Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 21:21:20 (26)


[21:21]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Herra forseti. Með stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem einkennist af frjálshyggju og einkavæðingaráformum hefur Framsfl. tekið ofan grímuna. Við blasa hægri úrlausnir í stað félagshyggjuúrlausna sem flokkurinn boðaði fyrir kosningar. Þau öfl sem vilja mynda öflugt bandalag gegn ofurvaldi frjálshyggjunnar hljóta að vara sig á þeim tvískinnungi sem birtist í því hvernig Framsfl. breytir sinni pólitísku hugmyndafræði og stefnumálum eftir því hvernig vindar blása fyrir og eftir kosningar.
    Rökrétt niðurstaða kosninganna var ekki hin gamalkunna helmingaskiptastjórn Framsóknar og Sjálfstfl. eins og forsrh. heldur fram. Rökrétt niðurstaða kosninganna var að svara kalli þjóðarinnar um hvernig taka eigi á misskiptingunni í kjörum landsmanna sem ríkisstjórnin gerir ekki í sinni stefnuyfirlýsingu. Hvaða leiðir á að fara til að taka á ónýtu launakerfi og misréttinu í launamálum kynjanna? Það minnir að vísu á orð hæstv. forsrh. sem skilja má svo að í jafnréttismálum sé nægjanlegt að taka á launajafnrétti kynjanna, en óþarfi sé að tryggja konum valdajafnvægi í þjóðfélaginu á við karla sem ég tel harðan áfellisdóm á stefnu sjálfstæðismanna í jafnréttismálum. Hitt er aftur á móti satt og rétt hjá hæstv. forsrh. að fólkið í landinu veit aldrei hvaða ríkisstjórn það er að kjósa yfir sig að loknum kosningum. Fólk veit svona álíka mikið um það og hvort það fær vinning í happdrætti líkt og við í Þjóðvaka vöruðum við fyrir kosningar.
    Það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn er fyrst og fremst mynduð um ráðherrastóla en ekki málefni. Megináherslan í stefnuyfirlýsingunni er lögð á velferðarkerfi fyrirtækja og fjármagnseigenda án þess þó að boðaðar séu neinar markvissar aðgerðir til að skapa þau 12.000 störf sem Framsfl. lofaði á kjörtímabilinu. Nei, þvert á móti má lesa út úr orðum hæstv. forsrh. hér áðan niðurskurð fyrst og fremst á velferðarkerfi fólksins. Hvergi í stjórnarsáttmálanum er minnst á þá 4--5 milljarða sem Framsfl. taldi nauðsynlegt að verja til lífskjarajöfnunar, nýsköpunar í atvinnulífinu og aukinna framlaga til menntamála. Framsóknarmenn töldu á síðasta þingi og í kosningabaráttunni að enga bið mundi þola að taka á skuldastöðu heimilanna, koma á greiðsluaðlögun og fjármagnstekjuskatti og draga úr skattálögum á fólk með hækkun á skattleysismörkum og vaxta- og barnabótum. Þetta má nú bíða.
    Engu að síður er full ástæða til að fagna loforði hæstv. félmrh. um að lánshlutfall í húsbréfakerfinu verði hækkað í 75% eins og við í Þjóðvaka boðuðum þó að vissulega séu á því þeir annmarkar eins og hann sjálfur benti á að ráðherrann á eftir að ræða við Seðlabankann og láta fjmrh. vita af þessum áformum sem kostar 1--1,5 milljarða í aukinni útgáfu húsbréfa. Það er líka ánægjulegt að hæstv. ráðherra hefur áttað sig á því að sú stefna framsóknarmanna að lengja húsbréfalánin og flytja húsbréfakerfið til bankanna er varhugaverð og ekki sú búbót fyrir fólk sem þeir boðuðu fyrir kosningar þó að ágreiningur sé að vísu um það milli félmrh. og viðskrh. og heiðarlegra hefði verið að gera fólki grein fyrir þessari afstöðu í kosningabaráttunni. En stundum geta orð ráðherra orðið að efnahagsvandamáli og það gæti sannast á hæstv. félmrh. Yfirlýsingar hans um húsnæðismálin geta haft mjög óæskileg áhrif á fasteigna- og vaxtamarkaðinn ef fólk fer nú í biðröð eftir því að ráðherrann standi við yfirlýsingar sínar og fólk fari almennt að fresta sínum fasteignaviðskiptum þar til þessi loforð hans verða efnd. Slíkt gæti hæglega komið í bakið á fólki og skrúfað upp vexti og afföll.
    Ný vaxtaskriða sem farin er af stað getur orðið býsna alvarleg fyrir atvinnulífið og ekki síst fyrir heimilin í landinu sem aukið hafa skuldir sínar um 29 milljarða á 12 mánuðum á sama tíma og atvinnulífið hefur dregið saman sínar skuldir um 9 milljarða kr. Það er staðreynd að mörg heimili í landinu búa við sára fátækt og aðgerðir ríkisvaldsins að undanförnu hafa ekki gengið í þá átt að jafna tekjuskiptinguna og brúa bilið milli ríkra og fátækra í þjóðfélaginu sem virðist sífellt fara vaxandi. Ekkert bendir til þess að þessi ríkisstjórn jafni kjörin í landinu eða taki á því efnahagslega misrétti sem hvarvetna blasir við.
    Það sýnir líka vel í hvílíkt öngstræti launamálin eru komin þegar lægstu launin samsvara varla atvinnuleysisbótum þannig að það borgar sig ekki að vinna. Þörf er á gífurlegum millifærslum í gegnum skattkerfið til að auka ráðstöfunartekjur láglaunafólks sem m.a. hefur leitt til þess að háir jaðarskattar eru nú orðnir vinnuletjandi. Hið opinbera greiðir í raun umtalsverðan hluta af ráðstöfunartekjum fólks sem segja má að sé niðurgreiðsla á launum fyrir atvinnureksturinn í landinu.
    Lágu launin eru ekki bara vanvirða við þær þúsundir fjölskyldna sem við þau þurfa að búa, heldur eru þau einnig orðin meiri háttar efnahagsvandamál á Íslandi. Kaupmáttur fólks er orðinn þannig að fólk

hefur orðið ekki efni á að kaupa vöru eða þjónustu atvinnulífsins sem aftur eykur á atvinnuleysið um leið og það kemur einnig fram í minni tekjum ríkis og sveitarfélaga af samneyslunni og beinum sköttum.
    Góðir áheyrendur. Byrjunin á þessu stjórnarsamstarfi lofar ekki góðu. Að taka á brýnum málum fyrir heimilin í landinu má bara bíða að mati ríkisstjórnarinnar en tíma þessa þings virðist eiga að nota aðallega í að koma í gegn hluta af einkavæðingaráformum sjálfstæðismanna, stíga hænufet í breytingum á sjávarútvegsmálum og væntanlega knýja í gegn heimild til að taka upp ofurtolla á innfluttar landbúnaðarvörur. Við í Þjóðvaka teljum að standa verði þannig að málum að breytingar í kjölfar GATT-samningsins verði raunverulegur hvati til breytinga í landbúnaði sem tryggi bæði hag neytenda og bænda. Mikilvægt er í tengslum við ákvörðun um tollígildi á innfluttar landbúnaðarvörur að taka til umræðu endurskoðun á búvörusamningnum. Í samráði við bændur og neytendur þarf að ná samstöðu um breytingar í landbúnaði sem hafi það að markmiði að atvinnugreinin nái hagkvæmni og geti keppt við innfluttar búvörur með lágmarksstuðningi frá ríkissjóði. Þar ætti m.a. að koma til skoðunar að ná víðtæku samkomulagi milli bænda og neytenda um einfaldari, skilvirkari og hagkvæmari skipan í vinnslu og hjá öðrum milliliðum. Endurskoða þarf einnig núverandi beingreiðslur til bænda með það að markmiði að ná sátt um að afnema þær í áföngum og í staðinn komi greiðslur sem ekki tengjast framleiðslumagni, heldur séu byggðastyrkir eða miðist við búháttabreytingar og að viðunandi verklokasamningar yrðu gerðir við eldri bændur og aðra sem vilja hætta störfum í landbúnaði. Jafnframt því þarf að tryggja frjálsan og heilbrigðan markað og verðmyndun með búvöru innan lands þannig að tryggt sé að bændur og sölusamtök þeirra búi ekki við fákeppni eða einokun örfárra verslunarkeðja á búvörumarkaði. Brýnt er einnig að fara yfir álögur, skatta og tolla í landbúnaði með það að markmiði að jafna aðstöðu innan atvinnugreinarinnar og gera henni kleift að standa að þessu leyti jafnfætis landbúnaði í grannlöndunum.
    Góðir áheyrendur. Við í Þjóðvaka teljum útilokað að þetta þing fari heim án þess að fram fari ítarleg umræða um það hvernig ríkisstjórnin ætlar að taka á skuldastöðu heimilanna og atvinnumálunum, en ætla má að um 10 þúsund manns gangi nú um atvinnulausir. Við teljum að gera þurfi áætlun í samráði við aðila vinnumarkaðarins um nýja sókn í atvinnumálum jafnframt því að fram fari heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar sem tryggi betur réttindi og framfærslumöguleika atvinnulausra en núgildandi löggjöf er sniðin að allt öðrum aðstæðum á vinnumarkaði en nú er.
    Þjóðvaki mun veita þessari ríkisstjórn harða en málefnalega stjórnarandstöðu og fylgja eftir þeim málum á Alþingi sem við boðuðum kjósendum okkar í kosningabaráttunni. Þar verður megináherslan lögð á nýja sókn í atvinnumálum með umbyltingu í menntamálum, markvissu átaki í jafnréttismálum kynjanna og uppstokkun á launa-, lífeyris- og skattakerfi til tryggja betur hag fólks með lágar og meðaltekjur. Koma þarf á samræmdri fjölskyldustefnu og jafna kjörin milli dreifbýlis og þéttbýlis. Samhliða því munum við leggja áherslu á að jafna atkvæðavægi landsmanna og tryggja skýrari skil milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Við viljum líka endurreisa trúnað milli stjórnmálamanna og fólksins í landinu. Í því skyni munum við meðal annars leggja fram á þessu þingi frv. um starfsemi stjórnmálaflokka og fjárreiður þeirra.
    Góðir Íslendingar. Við viljum endurvekja mannleg verðmæti í samfélaginu, mannúð, samhjálp og sjálfsvirðingu einstaklingsins andspænis ofurvaldi frjálshyggjunnar sem byggir á að hver sé sjálfum sér næstur. Þróun íslenskra stjórnmála hefur leitt til víðtæks trúnaðarbrests í stjórnmálum og viðskiptalífi milli einstaklinga og almannastofnana. Fólk krefst réttlætis og mannúðlegrar jafnaðarstefnu og að mannúð og virðing fyrir mannréttindum skipi aftur æðri sess í samskiptum manna. Að því munum við í Þjóðvaka vinna.