Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:18:44 (88)


[15:18]
     Kristján Pálsson :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. 5. þm. Suðurl. frumkvæði í þessu utandagskrármáli vegna deilna um sérkjarasamninga við hjúkrunarfræðinga og ljósmæður. Umræðan um þessa deilu hefur að mestu leyti snúist um það hvort hægt væri að segja upp sérkjarasamningum án þess að þar væri um uppsögn úr starfi að ræða. Sérkjör starfsmanna hins opinbera hafa oft verið til umræðu og þá helst í því ljósi að sérkjör væru fríðindi karla. Það er því gott að í ljós kemur að kvennastétt eins og hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hefur siglt þar upp að hlið karlanna í sérkjörum. Ef sérkjör opinberra starfsmanna eru til umræðu þá hljóta öll sérkjör, jafnt karla sem kvenna, að vera til umræðu á sama tíma. Deila hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra hefur verið að þróast í þá átt að stjórnir flestra sjúkrahúsanna hafa dregið uppsagnir sínar til baka. Það er gert undir þeirri pressu að því er yfirmenn sjúkrahúsa segja mér að í kjölfarið verði að draga stórlega úr þjónustunni með virkum aðgerðum. Við Sjúkrahús Suðurnesja er t.d. rætt um að loka deildum eins og skurðstofu sem leiðir til takmarkaðra nota af þjónustu fæðingardeildarinnar. Þar er einnig rætt um að draga úr heimahjúkrun og jafnvel loka seljum í þéttbýliskjörnum. Þarna er um mikla skerðingu á þjónustu að ræða sem bitnar strax mjög harkalega á öldruðum, barnshafandi konum og fólki í jaðarbyggðum svæðisins. Svona gerum við ekki, hæstv. heilbrrh.
    Það vakti eftirtekt að nokkur sjúkrahús á landsbyggðinni sögðu ekki upp sérkjarasamningum sínum þó fyrrv. heilbrrh. hefði mælt svo fyrir. Það vekur upp þær spurningar hvort fjárráð sjúkrastofnana séu mismunandi rúm. Ég vil beina því til hæstv. heilbrrh. að gerð verði samanburðarathugun á sjúkrastofnunum og bornir saman rekstrarþættir miðað við íbúafjölda á þjónustusvæði, aðgerðarfjöldi á hverri stofnun, fæðingar og o.fl. Það þarf að vera til aðferð sem mælir vísitölu heilbrigðisþjónustu sem svæðin geta borið sig saman eftir. Ég vil benda á að fjárveitingar á Sjúkrahúsi Suðurnesja, sem þjónar um 15.000 manna svæði, er á yfirstandandi ári um 230 millj. kr. á meðan svæði sem þjónar 10.000 íbúum fær til sinnar stofnunar um 410 millj. kr.