsins sem er á málasviði hennar.

Samgöngumál.
    Veruleg lækkun er á heildarframlögum til samgöngumála eða um rúman einn milljarð kr. Lækkun er á framlagi til vegagerðar samkvæmt frumvarpinu. Þó hefur verið tilkynnt um nýjar framkvæmdir fyrir 3,5 milljarða á næstu fimm árum. Af því á að framkvæma fyrir 1.250 millj. kr. á næsta ári. Nú þegar hefur bensíngjald verið hækkað og er það liður í fjáröflun vegna þess átaks. Ekkert liggur fyrir um þetta í frumvarpinu og engar breytingartillögur um vegamál liggja enn fyrir. Það er orðin við tekin venja hjá ríkisstjórninni að ganga fram hjá hefðbundnum verklagsreglum um skiptingu vegafjár. Nú er boðað að skipta eigi vegafé samkvæmt íbúatölu kjördæma án þess að nokkur umræða hafi farið fram um það á Alþingi.
    Þá lækkar framkvæmdafé til vegagerðar einnig í raun um 569 millj. kr. þar sem rekstur ferja og flóabáta er nú alfarið fjármagnaður af vegafé. Skerðing á mörkuðum tekjustofnum vegagerðar af bensíngjaldi og þungaskatti er um 275 millj. samkvæmt frumvarpinu og þannig er skerðing á framkvæmdafé orðin 844 millj. kr. samtals. Á sama tíma hælir ríkisstjórnin sér af að hún hafi ákveðið að viðbótarfé, sem nemur 1.250 millj. kr., komi í sérstöku framkvæmdaátaki.
    Þannig er ríkisstjórnin að skerða það vegafé sem Alþingi ákveður skiptingu á en hyggst ákveða að eigin geðþótta hvernig verja á milljörðum króna í aðrar vega framkvæmdir.
    Framlög til siglingamála lækka um 20% frá fjárlögum í ár. Til hafnarframkvæmda er verulega dregið úr fjármagni. Á yfirstandandi ári voru 728 millj. kr. veittar til hafnamannvirkja en nú 441 millj. kr. samkvæmt frumvarpinu. Síðan koma breytingartillögur meiri hlutans þar sem áætlað er að lækka framlag til Hafnabótasjóðs og færa það á hafnamannvirki. Þar með er gengið fram hjá nýsettum hafnalögum en samkvæmt þeim á sérstakt vörugjald á vöruflutninga að fara í Hafnabótasjóð. Það er ekki fyrr búið að setja lög um markaða tekjustofna en ríkisstjórnin leggur til skerðingar á þeim.
    Lögð er til sú breyting á flugmálaáætlun að skerða framkvæmdafé til flugvalla um 70 millj. kr. og fjármagna rekstur þeirra af mörkuðum tekjustofnum flugmálaáætl unar. Hér er um stefnubreytingu að ræða sem mun skerða verulega framkvæmdafé til flugvallagerðar á næstu árum ef samþykkt verður.
    Til ferðamála er enn einu sinni skert lögbundið framlag sem bundið er tekjum Fríhafnarinnar. Þessi skerðing til ferðamálaráðs er þeim mun óskiljanlegri þar sem ferðaþjónustan er nú orðin annar stærsti aðili í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Þar er einn helsti vaxtarbroddur nýrrar atvinnustarfsemi. Þetta virðist stjórnvöldum ekki vera ljóst því þau hafa auk skerðingarinnar aukið álögur á þessa atvinnugrein með virðisaukaskatti.

Umhverfismál.
    Stefnumörkun virðist vanta í umhverfismálum. Nú á að lækka framlög til átaks í sorphirðumálum þó að öll sveitarfélög hafi skorað á ráðuneytið að beita sér fyrir auknum framlögum á því sviði. Þar er mikil þörf á úrbótum sem eru svo kostnaðarsamar að fá sveitarfélög ráða við það. Þó að lokið sé úttekt á þessum málum sem ráðu neytið hefur unnið að í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga er það ekki nóg þegar ekki er hægt að fjármagna nauðsynlegar úrbætur.
    Óvíst er hvort ákvörðun um að færa veiðistjóraembættið til Akureyrar muni leiða til sparnaðar fyrir umhverfisráðuneyti. Nú þegar hefur verið bætt við stöðugildum fyrir þá starfsmenn sem ekki ætla að flytja með embættinu, öðru í Náttúrufræðistofnun og hinu í Háskóla Íslands.

Lokaorð.
    Fjárlög hljóta að markast af efnahagsstefnu þeirrar ríkisstjórnar sem við völd er.
    Minni hlutinn getur ekki tekið ábyrgð á efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar og mun því sitja hjá við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 12. des. 1994.



    Guðmundur Bjarnason,     Margrét Frímannsdóttir.     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
    frsm.          

    Jón Kristjánsson.     Guðrún Helgadóttir.