Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:17:11 (58)


[11:17]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað hv. þm. kallar ítarlegar umræður en ég er með útskrift úr bókum Alþingis þar sem í fyrsta lagi er þess getið að málið hafi verið til umræðu 8. des. frá dálki 2465 til dálks 2485. Löng og mikil umræða fer fram 8. des. eins og hv. þm. Ólafur Ragnar gat um hér áðan. Málið er aftur til umræðu 7. febr. og þá fer fram mjög löng umræða sem hefst kl. fjögur að degi til og síðasta ræða er haldinn þegar kl. er að verða hálfsex. Og loks 21. febr. fer fram umræða sem byrjar eftir miðnætti, kl. tuttugu og tvær mínútur yfir eitt og stendur til kl. hálfþrjú. Þetta er umræðan sem fór fram á síðasta þingi. Ég kvíði dálítið fyrir þessu þingi og næstu þingum ef hv. þm. telur þetta ekki vera langa umræðu.