Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 22:32:29 (34)


[22:32]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Að alþingiskosningum loknum var sú krafa sterkari en nokkru sinni fyrr að stjórnarflokkarnir sýndu í verki að þeir eru farvegir fyrir völd kvenna. Hvernig stóðust þeir prófið? Því miður er staðan á stjórnarheimilinu verri nú en undanfarin ár. Sem fyrr er aðeins ein kona ráðherra, og það sem verra var: Henni var nánast vantreyst frá fyrsta degi af leiðarahöfundi Morgunblaðsins. Enginn ráðherra Sjálfstfl. er kona. Forseti Alþingis er karlmaður og sama er að segja um alla kjörna varaforseta þingsins bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu. Er þetta ásættanleg niðurstaða í lýðræðisþjóðfélagi sem búið hefur við lögbundið kynjajafnrétti í 20 ár? Þó það hafi lengi tíðkast að mismuna konum á öllum sviðum mannlífsins er það að verða viðurkennd lýðræðisleg krafa að mismunun á grundvelli kynferðis eða litarháttar sé mannréttindabrot. Það er ekki langt síðan minni hlutinn í Suður-Afríku varð að deila völdum með svarta meiri hlutanum, það var ekki hægt lengur að andmæla lýðræðislegu kalli samtímans. Það sama er að gerast nú með konur hér á landi.
    Þó að núv. ríkisstjórn hafi sterkan meiri hluta sér að baki og baði sig í sælu hveitibrauðsdaganna er hún í margra huga fyrst og fremst karlastjórn með eina konu innan borðs. En hvað eiga stjórnarflokkarnir að gera þegar kvenþingmenn beggja flokka eru um eða innan við 20% þingmanna þeirra? Ég læt þá sjálfa um að svara því með von um betra gengi kvenna innan allra stjórnmálaflokkanna í næstu kosningum.
    Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er stutt og einkennist af almennum viljayfirlýsingum, sem ekki kom á óvart miðað við þá flokka sem hér eiga í hlut, einkum Sjálfstfl. Nánari hugmyndir um útfærslu skortir og bent er á að útbúin verði verkefnaskrá fyrir hvert ráðuneyti sem kynnt verði á þinginu í haust. Stefnuræða forsrh. bætir hér mjög litlu við. Heimavinnunni er einfaldlega ekki lokið. Gefið er t.d. til kynna í stefnuyfirlýsingunni að mikið standi til að gera í menntamálum en í stefnuræðunni er réttilega bent á að fjárfesting í menntun sé líklegri til að skila arði en fjárfesting í öðrum þáttum framleiðslu og þjónustu. En það er allt og sumt. Menntmrh. hefur lýst því yfir á öðrum vettvangi að lengja beri skóladaginn á næsta ári en ekki er eitt orð sagt um það í stefnuræðunni.
    Ég fagna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að stefnt sé að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Mér finnst þó orðalagið loðið og hef grun um að sami tvískinnungurinn haldi áfram og einkennir núgildandi lög. Hagsmunaaðilar selji aflaheimildir dýrum dómi sín á milli sem þeir fá gefins frá ríkisvaldinu. Ekki verður séð að sátt náist um aflamarkskerfið meðal þjóðarinnar nema til komi einhvers konar aflagjald. Þjóðin, sem á auðlindina, hlýtur að vilja fá meira fyrir sinn snúð en eina setningu í stjórnarskrá sem er merkingarlaus miðað við núverandi stefnu. Meira að segja útgerðarmenn sjálfir eru farnir að átta sig á réttmæti þessarar kröfu. Skyldi ríkisstjórn kolkrabbans og smokkfisksins huga að lýðræðislegu tilkalli almennings til auðlindarinnar eða eiga svokallaðir hagsmunaaðilar að ráða ferðinni? Verða óánægjuraddirnar kveðnar niður með því að leyfa sumum að fara á sóknarmark? Það verður fróðlegt að fylgjast með því þegar þessi mál koma nú inn í þingsali á þessu þingi. Einkum og sér í lagi verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig hagsmuna almennings verður gætt.
    Annað mál sem liggur fyrir vorþinginu er endursamþykkt á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Þar náðist samkomulag um almenna jafnræðisreglu og um orðalag sem kveður á um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort þetta greiðir fyrir meðferð mála fyrir dómstólum og styrki núverandi jafnréttislög sem því miður hafa reynst mjög haldlítil þegar á reynir. Það er til lítils fyrir löggjafann að setja framsækin lög ef dómstólar túlka þau ávallt miðað við hefðina. Þetta hefur verið reyndin í ýmsum málum sem varða ofbeldi gagnvart konum þrátt fyrir víða refsiramma.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að vinna eigi gegn launamisrétti af völdum kynferðis. En um það er ekki orð í stefnuræðu hæstv. forsrh. Ekki eitt einasta orð. Eru jafnréttismálin kannski alveg komin af dagskrá stjórnarinnar eftir öll átökin um ráðherrastólana og formennsku í nefndum? Það er einlæg von mín að forneskjuleg viðhorf hæstv. félmrh. til vinnutíma barna, sem er að gera okkur að viðundrum í samstarfi þjóðanna, boði ekki áþekkar skoðanir hans í jafnréttismálum. Rök hans gegn því að takmarka vinnu barna undir 15 ára aldri, nefnilega þau að þá verði að hækka laun foreldranna, eru vonandi ekki staðfesting á því að til valda sé komin ríkisstjórn afturhalds og stöðnunar. Það er löngu kominn tími til að venjulegt fjölskyldufólk geti lifað af eigin launum og að vinnutíminn verði styttri en nú er.
    Við kvennalistakonur erum í mannréttindabaráttu. Það vakti sérstaka athygli mína þegar utanríkisráðherra Kína var hér á dögunum að þegar hann var spurður um stöðu mannréttindamála í Kína sagði hann að Kínverjar settu aðrar áherslur á oddinn en Vesturlönd þegar þeir skilgreindu mannréttindi, m.a. teldu þeir brýnt að fólk gæti unnið fyrir sér. Það skyldi þó aldrei vera að á þessu sviði standi jafnvel Kínverjar okkur framar hvað mannréttindi varðar.
    Við búum hér við hagkerfi þar sem tiltekin prósenta mannaflans er atvinnulaus, nú tæp 7%. Þetta atvinnuleysi er markviss leið til að halda hagkerfinu í ,,æskilegu`` jafnvægi. Stór hluti þeirra sem þó hafa vinnu getur alls ekki lifað af laununum sínum því þau eru allt of lág. Það er svo sannarlega kominn tími til að hér verði samið um lífvænleg kjör fyrir 40 stunda vinnuviku og að óhóflegri yfirvinnu linni. Þetta hefur verið eitt helsta baráttumál Kvennalistans frá upphafi þar sem óhófleg yfirvinna slítur fólki um aldur fram og kemur í veg fyrir að foreldrar og börn njóti eðlilegra samvista, auk þess sem hún dregur oft úr framleiðni fyrirtækja. Að auki stóreykur þessi yfirvinna kynjamisrétti á vinnumarkaði, m.a. í skjóli sporslukerfisins svokallaða sem tíðkast á ótrúlegustu stöðum á íslenskum vinnumarkaði. Þessu þarf að breyta strax. Um það höfum við kvennalistakonur þegar lagt fram tillögu á þessu vorþingi sem lið í þáltill. um að afnema launamisrétti kynjanna en það mál þolir enga bið.

    Kannski þurfum við Kínverja eða þrýsting frá Evrópu til að hrista af okkur hlekki forneskjulegs hugarfars. Tímarnir eru breyttir og þjóðfélagið hlýtur að gera þá kröfu til okkar stjórnmálamanna að grundvallarmannréttindi séu virt. Mismunun kynjanna snýst ekki aðeins um völdin á Alþingi, um ráðherrastóla og formennsku í nefndum, eins og ætla mætti af umræðu síðustu daga. Mismunun kynjanna er ekki heldur einskorðuð við launamálin og þá alvarlegu staðreynd að kynbundinn launamunur hefur aukist á flestum sviðum sl. tíu ár og er nú mestur hjá háskólamenntuðu fólki. Mismunun og misrétti kynjanna kemur einnig fram hjá dómsvaldinu, á heimilunum, í skólunum, í kirkjunni, í verkalýðslögunum, í Vinnuveitendasambandinu, í fjölmiðlunum, í föðurnafnakerfinu, í tungumálinu, í kennslubókunum, í ráðuneytunum, í bankaráðum og þannig get ég talið upp hverja einustu valdastofnun þjóðfélagsins. Karlveldið er alls staðar og því viljum við breyta. Kynferði á ekki að ráða því hvert hlutskipti fólks verður í lífinu. Það er brot á mannréttindum.
    Þó íslenski löggjafinn hafi viðurkennt þetta lengi þá leyfðu stjórnarherrarnir sér í kosningabaráttunni að tala um þörf á hugarfarsbreytingu sem greinilega hefur ekki enn náð til þeirra sjálfra, a.m.k. ekki þingmanna Sjálfstfl. Það bakslag sem virðist hafa orðið í jafnréttisbaráttu kynjanna bæði hér og víðar er mikið áhyggjuefni. Ég vona að við kvenfrelsiskonur tvíeflumst við mótlætið og berum gæfu til að finna þær leiðir sem best duga til að dætur okkar þurfi ekki að byrja baráttu okkar frá grunni.
    Gárungarnir hafa bent á að nú eigi stjórnarandstaðan að fylkja sér saman undir forustu kvenna og bjóða karlveldinu í stjórnarflokkunum birginn. Þetta er umhugsunarvert ekki síst í ljósi þess að kannanir hafa sýnt að í kjósendahópi vinstri flokkanna og Kvennalistans eru konur í meiri hluta en karlar kjósa hægri öflin í ríkari mæli en konur. Einnig er ljóst að konur eru þær sem hafa haldið uppi velflestum vinnudeilum að undanförnu enda ærin ástæða til vegna vanmats á störfum þeirra og menntun. Verður þetta framtíðin? Ætla hægri öflin að hrekja kvenfrelsisbaráttuna til vinstri þrátt fyrir tilkall sjálfstæðra kvenna til aðildar, reyndar á forsendum karla, sjálfstæðiskonum til eðlilegrar skelfingar?
    Við kvennalistakonur vonum að sem margbreytilegastar raddir kvenna fái að heyrast héðan úr þessu púlti um aldur og ævi því við erum sannfærðar um að saman verði að fara pólitísk völd kvenna, laun þeirra og kjör. Við viljum að konur öðlist völd og laun til jafns við karla. Þá fyrst er kominn jarðvegur fyrir hugarfarsbreytinguna sem stjórnarherrarnir hafa kallað eftir, jarðvegur sem leiðir til áþreifanlegra breytinga á hugarfari þeirra sem kjósa í prófkjörum flokkanna og þeirra sem eru við völd. Þá fyrst mun koma betri tíð fyrir alla, konur börn og karla.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ég hef lokið máli mínu. Ég þakka áheyrnina.