Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 14:11:19 (78)

[14:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Fyrst út af því atriði sem hv. þm. nefndi frá Noregi og vitnaði til Kjell Magne Bondeviks, formanns Kristilega flokksins, þá á það ekki við hér á landi vegna þess að það var ljóst að EES-samningurinn átti meirihlutafylgi að fagna annars vegar og hins vegar var það frv. sem hér er til umræðu frv. sem meiri hluti þingsins studdi á síðasta þingi alveg burt séð frá aðildinni að EES. Þannig að í báðum tilvikum var um meiri hluta að ræða án þess að málin tengdust nokkuð skapaðan hlut. Það er því ekki hægt að halda því fram hér að þetta atriði hafi valdið straumhvörfum um stuðning við EES-svæðið eins og hugsanlegt er að gerst hafi í Noregi.
    Út af Schengen-samstarfinu get ég ekki sagt neitt meira heldur en hér hefur komið fram, ég þekki það ekki nægilega vel. Hitt veit ég hins vegar að það kann að vera að ef við að fullu þurfum að gerast þátttakendur að samstarfinu eins og það liggur fyrir milli núverandi Schengen-þjóða, í samstarfi þeirra, þá gætum við líka þurft að sætta okkur við það sem ég hugsa að margir ferðamenn hafi ekki hugsað út í og það er að hætta að flytja tollfrjálsan varning, þar á meðal tóbak og áfengi á milli landanna. En Evrópubandalagið hefur einmitt haft það á stefnu sinni að því sé hætt af þeim sökum að landamæravarsla er látin niður falla.