Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:09:01 (54)


[11:09]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég harma að hv. þm. hafi ekki fylgst með þessu máli né heldur hlustað á ræðu mína hér áðan því 8. des. lá þetta fyrir eins og hv. þm. var að lesa og í raun sagði ég það í minni ræðu áðan að það er álit íslensku ríkisstjórnarinnar að þeir viðskiptahættir sem hér eru stundaðir séu ekki í andstöðu við EES-samninginn. Síðasta yfirlýsing frá íslensku ríkisstjórninni þess efnis kemur fram í bréfi sem skrifað er 4. apríl á þessu ári til EFTA Surveillance Authority og er svar við því bréfi sem ég sagði frá í minni ræðu. Það breytir hins vegar ekki því að seint í desember eða í byrjun janúar, ég man ekki hvort var, en eftir að þessi ræða var flutt, kom fram álit EFTA-dómstólsins vegna máls í Finnlandi sem var skotið til dómstólsins. Niðurstaða í því áliti er alveg ljós og þess vegna má búast við því og það liggur fyrir að svo geti farið að ef þetta mál verði sent dómstólnum geti niðurstaðan orðið eins og Eftirlitsstofnunin segir að hún eigi að verða og til viðbótar þá getur það gerst að dómstóllinn taki ex officio upp hjá sér fleiri þætti málsins og þar má nefna t.d. smásöluna. Þannig að fyrir fimm mánuðum, 8. des., lá ekki fyrir álit dómstólsins, það kom fram seinna. Það hefur hins vegar ekki breytt því að Ísland heldur uppi vörnum gagnvart ESA. Eftir sem áður, og það er kannski það sem skiptir mestu máli vegna þess að fyrirspurnin kom þannig fram, er stefna íslenskra stjórnvalda hins vegar sú, algjörlega burt séð frá þessu, að það sé hagkvæmt fyrir íslenska ríkið að breyta viðskiptaháttunum eins og hér er lagt til, það sé heppilegra að taka gjald af áfengi við innflutning í stað þess að gera það yfir búðarborðið eins og tíðkast hefur á undanförnum árum.