Ferill 126. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 126 . mál.


676. Tillaga til rökstuddrar dagskrár



í málinu: Frv. til l. um grunnskóla.

Frá Valgerði Sverrisdóttur, Svavari Gestssyni,


Kristínu Ástgeirsdóttur og Jóni Kristjánssyni.



    Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna er viðkvæmt mál og vandmeðfarið. Það verður aldrei til lykta leitt nema í góðri samvinnu við sveitarfélögin og samtök kennara. Þessir aðilar hafa lýst sig samþykka tilfærslunni með ákveðnum fyrirvörum.
    Fyrirvarar Sambands íslenskra sveitarfélaga voru samþykktir á XV. landsþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri 31. ágúst til 2. september 1994. Þeir eru eftirfarandi:
     1 .     Að fullt samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga varðandi flutning verkefna og tekjustofna til sveitarfélaganna til að standa undir öllum þeim aukna kostnaði er yfirtökunni fylgir þannig að grunnskólanám allra barna í landinu verði tryggt.
     2 .     Vanda sveitarfélaga, sem yfirtaka hlutfallslega háan grunnskólakostnað miðað við tekjur, verði mætt með jöfnunaraðgerðum.
     3 .     Að fullt samkomulag náist milli ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga kennara um kjara- og réttindamál kennara, þar með talin meðferð lífeyrisréttinda.
Niðurstaða þarf að hafa náðst í þessum málum fyrir áramót svo að yfirtaka sveitarfélaga geti átt sér stað á næsta ári.
    Kennarafélögin ítreka ályktun 7. fulltrúaþings Kennarasambands Íslands, haldið í apríl 1994, vegna fyrirhugaðs flutnings þar sem þess er krafist að a.m.k. einu ári áður en til hans komi verði ríki og sveitarfélög búin að tryggja:
     1 .     fjárveitingar til sveitarfélaga þannig að þau geti staðið undir kostnaði af skólastarfi grunnskóla í samræmi við núgildandi grunnskólalög — án þeirra ákvæða um skerðingu sem nú eru í gildi, auk þess að tryggja fjármagn til frekari þróunar grunnskólans,
     2 .     að ekki dragi úr stoðkerfi skólanna, svo sem starfsemi fræðsluskrifstofa, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, starfsemi Námsgagnastofnunar og tilboðum um endurmenntun fyrir kenn ara,
     3 .     öruggan rekstrargrundvöll sérskólanna með tilliti til þess að nemendur geti notið allrar nauðsynlegrar þjónustu, óháð búsetu,
     4 .     öll samningsbundin og lögbundin réttindi kennarastéttarinnar og að einn viðsemjandi fari með samningsumboð fyrir öll sveitarfélögin sameiginlega.
    Eins og staða mála er nú hefur þeim fyrirvörum sem hér um ræðir ekki verið fullnægt. Þessir aðilar eru því andvígir því að lög um grunnskóla séu samþykkt frá Alþingi eins og málið lítur út við 2. umræðu.
    Með vísan til framanritaðs og þess að málið hefur ekki fengið fullnægjandi umfjöllun af hálfu menntamálanefndar telur Alþingi rétt að vísa málinu frá og tekur fyrir næsta mál á dag skrá.