Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 314 . mál.


705. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vegalögum, nr. 45/1994.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Helga Hallgrímsson vegamálastjóra, Jón Rögnvaldsson aðstoðarvegamálastjóra og Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóra stjórn sýslusviðs Vegagerðarinnar.
    Nefndin telur að frumvarpið sé til bóta og til samræmis við það sem um hafði verið rætt við afgreiðslu nýrra vegalaga, nr. 45/1994. Hins vegar urður miklar umræður í nefndinni um tengsl 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins við 56. gr. vegalaga, nr. 45/1994, sem er svohljóðandi:
    „ Lausaganga búfjár á vegsvæðum stofnvega og tengivega þar sem girt er báðum megin vegar er bönnuð. Vegagerðinni er heimilt að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eig enda.“
    Þar sem lausaganga búfjár er bönnuð, sbr. 56. gr. vegalaga, vaknar ávallt spurning um hver beri ábyrgð á tjóni sem hlýst af því að ekið er á búfé.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að allnokkrir dómar hafa fallið um ábyrgð á tjóni er hlotist hefur af lausagöngu búfjár. Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. nóvember 1992 voru eigandi ökutækis og tryggingafélag hans sýknuð af kröfum bónda um bætur fyrir hross er ekið var á. Lausaganga búfjár var bönnuð á því svæði þar sem slysið varð en bóndinn var talinn meðvaldur af því að hrossið hafði sloppið út. Dómur þessi olli nokkrum titringi meðal sumra sveitarfélaga er höfðu auglýst bann við lausagöngu búfjár á grundvelli heimildar í búfjárræktarlögum. Þetta gekk svo langt að sveitarstjórn Ásahrepps í Rangárvallasýslu felldi brott áður auglýst bann við lausagöngu hrossa í hreppnum. 18. janúar 1993 felldi héraðsdómur Reykjavíkur aftur dóm í máli þar sem ekið var á hross. Ekki var í gildi sérstakt bann við lausagöngu búfjár á þeim stað þar sem áreksturinn varð. Hins vegar var um stóðhest að ræða en samkvæmt þágildandi búfjár ræktarlögum var óheimilt að láta stóðhesta ganga lausa í heimahögum og á afrétti. Héraðsdóm urinn mat bóndanum það til gáleysis að hestur hans skyldi sleppa út um opið hlið og taldi hann því engan bótarétt eiga í málinu. Málinu var áfrýjað og í dómi Hæstaréttar, sem féll 16. febrúar sl. (sjá fskj.), var hins vegar ekki talið sannað að orsök þess að hesturinn slapp út hafi verið gá leysi bóndans og eigandi bifreiðarinnar og tryggingafélag hans því dæmd in solidum til að greiða bóndanum tjón hans að fullu. Ætla má að þessi hæstaréttardómur eigi eftir að hafa ein hver áhrif við ákvörðun bóta í sambærilegum málum í framtíðinni, m.a. á svæðum þar sem lausaganga búfjár er bönnuð. Á það skal bent að miklum fjölda slíkra mála er lokið hjá trygg ingafélögunum á hverju ári og virðist sem sök sé þar gjarnan skipt milli eiganda bifreiðar og viðkomandi bónda þegar um bann við lausagöngu hefur verið að ræða.
    Ljóst er að löggjafinn getur sjaldnast séð fullkomlega fyrir hver reynslan verður af tiltekinni lagasetningu. Það á einnig við hér. Nefndin telur hins vegar mjög brýnt að koma skikki á girð ingamálin sem fyrst. Þá skal bent á að í tengslum við þetta mál leitaði formaður nefndarinnar upplýsinga um kostnað við ábyrgðartryggingar fyrir bændur er taka til tjóns á búfé. Samkvæmt lauslegri könnun virðist sá kostnaður liggja á bilinu 6.500–11.000 kr. á ári. Slíkar tryggingar bæta bændum allt tjón er búfénaður þeirra veldur öðrum.
    Sameinuð bændasamtök sendu nefndinni umsögn um málið þar sem fram kom sú krafa þeirra að í 1. gr. frumvarpsins yrði kveðið á um skyldu veghaldara til að girða með stofn- og tengivegum og halda þeim girðingum við á sinn kostnað. Þá kom einnig fram krafa um að á þeim stöðum þar sem girt er eingöngu til að fría vegsvæði frá búfé, sbr. 2. efn ismgr. 3. gr. frumvarpsins, hljóti veghaldari ávallt að greiða allan viðhaldskostnað en ekki bara á afréttum og öðrum sameiginlegum beitilöndum búfjár. Loks bentu sameinuð bændasamtök á nauðsyn þess að skilgreina hugtakið „lokað vegsvæði“ sem fram kemur í 56. gr. vegalaga betur þannig að tekið væri af skarið um að vegsvæði teldist ekki lok að þegar náttúrufarslegar ástæður eða óhöpp af einhverju tagi gerðu girðingar óvirkar.
    Nefndin telur að með frumvarpinu hafi verið stigið verulegt skref í þá átt að leggja skyldur á veghaldara í sambandi við viðhald girðinga. Nefndin telur ekki ástæðu til að breyta 56. gr. vegalaga í tengslum við afgreiðslu þessa frumvarps enda mikils um vert að reyna að afstýra lausagöngu búfjár á vegsvæðum. Hins vegar vill nefndin að gefnu til efni taka fram að hún lítur svo á að taka beri tillit til óviðráðanlegra aðstæðna, svo sem snjóalaga, við mat á ábyrgð á lausagöngu búfjár um vegsvæði, sbr. 56. gr vegalaga.
    Að síðustu skal bent á að þótt ákvæði 2. efnismgr. 3. gr. frumvarpsins geri ráð fyr ir að viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veg haldara og landeiganda hefur Vegagerðin ávallt bætt að fullu það tjón er starfsmenn henn ar valda á girðingum við snjómokstur eða á annan hátt.
    Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og treystir sér ekki til að ganga lengra við afgreiðslu þess.
    Egill Jónsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu máls ins.

Alþingi, 20. febr. 1995.



    Pálmi Jónsson,     Stefán Guðmundsson.     Jóhann Ársælsson.
    form., frsm.          

    Sturla Böðvarsson.     Guðni Ágústsson.     Árni M. Mathiesen.

Petrína Baldursdóttir.




Fylgiskjal.


Hæstaréttardómur í máli Sigurðar Vignis Matthíasson gegn


Guðmundi Guðjónssyni og Sjóvá-Almennum tryggingum hf.


(16. febrúar 1995.)



    Mál þetta dæma Gunnlaugur Claessen hæstaréttardómari, Arnljótur Björnsson, sett ur hæstaréttardómari, og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.
    Af hálfu áfrýjanda var máli þessu skotið til Hæstaréttar með stefnu 5. mars 1993. Áfrýjandi varð fjárráða eftir útgáfu áfrýjunarstefnu og fer sjálfur með mál sitt fyrir Hæstarétti. Hann krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér óskipt 480.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum eftir vaxtalögum, nr. 25/1987, frá 30. janúar 1992 til greiðsludags. Einnig krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
    Stefndu gera þær kröfur aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Til vara er krafist „að sök verði skipt og bætur lækkaðar mjög verulega“. Stefndu krefjast og máls kostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjanda.

I.


    Ekki er deilt um í málinu að tjón áfrýjanda hlaust af notkun bifreiðar stefnda, Guð mundar Guðjónssonar. Hvílir skaðabótaábyrgð því á honum eftir 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987.
    Málsaðilar leggja til grundvallar að orsök þess að hestur áfrýjanda slapp úr sérstöku hólfi hafi verið sú að hlið á girðingunni hafi verið skilið eftir opið. Ekki er ljóst hvers vegna svo var, en ekkert hefur komið fram um að áfrýjandi hafi átt þar hlut að máli. Verður því ekki fallist á það álit héraðsdómara að meta verði áfrýjanda það til gáleysis að hesturinn komst úr hólfinu, sbr. 3. mgr. 88. gr. umferðarlaga.
    Fyrir umferðarslysið var hestur áfrýjanda í vörslum Félags búfjáreigenda á Eyrar bakka, en félagið hafði samningsbundin afnot af beitarlandi á tilteknum jörðum í eigu Eyr arbakkahrepps. Var hesturinn í hagagöngu hjá félaginu. Eftir málsgögnum verður að leggja til grundvallar að tengsl áfrýjanda og félagsins hafi ekki verið með þeim hætti að hann verði að þola skerðingu eða brottfall bótaréttar á hendur stefnda Guðmundi vegna atvika sem félagið kann að bera ábyrgð á. Þarf því hvorki að skera úr um hvort rekja megi brott hlaup hests áfrýjanda til vangæslu vörslumanna né þess að félagið hafi haldið hrossum til beitar í andstöðu við ákvæði þágildandi reglugerðar nr. 425/1985 um búfjárhald á Eyr arbakka.
    Í búfjárræktarlögum, nr. 31/1973, sem í gildi voru á þeim tíma er hér um ræðir, voru lagðar ríkari skyldur á eigendur stóðhesta en búfjáreigendur almennt, sbr. einkum 31. gr. og 33. gr. laganna. Lagaákvæði þessi styðjast m.a. við þau rök að af stóðhestum stafi meiri hætta en almennt gerist um búfé. Ekki verður talið að orsök þess að hestur áfrýj anda varð fyrir bifreið stefnda Guðmundar tengist þeirri sérstöku hættu sem fylgir því að halda stóðhesta. Atvik í þessu máli gefa því ekki tilefni til að láta bótaákvæði 33. gr. laga nr. 31/1973 hafa áhrif þegar metið er hvort telja beri áfrýjanda meðábyrgan.
    Þegar litið er til þess, sem nú var rakið, þykja ekki vera rök til þess að skipta ábyrgð á tjóni áfrýjanda.


II.


    Samkvæmt framangreindu ber að dæma stefnda, Guðmund Guðjónsson, bótaskyldan vegna tjóns áfrýjanda og taka til greina bótakröfu hans að fjárhæð 480.000 krónur ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði. Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er greiðslu skyldur skv. 91. gr. og 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 97. gr. sömu laga. Rétt þykir að stefndu greiði áfrýjanda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyr ir Hæstarétti.

D ó m s o r ð :


    Stefndu, Guðmundur Guðjónsson og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði áfrýjanda, Sigurði Vigni Matthíassyni, óskipt 480.000 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, frá 30. janúar 1992 til greiðsludags.
    Stefndu greiði áfrýjanda óskipt 350.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyr ir Hæstarétti.