Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 22:21:32 (33)


[22:21]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Góðir áheyrendur. Guðrún Helgadóttir, fyrrv. alþm., á í fórum sínum merkan grip. Það er danskort eins og þau sem dömur höfðu hangandi í keðju sér um háls á dansleikjum hér fyrrum til að skrá niður beiðnir virðulegra herra um næsta vals eða polka. Það var eins gott að ruglast ekki í röðinni til að forðast móðganir eða til að geta raðað þeim eina rétta á góðan stað þannig að hann fengi bestu dansana.
    Að loknum kosningum hér á landi hefst atburðarás sem líkja má við dansleik af gamla taginu. Stjórnmálaflokkarnir skrá sig á danskort hvers annars, biðja um dans en segja um leið: Ég ætla að dansa við alla hina líka svona í fyrstu umferð.
    Kannski er verið að skoða og þreifa, kannski hafa miklar augngotur og hneigingar farið fram og ljóst að einhverjir tveir ætla saman í lokadansinn og að opinbera trúlofun sína á eftir.
    Nú á vordögum var ballið með eindæmum stutt og fáum boðið upp í dans. Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., sagði skilið við Jón Baldvin Hannibalsson, hv. þm., eftir stormasama sambúð, þeysti út í sveit á fund framsóknarmaddömunnar, bar umyrðalaust upp bónorð og fékk jákvætt svar. Kaupmáli var saminn í hasti, brúðkaup haldið og síðan flutt inn á stjórnarheimilið ásamt nauðsynlegu fylgdarliði. En þá strax kom í ljós að hjónakornin höfðu ekki tileinkað sér nútímabúskaparhætti þrátt fyrir fögur fyrirheit. Allt skyldi skipulagt með gamla laginu. Stjórn hins óbreytta ástands er tekin við, eins og sjá má af stjórnarsáttmálanum og samsetningu heimilismanna. Enn einu sinni á aðeins ein kona sæti í ríkisstjórn Íslands meðan konur eru um helmingur ráðherra í flestum hinna Norðurlandanna.
    Í öðrum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum dettur stjórnmálamönnum ekki í hug að bjóða þegnum sínum upp á jakkafatastjórnir af því tagi sem hér tíðkast. Það þykir einfaldlega ólýðræðislegt og óhæf endurspeglun á samfélaginu og þeim mismunandi viðhorfum sem þar ríkja.
    Síðast í kvöld bárust fregnir af því að nýkjörinn forseti Frakklands skipaði tólf konur í nýja ríkisstjórn. Honum dettur auðvitað ekki annað í hug en að standa við gefin loforð.
    Skipan íslenskra ríkisstjórna er orðin að viðundri meðal vestrænna þjóða. Þar ríkir mikill en vægast sagt ömurlegur stöðugleiki. Við hljótum að spyrja hvernig í ósköpunum á því stendur að slíkt gerist á því herrans ári 1995 --- 80 árum eftir að íslenskar konur fengu kosningarrétt og 20 árum eftir að þær sýndu svo eftirminnilega fram á þýðingu sína fyrir samfélagið á heimsfrægum útifundi á Lækjartorgi. Hvernig er hægt að bjóða okkur svona lagað á sama tíma og fyrir liggur skýrsla íslenskra stjórnvalda sem lögð verður fyrir kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking í haust sem sýnir hve hlutur kvenna er rýr í valdastofnunum hér á landi og mannréttindi á þeim brotin m.a. í launamálum og hvað varðar heimilisofbeldi?
    Hvernig er það, er ráðamönnum alveg sama um orðstír Íslands á alþjóðavettvangi? Finnst þeim boðlegt að leggja fram fyrir alheim upplýsingar um vaxandi launamisrétti kynjanna? Finnst þeim boðlegt að segja frá því að hlutur kvenna í sveitarstjórnum og á Alþingi Íslendinga standi í stað? Finnst þeim boðlegt að sýna umheiminum að ekkert sé gert til að leiðrétta þetta misvægi milli kynja þegar tækifæri gefst? Er ekki meiningin að standa við mannréttindasáttamála og aðra sáttmála sem Ísland hefur undirritað? Og ég spyr: Er þess að vænta að ríkisstjórnin fylgi eftir væntanlegri framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna í réttindamálum kvenna ef hugarfarsbreytingin sem Sjálfstfl. boðaði í kosningabaráttunni er ekki komin lengra en þetta innan ríkisstjórnarinnar? Er það ekki hlutverk stjórnmálamanna að gæta almannahags og að þróa samfélagið í átt til aukins réttlætis, jöfnuðar og lýðræðis?
    Á næstu dögum verða staðfestar hér á Alþingi breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sem m.a. kveða á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis. Þar segir einnig að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Það er nöturlegt á að horfa að á sama tíma og löggjafinn tekur sig á og tryggir mannréttindi kvenna í stjórnarskránni skuli þeir sem taka að sér hlutverk framkvæmdarvaldsins og hafa tækifæri til að rétta hlut kvenna í stjórnkerfinu auglýsa karlrembu sína með svo eftirminnilegum hætti og komast upp með það.
    Íslenskar konur hljóta að hugsa sinn gang eftir atburði undanfarinna vikna en þeir sanna svo ekki verður um villst hvað Kvennalistinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna og hver nauðsyn er á öflugri kvenfrelsisbaráttu jafnframt sterkum samtökum kvenna og breiðri samstöðu til að konur fái það sem þeim ber og geti haft eðlileg áhrif á mótun samfélagsins hverjar sem þær eru.
    Í nýafstaðinni kosningabaráttu tókst að koma launamálum kvenna og því launamisrétti sem þær eru

beittar rækilega á dagskrá. Allir stjórnmálaflokkar tóku undir kröfur um afnám launamisréttis kynjanna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að finna loforð um að unnið verði gegn launamisrétti af völdum kynferðis. Hæstv. forsrh. lét þau orð falla að þetta fyrirheit væri flokkssystrum hans mun dýrmætara en ráðherrastólar og formennska hér og þar, þær skyldu bara vera ánægðar.
    Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að ríkisstjórnin grípi til aðgerða gegn launamisréttinu og verður vel fylgst með efndum en það er mikill misskilningur að halda að mannréttindabarátta kvenna snúist um það eitt að jafna launamuninn. Hún snýst um frelsi og sjálfstæði kvenna til að velja sér þann lífsfarveg sem þær kjósa og að þær séu ekki hindraðar af lögum, venjum, aldagömlum lögmálum eða hagsmunum og samtryggingu karlveldis sem öldum saman hefur mismunað konum. Það þarf vissulega hugarfarsbyltingu til að ná því markmiði að kynin standi jafnt að vígi svo sem íslenskum stjórnvöldum ber að vinna að, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasáttmálum, en þó þarf fyrst og fremst vilja og aðgerðir. Það er rétt að gefa ríkisstjórninni tækifæri til að sýna hver viljinn er og til hvaða aðgerða verður gripið en mér segir svo hugur um að verulegs aðhalds verði þörf.
    Herra forseti. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og stefnuræða hæstv. forsrh. sem hér var flutt í kvöld bera með sér að ekki er von mikilla umbrota eða uppstokkunar í stjórnkerfinu hvað þá í stefnu stjórnvalda á því kjörtímabili sem fram undan er. Allt er slétt og fellt á yfirborðinu og ekki annað að lesa út úr ræðunni en að allt sé í nokkuð góðu lagi í þessum besta heimi allra heima. En ekki er allt sem sýnist. Við skulum minnast þess að stefnuyfirlýsing Viðeyjarstjórnarinnar sálugu vorið 1991 gaf ekki til kynna það sem á eftir fylgdi í niðurskurði, einkavæðingu og handahófskenndum árásum á velferðarkerfið. Þótt nú ári betur í íslensku þjóðlífi og enn eitt síldarævintýrið virðist hafið er langt í frá að hin nýja ríkisstjórn taki við blómlegu búi. Allt síðasta kjörtímabil var ríkissjóður rekinn með miklum halla. Sá reikningur er ógreiddur. Ríkisstofnanir hafa verið í miklu fjársvelti og stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík var gert að spara svo mikið að reksturinn er sums staðar við öryggismörk. Skólakerfið og Lánasjóður ísl. námsmanna urðu fyrir verulegum niðurskurði en víðtækt samkomulag er um að við svo búið megi ekki standa vegna framtíðarinnar.
    Herra forseti. Stóru spurningarnar sem samfélag okkar stendur frammi fyrir eru þær hvernig við getum skapað hér jöfnuð og jafnrétti, hvernig við ætlum að standa undir rekstri velferðarkerfis sem tryggir öldruðum, sjúkum, fötluðum og öðrum sem þurfa á aðstoð að halda nauðsynlega þjónustu, hvernig við ætlum að byggja upp enn öflugra menntakerfi og hvernig við ætlum að skapa þau 12.000 störf sem Framsfl. lofaði landsmönnum að til yrðu fyrir aldarlok. Hvar á að skera niður og hvernig á að ná í auknar tekjur til að standa undir sívaxandi þjónustu sem m.a. á rætur í breyttri aldursskiptingu þjóðarinnar og fjölgun aldraðra?
    Við þessum spurningum er einungis óljós svör að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og engu líkara en að nýfengin hjónabandssæla hafi blindað parið svo gjörsamlega að kaldur veruleikinn úti fyrir sé gleymdur og grafinn. Utan veggja gamla Stjórnarráðshússins er fólk sem glímir við gífurlegar skuldir heimilanna. Um götur Reykjavíkur gengu í gær 3.247 atvinnuleysingjar og við þá tölu má bæta öllum þeim sem stríða við atvinnuleysi úti á landi. Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar finnur enn ekki fyrir neinum efnahagsbata og þar innan dyra ríkir ekki stöðugleiki í útgjöldum til þurfandi, heldur vöxtur.
    Herra forseti. Það er mér mikið áhyggjuefni hve lítil áhersla er lögð á atvinnusköpun og atvinnuleysi í þeim boðskap sem borist hefur frá ríkisstjórninni. Eru stjórnvöld farin að sætta sig við atvinnuleysið eða halda þau að það hverfi eins og dögg fyrir sólu með auknum síldveiðum og aukinni byggingarvinnu? Því miður eru orsakir atvinnuleysisins margslungnari en svo að það leysist með aukinni vinnu í fiskiðnaði úti á landsbyggðinni.
    Herra forseti. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fær það hlutverk að stjórna landinu fram undir aldarlok. Ætlar hún að undirbúa þjóðina fyrir nýja öld með því að sækja fram, jafna lífskjörin, bæta stöðu kvenna og koma Íslendingum í röð helstu jafnréttisþjóða, eða á að hjakka í sama farinu, dragast aftur úr og brjóta mannréttindi á konum?
    Ég bið íslenskar konur að minnast þess að fyrir 20 árum lögðu tugir þúsunda kvenna niður vinnu í heilan dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra. Í heilan dag var atvinnulífið lamað. Konur búa yfir krafti sem getur knúið fram breytingar. Sá kraftur felst í samstöðu og aðgerðum sem verður að grípa til ef þessi ríkisstjórn ætlar að bregðast konum eins og svo margar hinna fyrri. Það er ekkert dansiball fram undan. Danskortin eru komin niður í skúffu og það er ekki hægt að bíða þess að þessir stjórnarherrar eða aðrir bjóði upp í dans þegar réttlætið er annars vegar. Konur verða sjálfar að grípa til sinna ráða og nýta tækifærin sem fram undan eru. Það þolir enga bið að bæta stöðu kvenna vegna okkar sjálfra og vegna þeirrar framtíðar sem bíður komandi kynslóða. --- Góðar stundir.