Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 12:12:34 (68)


[12:12]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. að aðildarumsókn að Evrópusambandinu hafi haft þýðingu fyrir Svíþjóð og Finnland. Það eru sömu reglur sem eiga að gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og innan Evrópusambandsins samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það skiptir því engu máli hvort þjóð er á samningssvæðinu eða hvort hún er aðili að Evrópusambandinu beint. Þetta hefur komið skýrt fram bæði hjá Svíum og Finnum og þegar þeir gengu inn þá var það ekki vegna inngöngunnar heldur gilti nákvæmlega sama regla fyrir þá sem voru á svæðinu. Þetta þarf að leiðrétta.
    Í öðru lagi er það nauðsynlegt að álit eða ályktun Alþingis liggi fyrir eins og í Noregi. Þeir eru að klára málið þótt gildistakan sé síðar. En munurinn á okkur og Noregi er sá að málið er lengra komið hjá okkur og það liggur fyrir að fulltrúar ESA segja: Við munum senda þetta til dómstólsins. Ég er sammála hv. þm. að það skiptir miklu máli fyrir Ísland sem er aðili að alþjóðlegum samningum að virða þá samninga og þess vegna tel ég skynsamlegt að afgreiða þetta mál nú á þessu þingi jafnvel þótt gildistíminn þurfi ekki að vera 1. júlí eða 1. ágúst heldur liggi afgreiðslan fyrir. Það er afar brýnt og það brýnasta í málinu. Hitt er svo annað mál að það breytir engu um mína skoðun á málinu að þegar málið var lagt fram í upphafi var það lagt fram sem sjálfstætt mál, mál sem þótti hagkvæmt af ríkisstjórninni, algerlega burt séð frá því hvað ESA vill í málinu og hver var afstaða Evrópska efnahagssvæðisins. En á þeim tíma sem liðinn er síðan á hér um bil heilu ári hefur það smám saman skýrst vegna álits dómstólsins að líkast til verður þetta mál dæmt okkur í óhag jafnvel þótt við höldum uppi þeim vörnum sem við höfum gert allar götur, síðast í bréfi 4. apríl til Eftirlitsstofnunar EFTA.