Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 21:53:12 (29)


[21:53]

     Hjálmar Árnason :
    Herra forseti. Ágætu tilheyrendur. Segja má að verkefni nýhafins Alþingis séu tvíþætt. Annars vegar aðkallandi úrlausnarefni og hins vegar að búa þjóðina undir 21. öldina.
    Nýliðin kosningabarátta bar þess merki að íslensk þjóð hefur verið að ganga í gegnum tímabil hremminga og erfiðleika sem m.a. hafa komið fram í ólíðandi atvinnuleysi, erfiðri skuldastöðu margra heimila og ámóta þáttum. Ástæða er til að ætla að nú sé þetta tímabil hremminga senn að baki. Svo sem fram hefur komið hér fyrr í kvöld eru mörg jákvæð teikn uppi fyrir efnahagslíf þjóðar okkar. Ég leyfi mér að nefna síldarauðinn óvænta, jákvæðar fregnir frá sjómönnum um mikla og aukna þorskgengd, áhuga stórra erlendra aðila á fjárfestingum hérlendis og þannig mætti áfram telja. Þetta þýðir með öðrum orðum að hin frægu hjól efnahagslífsins séu byrjuð að snúast að nýju og það felur í sér bata, það felur í sér ný störf og minnkandi atvinnuleysi, það felur í sér möguleikann á því að lagfæra skuldastöðu heimilanna og létta byrðir þeirra. Enda hlýtur það að vera meginskylda allra hv. alþm. að skapa þegnum landsins skilyrði til að lifa hér mannsæmandi lífi.
    Það er á þeirri forsendu m.a. sem Framsfl. gekk til stjórnarsamstarfs. En sérstaða okkar Íslendinga er sú að vera háð dyntóttum auðlindum. Hagkvæm skilyrði eins árs geta horfið á einu vetfangi og sent okkur aftur á upphafsreit. Við hljótum að búa okkur undir 21. öldina með því að verjast slíkum sveiflum. En slíkur gjörningur gerist ekki að sjálfu sér, til þess þarf markvissar aðgerðir. Til þess þarf m.a. skýra sjávarútvegsstefnu, stefnu sem tekur mið af hámarksnýtingu auðlindarinnar en gætir jafnframt verndunarsjónarmiða í sátt allra hinna ólíku hagsmunaaðila. Líklega er þó meira réttnefni að ræða um fiskvinnslustefnu í stað veiðistefnu því hráefnið á að gefa af sér sem mest verðmæti og sem flest störf í stað þess að hverfa úr landi lítt eða illa unnið. Þar liggja sóknarfæri okkar ef við berum gæfu til að skapa atvinnugreininni þau skilyrði sem þarf til fullvinnslu sjávarfangs.
    Í raun má segja að sömu forsendur gildi um landbúnaðinn og aðrar starfsgreinar svo sem ferðaþjónustu, þ.e. að skapa þeim skilyrði og forsendur til að njóta sín og blómstra á eigin forsendum.
    En fleira þarf til. Stjórnmálamenn hafa lengi talað um mikilvægi menntunar og gildi hennar fyrir þjóðina. Þrátt fyrir göfuglyndi þeirra í tali hefur inntak menntunar lítið breyst í langan tíma. Til að gera langa sögu stutta má segja að akademískar áherslur séu ráðandi innan skólakerfis meðan atvinnulífið og starfsmennt sjást þar lítið. Það er gleðiefni og ber vott um sátt að allir flokkar lögðu áherslu á þennan þátt í nýliðnum kosningum. Án nokkurs vafa verður það í gegnum heilbrigt menntakerfi sem við búum okkur best undir 21. öldina og fyrir því eru einfaldlega mörg og gild rök. Ég leyfi mér að nefna örfá.
    Mikið er talað um að framleiðni á Íslandi sé óeðlilega lág. Getur ekki verið að áðurnefnd gjá milli atvinnulífs og skóla eigi þátt í þeirri staðreynd? Getur verið tilviljun ein að í framlögum til menntamála sem hlutfall af þjóðarframleiðslu röðumst við jafnneðarlega og þær þjóðir sem lægstar eru í framleiðninni? Það vinnuafl sem skólakerfið skilar til atvinnulífsins endurspeglar ekki umhverfi sitt. Með tengingu á milli skóla og atvinnulífs má skila verðmætara vinnuafli og þar með skapa skilyrði fyrir aukinni framleiðni. Um 35--40% nemenda gefast upp í framhaldsskólum landsins í dag, m.a. vegna þess hversu þröngt og takmarkað námsframboð er.
    Íslendingar búa yfir miklum auðlindum til sjávar og sveita. Stærsta auðlind okkar er þó mannvitið og skólakerfinu ber að rækta þá auðlind þannig að nýsköpun og hugmyndaauðgi verði sýnileg og skili okkur efnahagslegum framförum. Þar er líklega mesta sóknarfæri okkar og því verður að fylgja eftir með góðum stuðningi við rannsóknir og nýbreytnistörf. Það er með öðrum orðum komið að því að standa við hin fögru fyrirheit til margra ára um gildi menntunar í íslensku samfélagi. Þannig rennum við stoðum undir nýja þætti í atvinnulífi okkar, þannig aukum við verðmætasköpun okkar, þannig siglum við inn í 21. öldina. Þess vegna hlýtur að verða eitt af mikilvægustu verkefnum Alþingis að skapa skólunum þau skilyrði að þeir geti staðið undir væntingum okkar til 21. aldar með breyttum áherslum og langþráðum friði um starfið í skólum landsins. Menntun skilar sér á löngum tíma, hún er fjárfesting til framtíðar.
    Samkvæmt nýlegri könnun kemur í ljós að um þriðjungur unglinga á Íslandi telur framtíðina vonlitla. Þetta er áfellisdómur, þetta eru þung högg. Það er einmitt meginskylda okkar alþingismanna að skapa ungu fólki tiltrú á framtíðina. Það gerum við með bættu skólastarfi, með innihaldsríku menningarlífi þar sem einstaklingar kunna og geta notið andlegra verðmæta og menningararfsins. Það gerum við með því að skapa skilyrði fyrir blómlegu atvinnulífi þar sem ungt fólk öðlast trú og bjartsýni á framtíðina.
    Það leiðir, herra forseti, einmitt hugann að hlutverki okkar hér í þinginu. Marga hef ég heyrt spyrja þeirra spurninga hvort stjórnarandstaða allra tíma skilji hlutverk sitt þannig að hún skuli hafa það eitt að leiðarljósi að vinna gegn stjórnarstefnu hverju sinni. Við að hlýða á ræðu hv. alþm. Ólafs Ragnars Grímssonar hér í kvöld, þá rifjuðust þessar spurningar einmitt upp og, ekki það að ég fagni ekki umhyggju hans fyrir Framsfl., þá kom líka í hugann fleyg setning frá miklum kvenskörungi af Vesturlandi, Guðrúnu Ósvífursdóttur, eftir ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar um sinn gamla flokk: ,,Þeim var ég verst er ég unni mest.``
    Í athyglisverðri ræðu virðulegs forseta í gær var vikið að ýmsum grundvallarþáttum í störfum hæstv. Alþingis, þar á meðal að aðgreiningu löggjafans frá framkvæmdarvaldi. Ég fagna slíkri umræðu en spyr jafnframt hvort ekki sé ástæða til að skoða starfshefðir hvað varðar samskipti stjórnar og andstöðu hverju sinni. Við nýsettu þingi blasa mörg mikilvæg mál er snerta hagsmuni þjóðarinnar. Forsendur þess að ná árangri hljóta að vera skýrar, heiðarlegar leikreglur en umfram allt málefnalegar í þágu þess fólks er veitt hefur okkur trúnað sinn. --- Ég þakka áheyrnina.