Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:05:29 (85)


[15:05]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um stöðu sjúkrahúsa og heilsugæslu utan höfuðborgarsvæðis vegna uppsagna á sérkjarasamningi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Samningar þessir eru flestir frá þeim tíma að sjúkrahúsin voru rekin á ábyrgð sveitarfélaganna en við gildistöku laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga 1991 var því lýst yfir að fjmrn. færi með gerð kjarasamninga við einstakar stéttir sem starfa á sjúkrahúsum eftir að ríkið yfirtók reksturinn. Fyrirmæli til stjórnenda sjúkrahúsa um að segja sérkjarasamningum upp komu því frá fjmrn. stutt af heilbrrn. Allur framgangur þessa máls er með endemum og um tíma leit út fyrir að starfsemi sjúkrahúsa á landsbyggðinni lamaðist algjörlega. En nú hefur það ánægjulega gerst að hæstv. heilbrrh. hefur lýst því yfir að málið sé leyst og sjúkrahúsin fái einhverja viðbótarfjárveitingu til að mæta útgjöldum vegna sérkjarasamninga á þessu ári. Það er þó ljóst að þessum kostnaði verður ekki mætt að fullu og þess vegna getur komið til þess að um einhverja skerðingu á þjónustu verði að ræða hjá sjúkrahúsum úti um land. Fréttamaður á annarri sjónvarpsstöðinni spurði hæstv. heilbrrh. hvort sjúkrahúsin réðu við þann kostnað sem því fylgir að láta sérkjarasamningana gilda áfram. Hæstv. ráðherra sagði að þau ættu að geta það en það yrði misjafnlega auðvelt. --- Misjafnlega auðvelt.
    Það mætti halda að verið væri að ræða um sjúkrahús sem hefðu þokkaleg fjárráð en ekki fjársveltar stofnanir. Ráðherrann hæstv. veit jafn vel og ég að þau sjúkrahús sem um er að ræða hafa mátt þola stöðugan og óraunhæfan niðurskurð ríkisvaldsins ár eftir ár. Niðurskurð sem hefur leitt til þess að þessar stofnanir hafa ekki getað veitt þá þjónustu heima í héraði sem nauðsynleg er og sífellt fleiri hafa þurft að sækja þjónustu til stóru sjúkrahúsanna hér í Reykjavík og sú staðreynd hefur síðan verið notuð sem rök fyrir því að leggja eigi sjúkrahúsin úti á landi niður í núverandi mynd. Þetta fjársvelti sjúkrahúsanna úti á landi er ein af ástæðunum fyrir því að gerðir hafa verið sérkjarasamningar við starfsfólk þeirra. Vinnuaðstaða þess er allt önnur og erfiðari en starfsfólks á stórum sjúkrahúsum í Reykjavík. Það er því röng stefna að gera kjarasamning við stéttarfélag hjúkrunarfræðinga án þess að taka sérstaklega á vinnuaðstöðu og álagi úti á landi. Það hefðu verið eðlileg viðbrögð hæstv. heilbrrh. að fresta þessu máli á sama hátt og hún frestaði tilvísunarkerfinu og bæta sjúkrahúsum upp aukinn kostnað vegna sérkjarasamninga í fjáraukalögum þessa árs og vísa hefði mátt málinu í gerð nýs aðalkjarasamnings um næstu áramót.
    Sú lausn sem hæstv. ráðherra hefur komið með tekur síður en svo á vanda sjúkrahúsanna á landsbyggðinni og verður ekki til að styrkja stöðu þeirra. Hæstv. ráðherra hefur sagt að vandanum verði að mæta innan ramma fjárlaga sem eru í gildi og búa þessum stofnunum afar knöpp kjör. Stjórnendur sjúkrahúsanna eiga nú að sjá um samninga telji þeir ástæðu til og það skulu þeir gera þrátt fyrir að fjmrn. hafi sent frá sér bréf þar sem segir að það ráðuneyti fari með alla samningsgerð eftir að verkaskiptalög ríkis og sveitarfélaga tóku gildi.
    Hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir í viðtali við DV nú rétt fyrir helgina að stjórnendur sjúkrahúsanna hafi sjálfir gert þessa sérkjarasamninga og beri því á þeim fulla ábyrgð. Ég hlýt því að velta því fyrir mér hvert sé gildi laga um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þar sem ábyrgð á rekstri sjúkrahúsanna var færð frá sveitarfélögum til ríkis. Ef fara á eftir orðum ráðherra um fulla ábyrgð stjórnenda á samningum hvers vegna voru þá ráðuneyti fjármála og heilbrigðismála að gefa út fyrirmæli um málsmeðferð? Fróðlegt væri að fá túlkun hæstv. ráðherra á bréfi fjmrn. frá 21. jan. 1991 þar sem ráðuneytið fellst á það sjónarmið stéttarfélags að starfsmenn heilbrigðisstofnunar skuli halda kjörum sínum út samningstímabilið. Það kemur skýrt fram að ráðuneytið ræddi um gildistíma sérkjarasamninga og tók ákvörðun um meðferð þeirra. Þýddi þetta ekki að forræði í samningamálum var komið úr höndum stjórnenda sjúkrahúsanna til fjmrn.? Hvaða forsendur hafa breyst frá því í febrúar þegar stjórnendum sjúkrahúsanna var sagt að þeim væri með öllu óheimilt að gera samninga um kaup og kjör? Hvers vegna ráðleggur hæstv. heilbrrh. stjórnendum nú að semja um kaup og kjör með bréfi dags. 15. maí? Telur hæstv. heilbrrh. að starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og annarra starfsstétta heilbrigðiskerfisins séu sambærilegar hvar sem er á landinu? Hver er afstaða hæstv. heilbrrh. til þeirra sérkjarasamninga sem eru í gildi fyrir starfsmenn heilbrigðiskerfis utan Reykjavíkur og þá sérstaklega til svokallaðra staðaruppbóta? Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að aukið fjármagn verði veitt síðar á árinu til þeirra sjúkrahúsa sem ná ekki að leysa deiluna með þeim fjármunum sem þeir nú hafa til umráða og hafa fengið loforð um? Verður gert ráð fyrir áframhaldandi kostnaði af sérkjarasamningum í tillögum ráðuneytis um fjárveitingar til sjúkrahúsa á næsta ári? Ef ekki, hyggst þá hæstv. ráðherra gera tillögur um sérstakar staðaruppbætur og sérstakar greiðslur fyrir verk umfram eðlilegar starfsskyldur vegna starfsaðstöðu?