Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:24:08 (90)


[15:24]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er dæmigert fyrir þær ógöngur sem launakerfi opinberra starfsmanna er komið í. Almennu launin eru allt of lág svo hinir raunverulegu samningar gerast í sérsamningum þar sem yfirvinna og aðrar aukagreiðslur eru spyrtar saman, svokallaðar sporslur. Ég tek fram að með þessu er ég ekki að segja að sérkjarasamningar hjúkrunarfræðinga séu á nokkurn hátt óeðlilegir miðað við þá stefnu sem almennt hefur viðgengist á vinnumarkaðnum. Það sem er hins vegar sérstakt við þá miðað við aðrar heilbrigðisstéttir er að þeir eru hópsamningar með stöðu einstaklingsbundinna samninga á meðan aðrar heilbrigðisstéttir og hjúkrunarfræðingar á höfuðborgarsvæðinu gera mest einstaklingsbundna samninga.
    Þetta mál er sérstakt vegna þess að það tengist verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það gengur auðvitað ekki til lengdar að í gildi séu sérsamningar á milli aðila sem aðrir eiga að greiða. Sú staða sem upp er komin er ótrúleg. Stjórnir sjúkrahúsa treysta sér ekki til að segja upp eigin sérsamningum við hjúkrunarfræðinga vegna þess ófremdarástands sem skapast á sjúkrahúsunum. En jafnframt treysta þær sér ekki til að greiða launin enda í verkahring ríkisins frá og með 1. jan. 1991. Mér virðist að hér sé þrennt að gerast. Í fyrsta lagi er verið að reyna að spara í heilbrigðiskerfinu. Í öðru lagi eru komin upp vandkvæði í kjölfar verkaskiptingalaganna og í þriðja lagi stendur til að auka enn á launamun kynjanna og halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á sl. 10 ár að auka kynbundinn launamun.
    Ég fagna svari hæstv. núv. heilbrrh. um að hún muni beita sér fyrir því að nauðsynlegt fjármagn komi til sjúkrahúsanna til að standa við samninginn á þessu ári og að hún muni hvetja til endurskoðunar á einstaklingsbundnum sérkjarasamningum annarra heilbrigðisstétta því þessi mál verða auðvitað að skoðast í samhengi. En ég hlýt að spyrja: Hvernig hyggst hæstv. heilbrrh. leysa þetta mál til frambúðar? Verður það gert öðruvísi en með allsherjaruppstokkun á launakerfi ríkisins?