Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 23:04:06 (37)


[23:04]
     Ásta R. Jóhannesdóttir :
    Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsrh. lýsir í ræðu sinni yfir stuðningi við velferðarkerfið og vill treysta undirstöður velferðarinnar með ráðdeild og skilvirkni. Það er gott og blessað og við getum án efa öll tekið undir það, en hvað þýðir þetta? Hvernig velferð er verið að tala um? Í dag er löng bið eftir aðgerðum á sjúkrahúsum. Landlæknir hefur bent á að tæplega ársbið er að meðaltali, t.d. eftir bæklunaraðgerðum, og meðalaldur þeirra sem bíða er 46 ár, þ.e. fólk á miðjum vinnualdri. Meðan þeir bíða eru þeir á dýrum lyfjum, sjúkradagpeningum og óvinnufærir. Ráða verður bót á þessu ástandi. Það eykur velferð.
    Aukin áhersla er nú lögð á forvarnir og er það vel. Öflugar forvarnir gefa fyrirheit um betra heilsufar í framtíðinni og vonandi aukna hamingju og vellíðan. Það er hluti af velferðinni. Í Reykjavík bíða nú á þriðja hundrað aldraðra í brýnni þörf eftir hjúkrunarrými. Mun fleiri eru á biðlistum. Allt þetta fólk þarf umönnun heima á meðan ekki leysist úr vanda þeirra. Við blasa einnig sumarlokanir á sjúkrahúsum og þá verða aðstandendur sjúklinga að leggja á sig aukin störf á heimilum, umönnunarstörf við sína nánustu til að gera þeim kleift að dvelja heima sem lengst. Hið opinbera á að meta þessi störf og greiða fyrir þau. Á því er misbrestur. Það ber að meta umönnunarstörf á heimilum óháð hver veitir þau. Það er líka velferð.
    Herra forseti. Mönnum verður hér tíðrætt um efnahagsbatann. En hvernig á að nýta þann efnahagsbata sem menn telja sig merkja í efnahagslífinu? Afnema verður eftirágreiðslu námslána. Námsmenn kröfðust þess fyrir þessar kosningar að kosið yrði um menntamálin. Stjórnarflokkarnir lofuðu að taka á lánamálunum og einn hæstv. ráðherra Framsfl. lýsti því yfir, aðspurður á fjölmennum fundi með námsmönnum, að hann mundi ekki svíkja það loforð að afnema eftirágreiðslurnar fyrir ráðherrastól í ríkisstjórn með Sjálfstfl. Það er dapurlegt að hvergi er minnst á afnám eftirágreiðslu námslána í fyrirheitum og stefnumálum þessarar ríkisstjórnar. Ég vona að það þýði ekki að þau loforð verði svikin. Orð og efndir eiga að fara saman.
    Betra efnahagsástand verður að nýta til að rétta hlut lífeyrisþega sem hafa framfærslu sína af greiðslum úr almannatryggingum. Sá hópur bar skarðan hlut frá borði miðað við launþega þegar laun hækkuðu á almennum vinnumarkaði í vetur. Lífeyrisþeginn með 48.000 kr. fékk 2.300 kr. hækkun á meðan launþeginn með sömu upphæð í laun fékk 3.700 kr. Stórum hópi lífeyrisþega er ætlað að lifa á tekjum undir lágmarksframfærslu. Það er lítilsvirðing við þá sem hafa skilað sínum starfsdegi eða eru óvinnufærir vegna sjúkleika eða fötlunar. Rúm 22% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar í fyrra voru lífeyrisþegar. Mannsæmandi lífeyrir er grundvallarmannréttindi aldraðra og öryrkja. Það almannatryggingakerfi sem við búum við er löngu úr sér gengið, það þarfnast gagngerrar endurskoðunar.
    Á níunda þúsund manns eru nú á atvinnuleysisskrá, þ.e. um 7% vinnufærra manna. Hér er átt við skráð atvinnuleysi svo atvinnuleysið er meira. Bregðast verður við vanda þessa stóra hóps fljótt. Við búum við úrelt lög í atvinnuleysistryggingum, þau voru sett við allt aðrar aðstæður en nú ríkja. Atvinnuleysið er orðið viðvarandi og þörf annarra úrræða. Í Reykjavík í dag eru fleiri skráðir atvinnulausir en á sama tíma í fyrra. Efnahagsbatinn hefur ekki komið fram í betra atvinnuástandi. Tölurnar tala sínu máli. Fjórðungur atvinnulausra í borginni er ungt fólk á aldrinum 16--25 ára. Hér eru námsmenn ekki meðtaldir, þeir eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
    Næg atvinna er bæði velferðar- og heilbrigðismál því atvinnuleysi brýtur niður andlega og líkamlega heilsu fólks. Það sem vekur ugg er hversu margir atvinnulausir fá ekki aðstoð í velferðarsamfélagi okkar. Réttur til bóta er oft ekki til staðar eða þær duga ekki fyrir lágmarksframfærslu. Margir þurfa að leita

eftir aðstoð sveitarfélaga. Í Reykjavík einni eru atvinnulausir 40% þeirra sem fengu þar fjárhagsaðstoð í fyrra. Á vanda þessa fólks verður ríkisstjórnin að taka. Nú reynir á hvort velferðin sem menn eru að ræða um er velferð fyrirtækjanna eða velferð fólksins.
    Það eru margir sem búa við erfitt hlutskipti í þessu velferðarsamfélagi okkar. Laun eru of lág og launamisrétti ríkir. Ekkert hefur heyrst um skjót viðbrögð stjórnvalda með slæmri skuldastöðu heimilanna og orð eins og greiðsluaðlögun, skuldbreyting og tímabundin frysting skulda hafa ekki heyrst frá því fyrir kosningar. Hvað þá hækkun launa kvenna til jafns við karla.
    Herra forseti. Góðir landsmenn. Friður afskiptaleysis mun ekki ríkja gagnvart ríkisstjórninni af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessum málum. --- Góðar stundir.