Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 10:53:42 (52)


[10:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum.
    Þetta er eitt þriggja frv. sem fjallar um sama málefni. Tvö eru flutt af fjmrh., eitt af dómsmrh., það frv. hefur verið lagt fram á hinu háa Alþingi og mun verða til 1. umr. á næstu dögum.
    Óhjákvæmilegt er að ræða 4. mál þingsins ásamt þessu máli enda er um að ræða nákvæmlega sama málið þótt um sé að ræða breytingar á tvennum lögum. Verður það að reiknast sem klaufaskapur þess sem hér stendur að hafa ekki flutt þetta í einu frv. og biðst ég forláts á því.
    Í almennri greinargerð með þessu frv., sem er mjög stutt og auðskiljanlegt og krefst ekki langrar umræðu af þeirri ástæðu, segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Með þessu frumvarpi er lagt til að einkaréttur ríkisins til innflutnings á áfengi verði afnuminn. Frumvarpið er í meginatriðum samhljóða frumvarpi sem lagt var fram sem stjórnarfrumvarp á síðasta þingi en tókst ekki að afgreiða fyrir þinglok.
    Þau rök, sem voru færð fyrir einkarétti ríkisins til innflutnings og heildsölu á áfengi, voru að með þeim hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi vínandagjalda af vörum þessum, auk þess sem líklegt þótti að slíkt fyrirkomulag tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vörunum til landsins. Einnig var á það bent að með einkaréttinum væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á áfengi þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með löglegum hætti.
    Telja verður að framangreind rök eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu áfengis. Afla má ríkissjóði sömu tekna og hann hefur af vínandagjöldum með öðrum hætti en þeim að ríkið hafi einkarétt á innflutningi og dreifingu umræddra vara í heildsölu. Teknanna má einfaldlega afla með innflutningsgjöldum og sambærilegum gjöldum af innlendri framleiðslu, sé um hana að ræða, á sama hátt og tíðkast varðandi innheimtu ýmissa annarra óbeinna skatta. Möguleikar til eftirlits með ólögmætum innflutningi og sölu áfengis verða ekkert síðri við þessa breytingu.
    Í frumvarpi til laga um gjald af áfengi, sem flutt er samhliða frumvarpi þessu,`` --- en það frv. er að finna á þskj. 4 --- ,,er gerð grein fyrir því, að þessi breyting mun ekki hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs af áfengi. Gjald af áfengi breytist úr vínandagjaldi, sem nú er ákveðið af fjármálaráðherra, í áfengisgjald sem verður bundið í lögum og verður innheimt við tollafgreiðslu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að felld séu úr gildi öll ákvæði er varða einkarétt ríkisins til innflutnings á áfengi. Jafnframt skilgreinir frumvarpið hverjir hafa heimild til að endurselja það áfengi sem flutt

er til landsins. Með vísan til þessa þykir ekki ástæða til að fjölyrða frekar um efni þess, en hins vegar er vísað til frumvarps um gjald af áfengi.`` Það mál er næsta mál hér á dagskrá.
    Í því frv. er því lýst hvernig gjaldið breytist og þar kemur fram á þskj. 4 að samkvæmt áætlun sem þar er sýnd á bls. 4 í því frv. má búast við að tekjurnar sem ríkissjóður fær verði u.þ.b. þær sömu þegar tekið er tillit til skatta sem fyrirtækin sem annast innflutning þurfa að greiða til viðbótar áfengisgjaldinu.
    Frekar ætla ég ekki að fara út í að ræða það frv. enda hefur komið fram beiðni um --- eða það hefur ekki verið fallist á það réttara sagt af einum hv. þm. að það frv. verði rætt samhliða þessu.
    Aðalatriði málsins er að samkvæmt þessum frv. og frv. dómsmrh., sem liggur fyrir þinginu, hverfur einkaréttur til innflutnings. Gjald er sett við innflutning, heildsöluverð myndast en smásalan verður óbreytt. Með þessum hætti má segja að aðgangur framleiðenda að íslenskum markaði sé jafn. Eins og ég hef áður sagt þá dregur ekki úr tekjum ríkissjóðs og sama áfengisstefna gildir eftir sem áður, áfengisstefna sem byggist fyrst og fremst á verðpólitík og takmörkuðu framboði með áfengissmásölu en hún verður ekki stunduð nema af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins annars vegar og þeim aðilum hins vegar sem aflað hafa sérstaks leyfis, vínveitingaleyfis. Slíkt leyfi fá menn einungis frá sveitarstjórnum og viðkomandi lögregluyfirvöldum.
    Þessi frv. tvö eru samin af þremur mönnum, þeim Höskuldi Jónssyni, forstjóra ÁTVR, Snorra Olsen, sem nú gegnir stöðu ríkisskattstjóra og Ara Edwald, aðstoðarmanni sjútvrh., en hann var þá við störf sem aðstoðarmaður dómsmrh.
    Lítils háttar breytingar hafa verið gerðar á frv. frá því að þau voru lögð fram á síðasta þingi en þar er ekki um að ræða neinar efnisbreytingar. Ástæðan fyrir flutningi frv. er sú að það er hagræði að þessum breytingum að áliti ríkisstjórnarinnar. En ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin leggur áherslu á að máli fái afgreiðslu á þessu vorþingi er hins vegar sú, sem öllum er ljóst og talsvert hefur verið rætt á opinberum vettvangi, að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, áformar að stefna íslenskum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólnum. ESA hefur lagt fram rökstudda ályktun þar sem niðurstaðan er sú að stofnunin telur að núverandi skipan sé ólögleg og brjóti í bága við samning sem Íslendingar hafa gert, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þegar EES-samningurinn var gerður gáfu fjórar Norðurlandaríkisstjórnir yfirlýsingu þar sem þær áskildu sér rétt til þess að fylgja áfengisstefnu sem byggðist á heilbrigðis- og félagslegum sjónarmiðum. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu, sem fól það í sér að Íslendingar, Norðmenn, Svíar og Finnar teldu allir að ekki væri nauðsynlegt að breyta því fyrirkomulagi sem gildir í þessum löndum við innflutning á áfengi, þá hafa allar ríkisstjórnirnar breytt um stefnu í þessum málum.
    Íslenska ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún telji að hún þurfi ekki vegna EES-samningsins að gera þessar breytingar en á sama tíma liggur fyrir það álit dómstólsins, ekki dómsniðurstaða heldur álit dómstólsins, að fyrirkomulagið stangist á við EES-samninginn. Þetta kom fram þegar skotið var til dómstólsins álitaefni frá finnskum aðilum. Nú liggur fyrir að það eru ekki einungis Svíar og Finnar sem hafa gengið í Evrópusambandið sem hafa breytt sínum viðskiptaháttum heldur hefur norska ríkisstjórnin ákveðið að gera það líka þótt Norðmenn hafi ekki gengið í Evrópusambandið. Byggir það að sjálfsögðu á áliti EFTA-dómstólsins sem fengið var vegna finnska málsins.
    Ég skal taka það fram, virðulegi forseti, að Íslendingar hafa ekki breytt afstöðu sinni frá því sem hún var í upphafi varðandi það hvað Evrópski efnahagssamningurinn þýðir en við verðum hins vegar að játa að það eru miklar líkur á því hver niðurstaðan verður og búast má við því að hún verði með þeim hætti sem ESA hefur ályktað í sinni rökstuddu ályktun eða ,,reasoned opinion``, eins og það heitir á ensku.
    Þetta mál hefur ítarlega verið rætt á opinberum vettvangi og ástæðulaust að flytja langa ræðu um það en ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið hér á landi brjóti í bága við samninginn getur myndast skaðabótakrafa hjá þeim aðilum sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum fyrirkomulagsins. En samkvæmt Evrópska efnahagssamningnum, og reyndar reglum sem Evrópusambandið byggir sína viðskiptahætti á, þurfa framleiðendur að eiga jafna möguleika á því að komast inn á markað viðkomandi þjóða.
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að hér er ekki verið að breyta neinu um verðpólitíkina. Verð einstakra vörutegunda getur auðvitað raskast lítillega en það hefur ekki neinar verulegar breytingar í för með sér.
    Ég vil einnig láta það koma fram að þetta mál er mikilvægt fyrir innlenda framleiðendur, einkum og sér í lagi innlenda bjórframleiðendur sem telja að þessi breyting sem hér sé verið að gera þjóni þeim tilgangi að setja þá jafna innflytjendum en eins og allir vita þá stundar ÁTVR innflutning fyrir hönd umboðsaðila erlendra bjórframleiðenda. Þetta hefur komið mjög skýrt fram af hálfu samtaka iðnaðarins og allir hv. alþm. hafa getað fylgst með þeim umræðum í blöðum og öðrum fjölmiðlum að undanförnu.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta frv. Ég legg til að frv. verði sent til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr. og ég vil segja frá því í lokin að fjmrn. mun að sjálfsögðu senda allar þær upplýsingar sem tiltækar eru um stöðu þessara mála til nefndarinnar. Það var reyndar gert í lok síðasta kjörtímabils en það er sjálfsagt að verða við öllum óskum sem þar fram koma til þess að upplýsa málið en þess ber að geta að 4. mál, sem er á dagskránni, var afgreitt úr efh.- og viðskn. með meirihlutanefndaráliti í fyrravor þannig að málið var þá ítarlega rætt á hinu háa Alþingi, kannað mjög rækilega í nefndinni. Þetta tek ég fram, ekki til þess að segja að sú vinna hafi mikla þýðingu því síðan hafa verið kosningar og nýtt þing kemur saman á nýju kjörtímabili heldur einungis til þess að benda á að málið var mjög rætt og er alþekkt og alkunnugt og þess vegna ætti ekki að þurfa að vera að setja á mjög langa umræðu til þess að komast að lýðræðislegri niðurstöðu í þessu máli.