Tilkynning um dagskrá

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 10:36:56 (45)

[10:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þingflokkar hafa rétt til þess að biðja

um það að tvöfaldur tími verði notaður fyrir ræðumenn þegar rædd eru einstök þingmál og verður að sjálfsögðu að fara að því. Ég vil hins vegar taka það fram að í þessum málum var hægur vandi fyrir ráðherra að gera eitt þingmál úr tveimur. Það hefur aukist nokkuð í seinni tíð að lagðir séu fram svokallaðir bandormar og það þykir sjálfsagt mál reyndar þegar mál eru mjög skyld og falla undir sama ráðuneytið að slíkt sé gert. Það var hins vegar ekki gert í þessu tilviki og ég leyfi mér af þeim ástæðum að fara fram á það, og óska eftir samvinnu við þingflokk Alþb. um það efni, að þessi tvö mál megi ræðast sem eitt mál en að sjálfsögðu verði þá ræðutíminn tvöfaldaður þannig að hægt sé að koma til móts við bæði sjónarmiðin.
    Ef hins vegar ekki er á það fallist þá lít ég svo á strax í upphafi þings að það verði að beina þeim tilmælum til okkar ráðherranna að við sameinum sem mest okkar mál í ein mál þannig að það sé ekki verið að reyna að tefja mál með of löngum ræðum, (Gripið fram í.) sérstaklega þegar mál eru náskyld eins og þau tvö sem hér er um að ræða. Því vil ég, virðulegi forseti, mælast til þess í upphafi þings ef um það gæti orðið gott samkomulag að farið sé að óskum beggja aðila, ræðutími verði tvöfaldaður en málin, sem í raun og veru eru eitt, fáist rædd í sömu umræðu.