Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:11:21 (55)


[11:11]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það ber að fagna því að hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir hér í annað sinn að það sé ótvírætt skoðun íslensku ríkisstjórnarinnar að það sé ekkert í EES-samningnum sem knýi á um það að þessari skipan mála hér á Íslandi sé breytt. Það er mjög mikilvægt að sú yfirlýsing liggur fyrir. Eðli EES-kerfisins er hins vegar á þann veg að ef ágreiningur er milli ríkisstjórna fullvalda aðildarríkja EES-samningsins og Eftirlitsstofnunarinnar þá kemur til kasta dómstólsins. Dómstóllinn er settur upp til þess að skera úr slíkum málum. Það er fullkomlega óeðlilegt að ríkisstjórn í fullvalda ríki sem lýsir því yfir, nú síðast áðan, að hún telji sig hafa allan rétt í málinu samkvæmt samningnum skuli fyrir fram gefast upp vegna þess, sem hæstv. fjmrh. sagði áðan, að svo gæti farið að dómstóllinn væri ekki sammála íslensku ríkisstjórninni.
    Hitt var svo ekki síður athyglisvert að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir áðan að þessi túlkun á hugsanlegri afstöðu dómstólsins fæli það í sér að dómstóllinn kynni að úrskurða að það yrði líka að breyta smásölunni. Það yrði líka að einkavæða smásöluna á áfenginu þannig að hægt væri að selja áfengi út um allt

í matvöruverslunum og hvar sem menn vildu.
    Eitt hefur þó alveg verið skýrt í öllum yfirlýsingum utanrrn. íslenska og allra íslenskra ráðherra á undanförnum árum, að það væri ótvírætt án nokkurs vafa að það mundi aldrei þurfa að breyta smásölunni á áfengi vegna EES-samningsins. Það er í fyrsta skipti hér áðan sem hæstv. fjmrh. gefur það í skyn að vegna EES-samningsins þurfi hugsanlega að breyta skipan smásölunnar á áfengi á Íslandi. Það gerir þessa umræðu hér auðvitað enn alvarlegri en menn héldu þó í upphafi.