Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 138 . mál.


649. Nefndarálitum till. til þál. um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að kanna embættisfærslu umhverfisráðherra gagnvart starfsmönnum embættis veiðistjóra í tengslum við ákvörðun hans um flutning embættisins.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.    Það vakti eðlilega mikla athygli þegar stjórnarflokkarnir freistuðu þess að koma í veg fyrir að þessi þingsályktunartillaga fengi umfjöllun og athugun í þingnefnd. Það hefur verið viðtekið viðhorf alþingismanna til þessa að framkomin þingmál hljóti athugun þingnefndar sem geri tillögu til þingsins um afgreiðslu málsins. Sem betur fer mistókst þessi atlaga að þingvenjum og lýðræðislegum vinnubrögðum og málinu var vísað til nefndar.
    Þessi atburður vakti þó upp spurningar um viðhorf forustumanna stjórnarflokkanna til gagnrýni á störf sín og þá sérstaklega að þeir skyldu bregðast við á þann hátt að freista þess að beita meirihlutavaldi sínu til þess að þagga niður í gagnrýninni og reyna að koma í veg fyrir athugun á fyrirliggjandi gögnum málsins og í framhaldi af því að þingmenn legðu mat á þingsályktunartillöguna á grundvelli athugunar á vegum nefndarinnar. Sérstaklega áleitnar verða slíkar spurningar í ljósi þess að tillagan sjálf er flutt vegna grunsemda um að umhverfisráðherra hafi misbeitt valdi sínu. Þær grunsemdir vöknuðu við vinnu í umhverfisnefnd að svonefndu villidýrafrumvarpi á síðasta þingi.
    Þá fyrst kastaði hins vegar tólfunum þegar kom til þess að taka málið fyrir í þingnefndinni. Starfandi formaður nefndarinnar neitaði öllum óskum sem fram komu frá fjórum nefndarmönnum um boðun gesta til viðtals við nefndina um málið og enn fremur var synjað beiðnum um að aflað yrði tiltekinna gagna og þau síðan tekin fyrir í nefndinni. Málsmeðferð meiri hlutans að öðru leyti var með fádæmum. Umræður sem urðu mótuðust nær eingöngu af því að stjórnarliðar ætluðu sér að koma í veg fyrir að þingmálið yrði tekið til efnislegrar meðferðar og beittu síðan meiri hluta sínum til þess að afgreiða málið út úr nefndinni.
    Minni hlutinn fordæmir harðlega þetta ofbeldi í störfum nefndarinnar. Þess eru ekki dæmi á yfirstandandi kjörtímabili að komið hafi verið í veg fyrir að nefndin vinni störf sín á þinglegan hátt. Spurningin er: Hvers vegna mátti allsherjarnefnd ekki athuga þetta þingmál, ekki síst í ljósi þeirrar yfirlýsingar forustumanna Alþýðuflokksins sl. haust að flokkurinn hefði ekkert að fela?
    Þegar grunur leikur á því að valdi hafi verið misbeitt er eðlilegast af hálfu þess sem grunurinn beinist að að leggja sig fram um að eyða þeim grun, en í þessu máli hefur verið valin sú leið að reyna á öllum stigum málsins í meðförum þingsins að koma í veg fyrir að veittar yrðu upplýsingar. Það eru ekki traustvekjandi viðbrögð og hljóta þau að leiða til þeirrar ályktunar að rannsóknar sé sérstaklega þörf.
    Vegna þess sem að framan greinir er nauðsynlegt að draga fram eftirfarandi upplýsingar sem rökstyðja að óeðlilega hafi verið að málum staðið og kalla á að frekari athugun fari fram á embættisfærslu umhverfisráðherra.
    Vitað er að fljótlega eftir að Össur Skarphéðinsson tók við ráðuneyti umhverfismála á miðju ári 1993 lenti hann í harkalegum árekstrum við starfmenn stofnana umhverfisráðuneytisins. Er svo að sjá sem ráðherra hafi viljað hefta frelsi þeirra til að tjá sig, ýmist um málefni viðkomandi stofnana eða skyld svið.
    Þannig er á margra vitorði að ráðherra tók þáverandi framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs, Þórodd Þóroddsson, til bæna út af saklausu viðtali sem hann átti við Morgunblaðið og birtist 6. ágúst 1993 (sjá fskj. VI). Mun íhlutun ráðherrans hafa leitt til þess að Þóroddur sagði starfi sínu lausu þá um haustið.
    Hliðstætt atvik gerðist gagnvart starfsmanni veiðistjóraembættisins, Arnóri Þ. Sigfússyni fuglafræðingi, en frásögn af viðtali blaðamanns Tímans við Arnór birtist í Tímanum 23. desember 1993 undir fyrirsögninni „Rjúpnaveiðibann ráðherra spillir fyrir rannsóknum“ (sjá fskj. VII). Hringdi umhverfisráðherra eftir hádegi þennan dag í Arnór, minnti á að hann væri starfsmaður ráðuneytisins og sagði hann hafa farið „yfir grensuna“ í blaðaviðtalinu. Jafnframt tók ráðherra fram að þessu máli væri ekki lokið af sinni hálfu. Þetta upplýsti Arnór á fundi umhverfisnefndar Alþingis 15. apríl 1994.
    Fyrr þennan sama dag, upp úr hádegi á Þorláksmessu, 23. desember 1993, hringdi umhverfisráðherra í Pál Hersteinsson veiðistjóra og hafði uppi aðfinnslur út af viðtalinu við Arnór. Veiðistjóri bar það fyrir umhverfisnefnd Alþingis 15. apríl 1994 að hann hefði svarað ráðherra á þá leið að hann teldi þessar deilur vissulega óheppilegar. Rjúpur og rjúpnaveiði heyrði hins vegar ekki undir veiðistjóraembættið og ekki væri eðlilegt að hann legði hömlur á málfrelsi starfsmanns síns um slíkt efni þar sem hann tjáði sig sem meðlimur í Skotveiðifélagi Íslands á vettvangi félagsins. Þá mun ráðherra hafa sagt að sögn Páls Hersteinssonar á fyrrgreindum fundi umhverfisnefndar: „Þú stjórnar Arnóri. Ég stjórna þér. Þessi ráðherra er ekki hræddur við að berjast. Ég minni þig í þessu sambandi á framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs sem nú er fyrrverandi framkvæmdastjóri. Gleðileg jól.“
    Enn fremur kom það fram á áðurnefndum fundi umhverfisnefndar að ráðherra hafi ekki minnst einu orði á flutning veiðistjóraembættisins í þessum símtölum við starfsmennina. Í frásögn Morgunblaðsins 23. desember 1993 (sjá fskj. V) af heimsókn umhverfisráðherra til seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri deginum áður (22. desember 1993) var ekki minnst á flutning veiðistjóraembættisins norður, heldur hafði ráðherra þar talað um að flytja norður þá starfseiningu innan Skipulags ríkisins sem sér um mat á umhverfisáhrifum. Nýráðinn starfsmaður í það verkefni var Þóroddur Þóroddsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs!
    Hálfum mánuði síðar, 6. janúar 1994, var veiðistjóri boðaður á fund ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneyti og honum þar tilkynnt að ráðherra hefði ákveðið að flytja embættið norður til Akureyrar og færa starfsemina undir setur Náttúrufræðistofnunar Íslands þar. Hvorki stjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands eða forstöðumaður setursins á Akureyri hafði þá heyrt ávæning af því að slíkur flutningur stæði fyrir dyrum.
    Þessar upplýsingar og fleiri ótaldar, sem sjá má í fylgiskjölum og gögnum umhverfisnefndar Alþingis, tala sínu máli. Staðfesta þær að ákvörðun ráðherra um flutning embættisins virðist tekin í fljótræði og að lítt athuguðu máli án samráðs við þá sem málið varðaði. Inn í ákvörðun ráðherrans fléttast með afar óeðlilegum hætti árekstrar hans við starfsmenn veiðistjóraembættisins.
    Með vísan til þessa telur minni hlutinn óhjákvæmilegt að leggja til að tillagan verði samþykkt.
    Pétur Bjarnason áskilur sér rétt til þess að flytja breytingartillögu við málið eða styðja tillögur sem fram kunna að koma.

Alþingi, 13. febr. 1995.Kristinn H. Gunnarsson,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Pétur Bjarnason,


frsm.

með fyrirvara.Jón Helgason.Fylgiskjal I.

MINNISBLAÐ VEIÐISTJÓRA


Nokkrar dagsetningar tengdar ákvörðun um flutning veiðistjóraembættis.


(15. apríl 1994.)     10. nóvember 1993: Hádegisvettvangur umhverfisráðuneytis og forstöðumanna. Umræðuefni: Flutningur ríkisstofnana. Aldrei var minnst á embætti veiðistjóra og ekkert kom fram sem benti til þess að ráðherra væri hlynntur flutningi.
     22. desember 1993: Við undirritun samnings um rekstur seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri lýsir ráðherra því yfir að fleiri verkefni muni flytjast norður og nefnir í því sambandi sérstaklega umhverfismat.
     23. desember 1993: Ráðherra hringir í PH vegna annars máls og nefnir ekki flutning.
     6. janúar 1994: Veiðistjóri boðaður á fund ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneyti og honum tilkynnt að ráðherra hafi ákveðið að flytja embættið norður á Akureyri og færa starfsemina undir setrið. Ástæðan sögð byggðastefna og hagræðing. Ráðuneytisstjóri telur litlar líkur á að ákvörðun verði breytt. PH biður um leyfi til þess að skila greinargerð um málið. Leyfið veitt.
     7. janúar 1994: Samtal við skrifstofustjóra umhverfisdeildar ráðuneytisins þar sem fram kemur að ráðherra hafi tilkynnt fyrirhugaðan flutning á ríkisstjórnarfundi og ekki verði aftur snúið.
     7. janúar 1994: PH hringir í forstöðumann seturs NÍ á Akureyri til þess að forvitnast um aðstæður á stofnuninni. Forstöðumaður kemur af fjöllum og ekkert rými talið laust á stofnuninni.
     10. janúar 1994: Veiðistjóri afhendir ráðuneytisstjóra greinargerð sína um flutninginn.
     10. janúar 1994: Aðstoðarmaður ráðherra hefur samband við skógræktarstjóra og spyr hvort eitthvað sé til skriflegt um flutning Skógræktar ríkisins. Fær sendar þrjár blaðsíður sem skógræktarstjóri hafði skrifað að beiðni nefndar undir forsæti Þorvaldar Garðars Kristjánssonar (upplýsingar samkvæmt samtali veiðistjóra við skógræktarstjóra 28. janúar 1994).
     14. janúar 1994: Umhverfisráðherra fer fram á úttekt á embætti veiðistjóra og „tillögum“ um samruna þess við NÍ.
     19. janúar 1994: Ráðherra tilkynnir á blaðamannafundi á Akureyri að veiðistjóraembætti flytjist norður.
     24. janúar 1994: Þrír starfsmenn ráðuneytisins koma á fund starfsmanna embættisins til þess að ræða afstöðu starfsmanna til flutnings.
     16. mars 1994: Ráðuneytið fer bréflega fram á að „villidýrafrumvarpi“ verði breytt. Veiðistjóri ekki látinn vita af þeirri beiðni.
     12. apríl 1994: Úttekt á embætti veiðistjóra send umhverfisnefnd Alþingis.

Fylgiskjal II.


Bréf Páls Hersteinssonar veiðistjóra til umhverfisráðuneytis um


flutning veiðistjóraembættis frá Reykjavík til Akureyrar.


(10. janúar 1994.)    Undirrituðum var tilkynnt fimmtudaginn 6. janúar 1994 að umhverfisráðherra hefði ákveðið að embætti veiðistjóra yrði flutt frá Reykjavík til Akureyrar og að flutningurinn skuli eiga sér stað fyrir árslok.
    Í ljósi þess að ákvörðunin virðist eiga sér stuttan aðdraganda og að ekki hafði verið leitað álits undirritaðs eða annarra starfsmanna embættisins áður en hún var tekin þykir mér rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til hennar.
    Í stuttu máli tel ég flutning þennan óheppilegan fyrir þá starfsemi sem fram fer hjá embættinu eins og nánar er getið hér að neðan og í greinargerð.
    Í fyrsta lagi mun hann koma niður á þeim rannsóknum sem fram fara á vegum embættisins, bæði þeim sem það stendur fyrir eitt og þeim sem það er í samvinnu um við aðrar stofnanir. Sum þessara verkefna munu vafalaust leggjast af en önnur mun taka mörg ár að byggja upp á ný.
    Í öðru lagi mun flutningurinn hafa neikvæð áhrif á þá þjónustu sem embættið veitir veiðimönnum, bændum, öðrum hagsmunaaðilum og sveitarfélögum.
    Í þriðja lagi er ólíklegt að nokkur hagræðing yrði af veru embættisins í nábýli við setur Náttúrufræðistofnunar á Akureyri, jafnvel þótt verkefni þess yrðu alveg lögð undir setrið og veiðistjóraembættið lagt niður.
    Í fjórða lagi mun flutningnum fylgja nokkur kostnaður sem hægt væri að komast hjá ef embættið yrði um kyrrt í Reykjavík.
    Í fimmta lagi mun flutningurinn hafa í för með sér mikla röskun fyrir starfsmenn embættisins sem sennilega munu allir láta af störfum. Sú sérþekking, reynsla og sambönd sem starfsmenn hafa aflað nýtist ekki fyrir starfsemina og sú hætta er fyrir hendi að langur tími líði áður en nýir starfsmenn koma henni á skrið á ný.
    Nánar er fjallað um einstaka þætti í meðfylgjandi greinargerð.

Virðingarfyllst,Páll Hersteinsson, veiðistjóri.(Repró, 12 síður.)
Fylgiskjal III.


Úr skýrslu um embætti veiðistjóra.


(Unnin fyrir umhverfisráðherra í apríl 1994.)(Repró, 11 síður.)


Fylgiskjal IV.


Forsætisráðuneytið:

Úr nefndaráliti og tillögum nefndar um flutning ríkisstofnana.


(Júlí 1993.)
(Repró, 10 síður.)


Fylgiskjal V.

Heimsókn umhverfisráðherra til seturs


Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri.


(Morgunblaðið 23. desember 1993.)    Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra og Halldór Jónsson, bæjarstjóri á Akureyri, skrifuðu í gær undir samning þess efnis að Náttúrufræðistofnun Íslands taki við rekstri Náttúrufræðistofnunar Norðurlands sem varð við undirskrif samningsins að setri Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri.
    Halldór Jónsson bæjarstjóri rakti sögu Náttúrufræðistofnunar sem á rætur 60 ár aftur í tímann og gerði grein fyrir þeim sem veittu henni forstöðu. Kostnaður við reksturinn hefur fram til þessa verið greiddur af Akureyrarbæ, en Halldór vænti þess að gott mundi leiða af flutningi yfir til ríkisins, starfsemin aukast og eflast og verða lyftistöng náttúrufræðirannsóknum á Norðurlandi.

Eflir bæjarfélagið.
    Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra sagði þetta fyrsta setur Náttúrufræðistofnunar Íslands utan Reykjavíkur, en það hefði áfram það hlutverk að sinna náttúrufræðirannsóknum og þá nefndi hann að í framhaldi af þessum áfanga væri ekki úr vegi að færa stofnuninni fleiri verkefni og nefndi hann umhverfismat í því sambandi. Össur sagðist vænta þess að þetta mundi efla bæði stofnunina og bæjarfélagið, væri nokkurs konar stökkbretti inn í framtíðina.
    „Nú er að rætast draumur sem mig dreymdi í vöku fyrir 60–70 árum og ég fagna nú á tíræðisaldri,“ sagði Steindór Steindórsson, fyrrverandi skólameistari, sem kvaðst tala við athöfnina í krafti þess að hann væri elsti og langlífasti náttúrufræðingur landsins.Fylgiskjal VI.


Hugmyndir um stærri friðlönd og þjóðgarða.


(Morgunblaðið 6. ágúst 1993.)    Náttúruverndarráð vinnur nú frumkönnun á því hvort komi til greina að stækka einstaka þjóðgarða eða einstök friðlönd. Þóroddur Þóroddsson, framkvæmdastjóri ráðsins, segir þessa hugmyndavinnu skammt á veg komna og bendir á að í ýmsum tilvikum séu ekki hafnar viðræður við landeigendur. Þóroddur nefndi hugmyndir um stækkun þjóðgarðsins í Jökulsárglúfrum en sú stækkun fæli í sér að austurbakki gljúfranna tilheyrði þjóðgarðinum. Einnig segir hann að rætt sé um að stækka þjóðgarðinn í Skaftafelli og að stofna friðlönd vestast á Snæfellsnesi, á miðhálendinu og að fjallabaki frá Heklu að Laka.
    „Með því að friðlýsa svæði gefst tækifæri til að setja ákveðnari reglur um umgengni, mannvirkjagerð og umferð um viðkomandi svæði. Við getum því haft aukin áhrif á það hversu langt megi ganga í framkvæmdum,“ sagði Þóroddur.
    Hann sagði að Náttúruverndarráð ynni nú fyrstu drög að hugmyndum um stækkun þjóðgarða eða friðlanda. „Það er áhugi á því að fjölga friðlýstum svæðum en síðustu ár höfum við ekki lagt í að friðlýsa fleiri svæði þar sem við eigum fullt í fangi með að sinna eftirliti á þeim svæðum sem þegar eru friðlýst.“ Hann sagði að því ylli tvennt. Annars vegar skorti fjármagn til starfseminnar og hins vegar fælist starf ráðsins æ meira í ráðgjöf og umsögnum vegna mannvirkjagerðar. „Við höfum viljað breyta þessu og leggja ríkari áherslu á eftirlit, upplýsingasöfnun og aðgerðir sem nauðsynlegar eru til verndunar á hverju svæði.“

Jökulsárgljúfur og Skaftafell.
    Þóroddur skýrði frá því að kynnt hefði verið sú stefna Náttúruverndarráðs að stækka þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum. „Okkar áhugi beinist helst að austurbakka Jökulsár á Fjöllum og ef af stækkun yrði bættist við garðinn landræma meðfram jökulánni. Hann segir að eðlilegt sé að fossarnir, Dettifoss og Selfoss, séu friðlýstir að öllu leyti en ekki aðeins vesturhlutinn og margar náttúruperlur séu nú austan árinnar svo sem Forvöðin.
    Einnig hefur lítillega verið rætt um að stækka þjóðgarðinn í Skaftafelli að sögn Þórodds. Sú stækkun fælist í því að hafa Öræfajökul og nágrenni hans inni í garðinum. Hann segir umferð á jöklinum mjög mikla og telur að ástæða sé til að kanna hvort hafa þurfi eftirlit með þeirri umferð.

Friðlönd stækkuð.
    Þóroddur segir að umræða spinnist oft um stofnun friðlanda hér og þar á landinu. Dæmi um hugmyndir, sem nú séu ræddar, séu stofnun friðlands vestast á Snæfellsnesi og tengingu og stækkun friðlanda og náttúruminja á miðhálendinu og á svæðinu að fjallabaki. Hann leggur aftur á móti ríka áherslu á að þessi áform séu enn á hugmyndastigi og að eftir eigi að ræða málið við landeigendur.
    Á miðhálendinu kemur til greina að mati Þórodds að stofna friðland sem tengi saman náttúruminjar frá Hvítárvatni við Langjökul í vestri, norður til Hveravalla og nái yfir Kerlingarfjöll, Þjórsárver allt að Tungnafellsjökli í austri. Á sama hátt mætti hugsa sér að stækka friðland að fjallabaki verulega og láta það jafnvel ná yfir Heklu, Þórsmörk, Kötlu og Eldgjá eða ganga enn lengra og hafa Lakagíga og Veiðivötn einnig innan þess. Hann segir þó mörgum spurningum enn ósvarað, svo sem hvort stækkun sé hagkvæm frá verndunarsjónarmiði auk þess sem eftir eigi að að ræða við landeigendur.

Samstarf mikilvægt.
    Hann segir að Náttúruverndarráð muni setja kraft í að vinna að þessum hugmyndum í haust og næsta vetur. „Það er mjög mikilvægt,“ sagði Þóroddur, „að öll verndun og allt eftirlit með friðlýstum svæðum sé rækt í góðu samstarfi við íbúa og landeigendur viðkomandi svæða. Samstarfið er víða allt of lítið núna og fjarri því að vera nógu víðtækt. Til dæmis þarf að fjölga heimsóknum á svæðin verulega og um þessar mundir er einn starfsmaður ráðsins á ferð um landið til þess að skoða svæðin, lagfæra merkingar og hitta landeigendur.“

Fylgiskjal VII.


Rjúpnaveiðibann ráðherra spillir fyrir rannsóknum.


(Tíminn 23. desember 1994.)    Arnór Þ. Sigfússon, fuglafræðingur og formaður Skotveiðifélags Íslands, segir að ákvörðun umhverfisráðherra um styttri rjúpnaveiðitíma komi niður á þeim litlu rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar á rjúpnastofninum. Hann segir að gögnin, sem ákvörðunin byggist á, sýni að stofnlægðin sé ekkert meiri en hún hefur verið.
    Rjúpur seldust upp í flestum verslunum í byrjun þessarar viku. Samkvæmt könnun Skotveiðifélags Íslands borðuðu landsmenn um 100 þúsund rjúpur fyrir síðustu jól og bendir flest til þess að neyslan verði svipuð fyrir þessi jól. Skotveiðimenn eru flestir sammála um að jafnmikið hafi veiðst af rjúpu í haust og í fyrra.
    Rjúpnaveiðimenn eru sem kunnugt er mjög ósáttir við veiðibann umhverfisráðherra. Arnór Sigfússon telur að auglýsing ráðherra um styttri rjúpnaveiðitíma sé lögleg þótt deila megi um ýmislegt í sambandi við hana. Þar vitnar hann í lögfræðiálit sem fékkst frá umhverfisráðuneytinu. Þar segir: „Ekki má vera um handahófs- eða tilviljunarkennda ákvörðun að ræða. Jafnframt verður ákvörðunin að styðjast við einhver efnislegri rök, t.d. rannsóknir eða þess háttar.“
    Þarna telur Arnór að ráðuneytið hafi brugðist. „Þær rannsóknir, sem fram hafa farið á rjúpunni, eru aðallega talningar á svæðum sem gefa svokallaða stofnvísitölu. Það sem þær hafa leitt í ljós er að rjúpustofninn sveiflast til á tíu ára fresti. Séu gögnin skoðuð er lægðin nú ekkert meiri en hún hefur verið áður. Þetta er ekkert söguleg lægð. Rjúpan hefur farið upp þrátt fyrir þetta,“ segir Arnór.
    Það er fleira sem hann hefur við þessa aðgerð ráðuneytisins að athuga. „Þessi aðgerð kemur niður á þeim litlu rannsóknum sem þegar hafa verið gerðar því að henni er ekkert fylgt eftir með rannsókn. Það er útilokað að segja fyrir um hvaða áhrif þessi stytting hefur þar sem þetta er gert án þess að nokkrar rannsóknir fylgi. Við stöndum því raunar jafnilla á eftir,“ segir Arnór.
    Þá bendir hann á að ekkert samráð hafi verið haft við stjórn Skotveiðifélagsins. Hann vitnar m.a. til þess að aðeins viku áður en ráðherra auglýsti bannið hafi stjórn Skotveiðifélagsins mætt til að heilsa upp á nýjan ráðherra sem ekkert lét uppi um fyrirhugað bann.
    Í fyrra keypti Skotveiðifélagið spurningu í skoðanakönnun. Þar kom fram að rjúpnaneyslan um síðustu jól var um 100 þúsund rjúpur. Arnór telur að sá fjöldi sé nálægt því sem veitt er árlega.
    Arnór segir að þó að sama spurning væri lögð fyrir landsmenn nú og sýndi að minna væri neytt af rjúpu væri ekkert vitað um hvað orsakaði það, þ.e. hvort það væri vegna styttri rjúpnaveiðitíma eða minni stofnstærðar.
    Þá bendir hann á að komi í ljós við talningu næsta vor að rjúpnastofninn sé stærri en hann var sé ekkert hægt að segja um hvers vegna.
    Hann segir að margir veiðimenn hafi aðlagað sig banninu með því að veiða meira. „Það er ekkert víst að veiðin sem slík minnki,“ segir Arnór.
    Í byrjun júní sl. var búið að telja rjúpu á ákveðnum svæðum. „Hefðu menn þá haft einhverjar efasemdir um rjúpnastofninn hefði þeim verið í lófa lagið að kalla saman einhverja sérfræðinga til að fara yfir öll fyrirliggjandi gögn og jafnvel afla fleiri gagna í sumar. Þá hefði verið hægt að taka ákvarðanir út frá því og það hefðu skotveiðimenn sætt sig við,“ segir Arnór.
    „Við höfum ekkert á móti því að friða rjúpu ef þörf er á því. Okkur fannst verulega ábótavant hvernig að þessu var staðið,“ bætir hann við og vitnar til þess að fuglafriðunarnefnd hafi gert tillögu í skyndi um að stytta veiðitímann. Hann segir að engin greinargerð hafi fylgt þessari tillögu. „Þetta eru vinnubrögð sem eru gagnrýnisverð,“ segir Arnór.