Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 13:19:05 (72)


[13:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki tækifæri til þess að tala við hv. þm. á mánudaginn. Ég held að ræða hans hafi byggst á afar miklum misskilningi í flestum greinum og sérstaklega varðandi það að verið sé að gerbreyta heilbrigðismálum og áfengispólitíkinni. Við verðum að gera mun á því að á merkingum á flöskur sem eru merktar ÁTVR annars vegar og hins vegar sérmerkingum til veitingahúsa sem alveg er hægt að halda áfram sem eru límdir miðar og merktir SVG, ef ég man rétt. Og ég hygg þó að ég muni það ekki í svipinn að sérpöntunarkerfið byggist ekki á merktum flöskum þannig að þetta er rangt, það er allt rangt sem hv. þm. sagði um það að það væri verið að riðla til hér eftirlitinu. Það er bara allt rangt. Þeir sem þurfa síðan að dreifa áfengi í heildsölu hafa til þess heildsöluleyfi. Það sem skiptir auðvitað öllu máli er að menn greiða í tolli þetta áfengi, þ.e. áfengisgjaldið, nánast fullt verð, langsamlega hæstu upphæðina sem kemur fram, bæði í heildsölu og smásölu. Í dag er það svo, og meira að segja þegar hv. þm. var ráðherra, þá veitti hann gjaldfrest vínveitingahúsum sem keyptu út úr ríkinu, gjaldfrest í hálfan mánuð eða svo, þannig að allt sem hv. þm. er að segja er tóm vitleysa. Það er sagt til þess að gera þetta mál tortryggilegt því að það er ekkert verið að gera hér sem breytir hugsanlegu eftirliti. Það sem verið er að segja er að það er óeðlilegt eftir að einkaleyfið er tekið af ÁTVR að skylda aðra að merkja flöskurnar ÁTVR. Um það snýst þetta mál. Og til einkanota veit hv. þm. hvað er --- eða ég veit náttúrlega ekki hvað hann veitir mikið áfengi, ég efast um að hann hafi það mikið um hönd, drekkur a.m.k. ekki sjálfur --- til einkanota þýðir að það er fyrir sjálfan sig og gesti. En það sem skiptir öllu máli er þetta: Greiðslan, gjaldið, á að greiðast strax í tolli og það er auðvitað verðpólitíkin sem er aðalatriðið í íslenskri áfengispólitík.