Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 22:55:08 (36)


[22:55]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Ég leyfi mér að bjóða ríkisstjórnina velkomna til starfa og óska nýjum ráðherrum velfarnaðar. Einnig menntmrh. Birni Bjarnasyni, hv. síðasta þm. kalda stríðsins, sem hér talaði áðan og er enn við sama heygarðshornið eins og heyra mátti.
    Það er tilgangslaust annað en viðurkenna það að úrslit alþingiskosninganna á sl. vori og þó ekki síður tilurð ríkisstjórnarinnar í kjöfarið urðu íslenskum vinstri mönnum vonbrigði. Það veldur auðvitað vonbrigðum að hægri stefna er hér fest í sessi annað kjörtímabilið í röð.
    Framsfl. hefur nú valið sér það gæfusnauða hlutverk að taka við hlutskipti hækjunnar sem styður við völd hægri aflanna í landinu. Þessi ræðumaður vill engar spár og allra síst hrakspár hafa uppi um störf hinnar nýju ríkisstjórnar. Hún hefur í byrjun nokkurn byr vegna þess að ytri aðstæður eru nú um margt hagstæðar. Á hinn bóginn bíða fjölmörg óleyst vandamál og svo virðist sem bið ætli að verða á því að staðið verði við stóru orðin og loforðin sem gefin voru af miklum fjálgleik í kosningabaráttunni, ekki síst af Framsfl. sem lofaði skjótri úrlausn á ýmsum brýnum vandamálum, svo sem vanda húsbyggjanda, vanda heimilanna og lofaði því að skapa hér 12 þúsund ný störf á nokkrum árum.
    Einna alvarlegust virðast þó svikin ætla að verða í skattamálum. Þar töluðu báðir stjórnarflokkarnir, að vísu hvor með sínu nefi, um nauðsyn þess að gera lagfæringar. Ekki síst átti að hverfa frá óhóflegri tekjutengingu bótaliða. Nú er upplýst að ekkert standi til að gera fyrr en á síðari hluta kjörtímabilsins. Hveitibrauðsdagar stjórnarinnar hverfa nú hver af öðrum í gleymskunnar djúp og handan þeirra birtist veruleikinn, veruleiki atvinnuleysis, veruleiki erfiðleika í húsnæðismálum, veruleiki gífurlegrar skuldasöfnunar heimilanna og fyrr en varir verður tekið að spyrja um efndir. Þegar á þessu stutta vorþingi mun á það reyna hvort ríkisstjórnin sýnir lit í því að standa við gefin loforð. Stjórnarsáttmálinn segir fátt um aðgerðir í þessum efnum og hér í kvöld er til umræðu einhver innihaldslausasta stefnuræða sem sögur fara af. En úrslit þingkosninganna og tilkoma hægri stjórnar gefa okkur vinstri mönnum um leið tilefni til að staldra við og meta stöðuna. Við þurfum og eigum að líta í eigin barm og spyrja okkur: Hvers vegna fór þetta svona? Hvers vegna er styrkur vinstri hreyfingarinnar í landinu ekki meiri? Af hverju náum við ekki að hafa meiri áhrif, komast oftar að stjórn landsins, ráða meiru um það hvernig íslenskt samfélag þróast?
    Samstarf stjórnmálaafla sem að einhverju leyti kenna sig við vinstri stefnu, félagshyggju eða jafnaðarstefnu, er nú sem oft áður og endranær talsvert til umræðu. Á því eru m.a. þær augljósu skýringar að vinstri hreyfingin hefur ekki náð að hafa þau áhrif sem hún vill og ætlar sér að hægri stjórn er sest að völdum eina ferðina enn og mörg framboð og flokkar dreifa kröftunum um of.
    Við hljótum einnig að spyrja okkur hvort sjálf umræðan hafi verið á villigötum. Við höfum rætt um form, við höfum rætt um foringja, við höfum rætt um samvinnu, bandalög eða sameiningu en allt of lítið um innihald. Ég sannfærist æ betur um nauðsyn þess að allir þeir sem á annað borð telja sig fylgjendur vinstri stefnu, jafnaðarstefnu og félagshyggju vinni að því fyrst og síðast að sameinast um pólitísk grundvallaratriði. Takist það er eftirleikurinn auðveldur.
    Ef litið er til þess hvernig vinstri heyfingin í ýmsum nálægum löndum er saman sett og hvaða árangri hún hefur náð kemur í ljós að það er á ýmsa vegu. Á hinum Norðurlöndunum hafa stórir tiltölulega vinstri sinnaðir jafnaðarmannaflokkar með mun róttækari stefnu en íslenski krataflokkurinn haft mikil áhrif á þróun þjóðfélagsins undanfarna áratugi. Í Frakklandi sameinuðust margir flokkar og flokksbrot á vinstri kantinum í stóran flokk, franska sósíalistaflokkinn, 1971 ekki síst fyrir tilstuðlan hins merka stjórnmálamanns, François Mitterrands, og hafa í kjölfarið haft mikil áhrif. Annars staðar hafa vinstri flokkar náð árangri með samvinnu eða kosningabandalögum.
    Sigur Reykjavíkurlistans hér í borginni er nýlegt og glæsilegt dæmi um slíkt samstarf, sameiginlegt framboð flokka sem eftir sem áður starfa sjálfstætt áfram.
    Hér á Íslandi höfum við hins vegar hvað landsmálin varðar undanfarin ár og undanfarna áratugi fyrst og fremst fengið kennslustundir í því hvernig menn ná ekki árangri. Lærdómurinn er að mínu mati sá að menn sameina ekki stjórnmálaflokka ofan frá. Menn sameina ekki stjórnmálaflokka í beinni útsendingu í fjölmiðlum. Menn sameina ekki stjórnmálaflokka með því að stofna nýja flokka. Nei, verkefnið hlýtur að vera að sameina sem flesta um tiltekin pólitísk grundvallaratriði. Grundvallaratriði vinstri stefnu eins og jöfnuð í launum og lífskjörum. Grundvallaratriði eins og það að velferð og félagslegt öryggi sé tryggt án tillits til efnahags, aldurs, kynferðis, búsetu o.s.frv. Grundvallaratriði eins og það að undirstöðuþættir menntunar og heilsugæslu standi öllum til boða án endurgjalds. Grundvallaratriði eins og það hvernig kostir markaðarins eru nýttir en þó þannig að hann sé beislaður, sé þjónn en ekki herra, tæki en ekki trúarbrögð. Grundvallaratriði eins og það að hagvöxtur nútímans megi ekki verða á kostnað náttúrunnar og lífsgæða komandi kynslóðar.
    Um slík grundvallaratriði og mörg, mörg fleiri þurfa vinstri menn að sameinast, finna sér samnefnara sem menn síðan fylkja um. Form slíkrar samfylkingar er svo eitthvað sem þróast og ræðst í framhaldinu. Hvort það tekur á sig birtingarform samvinnu og samstarfs, kosningabandalaga eða sameiningar, er í raun úrlausnarefni sem kemur sjálfkrafa í kjölfarið. En núverandi ástand í íslenskum stjórnmálum er hins vegar óviðunandi frá sjónarhóli okkar vinstri manna.

    Herra forseti. Um margt hafa línur nú skýrst í íslenskum stjórnmálum. Framsfl. hefur kosið að skilgreina sig með afdráttarlausum hætti sem miðjuflokk og núv. formaður hans, Halldór Ásgrímsson utanrrh., hefur gert upp við allt sem heitir vinstri stefna og félagshyggja í þeim herbúðum. Framsfl. birtist nú þjóðinni sem miðjuflokkur með hægri slagsíðu. Flokkur sem væntanlega sér það sem eðlilegt hlutverk sitt í framtíðinni að vinna með Sjálfstfl. Það eina sem eftir er í þessu uppgjöri Framsfl. við félagshyggjuna er að drjúgur hluti kjósenda flokksins meðtaki skilaboðin, hverfi frá flokknum og taki þátt í að byggja upp öflugan vinstri flokk á komandi árum. Stóra verkefni okkar vinstri manna er því umsköpun íslenskra stjórnmála með það að markmiði að efla hér til áhrifa sterkan vinstri flokk, vinstri samfylkingu, og breyta styrkleikahlutföllum í íslenskum stjórnmálum verulega þannig að ríkisstjórnarmyndun af því tagi sem við stöndum nú frammi fyrir geti ekki oftar orðið veruleikinn. Engin önnur getur sú framtíðarsýn verið sem við eigum og verðum að berjast fyrir og í þeirri baráttu þurfa að vinnast a.m.k. áfangasigrar á þessu kjörtímabili. Þá sigra þurfum við ekki að vinna vegna okkar sjálfra, ekki vegna flokka okkar, ekki vegna valdanna, heldur vegna fólksins í landinu og framtíðar þess.
    Það er sannfæring mín að þorri íslensku þjóðarinnar vilji viðhalda hér öflugu velferðarkerfi, kerfi samhjálpar og samábyrgðar og því mun þessi ríkisstjórn kynnast verði hún svo gæfusnauð að leggja til atlögu við velferðarkerfið. Tíminn sker úr um það, dómur reynslunnar er jafnan ólygnastur og að lokum verður þessi ríkisstjórn dæmd af verkum sínum en ekki loforðum. --- Ég þakka áheyrnina.