Tilkynning um dagskrá

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 10:34:32 (44)


     Forseti (Ólafur G. Einarsson) :
    Forseti vill vekja athygli þingmanna á því að gerð hefur verið áætlun um fundartíma fastanefndanna á vorþinginu og hefur áætlunin verið lögð í hólf þeirra. Forseti vill einnig vekja athygli þingmanna á því að gert er ráð fyrir að nefndir komi saman til síns fyrsta fundar samkvæmt þeirri fundaáætlun í næstu viku og verður fyrsta verk hverrar nefndar að kjósa sér formann og varaformann.
    Áður en gengið er til dagskrár vill forseti geta þess að borist hafa tvö bréf frá formanni þingflokks Alþb. og óháðra er varða dagskrármálin. Fyrra bréfið, sem dagsett er 17. maí 1995, er svohljóðandi:
    ,,Forseti Alþingi, Ólafur G. Einarsson.
    Með vísan til 3. mgr. 55. gr. laga um þingsköp Alþingis leyfi ég mér að óska eftir því fyrir hönd þingflokks Alþb. að umræðutími við 1. umr. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum, verði tvöfaldur vegna mikilvægis málsins.
    Svavar Gestsson, formaður þingflokks Alþb.``

    Hið síðara bréf, sem einnig er dagsett 17. maí 1995, er svohljóðandi:
    ,,Með vísan til 3. mgr. 55. gr. laga um þingsköp Alþingis leyfi ég mér að óska eftir því fyrir hönd þingflokks Alþb. að umræðutími 1. umr. um frv. til laga um gjald af áfengi verði tvöfaldur vegna mikilvægis málsins.
    Svavar Gestsson, formaður þingflokks Alþb.``

    Þar sem hér er um rétt þingflokks að ræða, sbr. 3. málslið 3. mgr. 55. gr. þingskapa, verður ræðutími tvöfaldaður. Ráðherra hefur þá allt að einni klukkustund til framsögu og einstakir þingmenn mega við umræðuna tala allt að 40 mínútur í fyrra sinn og 20 mínútur í síðara sinn.
    Þá hefur borist eftirfarandi bréf frá hæstv. fjmrh.:
    ,,Með skírskotun til 3. mgr. 63. gr. þingskapalaga óska ég eftir því að umræður um 3. og 4. mál þingsins fari fram í einu ef því verður ekki mótmælt.
    Virðingarfyllst, Friðrik Sophusson.``

    Eru athugasemdir? ( ÓRG: Já, en það er óþarfi að flytja þær úr stólnum.) Það er athugasemd frá hv. þm.