Ferill 278. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 278 . mál.


512. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir næsta ár kom óvenjuseint fram. Nefndin hefur aðeins haft örfáa daga til að fjalla um þau mál sem frumvarpið snertir og ber að gagnrýna það sérstaklega. Löngu var ljóst hvaða lögum þyrfti að breyta vegna skerðinga af ýmsu tagi, sbr. fjárlög fyrir árið 1995, þótt einstaka atriði hafi bæst við síðan. Það er allt á sömu bókina lært hjá ríkisstjórnarflokkunum, ágreiningur og seinagangur við ákvarðanatöku veldur því að ríkisfjármálin eru komin í eindaga og allt of skammur tími gefst til að fjalla málefnalega um inntak og afleiðingar þeirra ákvarðana sem verið er að taka. Enn einu sinni skal gagnrýnd sú aðferð að hrúga inn í einn lagabálk alls óskyldum málum og athygli er vakin á athugasemdum sem ritari efnahags- og viðskiptanefndar setti fram skriflega þar sem bent var á að samkvæmt íslensku stjórnarskránni ber að ræða öll lagafrumvörp þrisvar sinnum og því óeðlilegt að taka inn ný og óskyld mál eftir 1. umræðu, jafnvel mál sem ekki snerta útgjöld ríkisins á neinn hátt. Ný mál á að leggja fram í nýju frumvarpi. Minni hlutinn fór þess á leit að kallað yrði eftir áliti forseta Alþingis á því hvort rétt væri að málum staðið, en þegar þetta er ritað er það álit ekki komið fram.
    Eitt helsta einkenni frumvarpsins eru hin svokölluðu þrátt-fyrir-ákvæði þar sem löggiltir tekjustofnar ríkisstofnana og sjóða eru skertir. Þar kennir margra grasa og hefði verið þörf á að fara vandlega ofan í einstaka liði og kanna hvernig þeir koma við þær stofnanir sem í hlut eiga. Það var ekki gert að þessu sinni vegna tímaskorts, nema hvað kallað var á fulltrúa Húsafriðunarsjóðs og ferðamála og fulltrúa menntamálaráðuneytisins vegna þjóðarbókhlöðuskattsins.

Grunnskólinn.
    Fjórða árið í röð er frestað framkvæmd nokkurra ákvæða grunnskólalaga í þeim tilgangi að spara 180 millj. kr. Enn eitt árið er heimiluð fjölgun í bekkjum umfram það sem lögin segja til um, en á þessu ári var þessi heimild nýtt í 26 tilvikum, þar af 12 í Reykjavík (sjá álit minni hluta menntamálanefndar). Þá er því enn frestað að koma á máltíðum í skólum, athvörfum fyrir nemendur, svo og því sem alvarlegast er, að lengja kennslutímann. Með þeim niðurskurði, sem framkvæmdur var í grunnskólum landsins 1991, var kennsla skorin verulega niður. Nú hefur verið ákveðið að skila sex stundum á viku til baka, en það breytir ekki því að kennslustundafjöldi er langt frá því sem hann ætti að vera hefði lögum verið framfylgt. Enn eitt árið bitnar niðurskurður ríkisstjórnarinnar á þeim sem síst skyldi og það er augljóst að það mun taka mörg ár að vinna upp þann mikla skaða sem unninn hefur verið í skólakerfinu í tíð núverandi ríkisstjórnar.
    Á sama tíma og framlög til grunnskólans eru skert er verið að fjalla um nýtt frumvarp til laga um grunnskólann þar sem gert er ráð fyrir flutningi hans yfir til sveitarfélaganna, svo og stórfelldum breytingum á skólastarfinu. Þessar breytingar munu kosta sveitarfélögin milljarða króna umfram það sem ríkið ver nú til reksturs grunnskólans. Það á sem sagt að velta yfir á sveitarfélögin því sem ríkið hefur ekki treyst sér til að framkvæma í skólamálum. Minni hlutinn mótmælir harðlega framgöngu ríkisstjórnarinnar og meiri hluta hennar á Alþingi í skólamálum og mun greiða atkvæði gegn þessum hluta frumvarpsins.

Málefni fatlaðra.
    Í þessum kafla laganna er gert ráð fyrir að verja megi allt að 40% af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra til tiltekinna rekstrarverkefna sem tíunduð eru í frumvarpinu. Þetta hlutfall er nú 25%. Hér er verið að fara þá leið að taka sífellt meira fé úr sjóðnum til rekstrar í stað framkvæmda, líkt og gert hefur verið í framkvæmdasjóði aldraðra. Nú er svo komið að aðeins 35% þess fjár sem aflað er í sjóðinn fer til framkvæmda. Þessi þróun veldur áhyggjum og þarf að skoða mun betur hvaða afleiðingar hún mun hafa fyrir aðbúnað fatlaðra í landinu. Að öðru leyti er vísað til umsagnar minni hluta félagsmálanefndar sem mælir ekki sem samþykkt þessa ákvæðis.

Atvinnuleysistryggingar.
    Enn einu sinni eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar enda er reynslan af margra ára stöðugu atvinnuleysi að koma í ljós. Í þessum kafla laganna sem reyndar hefur tekið nokkrum breytingum meðan á vinnslu málsins stóð er verið að leita eftir heimild til að greiða atvinnulausu fólki launauppbót. Ákvörðun um þetta var tekin sl. sumar og því ekki seinna vænna að leita heimildar Alþingis nú rétt fyrir jól! Horfið var frá þeim breytingartillögum meiri hlutans að banna styrki til varanlegrar atvinnusköpunar eins og ætlunin var, en þess í stað er sett 62 millj. kr. þak á ýmis slík útgjöld þar á meðal kostnað vegna námskeiða. Þá er heimilt að veita styrki til sérstakra verkefna á vegum sveitarfélaga gegn því að dregið verði samsvarandi úr greiðslu atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Er þetta í samræmi við samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna í landinu sem ekki verður gert að leggja fram 600 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð eins og ætlunin var.

Embætti héraðslæknis í Reykjavík og á Norðurlandi eystra.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að embætti héraðslækna í Reykjavík og á Norðurlandi eystra verði í lögð niður sem sjálfstæð embætti en þess í stað heimilað að ráða einn af heilsugæslulæknum umdæmanna í 20% starf um fjögurra ára skeið. Þessi leið hefur verið farin úti á landsbyggðinni og fer tvennum sögum af því hvernig það hafi gefist. Fjölmenn læknishéruð eins og Reykjavík og Norðurland eystra hafa verulega sérstöðu vegna þeirra mála sem þar koma upp, einkum þó Reykjavík þar sem skipulag heilbrigðismála er með nokkuð öðrum hætti en tíðkast á landsbyggðinni. Minni hlutinn leggst gegn þessari breytingu, enda er hún gerð án samráðs við borgaryfirvöld og í andstöðu við þá sem sinna heilsugæslu á viðkomandi svæðum.
    Það vill oft gleymast að í höfuðborginni er að finna hærra hlutfall aldraðra, fatlaðra og fátækra en í öðrum sveitarfélögum, m.a. vegna þeirrar þjónustu sem boðið er upp á og ekki er til staðar annars staðar. Þá hefur borgin ýmis einkenni stórborga eins og vandamál vegna fíkniefna, heimilislausra o.fl. auk þess sem félagsleg vandamál hafa því miður farið vaxandi í kjölfar atvinnuleysis og samdráttar. Þúsundir borgarbúa eru án heimilislækna eða heilsgæslustöðva og um 40% þeirra sem skráðir eru hjá heilsugæslustöðvunum búa utan þess svæðis sem stöðin á að þjóna. Allt kallar þetta á bætta heil brigðisþjónustu, yfirsýn og aðila sem geta brugðist skjótt við ýmiss konar vanda sem upp kemur. Embætti héraðslæknis í Reykjavík hefur sinnt þessari hlið mála, t.d. þegar dauðsföll verða í heimahúsum, en samkvæmt upplýsingum starfandi héraðslæknis í Reykjavík fer þeim fjölgandi. Þá sinnir héraðslæknirinn nauðungarvistun, hann er kallaður til þegar þörf er á ýmiss konar úrskurðum, t.d. um það hvort opna megi líkkistur, brenna lík, fjarlægja líffæri o.fl. Undir hann heyra sóttvarnir í borginni, hann er fulltrúi í almannavarnanefnd borgarinnar, hann er í svæðisstjórn fatlaðra og hann skipuleggur bráðavaktir á sjúkrahúsum borgarinnar. Hvert eiga þessi störf að fara?
    Það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að engin fagleg rök liggja að baki þeirri ákvörðun að leggja embætti héraðslæknanna niður, einungis sparnaðaráform (8 millj. kr.). Engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma þeim störfum til annarra aðila sem héraðslæknirinn í Reykjavík hefur sinnt. Í heilbrigðisráðuneytinu eru ýmsar hugmyndir á ferðinni, en ekkert hefur verið ákveðið annað en það að landlæknisembættið skuli sinna hluta starfanna. Það verður að draga í efa að það sé við hæfi að landlæknisembættið fari að sinna alls konar úrskurðarmálum í Reykjavík sem geta síðan hugsanlega komið til úrskurðar embættisins sem æðsta valds í heilbrigðismálum. Hugmyndir eru uppi um það að lögregluyfirvöld taki að sér það sem að þeim snýr og að læknavaktin í borginni sinni ýmiss konar bráðaþjónustu. Ekkert er frágengið og ekkert fjármagn til að sinna þjónustunni, nema 700 þús. kr. til landlæknisembættisins sem þar á bæ er reyndar talið allt of lítið. Þá hefur alls ekki verið sýnt fram á að sparnaður náist með því að dreifa störfunum á marga aðila. Það verður ekki annað séð en að verið sé að stefna þjónustu við borgarbúa í hættu og mótmælir minni hlutinn því harðlega að þannig sé staðið að verki.
    Hvað varðar embætti héraðslæknis á Norðurlandi eystra er það að segja að allir sem til þekkja telja að vel hafi tekist til með uppbyggingu þess embættis eftir að það var gert að fullu starfi fyrir nokkrum árum. Með því hefur verið að myndast vísir að stjórnsýslu og faglegri yfirstjórn í heilbrigðismálum úti á landsbyggðinni, um leið og verkefnum héraðslæknis er þar með sinnt á stærsta þéttbýlisstað landsbyggðarinnar og viðkomandi kjördæmi. Það væri því meira í samræmi við yfirlýst markmið um að dreifa verkefnum og valdi að efla þessi stjórnsýsluembætti í heilbrigðismálum úti í kjördæmunum en að leggja þau niður. Í því sambandi hafa verið settar fram athyglisverðar hugmyndir um að stækka svæði héraðslæknis á Akureyri. Minni hlutinn er sömuleiðis andvígur því að leggja þetta embætti niður og leggur til að viðkomandi greinar verði felldar brott frumvarpinu.

Flugmálaáætlun.
    Í þessum kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir að gjald það sem innheimt er skv. 5. gr. laganna verði varið til rekstrar flugvalla og framkvæmda í flugmálum samkvæmt flugmálaáætlun. Þetta þýðir að um 70 millj. kr. verða nú teknar í rekstur sem áður hefðu farið til framkvæmda. Ljóst er að þetta mun enn seinka því að markmið flugmálaáætlunar um að koma ástandi flugsamgöngumannvirkja hér á landi í viðunandi horf og hér er enn eitt skrefið stigið í þá átt að taka markaða tekjustofna sem ætlað var að verja til framkvæmda til reksturs. Minni hlutinn leggst gegn þessu, enda væri nær að endurskoða viðkomandi lög og að fara rækilega í gegnum reksturinn í stað þess að skerða tekjustofna með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess að teknanna er aflað með sérstakri viðbótarskattlagningu á farþega og flugrekstur og því var hátíðlega lofað á sínum tíma að allar tekjurnar mundu renna til uppbyggingar á viðkomandi sviði.

Þrátt-fyrir-ákvæðin.
    Í II. kafla laganna er að finna 20 ákvæði af ýmsu tagi þar sem lögbundnir tekjustofnar eru skertir og það fjármagn, sem átti að renna til viðkomandi mála, er tekið til handargagns af ríkissjóði. Við 2. og 3. umræðu fjárlaga urðu nokkrar breytingar á þessum liðum vegna harðra mótmæla og gagnrýni á fjárlaganefndarmenn. Þannig fær Kvikmyndasjóður nokkru meira fé en áætlað hafði verið og eins var atlögunni að Listskreytingasjóði hrundið í bili. Eftir eru þó allmörg mjög umdeilanleg mál sem varða t.d. Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins, Húsafriðunarsjóð, Ferðamálasjóð, skerðingu á vegafé o.fl. Enginn tími gafst til þess að fara ofan í þessi skerðingarákvæði, en ljóst má vera að víða er verið að skapa vandamál sem leysa þarf síðar. Má þar sem dæmi nefna húsafriðun í landinu sem er afar brýn, en til þeirra atvinnuskapandi verkefna er varið allt of litlu fjármagni. Þá eru það sérkennilegir stjórnarhætti að taka hluta af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar til annarra verkefna en vísa stofnuninni síðan út á lánamarkaðinn með öllum þeim kostnaði sem því fylgir.

Breytingar á lögum um almannatryggingar.
    
Efnahags- og viðskiptanefnd sendi kafla frumvarpsins til viðkomandi fagnefnda. Þegar bréf barst frá heilbrigðis- og trygginganefnd kom í ljós að þar var að finna nokkrar tillögur sem snerta breytingar á lögum um almannatryggingar. Ekki reyndist samstaða milli stjórnarflokkanna um málið og varð niðurstaðan sú að hluti tillagnanna var dreginn til baka.
    Með þeim tillögum sem fyrir liggja er lagt til að húsaleigubætur teljist ekki til tekna. Þannig er verið að koma í veg fyrir að húsaleigubætur skerði aðrar bætur hjá örorku- og ellilífeyrisþegum. Þó skerðast þær bætur sem fólk fær nú vegna húsnæðis. Þá er lögð til leiðrétting á tekjuviðmiðunum í samræmi við verðlagsþróun. Minni hlutinn telur hér vera um réttlætismál að ræða og styður þessar breytingar.

Meðferð og mat á sláturafurðum.
    Þessi kafli frumvarpsins er dæmi um alls óskylt mál sem tekið er upp milli umræðna án þess að málið hafi nokkuð verið rætt í þingsölum. Hér er um það að ræða að innheimta á gjald vegna eftirlits dýralækna með sláturafurðum. Minni hlutinn telur rétt að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar beri ábyrgð á þessari gjaldtöku, enda hefur enginn tími gefist til að kanna málið og hvað í því felst.

Alþingi, 28. des. 1994.



Jóhannes Geir Sigurgeirsson,

Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon.


form.

frsm.



Finnur Ingólfsson.




Fylgiskjal I.


Helgi Guðbergsson, yfirlæknir,
settur héraðslæknir í Reykjavík:



Greinargerð um starfsemi héraðslæknisembættisins í Reykjavík.


    Héraðslæknirinn í Reykjavík, áður borgarlæknir, sinnir margvíslegri þjónustu og embættisstörfum læknis. Mörg þessara starfa eru ákvörðuð með lögum, en önnur hafa vistast hjá héraðslækni af hagkvæmnisástæðum. Langflest þessara starfa eru þess eðlis að læknismenntun og embættisstöðu þarf til að geta tekið ákvörðun í málinu en fáein væri hægt að vista hjá opinberum starfsmönnum með annars konar menntun. Um er að ræða læknisstörf sem sinnt er út um borgina, skoðun aðstæðna og staða í borginni, þátttöku í fundum og ákvarðanatöku af ýmsu tagi sem einnig fer fram á ýmsum stöðum í borginni og embættisstörf sem unnin eru á skrifstofu. Að auki hefur verið unnið að sérstökum verkefnum og þá til þess ráðið í takmarkaðan tíma fólk með ýmiss konar menntun. Störfin getur þurft að vinna jafnt á nóttu sem degi. Um langan aldur hafa tveir læknar annast þessi störf í fullu starfi og alltaf verið unnt að ná í annan þeirra á vakt. Álagið hefur verið mismikið, en ég tel að ekki hafi veitt af að hafa tvo lækna í fullu starfi. Verkefni hafa þó breyst nokkuð vegna þess að borgarlæknir var framkvæmdastjóri heilbrigðisráðs Reykjavíkur sem fór með stjórn heilsugæslunnar í Reykjavík og var að auki í heilbrigðisnefnd Reykjavíkur. Nú á héraðslæknir sæti á fundum allra heilsugæsluumdæmanna í Reykjavík og í samstarfsráði heilsugæslunnar og tekur þátt í störfum þeirra og er hann eini fagmaðurinn í heilbrigðisfræðum sem á sæti í þeim öllum.
    Skulu nú rakin nokkur dæmi um þau störf sem unnin eru af héraðslækni:
    Afskipti af málefnum geðsjúkra, drykkjusjúkra og fíkniefnaneytenda. Tímafrek og erfið mál. Margir þessara sjúklinga, einkum hinir erfiðari, hafa ekki heimilislækni, eru einstæðingar, lenda undir manna höndum, eru skjólstæðingar Félagsmálastofnunar, Geðhjálpar o.s.frv. Ættingjar, lögregla, geðdeildir og framangreindir aðilar leita oft og tíðum aðstoðar héraðslæknis við að leysa úr vandamálum þessa fólks. meðal annars vegna nauðungarvistunar, sjálfræðissviptingar o.fl. Þessum málum getur þurft að sinna á ýmsum tímum sólarhrings og oft þarf samskipti við 3–5 aðila í endurtekin skipti áður en málið er komið í einhvern farveg.
    Sóttvarnamál. Þátttaka í sóttvarnanefnd ásamt tollstjóra og lögreglustjóra. Rottuskoðun og rottueyðing í skipum fer fram í umboði sóttvarnanefndar eftir alþjóðareglum og er framkvæmd af meindýraeyði. Héraðslæknir sér um að votta um þessi mál og taka aðrar ákvarðanir um þau í samráði við sóttvarnanefndina. Öll skip, sem sigla milli landa, þurfa að hafa gild vottorð sem eru ekki eldri en sex mánaða. Erlend skip fá einnig vottorð hér. Héraðslæknir vottar um farsóttir vegna matvælaútflutnings. Héraðslæknir tekur ýmsar ákvarðanir er lúta að flutningi og meðferð á líkum, m.a. milli landa. Héraðslæknir rekur einstök matarsýkingartilfelli og önnur sýkingartilfelli í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið og lækna í því skyni að draga úr smithættu. Þarf í þessu sambandi oft að gera vettvangsathuganir og taka viðtöl við fólk. Á vegum héraðslæknis fara fram bólusetningar ferðamanna og ráðgjöf um bólusetningar og aðrar ráðstafanir í tegnslum við ferðalög. Þessa þjónustu nota heilsugæslulæknar í Reykjavík og heilsugæslan um allt land. Bólusetningarnar eru gerðar utan venjulegs skrifstofutíma og greiðslur neytenda fyrir þær eru látnar standa undir kostnaði við efni og vinnu. Ríkið hefur því óverulegan kostnað af þeim þætti þjónustunnar.
    Dauðsföll utan sjúkrahúsa og skyld mál. Héraðslæknir hefur um áratuga skeið haft með hendi að votta um andlát fólks utan sjúkrahúsa og rannsaka orsakir dauðsfalla að svo miklu leyti sem lögregla gerir það ekki. Einnig aðstoðar hann lögreglu við mannskaðarannsóknir og við að ákvarða hvaða tilfelli koma til réttarkrufningar og hver ekki. Þetta er ein af helstu orsökum þess að unnt þarf að vera að ná í þennan embættislækni utan dagvinnutíma.
    Héraðslæknir er mikilvægur hlekkur í meðferð þessara mála og ritar hann oft dánarvottorð í framhaldi af athugunum sínum eða sér til þess að læknir, sem stundaði sjúklinginn, riti það. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að við líffæraflutninga fylgja sjúkrahúsin þeirri reglu að héraðslæknir taki ákvörðun um hvort nema megi brott líffæri án þess að það trufli rannsókn á slysatilfellum. Slíkar ákvarðanir eru oft teknar utan venjulegs dagvinnutíma. Loks má geta þess að starfandi læknar á sjúkrahúsum og utan þeirra þurfa oft að ráðfæra sig við héraðslækni um meðferð máls þegar sjúklingar deyja. Með þessu fer fram nokkurt eftirlit með starfi lækna.
    Umsögn og úrskurður um ýmis málefni. Opinberir aðilar og einkaaðilar leita oft til héraðslæknis til að fá umsögn um ýmis mál. Læknar, heilbrigðisfulltrúar, lögfræðingar og almennir borgarar leita eftir umsögn og úrskurði héraðslæknis um margvísleg málefni. Nauðsynlegt er að hafa embættislækni í héraðinu sem getur í krafti læknismenntunar, þekkingar á lögum, reglum og venjum og embættis úrskurðað þegar við á, tekið af skarið um ýmis vafaatriði og upplýst fólk um farveg og meðferð ýmissa mál. Hér má taka sem dæmi úrskurð um heilsuspillandi húsnæði, en slík mál eru oft unnin í samvinnu við heilbrigðiseftirlitið.
    Hægt er að nefna mörg önnur mál sem ekki koma oft til afgreiðslu en safnast saman í allstóran flokk fjölbreytilegra mála. Mest ber á kvörtunarmálum af ýmsu tagi. Þegar þau lúta að þjónustu er reynt að stuðla að umbótum, en kvartanir vegna meðferðar, mistaka og þess háttar eru fremur til meðferðar hjá landlækni.
    Héraðslæknir hefur að lögum skyldur til að sitja margs konar fundi og sinna á þann hátt stjórnunarhlutverki: Þar má nefna auk þess sem áður er komið fram Almannavarnanefnd Reykjavíkur og svæðisráð um málefni fatlaðra.
    Af einstökum rannsóknarverkefnum héraðslæknis má til dæmis nefna að í tuttugu ár hefur héraðslæknir fylgst með tóbaksnotkun grunnskólabarna í Reykjavík með því að spyrja hvert barn í sex árgöngum um notkunina og ýmislegt er hana varðar. Á þessu ári fór einmitt fram ein slík athugun sem sýndi ákveðnar breytingar (aukningu reykinga) meðal eldri pilta í grunnskólunum. Þessar athuganir hafa gefið mikilvægar vísbendingar um það hvar á að bera niður í tóbaksvarnastarfi og nýtast þeim aðilum sem vinna við tóbaksvarnir í heilbrigðiskerfinu og utan þess.
    Rétt er að ítreka að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða, en nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því að umfang allra þeirra mála sem hér hafa verið rakin og umfang heilbrigðisþjónustunnar í Reykjavík er ekki á nokkurn hátt sambærilegt við það sem er úti um land. Þá sækir fólk til Reykjavíkur sem á við margvísleg vandamál að stríða og í Reykjavík eru ýmis vandamál sem varla þekkjast víða úti um land.




Fylgiskjal II.


Greinargerð yfirlækna heilsugæslustöðvanna


um héraðslæknisembættið í Reykjavík.


(12. desember 1994.)



    Yfirlæknar heilsugæslustöðvanna í Reykjavík lýsa undrun sinni á því að ekki skuli gert ráð fyrir fjárveitingu til rekstrar embættis héraðslæknis í Reykjavík á árinu 1995 og að fyrirhugað sé að leggja embættið niður en fela landlækni að sinna verkefnum þess.
    Héraðslæknisembættið í Reykjavík (áður borgarlæknisembættið) hefur, þar til á yfirstandandi ári, um áratuga skeið haft á að skipa tveimur læknum í fullu starfi. Hafa þeir annast margvísleg læknisverk, sum vegna fyrirmæla í lögum en önnur af hagkvæmnisástæðum. Þá hefur héraðslæknir verið þátttakandi í stjórnsýslu Heilsugæslunnar í Reykjavík og ráðgefandi fagmaður á ýmsum sviðum í borginni. Það getur ekki verið heppilegt með hliðsjón af auknum kröfum um bætt stjórnskipulag, sem m.a. endurspeglast í endurskipulagningu dómskerfisins og lögum um stjórnsýslu, að fela landlækni, sem hefur eftirlit með heilbrigðiskerfinu og heilbrigðisstarfsmönnum, verkefni héraðslæknisins í Reykjavík. Á hinn bóginn verður að undirstrika að verði embætti héraðslæknis lagt niður að hluta til eða alveg leiðir það til þess að aukin verkefni lenda á heilsugæslulæknum, einkum yfirlæknum heilsugæslustöðvanna. Ekki verður séð að til þess séu fjárveitingar eða tími og hefur það reyndar verið gagnrýnt að yfirlæknar hafi hvorki stöðu né laun til að anna þeim verkefnum sem til þeirra er beint nú þegar. Hluti af verkefnum héraðslæknis mun einnig lenda á sjúkrahúsunum, en verkefni þeirra virðast nú ærin miðað við fjárveitingar. Loks verður að geta þess að með því að leggja héraðslæknisembættið niður verður að búast við því að allstór hópur fólks verði fyrir töfum og óþægindum í sambandi við afgreiðslu mála af því tagi sem héraðslæknirinn hefur annast til þessa.
    Yfirlæknar heilsugæslustöðvanna mótmæla því að embætti héraðslæknisins í Reykjavík verði lagt niður. Slík ráðstöfun mun leiða af sér kostnað, óhagræði og ýmiss konar óþægindi fyrir fólk og stofnanir í Reykjavík.


Fylgiskjal III.


Ályktun stjórnar heilsugæsluumdæmis Vesturbæjar.


(8. desember 1994.)



    Stjórn heilsugæsluumdæmis Vesturbæjar lýsir þungum áhyggjum sínum yfir þeirri stefnu stjórnvalda að þurrka út fjárveitingar til embættis héraðslæknisins í Reykjavík frá og með 1. janúar nk. eins og fram kemur í frumvarpi til fjárlaga árið 1995. Héraðslæknir sinnir fjölmörgum verkum í heilbrigðisþjónustunni, svo sem vegna geðsjúkra, drykkjusjúkra og fíkniefnaneytenda og vegna sóttvarna. Hann annast rannsóknir á dauðsföllum utan sjúkrahúsa og skyld mál auk þess sem hann veitir upplýsingar, umsögn og sker úr um ýmis málefni sem ekki er fyrirséð hverjir muni sinna framvegis.
    Stjórnin skorar á þingmenn Reykjavíkur og fjárlaganefnd Alþingis að koma í veg fyrir við afgreiðslu fjárlaga að það ófremdarástand skapist sem af þessu kann að hljótast.

Fylgiskjal IV.

Bókun stjórnar heilsugæsluumdæmis Miðbæjar.


(20. desember 1994.)



    Stjórn heilsugæsluumdæmis Miðbæjar lýsir áhyggjum sínum vegna þeirrar fyrirætlunar stjórnvalda að fella niður fjárveitingar til héraðslæknisembættisins í Reykjavík á næsta ári og leggja embættið niður.
    Héraðslæknirinn í Reykjavík sinnir sem kunnugt er ýmsum afar mikilvægum og sérhæfðum verkefnum. Stjórnin telur einsýnt að þessi verkefni verði bæði verr af hendi leyst og með meiri tilkostnaði ef þau verða á hendi margra aðila sem ýmist skortir sérþekkingu og/eða tíma til að sinna þeim.
    Stjórnin leggur áherslu á nauðsyn þess að kanna vandlega hvernig hagkvæmast sé að leysa fyrrgreind verkefni af hendi áður en tekin verður endanleg ákvörðun um breytingar.
    Stjórnin beinir þeim eindregnu tilmælum til þingmanna Reykjavíkur og fjárlaganefndar Alþingis að fallið verði frá þessum fyrirætlunum eða að þeim verði a.m.k. frestað.



Fylgiskjal V.

Bókun stjórnar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.


(27. desember 1994.)



    Með afgreiðslu fjárlaga hafa stjórnvöld ákveðið að ekki verði veitt fjármagn til starfsemi héraðslæknisembættisins í Reykjavík. Ekki hefur verið gengið tryggilega frá því með hvaða hætti hinum margvíslegu störfum, sem unnin hafa verið á vegum embættisins, verður sinnt.
    Stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur lýsir áhyggjum sínum vegna þessarar þróunar og leggur áherslu á mikilvægi þess að skilmerkilega verði frá því gengið hið fyrsta með hvaða hætti þessum störfum verði fyrir komið í framtíðinni. Stjórnin telur að þessi verkefni verði bæði verr af hendi leyst og með meiri tilkostnaði ef þau verða á hendi margra aðila sem ýmist skortir sérþekkingu og/eða tíma til að sinna þeim.


Fylgiskjal VI.

Ályktun borgarráðs.


(20. desember 1994.)



    Borgarráð samþykkir að mælast eindregið til þess við Alþingi að embætti héraðslæknis í Reykjavík verði ekki lagt niður frá og með 1. janúar nk. eins og fyrirhugað er í frumvarpi til fjárlaga árið 1995.
    Héraðslæknisembættið hefur mikilvægu hlutverki að gegna í heilbrigðisþjónustu við Reykvíkinga og ámælisvert að leggja embættið niður án nokkurs samráðs við borgaryfirvöld. Auk þess liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar eða ákvarðanir um á hvern hátt fjölmörgum verkefnum embættisins verði sinnt verði það lagt niður.