Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 21:32:01 (27)


[21:32]
     Svanfríður Jónasdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar hlýtt er á stefnuræðu hæstv. forsrh. sem hann flytur fyrir hönd nýrrar ríkisstjórnar og skoðast því sem stefna ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málaflokkum þá hljóta kjósendur að velta því fyrir sér hvort það hafi verið þetta sem þessir flokkar, Framsfl. og Sjálfstfl., lögðu megináherslu á í kosningabaráttunni. Var þetta það sem þið bunduð vonir við? Hið almenna orðalag og þau efnisatriði sem tiltekin eru og þó e.t.v. enn fremur það sem ekki er nefnt vekur upp spurningar um þann trúnað sem ætti að ríkja milli kjósenda og stjórnmálamanna þannig að menn vissu fyrir fram hvaða stefnu þeir væru að kjósa þegar þeir kjósa flokk. Kjósendur hljóta einnig að fylgjast af athygli með því hvernig ný ríkisstjórn forgangsraðar sínum málum inn í þingið.
    Ég minnist þess ekki að gjörbreytingar á áfengislöggjöfinni, breytingar sem hvorki eru í samræmi við almenna umræðu um varnir gegn vímuefnum né heilbrigðisáætlun, væru kosningaloforð núv. stjórnarflokka í nýliðinni kosningabaráttu eins og fyrstu stjfrv. gætu gefið til kynna. Það hefði verið meira í samræmi við væntingar og vilja landsmanna að hér hefðu verið sýnd mál sem svara þeim áleitnu spurningum sem leita á fólk sem óttast um atvinnu sína og þar með hag fjölskyldu og barna. Eða foreldra sem vilja betra skólakerfi fyrir börnin sín til að búa þau undir samkeppni um vinnu og lífskjör í óvissri framtíð. Eða spurningum þeirra sem við vanheilsu eiga að stríða eða af öðrum ásætðum standa höllum fæti og hafa þess vegna ekki sömu möguleika og hinir að bjarga sér í þjóðfélagi þar sem viðbrögð stjórnvalda við efnahagskreppu hafa ekki einu sinni getað varið venjulegt launafólk áföllum. Það kann að virðast eðlilegt að

því fólki finnist hugðarefni stjórnmálamanna og áherslur stundum í ljósárafjarlægð frá þeirri baráttu sem háð er til að halda á floti þeirri litlu efnahagseiningu sem við köllum heimili.
    Til að bregðast við breyttum aðstæðum og búa okkur undir 21. öldina er okkur nauðsyn að eignast fjölbreytt öflugt menntakerfi með aukinni áherslu á verk- og tæknimenntun og skipulögðu samstarfi skóla og atvinnulífs. Við þurfum líka að efla endurmenntun og starfsþjálfun vegna tækninýjunga í atvinnulífinu. Einungis þannig getum við nýtt þau sóknarfæri sem felast í gæðum landsins og þeirri verkþekkingu sem er til staðar hjá fólkinu í landinu. Það hlýtur að vera lykilatriði í nýrri atvinnusókn, atvinnusókn þar sem aukin framleiðni og bætt kjör verða að vera í forgrunni, því ef svo verður ekki mun Ísland einfaldlega tapa í samkeppninni um fólk í framtíðinni. Betra og fjölþættara menntakerfi er þannig forsenda framfara í atvinnulífinu og betri lífskjara. Það er jafnframt svar við atvinnuleysi. Vegna sparnaðar og niðurskurðar í skólakerfinu hefur það þróast með þeim hætti að það nám sem mesta peninga kostar, tækni- og verknám ýmiss konar, hefur dregist saman en hefðbundið bóklegt nám, sem kostar minnst, hefur aukist. Þó almenn bókleg menntun sé að sínu leyti jákvæð þá þurfum við engu síður en þær þjóðir sem við erum í samkeppni við að leggja nýjar áherslur. Þær áherslur verða ekki lagðar nema til komi auknar fjárveitingar. Jafnframt er nauðsynlegt að háskólamenntun verði efld og boðið verði upp á sem fjölbreytilegasta kosti, m.a. með fagháskólum. Þeir sem segjast vilja breyta þessu, því þeir skilji nauðsyn þess sem forsendu framfara í atvinnulífinu, verða að sýna þann vilja í verki með auknum fjárveitingu til menntamála. Þar mun reyna á vilja núverandi ríkisstjórnar strax við gerð næstu fjárlaga.
    Lífsbaráttan er hörð í þessu landi og umbun fyrir erfiði má ekki vera minni hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Vinnuveitendasambandið kýs að gera samninga í stóru samfloti þar sem meðaltalsafkoma er lögð til grundvallar. Við hljótum að velta því fyrir okkur af hverju það má ekki sjást hvaða fyrirtæki eða atvinnugreinar treysta sér til að greiða hærri laun. Hvaða fyrirtæki eða atvinnugreinar hafa nýtt sér það svigrúm til að bæta sinn rekstur sem stöðugleiki undanfarinna ára og skattatilfærslur frá fyrirtækjum yfir á herðar launafólks hafa skapað. Fjöldi vinnandi fólks er þannig settur að það sækir um og sumir fá aðstoð félagsmálastofnana til að komast af. Bara í Reykjavík eru 22% þeirra sem fá stuðning félagsmálastofnunar með atvinnu. Hvaða sögu segir það? Meðal annars þá að skattpeningar eru í stórum stíl notaðir með beinum hætti til að greiða niður laun fyrir atvinnureksturinn í landinu. Er víst að þess þurfi í öllum tilvikum? Eru öll fyrirtækin sem greiða sínu fólki samkvæmt lágmarkskjarasamningum svo illa stödd að þau þurfi á slíkri niðurgreiðslu að halda? Þarf atvinnureksturinn í landinu ekki það aðhald sem felst í opinni umræðu um velferðarkerfi fyrirtækjanna, velferðarkerfi sem tekur einnig á sig þá mynd að framtíðinni er slegið á frest. Atvinnuháttabreytingum eða aðlögun að nýjum aðstæðum er frestað með ,,vestfjarðaaðstoðum`` ýmiss konar. Hafa menn ekki áhyggjur af því að það velferðarkerfi sé að komast í þrot eða af þeim slaka og metnaðarleysi sem það velferðarkerfi kann að valda? Þess verður ekki vart í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar er einungis að finna áhyggjur af útþenslu velferðarkerfis fólksins.
    Ýmislegt bendir til þess að fiskveiðistjórnun og uppbygging fiskstofnanna geti skilað okkur árangri á næstu árum. Þar með megum við vænta þess að arðurinn af okkar sameiginlegu auðlind aukist. Í verkefnaskrá sjútvrn. kemur fram vilji til að kanna möguleika á að koma á sveiflujöfnun í sjávarútvegi bæði til að tryggja stöðugleika í greininni og jafnvægi gagnvart öðrum atvinnugreinum. Jafnframt eru fyrirheit í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hagstætt raungengi. Við hljótum að spyrja hvort hér sé verið að gefa fyrirheit um enn aukna ríkisforsjá í atvinnulífinu með verðjöfnunarsjóðum samkvæmt gamla laginu eða hvort ríkisstjórnin hyggst leggja á veiðileyfagjald og láta þá sem nýta auðlindina greiða fyrir afnot af henni. Með beitingu veiðileyfagjalds væri hægt að jafna út sveiflur og koma í veg fyrir að raungengi hækki til skaða fyrir annan atvinnurekstur í landinu og einnig að svara þeirri réttlætiskröfu fólksins í landinu að eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni verði staðfest með því að greitt sé fyrir afnotin. Æ fleiri útgerðaraðilum er einnig að verða það ljóst að nauðsynleg sátt um fiskveiðistjórnunina mun ekki nást án þessa.
    Kannanir leiða í ljós að þeim fyrirtækjum sem er umhugað um ímynd sína gengur betur. Hluti af ímynd fyrirtækis er hvernig það gerir við sína starfsmenn, jafnt konur sem karla. Kjarasamningar um lágt grunnkaup gera beinlínis ráð fyrir því að yfirborganir eigi sér stað. Slík tilhögun kjarasamninga er eitt af því sem gerir kynbundinn launamun mögulegan, það að mismuna körlum og konum í launum þó um sambærileg eða jafnverðmæt störf sé að ræða. Það á jafnt við um almenna vinnumarkaðinn og hinn opinbera.
    Á þessu þingi verður lögð fram till. til þál. um framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla. Samþykki slíkrar tillögu ætti að vera auðfengið í ljósi þess að í nýliðinni kosningabaráttu var það orðið baráttumál allra stjórnmálaflokka að draga úr launamun kynjanna. Til að fylgja þeim áhuga eftir er nauðsynlegt að fram fari vinna sem hafi það að markmiði að ráðast í aðgerðir sem taka á launamisréttinu.
    Virðulegi forseti. Í okkar fámenna samfélagi ætti að vera auðveldara en víðast annars staðar að uppræta misrétti hvar sem það kann að fyrirfinnast og stuðla þannig að jafnrétti fólks. Einungis þannig er mögulegt að góð sátt verði milli manna. Frá því sjónarhorni verða störf ríkisstjórnarinnar ekki síst metin. Út frá því mun okkar stjórnarandstaða og aðhald verða. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.